Myrkraverk eða aðlögun

Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sl. föstudags kynnti danski menningarmálaráðherrann fjölmiðlasamkomulag stjórnarinnar og Danska Þjóðarflokksins. „Sannkallað myrkraverk,“ segir stjórnarandstaðan, „aðlögun í breyttu fjölmiðlalandslagi,“ segir ráðherrann.

Mette Bock, menningarmálaráðherra Danmerkur.
Mette Bock, menningarmálaráðherra Danmerkur.
Auglýsing

Nýr rekstrarrammi dönsku fjölmiðlanna á að taka gildi í ársbyrjun 2019. Hann verður mjög breyttur frá núverandi samningi, sem var gerður árið 2014, í stjórnartíð Helle Thorning-Schmidt. Það samkomulag var gert með svonefndu „breiðu samkomulagi“ sem þýddi að meirihluti stjórnarandstöðunnar studdi hann og því var ekki hróflað við samkomulaginu á því fjögurra ára tímabili sem það tók til. 

Nú er komið að því að ganga frá nýjum „ramma“ en nú náðist ekki „breitt samkomulag“ sem þýðir að stjórnarandstaðan er óbundin og gæti gert breytingar komist hún til valda eftir næstu kosningar, sem verða væntanlega á næsta ári.

Nefskattur í stað afnotagjalds

Nýi rekstrarramminn gerir ráð fyrir mjög miklum breytingum varðandi fjölmiðlana. Mestar verða breytingarnar á DR, danska ríkisútvarpinu, en fjárframlög til stofnunarinnar verða skorin niður um samtals 20% (ca 700 milljónir danskra króna, tæpir 12 milljarðar íslenskir) á næstu fimm árum. Afnotagjaldið verður afnumið en þess í stað kemur nefskattur, með þessari breytingu hverfur söluskatturinn. Árlegur nefskattur verður kr. 1.285.- pr. einstakling (rúmlega 21 þúsund íslenskar). Með þessari breytingu úr afnotagjaldi í nefskatt borgar einstaklingur sem býr einn, minna en áður, tveir í heimili borga svipað og áður en fyrir þriggja manna heimili verður gjaldið hærra en það var áður.

Auglýsing

Hefur lengi verið stefna að minnka umfang DR

Ekki er hægt að segja að þessi breyting á rekstrarrammanum komi á óvart. Hægri flokkarnir, bláa blokkin svonefnda, í dönskum stjórnmálum hafa lengi talað fyrir því að minnka umfang DR, sem þeir segja alltof fyrirferðarmikið á dönskum fjölmiðlamarkaði og skapa þurfi aukið svigrúm fyrir aðra fjölmiðla. Danski þjóðarflokkurinn, sem segja má að stjórni ríkisstjórninni, bakvið tjöldin, hafði reyndar lýst því yfir að skera bæri starfsemi DR niður um 25%. Flokkurinn hefur lengi haft horn í síðu DR og sakað stofnunina um að vera flokknum andsnúið í fréttaflutningi. 

Á þessu ári hefur DR til umráða um það 3,8 milljarða króna (ca 62 milljarðar íslenskir) en sú upphæð lækkar í áföngum niður í 3,1 milljarð árlega (tæpa 52 milljarða íslenska) á næstu fimm árum. Fyrir þessa peninga rekur DR sex sjónvarpsrásir og átta útvarpsrásir. Tvær þessara sjónvarpsrása eru ætlaðar börnum, tólf ára og yngri, en Danski þjóðarflokkurinn hafði sett það skilyrði að ekki yrði hróflað við barnaefninu.

Litið til baka, til ársins 1925

Á fréttamannafundinum fyrir utan Kristjánsborgarhöll, í myrkrinu aðfaranótt sl. föstudags (29. júní), sagði Mette Bock að hún sæi fyrir sér að horfið yrði til þeirra sjónarmiða og markmiða sem sett voru þegar DR, sem þá hét Statsradiofonien, hóf starfsemi 1. apríl 1925. Semsé menningar og fræðsluhlutverk. „Mér finnst við tala of mikið um magn þegar DR á í hlut, en ég vil gjarna að meira verði talað um gæði,“ sagði ráðherrann. Það þýðir ekki fræðsluþætti um járn- og steinöld frá morgni til kvölds, eða þætti fyrir sérvitringa, en það þýðir danskt gæðaefni, á hærri stalli en það sem aðrir bjóða. 

