Versnandi afkoma íslenskra flugfélaga er mikið áhyggjumál fyrir efnahagslífið, að mati viðmælenda Kjarnans, og það er ekki aðeins fjárhagserfiðleikar WOW Air, sem Kjarninn hefur fjallað ítarlega um, sem valda áhyggjum, heldur líka staða Icelandair.
Axlaði ábyrgð
Forstjórinn þrautreyndi, Björgólfur Jóhannsson, hefur sagt upp störfum og sagðist í yfirlýsingu með því axla ábyrgð á slæmri rekstrarniðurstöðu félagsins.
Í yfirlýsingu hans nefnir hann meðal annars að byrja hefði átt fyrr á ákveðnum skipulagsbreytingum og að ákvarðanir um endurskipulagningu á sölu- og markaðsstarfi hafi ekki reynst gæfulegar fyrir reksturinn.
En hvað er það sem veldur fjárfestum og þeim sem fylgjast grannt með gangi mála, þar á meðal stjórnvöldum, mestum áhyggjum?
Að mati viðmælenda Kjarnans er það grunnreksturinn sem veldur áhyggjum. Hann er kominn á hættulegar slóðir fyrir félagið, sé mið tekið af lánaskilmálum félagsins.
Mikið eigið fé, en slök afkoma
Þrátt fyrir sterka eiginfjárstöðu og eiginfjárhlutfall upp á 35 prósent, þá er félagið með langtímaskuldir upp á 329 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 35 milljörðum króna, og skilmálar á þeim lánum gera kröfu um að rekstrarkennitölur félagsins séu að lágmarki með ákveðnum hætti.
Þannig á EBITDA rekstrarhagnaður (rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) að lágmarki að nema um tæplega 95 milljónum Bandaríkjadala, sé miðað við 3,5 x EBITDA skilmála í lánasamningum (sjá meðfylgjandi mynd).
Samkvæmt endurnýjun á afskomuspá félagsins, sem sent var til kauphallar í gær, samhliða tilkynningu um uppsögn Björgólfs, þá gerir uppfærð spá nú ráð fyrir 80 til 100 milljóna Bandaríkjadala EBITDA rekstrarhagnaði á árinu. Neðri mörkin í þeirri spá eru fyrir neðan fyrrnefnda skilmála, og sé horft á stöðuna út frá því, þá er krefjandi vetur framundan fyrir félagið.
Á pappírunum er það alltaf litið alvarlegum augum, ef skilmálar eru brotnir í lánasamningum, eins og augljóst kann að virðast, en óljóst er þó hvaða afleiðingar það hefði fyrir þetta tiltekna ákvæði um rekstrarafkomuna, til skemmri tíma. Gjaldfelling á skuldum þyrfti ekki að koma til en stíft aðhald og náið samtal við lánadrottna um hvað væri skynsamlegast í stöðunni, yrði óhjákvæmilegt.
Eitt af því sem hefur haft mikil áhrif til hins verra á afkomuna hjá Icelandair að undanförnu er lægra verð á fargjöldum en spálíkön félagsins gerðu ráð fyrir, sem eru helstu verkfærin sem notuð eru til að meta framtíðarhorfur í rekstrinum. Nú er gert ráð fyrir að fargjöld fari ekki að hækka fyrr en á næsta ári. Næstu mánuðir verða því vafalítið erfiðir.
Hrun á markaði
Óhætt er að segja að fjárfestar hafi ekki tekið versnandi afkomu Icelandair vel. Enn einu sinni hefur markaðsverð félagsins hrunið innan dags, en lækkunin í dag nam 17,26 prósentum. Verðhrun félagsins hefur verið mikið á undanförnum mánuðum, en hæst fór verðmiðinn í 189 milljarða króna í apríl 2016. Hann er nú að nálgast 30 milljarða, en eigið fé félagsins var um mitt þetta ár tæplega 530 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 55 milljörðum króna.
Stærstu hluthafar félagsins eru íslenskir lífeyrissjóðir, en stærsti hluthafinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,99 prósent hlut.