Fyrsta plastbarkaígræðslan – Tilraunaaðgerð á fölskum forsendum
Tómas Guðbjartsson vísar úrskurði Karolinska-stofnunarinnar um vísindalegt misferli á bug en þar kemur m.a. fram að ástand Andemariams Beyene hafi ekki réttlætt tilraunaaðgerðina. Háskóli Íslands og Landspítali munu fara yfir skýrslu Karolinska-stofnunarinnar og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis taka málið upp að nýju.
Karolinska-stofnunin hefur nú brugðist við niðurstöðum sænsku Siðanefndarinnar um að vísindalegt misferli hafi átt sér stað í greinum um plastbarkamálið svokallaða. Engin ný gögn hafa þó komið fram í málinu.
Rektor Karolinska-stofnunarinnar, Ole Petter Ottersen, sendi frá sér 25. júní úrskurð um plastbarkamálið þar sem Tómas Guðbjartsson, prófessor við HÍ og yfirlæknir á Landspítala, er einn af sjö einstaklingum sem úrskurðaðir voru um vísindalegt misferli í greinunum. Í ljósi þessa munu Landspítali og HÍ fara yfir skýrsluna og önnur gögn í málinu þrátt fyrir að hafa ályktað um málið áður í kjölfar íslensku rannsóknarinnar sem þessar sömu stofnanir létu gera.
Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson lungnalæknir, voru meðal höfunda Lancet-vísindagreinarinnar þar sem plastbarkaígræðslunni í Andemariam T. Beyene, Eretríumanni sem stundaði meistaranám í jarðvísindum við HÍ, var lýst sem sönnun á gildi (proof-of-concept) þessarar brautryðjandi skurðaðgerðar. Aðgerðin var gerði í júní 2011, Beyene lést árið 2014.
Til grundvallar úrskurðar Karolinska-stofnunarinnar liggja nokkrir þættir:
- Ástand fyrir aðgerðina á sjúklingnum var ekki rétt lýst og tilvísun breytt til að réttlæta tilraunaaðgerðina á sjúklingnum. Engin forsenda var fyrir tilraunaaðgerðinni í lífsbjargandi tilgangi og ekkert sem lá fyrir um að hún gæti heppnast.
- Ástandi sjúklingsins í vísindagrein í Lancet, mánuðina eftir aðgerðina þegar hann fékk meðferð hér á landi, var ekki rétt lýst og sagt mun betra en það var í raun og sannleikanum þannig hagrætt.
- Báðir íslensku læknarnir eru sagðir hafa vanrækt skyldu sína til að gera athugasemdir við rangfærslur greinarinnar en Tómas var í forsvari fyrir meðferð Beyene og Óskar framkvæmdi berkjuspeglanir á honum fyrir og eftir tilraunaaðgerðina.
Greinin í Lancet birtist 24. nóvember 2011 þar sem lýst var skurðaðgerð sem markaði tímamót í læknisfræði. Um var að ræða plastbarka sem baðaður hafði verið í stofnfrumum sjúklingsins í 36 klst. og græddur síðan í hann. Vonir stóðu til að þessi aðferð gæti skapað nýja möguleika til að mæta skorti á líffærum. Lancet-greinin birtist um fimm mánuðum eftir tilraunaaðgerðina á Beyene á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu sem gerð var af teymi skurðlækna sem Paolo Macchiarini leiddi.
Sjúklingurinn, Andemariam Beyene, hafði hægvaxandi æxli í barka, eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar HÍ og Landspítala. Hluti þess var fjarlægur 2009 og tók það um 19 mánuði að verða til verulegra óþæginda þannig að það þrengdi að öndunarvegi hans. Tíminn hefði því verið nægur til að taka ígrundaða ákvörðun eftir því sem fram kemur í Rannsóknarskýrslunni. Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að réttast hefði verið í ljósi þessa að gera leisi-aðgerð á Beyene eins og ráðlagt var á Massachusetts General-spítalanum í Boston, einu virtasta háskólasjúkrahúsi í heimi.
Enn fremur segir í Rannsóknarskýrslunni: „Í sjúkraskrá Andemariams er ekkert skráð um að honum hafi verið leiðbeint um fyrirhugaða meðferð á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu og um önnur þau atriði sem skylt er að veita leiðbeiningar um, þrátt fyrir skýr fyrirmæli 5. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.“
Ákveðið snemma í ferlinu að skrifa vísindagrein í virt tímarit
Eftir tilraunaaðgerðina og mjög snemma í ferlinu var hafist handa við að vinna að vísindagrein og voru þá tekin blóðsýni, loftvegur Beyene speglaður og haft samband við eitt virtasta tímarit í læknavísindum, New England Journal of Medicine (NEJM). Macchiarini tjáði Tómasi að hann myndi gera ráð fyrir einum meðhöfundi fyrir utan Tómas frá Íslandi á greininni og stakk upp á Óskari Einarssyni lungnalækni sem hefði gert berkjuspeglanir á Beyene.
Tíð bréfaskipti milli Tómasar og annarra meðhöfunda voru um efnistök að grein sem ætlunin var að birta í NEJM. Í október skrifaði Macchiarini Tómasi og öðrum sem að tilraunaaðgerðinni komu bréf þess efnis að NEJM hefði hafnað greininni. Athugsemdir voru gerðar við að engin leyfi voru fyrir hendi til að nota gervibarkann í aðgerðinni og leyfi vantaði frá vísindasiðanefnd.
Þá var ákveðið að senda greinina til Lancet sem samþykkti hana og virðist hafa gert ráð fyrir að öll tilskilin leyfi væru fyrir hendi. Vísindagrein um fyrstu plastbarkaaðgerðina sem gerð var á lifandi manneskju var birt í Lancet-vísindatímaritinu.
Mikilvægum upplýsingum ekki komið til meðhöfunda
Lýsing á ástandi sjúklingsins við útskrift af Karolinska-háskólasjúkrahúsinu mánuði eftir aðgerðina hélst óbreytt fram að lokaútgáfu Lancet-greinarinnar.
Niðurstöður síðustu speglunar á Beyene frá október 2011 sýndu hins vegar að plastbarkinn var harður eins og plast og að enginn þekjuvefur klæddi hann eins og til stóð og voru þessar upplýsingar hvorki hafðar með í Lancet-greininni né séð til þess að þær bárust meðhöfundum, sem höfðu því ekki réttar upplýsingar þegar greinin var send til Lancet. Tómas kveðst hafa komið upplýsingunum á framfæri við Macchiarini og Jungbluth, hans nánasta samstarfsmanns, en plastbarki Beyene var langt frá því að hafa þróast eins og vonir stóðu til.
Í Rannsóknarskýrslunni segir enn fremur: „Hið sama gildir um þá fullyrðingu sem fram kemur í greininni um að Beyene hafi verið einkennalaus hvort sem litið er til heilsufars hans fjórum eða fimm mánuðum eftir aðgerð. Lýsingar á barka Andemariam Beyene í Lancet-greininni þar sem segir að sjúklingurinn hafi „nánast eðlilegan öndunarveg“ getur varla staðist og er ekki í samræmi við niðurstöður rannsókna sem Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson höfðu um heilsufar Beyene þegar vísindagreininni var skilað til Lancet.“
Í viðtali við Karl-Henrik Grinnemo, einum af svokölluðum uppljóstrurum í plastbarkamálinu, segir hann að Macchiarini hafi blásið á gagnrýni ritrýna NEJM um að leyfi hafi skort og segir jafnframt að íslensku læknarnir hefðu átt að koma áleiðis upplýsingum um ófullnægjandi ástand barka Beyene til meðhöfunda til að réttar upplýsingar færu í vísindagreinina en það hafi þeir ekki gert og lítur hann það mjög alvarlegum augum. „Þegar barki Beyene var speglaður í október, um mánuði fyrir birtingu Lancet-greinarinnar, var hann þakinn slími, harður viðkomu eins og plast og enginn þekjuvefur fyrir hendi eins og hefði átt að vera. Þessum upplýsingum var ekki komið til annarra meðhöfunda sem urðu að treysta upplýsingum frá Íslandi. Báðir íslensku læknarnir fylgdu Beyene eftir, sáu um eftirmeðferðina og hefðu átt að koma réttum upplýsingum áleiðis til allra meðhöfunda og að hafa áhrif á það sem stóð í Lancet-greininni sem var allt annað en var í rauninni og í greininni eru margar staðreyndarvillur,“ segir Grinnemo sem er einn sjö höfunda sem hafa verið úrskurðaðir sekir um vísindalegt misferli.
Þetta er þáttur sem báðir íslensku læknarnir eru ásakaðir um í úrskurði Karolinska-stofnunarinnar. „Sjúklingurinn kom síðan á Karolinska-háskólasjúkrahúsið og hafði þá meiri háttar bráð vandamál varðandi plastbarkann sem íslensku læknarnir hefðu líka átt að bregðast við og koma á framfæri.“
Hér vísar Grinnemo til þess að Beyene hafi þurft að fá stoðnet í barkann til að loftvegurinn félli ekki saman. Hann telur þetta mjög alvarleg mistök hjá íslensku læknunum. Vegna þess að upplýsingum um slæmt ástand eftir tilraunaaðgerðina á Beyene hafi ekki verið komið áleiðis hafi Macchiarini getað gert fleiri plastbarkaaðgerðir á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu.
Gerðu ekki greinarmun á meðferð og rannsókn
Ástríður Stefánsdóttir, læknir og dósent í siðfræði við Háskóla Íslands, segir að þegar verið var að safna sýnum og berkjuspegla fyrir vísindagreinina sé ljóst að íslensku læknarnir hafi ekki verið með það nógu skýrt í sínum huga hvað sé meðferð og hvað rannsókn. „Þar var ákveðin lausung varðandi verkferla og þá sérstaklega er snúa að hinum siðferðilega þætti eins og að afla tilskilinna leyfa frá sjúklingi og jafnvel einnig varðandi meðhöndlun sjúkragagna. Það verður að gera þá kröfu til starfsmanna sem eru prófessorar og með doktorsnema undir sinni handleiðslu að þeir hafi þessa þekkingu og virði þessar reglur.
Þegar tölvupóstar og samtímaheimildir eru skoðaðar í þessu máli má einnig víða lesa á milli línanna að siðareglur og kröfur sem gerðar eru virðast ekki teknar alvarlega, það er eins og það sé á einhvern hátt afsakanlegt að fara á bak við þær eða „beygja“ þær til að „æðri“ markmiðum sé náð. Það að fá umsögn siðanefndar, bera sig rétt að við að fá leyfi hjá sjúklingi, meðhöndlun undirskrifta og sjúkragagna verður allt aukaatriði en ekki hluti af hinu raunverulega ferli. Þetta er hættuleg hugsun. Að fá leyfi sjúklings og siðanefndar er ekki til að hindra eða tefja rannsókn heldur mikilvægur hluti af gæðaferli rannsóknarinnar. Mér finnst ekki hægt að láta það óátalið þegar menn sýna af sér svona ógætni. Það er örugglega ekki ásetningur að gera slæman hlut en það er að minnsta kosti gáleysi – og kannski vítavert gáleysi – þarna þurfa stjórnendur stofnana að greina á milli, það er að segja, er þetta að einhverju leyti afsakanlegt gáleysi eða vítavert gáleysi?“ spyr Ástríður.
Þar var ákveðin lausung varðandi verkferla og þá sérstaklega er snúa að hinum siðferðilega þætti eins og að afla tilskilinna leyfa frá sjúklingi og jafnvel einnig varðandi meðhöndlun sjúkragagna.
Plastbarkamálið varðar alþjóðlegt vísindasamfélag
„Ef við horfum á önnur mál af líkum toga þá er þetta mál á heimsvísu,“ segir Ástríður. „Málið er í farvegi stofnana, í höndum yfirmanna stofnana, bæði hvort og þá hvernig verður tekið á þessu. Hvort það hefur einhverjar afleiðingar fyrir einstaklinga eða ekki, hvort það verður frá vinalegu tiltali eða upp í það að menn missi einhverjar vegtyllur.“
Ástríður bendir á að hér á landi séu engin lög til að styðjast við þegar svona mál komi upp, þau hvíli á stjórnendum stofnana að skoða.
Læknar sem hafa tjáð sig hafa mætt andstöðu
Ástríður segir að fjölmargir læknar séu uggandi yfir að ekkert hafi verið gert út af þessu. „Þetta særir sjálfsmynd þeirra en þeir eru ekki tilbúnir til að stíga fram og tjá sig nema örfáir sem hafa jafnvel fengið að finna fyrir því. Persónulega myndi fólk hugsanlega tapa og jafnvel fjárhagslega líka eins og Karl-Henrik Grinnemo en hann missti stöðu sína hjá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu sem lengi hefur neitað að biðja hann og fjórmenningana, uppljóstrarana, sem fyrstir kærðu Macchiarini fyrir vísindamisferli, afsökunar. Læknar sem hafa tjáð sig opinberlega um málið hér hafa mætt andstöðu og þess eru dæmi að haft hafi verið í hótunum við þá.“ Blaðamaður hefur undir höndum tölvupóst sem viðtakandi upplifði sem hótun vegna þess að hann hafði tjáð sig um málið á opinberum vettvangi.
Lög og reglur til að vernda sjúklinginn
Kell Asplund, fyrrverandi landlæknir í Svíþjóð, hélt fyrirlestur um plastbarkamálið á vegum Siðfræðistofnunar 2017 og sagði m.a.: „Læknarnir sem tóku þátt í þessu verkefni voru drifnir áfram af viðleitni til að hjálpa sjúklingi sínum en það réttlætir ekki að farið sé fram hjá lögum og reglum. Þau eru til að vernda sjúklinginn.“ Hann sagði að læknar mættu aldrei taka áhættu gagnvart sjúklingi, það gæti e.t.v. átt við aðra þætti þegar verið væri að gera nýja hluti, en mætti aldrei snerta sjúklinga. „Svo virtist sem að margar ákvarðanir í plastbarkamálinu hafi verið teknar í flýti.“ Um vernd uppljóstrara segir Asplund: „Gagnrýnin hugsun er grundvallaratriði í vísindarannsóknum og uppljóstrarnir voru ekki meðhöndlaðir með sanngjörnum hætti. Það á ekki að refsa fólki fyrir slíkt. Það ætti að huga að því alls staðar hvernig uppljóstrarar eru meðhöndlaðir.“
Læknarnir sem tóku þátt í þessu verkefni voru drifnir áfram af viðleitni til að hjálpa sjúklingi sínum en það réttlætir ekki að farið sé fram hjá lögum og reglum. Þau eru til að vernda sjúklinginn.
Að loknum fyrirlestrinum var athugasemd varpað fram um að 6 vikum eftir plastbarkaaðgerðina hefðu íslensku læknarnir séð að hún hefði mistekist þar sem engin ný slímhúð hafði myndast í plaststoðgrindinni. Þetta hafi ekki ratað í Lancet-greinina. Ákveðnir höfundar fengu lokaútgáfuna þar sem Macchiarini hafi spurt hvort það væru einhverjar athugasemdir, þ. á m. Tómas Guðbjartsson en hann hafi ekki gert neinar athugasemdir. Eftir hafi staðið að sjúklingi vegnaði vel og að „barkinn væri næstum eðlilegur.“
Þá kom fram að Anedmariam Beyene hafi sagt í nóvember sama ár í sjónvarpsviðtali um málið: „How can they write it, if it is not truth? I am going down and they still write this ...!“
Hlutverk Vísindasiðanefndar að verja hagsmuni þátttakenda
Meginhlutverk Vísindasiðanefndar er að fara yfir rannsóknaráætlanir vísindamanna, bæði vísindalega þáttinn og þann siðfræðilega, en einnig hagsmuni þátttakenda. Þá hefur nefndin heimild til að draga til baka leyfi fyrir rannsóknum sem hún telur að uppfylli ekki kröfur nefndarinnar eða ef reglur eða lög hafi verið brotin en nefndin getur einnig vísað slíkum málum til Embættis landlæknis. Þung viðurlög geta legið við ef rannsakendur gerast brotlegir í meðferð lífsýna og gagnvart réttindum sjúklinga.
Grein Andrew Wakefield um tengsl bólusetninga og einhverfu sem birtist 1998 er eitt þekktasta dæmið um vísindalegt misferli síðustu ára. Rannsókn hans náði einungis til tólf barna. Seinna kom í ljós að Wakefield hafði falsað niðurstöður rannsóknarinnar. Lancet dró greinina til baka og Wakefield missti lækningaleyfið. Hinar meintu niðurstöður höfðu hins vegar veigamikil áhrif því því komið hefur í ljós að foreldrar barna með einhverfu láta síður bólusetja börn sín.
Dr. Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir er einn sárafárra lækna sem hafa tjáð sig opinberlega um plastbarkamálið. Hann bendir á að vísindamisferli séu tekin mjög alvarlega í vísindaheiminum og þeir sem verði uppvísir að slíku missi stöðu og jafnvel æru.
Í Rannsóknarskýrslunni kom fram að lög nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði væru haldin þeim ágalla að Vísindasiðanefnd hefði of litlar valdheimildir til afskipta af vísindarannsóknum sem vanrækt hefði verið að sækja um leyfi fyrir, sbr. 29. gr. laganna.
Í íslensku Rannsóknarskýrslunni segir: „Það er mat nefndarinnar að forsvarsmenn Landspítala og Háskóla Íslands þurfi að vekja athygli hlutaðeigandi ráðherra á þessum alvarlega annmarka framangreindra laga.“ Í svari frá Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, segir að athygli ráðuneyta hafi verið vakin á þessum ágalla.
Vikið er að því að leyfi hefði þurft frá Vísindasiðanefnd fyrir rannsóknunum sem gerðar voru á Andemariam Beyene á Landspítalanum vegna skrifa vísindagreinarinnar í Lancet. Spyrja má hvort Vísindasiðanefnd hefði ekki átt að stíga inn málið árið 2015 þegar alvarlegar ásakanir komu fram fram um vísindamisferli í Lancet-greininni og að ástandi Beyene hafi ekki verið rétt lýst þar. Í lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði nr. 44 frá 2014 segir: 29. gr. Eftirlit með vísindarannsóknum. Vísindasiðanefnd og siðanefndir heilbrigðisrannsókna hafa eftirlit með vísindarannsóknum á heilbrigðissviði.
Svar Eiríks Baldurssonar, framkvæmdastjóra Vísindasiðanefndar, við spurningu um hvort nefndin hefði ekki átt að vekja athygli á að hér hafi farið fram vinna við vísindarannsókn án leyfis árið 2015 og ekki hefði verið fyrirliggjandi leyfi frá vísindasiðanefnd í Svíþjóð (Skýrsla Bengts Gerdins) fyrir rannsóknum á Andemariam Beyene, var eftirfarandi: „Þau lög sem þú vísar til tóku gildi 1. janúar 2015. Atvikin sem þú fjallar um áttu sér hins vegar stað nokkrum árum fyrr.
Eftirlit Vísindasiðanefndar (og siðanefnda heilbrigðisrannsókna) takmarkast við þær vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem eru leyfisskyldar hjá nefndinni og hafa hlotið heimild hennar. Leiki vafi á hvort um er að ræða vísindarannsókn á heilbrigðissviði sker Vísindasiðanefnd úr um það. Það er ekki í verkahring nefndarinnar að fjalla um úrræði sem gripið er til í meðferðarskyni …“.
Siðareglum lækna mun ekki hafa verið fylgt í rannsóknum á Andemariam Beyene samkvæmt því sem kemur fram í íslensku Rannsóknarskýrslunni, einkum í gr. 6 og 7.
Vildu fjarlægja fjarlægja nöfn sín af Lancet-greininni um sex árum seinna
Bengt Gerdin sagði árið 2016 eftir að plastbarkamálið komst aftur í umræðuna það augljóslega rangt að framkvæma allar berkjuspeglanirnar og töku sýna frá barkanum til rannsóknar án þess að hafa til þess leyfi frá vísindasiðanefnd. „Það gildir bæði um það sem var gert í Reykjavík og Stokkhólmi og ætti að leiða til lagalegrar ábyrgðar af einhverju tagi,“ segir Gerdin. „Það er eftirtektarvert að íslensku læknarnir hafa ekki óskað eftir að nöfn þeirra væru tekin af Lancet-greininni. Að minnsta kosti fjórir meðhöfundar hafa gert það. Það hefði verið tákn um sakleysi þeirra.“
Um sex árum eftir birtingu Lancet-greinarinnar óskuðu íslensku höfundarnir eftir að nöfn þeirra yrðu fjarlægð af greininni.
Málþingið í HÍ víða gagnrýnt
Ári eftir tilraunaaðgerðina á Beyene var haldið málþing er bar yfirskriftina „Stofnfrumur á mannamáli“ í Háskóla Íslands á vegum Læknadeildar. Málþingið hefur verið gagnrýnt víða þar sem plastbarkaígræðslunni var lýst sem vel heppnaðri. Enn fremur var Beyene þátttakandi í málþinginu. Á þessum tíma hafði heilsu Beyene hrakað og hann kominn með stoðnet til að loftvegurinn félli ekki saman.
Karl-Henrik Grinnemo telur málþingið enn einn þáttinn sem sé alvarlegur í aðkomu Íslendinga í þessu máli. Þó að hliðarverkanir hafi verið kynntar sem komu upp eftir plastbarkaaðgerðina þá hafi jákvæðar niðurstöður plastbarkaaðgerðarinnar verið meginniðurstaða málþingsins og skapaði grundvöll fyrir Macchiarini til að framkvæma fleiri slíkar aðgerðir. Slíkt hefði mátt koma í veg fyrir með því að vekja athygli á að plastbarkaaðgerðin á Beyene var ekki að virka eins og til stóð.
Belgíski brjóstholsskurðlæknirinn Pierre Delaere, sem kom fram í sjónvarpsþáttunum í sjónvarpsþáttunum Experimenten, var fyrstur til að gera úttekt á plastbarkaígræðslum Macchiarinis, segir málþingið hneyksli sem hefði aldrei átt að eiga sér stað. „Sjúklingnum var fagnað eins og stórverk hafi verið unnið þrátt fyrir að hann hefði alvarlega fylgikvilla, eins og má sjá í heimildarmyndinni Experimenten.“
Sjúklingnum var fagnað eins og stórverk hafi verið unnið þrátt fyrir að hann hefði alvarlega fylgikvilla.
Kjell Asplund tekur í sama streng og segir málþingið í Háskóla Íslands líklega eitt það versta við plastbarkamálið. „Vegna þess að það gaf tóninn til að halda áfram,“ segir hann.