Að mati ráðherrans rær DR um of á sömu mið og margir aðrir fjölmiðlar. Þegar fréttamenn vildu nánari útskýringar á því hvað DR ætti ekki að gera sagðist Mette Bock ekki blanda sér í þær ákvarðanir. Benti hinsvegar á að í ágúst og september yrði unnið að gerð nýs almannaþjónustusamnings fjölmiðlanna. Þar yrði nánar kveðið á um hlutverk DR. Í „rammanum“ er gert ráð fyrir að DR starfræki fjórar sjónvarpsrásir, í stað sex nú og fækki útvarprásunum úr átta í sex. Maria Rørbye Rønn útvarpsstjóri DR segir að sá mikli niðurskurður sem DR er ætlað að sæta muni bitna á dagskránni, slíkt sé óhjákvæmilegt.

Höfuðstöðvar DR Mynd: Wiki Commons

Margt fleira í „rammanum“

Nýi rekstrarramminn fjallar ekki bara um DR. Þar er kveðið á um að stafrænir fjölmiðlar skuli undanþegnir virðisaukaskatti , einsog prentmiðlarnir eru í dag. Þetta er breyting sem mælist vel fyrir. Styrkir til svæðisbundinna fréttamiðla verður aukinn, styrkur til kvikmyndaframleiðslu hækkar um 120 milljónir á ári (ca. tvo milljarða íslenska). Enginn hefur neitt við þessar ákvarðanir að athuga.

Radio24syv

Í „rammanum“ er kveðið á um að útvarpsstöðin Radio24syv skuli að hluta flytjast frá Kaupmannahöfn vestur fyrir Stórabelti, annað hvort til Fjóns eða Jótlands. Radio24syv fær hluta afnotagjaldanna (og nefskattsins þegar hann verður tekinn upp). Útsendingar hófust árið 2011 og stöðinni var ætlað að vera talmálsrás, þar sem fréttir og fréttatengt efni, ásamt umfjöllun um menningarmál, væri í fyrirrúmi, líkt og P1 rás DR. Forsvarsmenn Radio24syv hafa lýst efasemdum um þá ákvörðun að stöðin skuli flutt vestur fyrir Stórabelti, segja að hvort sem mönnum líki það betur eða verr sé Kaupmannahöfn miðpunktur landsins hvað fréttir og þjóðmál áhræri. Krafan um flutning stöðvarinnar er komin frá Danska þjóðarflokknum.

TV2 verður ekki selt

Það hefur lengi verið stefna stjórnarflokksins Venstre að selja sjónvarpsstöðina TV2. Útsendingar TV2 hófust haustið 1988, stöðin er, að nær öllu leyti, í eigu ríkisins og að mestu fjármögnuð með auglýsingum, fær þó hluta afnotagjaldsins gegn því að reka fréttastofu. Fréttastofan er öflug og stenst fullkomlega samanburð við fréttastofu DR en annars er dagskráin blanda af öllu mögulegu. TV2 sendir út, ólíkt DR, morgunsjónvarp. Ríkisstjórnin hafði ætlað sér að sala á TV2 yrði hluti nýja fjölmiðlasamkomulagsins en þar spyrnti Danski þjóðarflokkurinn við fótum og stjórnin hætti við allar fyrirætlanir um söluna. „Í bili,“ sagði Mette Bock menningarmálaráðherra.

Andúðarfnykur

Eins og áður sagði standa stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíaldemókratar og Radikale Venstre ekki að nýja fjölmiðlasamkomulaginu „rammanum“. Þeir eru þannig ekki bundnir af fjögurra ára gildistíma þess. Talsmenn beggja flokka segja „rammann“ aðför að DR, aðför sem beri öll merki andúðar á flaggskipi danskra fjölmiðla. Sú andúð litist af viðhorfum fulltrúum stjórnarflokkanna, og ekki síst Danska þjóðarflokksins á ríkisfjölmiðlinum. Talsmenn flokkanna tveggja segja það verða sitt fyrsta verk, komist þeir í stjórn eftir kosningar að „rúlla rammanum“ til baka. „DR á að vera, eins og það er í dag, fyrir alla,“ sagði talsmaður Radikale Venstre. „Það er andúðarfnykur af þessari ákvörðun.“

Hvort fjölmiðlasamkomulagið, og sér í lagi niðurskurðurinn á DR, verði kosningamál í næstu þingkosningum er engin leið að segja fyrir um. Árum saman hafa skoðanakannanir sýnt að Danir bera mikið traust til DR, þykir það gott eins og það er í dag. Ekki er gott að segja hvernig fyrirhugaðar breytingar á stofnuninni mælast fyrir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiErlent