„Mér finnst rigningin góð“ segir í þekktum íslenskum dægurlagatexta. Þeir eru ófáir Íslendingarnir sem hafa við ýmis tækifæri, sungið hástöfum um dásemdir rigningarinnar. Þótt margir Íslendingar syngi kannski þarna þvert um hug sér gætu margir Evrópubúar, að minnsta kosti nú um stundir, tekið undir þessa fullyrðingu. Flestir, satt að segja, búnir að fá nóg af því óvenjulega veðurfari sem ríkt hefur víðast hvar í álfunni undanfarna mánuði og þrá rigningu. Engir þó kannski heitar en bændur sem sjá fram á mjög erfiða tíma.
Rigningarsumarið 2017
Orðatiltækið „í ökkla eða eyra“ þekkja flestir. Það lýsir ágætlega veðrinu í Danmörku sumarið 2017 og sumrinu nú. Í fyrra var það úrkoman sem gerði bændum erfitt fyrir, beiti- og ræktunarlönd á kafi í vatni en í ár er það hinsvegar skortur á úrkomu sem erfiðleikunum veldur. Landbúnaður er gríðarlega mikilvægur, og fyrirferðarmikill í dönsku efnahagslífi en danskir bændur eru, allflestir, ekki ofhaldnir og mega ekki við miklum áföllum.
Eftir hið erfiða ár 2017 vonuðust bændur eftir góðu sumri í ár en þær vonir hafa ekki ræst. Maímánuður var bjartur og sólríkur en þegar kom fram í júní tók gamanið að kárna, ef svo má að orði komast. Varla kom deigur dropi úr lofti allan mánuðinn og sömu sögu er að segja af júlímánuði víðast hvar í landinu. Þessari þurrkatíð hefur fylgt mikill hiti og ekki breyting í vændum, ef marka má veðurspár. Áframhaldandi þurrviðri og hlýindi næstu vikur.
Útlitið er dökkt
Þótt sólin skíni glatt er útlitið hjá mörgum bændum allt annað en bjart. Talsmaður dönsku bændasamtakanna sagði að bændur teldust heppnir ef þeim tækist að ná undir þak helmingi þess fóðurs sem nauðsynlegt er. Og það hefur nú þegar margvíslegar afleiðingar. Margir nautgripabændur eru byrjaðir að senda hluta bústofnsins til slátrunar, löngu fyrr en ætlunin var, enda þótt þeir telji það algjört neyðarúrræði. Áðurnefndur talsmaður sagði nær öruggt að fjöldi bænda kæmist í þrot með búreksturinn, margir væru „alveg á nippinu“ eins og hann orðaði það.
Haustsáning er útilokuð
Reglur Evrópusambandsins mæla svo fyrir að bændur í aðildarríkjunum skuli sá svonefndri haustsáningu eigi síðar en 20. ágúst ár hvert. Haustsáningunni er ætlað að binda köfnunarefni í jarðveginum og hindra að það berist í vatn. Danskir bændur segja að nú sé haustsáning útilokuð, eins og ástandið sé nái enginn gróður að dafna. Í reglum ESB er að finna undantekningarákvæði frá haustsáningardagsetningunni og telja margir danskir stjórnmálamenn að nauðsynlegt sé að beita þessu ákvæði.
Verðhækkanir á kjöti, mjólk, mjöli- og korni
Fyrir nokkrum dögum birti danska útvarpið, DR, á vefsíðu sinni langt viðtal við Klaus Kaiser hagfræðing hjá rannsókna- og þekkingarsetrinu Seges. Hann spáir því að á næstunni, jafnvel strax í þessum mánuði, muni danskir neytendur (og reyndar margir fleiri) finna fyrir umtalsverðum verðhækkunum á korni, mjöli og haframjöli. Hækkanir á kjöti og mjólkurvörum fylgi svo fljótlega í kjölfarið. Á þessari stundu sé útilokað að spá nokkru um hve miklar þessar hækkanir verði en þær verði umtalsverðar. Að sögn hagfræðingsins verða þessi áhrif ekki bundin við næstu mánuði því í dönskum landbúnaði sé útlitið fyrir næsta ár ekki bjart. Undir þetta taka danskir bændur sem segja næsta ár verða mjög erfitt. ,,Þurrkarnir núna eru þeir mestu í heila öld og ekki bætir hitinn úr skák“ sagði sérfræðingur dönsku veðurstofunnar, DMI, í viðtali við danska útvarpið.
Rafmagnið og heita vatnið hækka líka í verði
Við kornrækt fellur til mikill hálmur. Hluti hans er notaður sem fóður en stóran hluta þess sem til fellur selja danskir bændur fjarvarmaveitum. Um það bil 70 danskar fjarvarmaveitur kynda að stórum hluta með hálmi en nú er skortur á þessum eldivið fyrirsjáanlegur. Fjarvarmaveiturnar verða því að leita annarra og dýrari lausna (olía og/eða gas) og það þýðir hærra verð til neytenda. Svipaða sögu er að segja af raforkunni. Í logninu snúast dönsku vindmyllurnar ekki og þurrkarnir í Noregi draga úr raforkuframleiðslunni þar í landi en Danir kaupa mikið rafmagn þaðan. Þetta þýðir hærra orkuverð til danskra heimila og fyrirtækja.