Íslenska rannsóknarnefndin fjallaði ekki um málþingið sökum þess að hana skorti nákvæmar upplýsingar um efni fyrirlestranna til að taka afstöðu til þess sem þar kom fram um aukaverkanir og vandamál sem komu upp eftir aðgerðina. „Það er mat nefndarinnar að óháð framangreindum sjónarmiðum hafi veigamestu sjónarmiðin sem taka bar tillit til, þegar tekin var ákvörðun um þátttöku Andemariams í málþinginu, verið þau hvernig heilsu Andemariams var þá háttað auk þeirra siðferðilegu sjónarmiða að forðast beri að draga sjúklinga fram í fjölmiðlum og standa beri vörð um friðhelgi þeirra, einkalíf og sjálfsákvörðunarrétt. Einnig kemur fram að Tómas hafi sett ámælisverða pressu á Andemariam Beyene að aðstoða fyrirtækið við að svara spurningalistunum.“
Háskóli Íslands og Landspítali fara yfir úrskurð Karolinska-stofnunarinnar um að Tómas Guðbjartsson hafi gerst sekur um vísindalegt misferli
Ábyrgð stofnana, Landspítala og HÍ, virðist vera umtalsverð í plastbarkamálinu. Um hvaða þýðingu úrskurður niðurstaða Karolinska-stofnunarinnar um vísindalegt misferli Tómasar Guðbjartssonar, prófessors og yfirlæknis á Landspítala, hefði fyrir Háskóla Íslands, svaraði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands: „Karolinska Institutet hefur núna úrskurðað um vísindaþátt plastbarkamálsins. Háskóli Íslands hefur áður tekið þann þátt fyrir og svaraði 5. apríl með hliðsjón af niðurstöðum í skýrslu óháðrar nefndar Háskólans og Landspítala um málið. Landspítali og Háskóli Íslands munu saman og í sitt hvoru lagi fara yfir þessa nýju skýrslu Karolinska Institutet eins og önnur gögn sem fram hafa komið í þessu erfiða og flókna máli.“
Þá mun Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalla um málið að nýju.
Mannréttindi fyrir borð borin
Tilraunaaðgerðin á Andemariam Beyene hefði að öllum líkindum ekki verið gerð nema vegna þess að röng lýsing á ástandi hans var sett fram og tilvísun breytt í maí 2011 sem fól í sér að ekki var lengur gert ráð fyrir möguleika á leysiaðgerð á krabbameininu.
Í niðurstöðum íslensku Rannsóknarskýrslunnar kom fram að lífi þriggja einstaklinga hafi verið kerfisbundið stofnað í hættu vegna plastbarkaígræðslna á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu og að allir hafi þeir átt undir högg að sækja í samfélaginu. Þetta hafi verið gert á grundvelli áforma stofnunarinnar um uppbyggingu miðstöðvar fyrir háþróaðar aðgerðir á öndunarvegi og er að mati nefndarinnar ekki hægt að útiloka að með þessu hafi 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið brotin. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, hefur sagt að þetta sé alvarlegasti þátturinn við plastbarkamálið, að það kunni að varða mannréttindabrot, allir verði að læra af þessu hörmulega máli.
Tómas Guðbjartsson hefur ekki viljað tjá sig í fjölmiðlum um úrskurðinn en sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni.
Kæru facebook vinir Enn á ný er ég til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna plastbarkamálsins - nú síðast í gær þegar rektor...
Posted by Tomas Gudbjartsson on Tuesday, June 26, 2018
Ljóst má vera að umfjöllun um plastbarkamálið hefur einkennst af því að vernda hagsmuni stofnana og starfsmanna þeirra, en að sama skapi hefur lítið verið skeytt um mannréttindi Andemariam Beyene og annarra sjúklinga sem áttu í hlut.
Höfundur er nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands og er fréttaskýringin hluti af meistaraprófsverkefni hennar.
Lesa meira á Kjarnanum
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
31. desember 2022Viljinn er allt sem þarf
-
23. desember 2022Borgin varði 1,5 milljörðum í málaflokk heimilislausra á fyrstu 10 mánuðum ársins
-
20. desember 2022Kalla eftir „draumastað“ fyrir þau sem vilja hætta í vændi
-
15. desember 2022Fólk með fíknivanda talið besta tekjulindin
-
14. desember 2022Íslendingar eyddu 10,5 til 12 milljörðum króna í fjárhættuspil á síðasta ári
-
10. desember 2022SÁÁ sagðist vanta 450 milljónir til að þjónusta verði ekki skert 2023 en fær 120 milljónir
-
9. desember 2022Sjö tegundir hvíldar
-
7. desember 2022Yfirlæknir á bráðadeild segir vert að íhuga skorður á sölu og notkun flugelda