Skiptastjóri þrotabús Mainsee Holding ehf. hefur stefnt Glitni HoldCo, félagi utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitis og vill rifta greiðslu á skuld Mainsee Holding við Glitni HoldCo upp á tæplega 6,7 milljónir evra sem fram fór með yfirtöku Glitnis HoldCo á hendur félaginu Salt Investment, sem í dag heitir Bellmann ehf.
Eigendur þess félags eru skráðir Róbert Wessman (87,5 prósent), Matthías H. Johannessen (1,9 prósent) auk þess sem Bellmann á 10,6 prósent hlut í sjálfu sér.
Vegna þessarar riftunar vill þrotabúið að Glitnir HoldCo greiði sér tæplega 1,1 milljarð króna auk vaxta og málskostnaðar.
Gert er ráð fyrir að sex menn verði látnir bera vitni í málinu: Björgólfur Thor Björgólfsson, Róbert Wessman, Árna Harðarson, Gunnar Engilbertsson, Sigurgeir Guðlaugsson og Matthías H. Johannessen.
Björgólfur Thor borgar
Það sem er athyglisvert við stefnuna er að stærsti kröfuhafi Mainsee Holding er Glitnir HoldCo. Af þeim 13,9 milljarða kröfum sem lýst var í búið lýsti félagið 9,1 milljörðum króna í það. Því er verið að stefna stærsta kröfuhafanum.
Einn annar kröfuhafi er til staðar, Björgólfur Thor Björgólfsson, sem lýsti kröfu upp á 4,7 milljarða króna. Í stefnunni, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að á skiptafundi þann 7. september 2018 hafi skiptastjóri þrotabúsins, Sveinn Andri Sveinsson, upplýst að ekki væru til fjármunir í búinu til að höfða riftunarmál vegna greiðslu á skuld Mainsee Holding við Glitni. Til að hægt yrði að ráðast í málshöfðun yrði að koma til ábyrgðar frá einhverjum kröfuhafa.
Deilur sem teygja sig langt aftur
Mainsee Holding var úrskurðað gjaldþrota 7. febrúar síðastliðinn og Sveinn Andri skipaður skiptastjóri. Félagið var stofnað í júlí 2007 og var í jafnri eigu Novator Pharma, félags Björgólfs Thor Björgólfssonar, og Salt Pharma, sem var í eigu Róberts Wessman í gegnum félagið Salt Investment. Þeir tveir voru samstarfsmenn á árum áður en hafa tekist hart á, bæði opinberlega og í dómsölum síðastliðinn áratug.
Mainsee Holding hélt utan um hlut þeirra í þýska lyfjafyrirtækinu Mainsee Pharma GmbH. Björgólfur Thor og Róbert Wessman gengust báðir undir persónulegar ábyrgð á efndum láns sem félagið fékk hjá Glitni haustið 2007.
Samkvæmt stefnunni tók Glitnir HoldCo yfir Mainsee Holding 4. nóvember 2009. „Var félagið síðar selt dótturfélagi bankans, GL Investments ehf. Rúmu ári síðar seldi bankinn þýsku dótturfélagi Actavis Group hf. lyfsölu-rekstur og ýmsar eigur Mainsee Pharma GmbH en umsamið kaupverð var 30 milljónir evra. Í sölusamningi var tekið fram að undanskilin væri við sölu eigna Mainsee Pharma GmbH krafa félagsins á hendur Salt Investments ehf.“
Björgólfur Thor stefndi Róberti Wessman og viðskiptafélaga hans Árna Harðarsonar vegna þessa máls og sakaði þá um fjárdrátt. Hann vildi að þeir myndu greiða honum tvær milljónir evra vegna þess. Róbert og Árni höfnuðu ætið málatilbúnaðinum og sögðu hann ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Þeir voru sýknaðir af þessum kröfum í fyrra í Hæstarétti. Í þeim dómi kom hins vegar fram að millifærslan hefði verið ólögmæt. Björgólfur Thor greiddi þann hluta Mainsee-skuldarinnar sem hann var í persónulegri ábyrgð fyrir í skuldauppgjöri sínu sem fram fór árið 2010 og byggði krafa hans á því að endurheimta það fé.
Ræddu sættir
Sumarið 2011 var gerð samrunaáætlun fyrir Mainsee Pharma GmbH og Mainsee Holding. Við það rann fyrrnefnda félagið inn í Mainsee Holding, þar á meðal krafan sem það átti á hendur Salt Investment. Samkvæmt samrunaefnahagsreikningi var skuldin þá rúmlega einn milljarður króna. Í síðari ársreikningum hafði þessi krafa hins vegar fallið út.
Í stefnunni segir: „Aðspurður um það við skýrslutöku hjá skiptastjóra þann 12. febrúar 2018...hvernig uppgjör á kröfu Salt Investment hefði farið fram, greindi Ingólfur Hauksson stjórnarformaður frá því að þann 15. febrúar 2011 hefði verið gert samkomulag milli Glitnis Banka hf (núna Glitnir HoldCo) og Mainsee GmbH þar sem Glitnir keypti kröfuna á hendur Salt Investment miðað við stöðu kröfunnar þá, á 6.668.309 evra. Kom þessi fjárhæð til lækkunar á kröfu Glitnis á hendur Mainsee GmbH[...]Einnig greindi Ingólfur frá því að ástæða þess að beðið var um skipti á stefnanda var að félagið hafði enga starfsemi með höndum, tekjur voru engar og skuldir mjög miklar við Glitni, þ.e.a.s. eftirstöðvar á þessari upphaflegu fjármögnun Glitnis Banka.“
Skiptastjóri Mainsee Holding sendi Glitni HoldCo bréf 29. júní 2018 þar sem hann tilkynnti um að kaupum Glitnis HoldCo á kröfu á Salt Investment væri rift og fór fram á að Glitnir HoldCo myndi greiða þrotabúinu tæplega 1,1 milljarð króna auk vaxta. Glitnir HoldCo hafnaði þessum málatilbúnaði og hélt því fram að hin framselda krafa hefði verið einskis virði.
Á skiptafundi 7. september lét lögmaður Björgólfs Thors bóka að hann væri sammála þeirri afstöðu skiptastjóra sem fram kæmi í bréfum hans til Glitnis HoldCo. „Lýsti hann því yfir að hann teldi fullt tilefni til þess að höfða riftunarmál vegna kaupa stefnda á kröfu stefnanda á hend-ur Salt Investments.“ Í kjölfarið staðfesti lögmaðurinn að Björgólfur Thor væri tilbúin að ábyrgjast greiðslu alls kostnaðar vegna riftunarmálsins.
Lögmenn kröfuhafanna, Glitnis HoldCo og Björgólfs Thors, ræddu um sættir í málinu bæði fyrir og eftir skiptafundinn. Þær sættir náðust ekki og því ákvað þrotabúið að stefna Glitni HoldCo vegna málsins.