1.
Vöruskiptajöfnuður er mismunurinn á andvirði útfluttra og innfluttra vara til og frá tilteknu landi á ákveðnu tímabili. Sé mismunirinn jákvæður er talað um vöruskiptaafgang í kerfinu en sé hann neikvæður er talað um vöruskiptaahalla. Vert er að taka fram að vörur eru einungis hluti af inn- og útflutningi Íslands. Héðan er líka flutt út, og inn, þjónusta, til dæmis hin mikilvæga ferðaþjónusta. Saman mynda þessir tveir þættir viðskiptajöfnuð. Hann hefur verið jákvæður í 16. ársfjórðunga í röð og var síðast neikvæður í byrjun árs 2014.
2.
Á árinu 2017 voru fluttar út vörur fyrir 519,6 milljarða króna og inn fyrir 696,1 milljarð króna fob sem er skammstöfun fyrir Free On Board eða frítt um borð. Það þýðir að ábyrgð seljanda lýkur eftir að vörunum hefur verið hlaðið um borð í skipi og ábyrgð kaupanda tekur við.
3.
Vöruviðskiptin árið 2017 voru neikvæð um 176,5 milljarða króna og um 108,2 milljarða króna árið áður á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn, sem sýnir virðismun á þeim vörum sem Íslendingar fluttu inn og út á árinu 2017, var því 68,3 milljörðum króna meiri en árið áður. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn 2017 161,7 milljörðum króna samanborið við 80 milljarða króna halla árið 2016. Árið 2017 var verðmæti vöruútflutnings 17,8 milljörðum króna lægra samanborið við árið 2016, eða 3,3 prósent á gengi hvors árs.
4.
Iðnaðarvörur voru 53,9 prósent alls útflutnings árið 2017 og var verðmæti þeirra 3,5 prósent hærra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á áli og álafurðum átti stærstu hlutdeild í útflutningi á iðnaðarvörum árið 2017 eða 39 prósent af heildarútflutningi.
5.
Sjávarafurðir voru 37,9 prósent alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 15,2 prósent lægra en á sama tíma árið áður. Lækkun var í nær öllum undirliðum sjávarafurða. Stærstu hlutdeild í útflutningi sjávarafurða árið 2017 áttu fryst flök og ferskur fiskur. Stærstu viðskiptalönd í vöruútflutningi voru Holland, Spánn og Bretland en 73,4 prósent alls útflutnings fór til ríkja ESB.
6.
Árið 2017 var verðmæti vöruinnflutnings 50,5 milljörðum króna hærra en árið 2016, eða 7,8 prósent á gengi hvors árs. Mestu munaði um fjárfestingu í flutningatækjum, þá aðallega skipum og fólksbílum, innflutningi á unnum hrá- og rekstrarvörum ásamt innflutningi á eldsneyti og fjárfestingavörum. Stærstu hlutdeild í innflutningi áttu hrá- og rekstrarvörur, fjárfestingarvörur og flutningatæki. Stærstu viðskiptalönd í vöruinnflutningi voru Þýskaland og Noregur en 52,5 prósent alls innflutnings kom frá ríkjum ESB.
7.
Aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld eru samheiti yfir tolla og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru við inn- eða útflutning. Útflutningsgjöld hafa ekki verið lögð á frá árinu 1990. Aðflutningsgjöldin eru meðal annars tollur, vörugjöld, eftirlitsgjald vegna innflutnings plantna, áfengisgjald, tóbaksgjald, virðisaukaskattur, úrvinnslugjald og eftirlitsgjald vegna raffanga.
8.
Tollar eru lagðir á vörur sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins. Allir sem flytja inn vörur eru tollskyldir og ber að greiða toll við innflutninginn nema vörurnar beri 0 prósent toll eða séu með einhverjum hætti undanþegnar tolli. Tilteknir aðilar eru þó undanþegnir tollskyldu að hluta eða öllu leyti samkvæmt ákvæðum tollalaga. Svokallaðir tollkvótar eru tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en samkvæmt tollskrá. Tollkvótum er úthlutað að undangengnu umsóknarferli.
9.
Ferðamenn og farmenn njóta sérstakra fríðinda við innflutning vöru sem þó hafa tiltekin fjárhæðarmörk. Þá eru ýmsar vörur undanþegnar tollum af málefnalegum ástæðum, t.d. búslóðir manna sem flytja hingað til lands, erlendi heiðursmerki og verðlaun, vörur sem eru endursendar til landsins, endursendar tómar umbúðir, gjafir undir tilteknum takmörkum og sendingar vegna markaðssetningar og vöruþróunar. Erlendir sendimenn hér á landi eru undanþegnir tollum.
10.
Almenn vörugjöld voru lögð af í upphafi árs 2015. Hins vegar er enn lagt vörugjald á ökutæki, eldsneyti og fleiri vörur. Vörugjald er greitt af skráningarskyldum ökutækjum sem flutt eru til landsins eða framleidd hér á landi. Gjaldið er að meginreglu lagt á ökutæki í tíu gjaldþrepum miðað við skráða losun koltvísýrings mælt í kílógrömmum á hvern ekinn kílómetra, frá 0 prósent ef losunin nemur 0 til 80 grömmum á kílómetra upp í 65 prósent ef losunin nemur yfir 250 grömmum á kílómetra. Viðamiklar undanþágur eru þó gerðar frá meginreglunni, þannig eru tiltekin ökutæki alfarið undanþegin gjaldinu, önnur bera fast 13 prósent eða 30 prósent gjald og um enn önnur gilda sérstakar reglur. Tvennskonar vörugjöld eru lögð á bensín, það er almennt vörugjald og bensíngjald. Gjöldin nema fastri krónutöku á hvern líta bensíns en innflytjendur og framleiðendur bensíns eru gjaldskyldir.