Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt dómarann Brett Kavanaugh til embættis Hæstaréttardómara. Forsetinn tilkynnti um val sitt í beinni útsendingu í nótt þar sem hann sagði val á hæstaréttardómurum eina af djúpstæðustu skyldum hvers forseta, ef frá væru taldar ákvarðanir um stríð og frið.
Valið kom lítið á óvart, Kavanaugh var einn af fjórum sem flestir fjölmiðlar töldu að kæmu til greina hjá Trump.
Hver er Brett Kavanaugh?
Kavanaugh er 53 ára gamall og starfar sem dómari við áfrýjunardómstól í Washington DC. Hann starfaði náið með George W. Bush á sínum tíma og tók meðal annars þátt í rannsókninni á samskiptum Bill Clinton Bandaríkjaforseta og Monicu Lewinsky auk þess sem hann var einn þeirra sem kom að endurtalningu atkvæða fyrir hönd Bush í forsetakosningunum árið 2000. Kavanaugh var á árum áður aðstoðarmaður Anthony Kennedy, hæstaréttardómarans sem nú lætur af störfum og Kavanaugh tekur við af.
Fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina frá því að verði Kavanaugh staðfestur af þinginu og settur í embætti sé það alveg ljóst að rétturinn muni í kjölfari færast lengra til hægri í niðurstöðum sínum.
Þegar Kavanaugh var settur í embætti dómara við áfrýjunardómstólinn deildi hann ekki frá skoðunum sínum á hinum svokallaða Roe v. Wade dómi, sem að heimilaði fóstureyðingar í Bandaríkjunum þegar hann féll árið 1973. Óstaðfestar fregnir herma að hagsmunasamtök andstæðinga fóstureyðinga hafi barist gegn því á bak við tjöldin að Trump tilfnefndi Kavanaugh og vildu frekar dómara sem hafði opinberað harðari afstöðu gegn fóstureyðingum. Gera má ráð fyrir því að dómstóllinn fái fljótlega til sín mál þar sem verður látið reyna á það að snúa fordæminu sem Roe v. Wade setti.
Fjölmiðlar telja þó einsýnt að Kavanaugh muni alla jafna dæma með íhaldsamari kollegum sínum við réttinn.
Í aðdraganda tilkynningar Trump í nótt höfðu einhverjir íhaldsmenn áhyggjur af því að Kavanaugh væri ekki nægilega langt til hægri í skoðunum sínum, sérstaklega þegar kemur að fóstureyðingum og heilbrigðismálum. Að auki voru uppi áhyggjur af tengingunni við Bush fjölskylduna.
Repúblikönum liggur á
Til að setja Kavanaugh í embætti þarf staðfestingu þingsins á tilnefningu Trump. Kosið verður til öldungadeildar þingsins í nóvember og óljóst hvor flokkurinn verður í meirihluta eftir kosningarnar. Repúblikönum liggur því á að klára málið.
Demókratar hafa sagt það ólýðræðislegt að setja dómara í embætti svo stuttu fyrir kosningar, auk þess sem Trump sé um þessar mundir til rannsóknar í máli sem er ekki útilokað að muni á endanum fara fyrir Hæstarétt. Því sé eðlilegt að bíða með að skipa nýjan dómara þar til rannsókn þeirri sé lokið.
Það er þó ekki búist við því að þessi atriði muni vefjast mikið fyrir Repúblíkönum. Hins vegar er það spurningin um viðsnúning á fordæmi Roe v. Wade sem gæti flækt málið. Frjálslyndari Repúblikanar í öldungadeildinni eru fylgjandi því að Roe v. Wade séu gildandi lög og þar beinast allra augu að tveimur öldungadeildarþingmönnum sem eru hlynntir réttinum til fóstureyðinga: Lisu Murkowski frá Alaska og Susan Collins frá Maine. Ef allir þingmenn Demókrata kjósa gegn tilnefningunni hafa þó Repúblikanar efni á að missa tvö atkvæði úr sínum ranni.
Búist er við miklum slag næstu vikur og misseri og óvíst hversu langan tíma staðfestingin mun taka. Dragist ferlið á langinn er hætt við því að næsti Hæstaréttardómari, Kavanaugh eða annar, verði eitt stærsta kosningamálið í nóvember.