Af handaböndum og faðmlögum

Stundum er haft á orði að ekkert sé svo einfalt að ekki sé hægt að gera úr því stórmál. Fram til þessa hefur handaband og einfalt faðmlag ekki talist til stórmála en umræða um slíkt hefur nú ratað inn í sveitastjórnir í Danmörku, og danska þingið.

Handaband
Auglýsing

Víðast hvar á Vesturlöndum þykir handaband sjálfsagður og eðlilegur hlutur. Heilsast og kveðjast með handabandi. Þannig er það ekki alls staðar og í sumum trúarsiðum beinlínis litið hornauga, ef ekki bannað, að einstaklingar af gagnstæðu kyni takist í hendur.

Í Danmörku er saga handabandsins rakin til ársins 1241, þegar Jósku lögin, fyrstu ríkislög landsins voru staðfest. Það gerði Valdimar konungur annar (Valdemar Sejr) og athöfnin fór fram í Vordingborg á Suður-Jótlandi. Formáli laganna hefst á orðunum „Mæth logh skal land bygiæs“, með lögum skal land byggja. Þegar skrifað hafði verið undir lagaskjalið tókust menn í hendur. Eftir þetta handaband varð siður í Danmörku að takast í hendur til að staðfesta samkomulag.

Johs Nørregaard Frandsen prófessor við Syddansk Universitet telur að handaband sé upphaflega evrópskur siður sem svo hafi breiðst út um víða veröld. Ekki nota þó allir handaband til að heilsast og kveðjast eða innsigla samkomulag. Sumsstaðar leggur fólk lófa, gjarna hægri á hjartastað, aðrir leggja saman lófa þannig að þumlar nemi við bringu og hneigja sig lítillega, indjánar lyfta hendi og snúa opnum lófa að þeim sem heilsað er og fleira mætti nefna. Áðurnefndur prófessor segir í viðtali við Danska útvarpið að það hafi ekki verið fyrr en í lok 19. aldar að Danir byrjuðu að nota handabandið til að heilast og það voru það fyrst og fremst jafningjar sem slíkt gerðu. Bóndi og háttsettur embættismaður heilsuðust eða kvöddust ekki með handabandi fyrr en á síðustu öld, fram til þess tíma lyftu menn hatti eða hneigðu sig. Í dag þykir handaband sjálfsögð kurteisi, en er ekki endilega tákn um gagnkvæma virðingu.

Auglýsing

Innflytjendur og handabönd

Fyrr á þessu ári kynnti danska ríkisstjórnin nýjar reglur varðandi skilyrði þess að öðlast danskan ríkisborgararétt. Reglurnar gera ráð fyrir að hver umsækjandi taki þátt í sérstakri athöfn í sínu lögsagnarumdæmi og skuldbinda sig til að halda í heiðri dönsk gildi. Þar var sérstaklega tilgreint að við áðurnefnda athöfn skuli umsækjandinn taka í hönd embættismanns sem stjórnar athöfninni.

Fyrr á árinu kom upp tilvik í Sviss þar sem hjónum var neitað um ríkisborgararétt eftir að annað þeirra neitaði að taka í hönd embættismanns af gagnstæðu kyni. Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála hefur margoft lýst yfir að handabandið sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisborgararétti í Danmörku. Líklegt má telja þeim sem sækja um danskan ríkisborgararétt fjölgi mikið á næstu árum og í hópi umsækjenda verði margir sem ekki geta hugsað sér að taka í höndina á einhverjum af gagnstæðu kyni. Ráðherra innflytjendamála segir þetta ekki flókið mál, þeir sem ekki sætta sig við danskar reglur fari bara úr landi. Punktur og basta.

„Faðmlagsfár“ Mynd: Pexels

Faðmlögin

Í Suður- og Mið Evrópu hafa faðmlög, þegar ættingjar og vinir hittast, tíðkast árum saman. Þar faðmast skóla- og vinnufélagar iðulega að morgni dags og jafnvel líka þegar haldið er heim á leið. Hér í norðrinu var slíkt vangaflens hinsvegar lengst af bundið við fjölskyldu og nánustu vini, handaband annars staðar talið fullnægjandi. Nú er þetta breytt. Nú faðmast fólk í tíma og ótíma, og margir telja faðmlagið beinlínis hollt, bæði fyrir líkama og sál. En ekki eru allir jafn hrifnir af þessu „faðmlagafári“.

Banna faðmlög

Sveitarstjórnin í Hørsholm á Sjálandi samþykkti fyrir fjórum árum að ekki væri æskilegt að embættismenn sveitarfélagsins og kjörnir póitískir fulltrúar föðmuðust þegar þeir hittust vegna starfa sinna. Þá voru þetta tilmæli. En fyrir skömmu hnykkti sveitarstjórnin á þessum tilmælum og bætti reyndar um betur. Bannaði einfaldlega þetta „krammeri“ eins og borgarstjórinn Morten Slotved, orðaði það. Faðmlagabannið vakti mikla athygli og varð víða aðhlátursefni.

Borgarstjórinn reyndi síðar að draga í land og sagði í viðtali við Danska útvarpið að þetta væri ekki bann, heldur eindregin tilmæli. Þegar hann var spurður hversvegna væri ástæða til að fjalla um faðmlög, og jafnvel banna, svaraði hann því til að faðmlag hefði ákveðna merkingu og nefndi dæmi: „Barnið þitt á í erfiðleikum í skólanum, þú hefur hitt skólastjórann og það skilar engu. Fyrir þitt tilstilli er haldinn fundur þar sem þú mætir, ásamt skólastjóranum og einum bæjarfulltrúa. Þeir eru báðir karlar. Þegar bæjarfulltrúinn kemur til fundarins faðmast þeir, hann og skólastjórinn, en báðir heilsuðu þér með handabandi. Þetta eru skýr skilaboð um að þú sitjir ekki við sama borð.“

„Faðmlagamálið“ hefur verið rætt í stjórnum margra sveitarfélaga en hvergi hafa, enn sem komið er, verið settar reglur um þessi mál.

Þingmenn vilja ekki faðmlagabann

Umræðan um faðmlagabannið (eða tilmælin) í Hørsholm hefur ratað inn í þingsalina á Kristjánsborg. Þar var talsvert um það rætt fyrir nokkru þegar lögreglukona í einkennisbúningi faðmaði múslímakonu, sem bar niqab. Atvikið átti sér stað á mótmælafundi vegna búrkubannsins svonefnda, sem tók gildi fyrir skömmu, en samkvæmt því varðar sektum að hylja andlit sitt, á almannafæri.

Margir þingmenn tjáðu sig um þetta atvik, og sýndist sitt hverjum og myndir af faðmlaginu birtust í fjölmiðlum víða um heim. Fréttamenn danska útvarpsins spurðu marga þingmenn hvort þeir væru fylgjandi faðmlagabanni á þinginu. Meirihluti þeirra sem rætt var við sögðust ekki fylgjandi slíku banni á Kristjánsborg en nokkrir þeirra sögðu að „krammeri“ þingmanna væri allt of mikið. „Maður getur varla snúið sér við á göngum þinghússins án þess að mæta einhverjum sem endilega vill faðma mann“ sagði Bertel Haarder sem setið hefur mjög lengi á þingi og bætti við „ég kann ekki við þetta en hvað getur maður gert“. Hann sagðist þó ekki vilja setja einhverjar sérstakar reglur, slíkt væri fráleitt. Margir þingmenn hafa gert góðlátlegt grín að faðmlagabanninu í Hørsholm og einn úr þeirra hópi sagðist hafa kíkt á dagatalið þegar hann las fréttina um bannið og bætti hann við: „En það var ekki 1. apríl.“

P.s. Fyrir áhugafólk um faðmlög og handabönd má vekja athygli á pistli sem birtist hér í Kjarnanum fyrir nokkru undir heitinu: Faðmlagaáráttan og dönsku handabandssamtökin.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar