Votviðri og kuldi hefur sett sinn svip á sumarið á Suðvesturhorni Íslands. Fyrir utan öll áhrifin sem vætutíðin hefur haft á geðheilsu borgarbúa virðast mörg fyrirtæki einnig finna fyrir breytingu í starfsemi sinni vegna hennar. Þannig hefur þurft að fresta malbikun oftar og meira keypt af „rigningarfóðri,“ en sala á pollagöllum er í hæstu hæðum.
Malbikun frestað
Samkvæmt skrifstofu Reykjavíkurborgar hefur veðurfarið haft áhrif á malbikun innan höfuðborgarsvæðisins. Til þess að hægt sé að malbika þurfi yfirborð að vera þurrt þegar framkvæmdir hefjast og lím borið á götur. Einnig hamli lágt hitastig og mikil vindur framkvæmdum. Í fyrra féllu framkvæmdir niður í samtals 31 dag yfir fimm mánaða verktíma. Í ár, nú þegar þrír mánuðir hafa liðið frá fyrsta verkdegi hafa verið 30 rigningadagar og því hafa tafir vegna rigningar verið jafnmiklar og yfir allan sumartímann í fyrra.
Birkir Hrafn Jóakimsson, byggingarverkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir vætutíðina í sumar einnig hafa gert starfsmönnunum fyrirtækisins erfitt fyrir. Hann þakkar þó góðum verktökum sem unnið hafa á sólarhringsvöktum til að malbika á þurrum köflum um allt land. Þrátt fyrir það hefur malbikuninni yfir sumartímann seinkað lítillega, en búist er við að henni muni ljúka um miðjan ágúst.
Breyting í sundlaugaferðum
Nokkur breyting hefur einnig verið í aðsókn sundlauga milli ára, en sundlaugaferðum hefur fækkað í þremur af sex laugum í Reykjavík. Þótt aukning hafi verið í heildarfjölda sundlaugaferða milli sumranna 2017 og 2018 hefur hún aðallega verið drifin af nýuppgerðri Sundhöll Reykjavíkur. Í Árbæjarlaug, Grafarvogslaug og Laugardalslaug hefur sundferðum hins vegar fækkað.
Dýr og plöntur fagna
Slæmt veðurfar undanfarinna mánaða hefur þó ekki haft teljandi slæm áhrif á dýra-og plöntulíf, ef marka má viðmælendur Kjarnans. Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir segir helstu breytinguna hjá sér vegna ringingarinnar vera þær að fólk verði ekki var við köngulær og geitungabú hjá sér jafnsnemma þar sem það fari ekki jafnmikið út í garð og í fyrra. Þannig hafi þurft að eiga við fleiri stærri köngulær og geitungabú þegar leið á sumarið, en ekki jafnmörg í byrjun sumars.
Bjarni J.Þórðarson, framkvæmdastjóri garðaþjónustunnar Garðar best, segir einnig ekkert lát hafa verið á garðslætti í sumar, grasið vaxi jafnar og með stöðugri hættu í rigningartíðinni. Á síðustu sumrum hafi oft þurft að fresta garðslætti vegna langra þurrkatímabila á sumrin, en lítið hafi verið um slíkt í ár þar sem nær allir dagar hafi verið blautir. Þrátt fyrir það segir Bjarni að hægst hafi á runnagróðri þar sem sólin hefur af skornum skammti. Samkvæmt honum hefur rigningartíðin fyrst og fremst verið erfið fyrir starfsfólk fyrirtækisins, sem hefur þurft að vinna úti í köldu og blautu veðri síðustu vikurnar.
Fleiri pollagallar, færri ermalausir bolir
Veðráttan virðist einnig hafa haft áhrif á neysluvenjur landsmanna, en í samtali Kjarnans við Ellingssen var mikil sala á regnfatnaði í byrjun sumars, á meðan útilegusala var sein að taka við sér. Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir einnig svokallað „rigningafóður“ hafa einkennt sölu fyrirtækisins í sumar, en þar vísar hann helst til matar sem eldaður er inni. Einnig segir hann áberandi að minni sala sé á ermalausum bolum og opnum skóm, en metsala á pollagöllum og stígvélum vegi það upp.
Þar að auki nefnir Gunnar að aukin tíðni útlandaferða gæti einnig útskýrt litla sölu fyrirtækisins í sumar, en neytendur virðast verja meiri tíma erlendis þetta sumarfrí heldur en önnur ár. Kjarninn fjallaði um sögulega sölu ferðaskrifstofa landsins, en samkvæmt Tómasi J. Gestssyni, framkvæmdastjóra Heimsferða, er ljóst að þetta verði metsumar í sólarlandaferðum. Ingibjörg Elsa Eysteinsdóttir, forstöðukona sólar-og sérferða hjá Gamanferðum tekur í sama streng og segir allt uppselt úr landinu: „Fólk er alveg greinilega komið með nóg af þessu. Við erum eiginlega að díla við það vandamál núna að það er ekkert laust, það er bara uppselt í næstu brottfarir, uppselt úr landi,“ segir Ingibjörg.