Hagnaður Icelandair eftir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) var 115 milljónir dala, um 14 milljarðar króna, á þriðja ársfjórðungi, sem er vanalega sterkasti ársfjórðungurinn í rekstri félagsins, enda nær hann yfir júlí, ágúst og september sem eru með stærstu mánuðum ársins í ferðaþjónustu. Það eru umtalsvert lægri rekstrarhagnaður en Icelandair var með á sama ársfjórðungi í fyrra, þegar hann var 156 milljónir dala, eða tæplega 19 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Um er að ræða samdrátt upp á 26 prósent.
Heildarhagnaður dróst líka mjög saman þegar ársfjórðungurinn er borin saman við sama tímabil 2017, eða um 36 prósent. Hagnaður fyrstu níu mánaða ársins í fyrra var tæplega 98 prósent meiri en það sem hann var á fyrstu níu mánuðum ársins 2018.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársfjórðungsuppgjöri Icelandair sem birt var í morgun.
Skýringin á þessu er vegna lægri farþegatekna – þær fóru úr 415,6 milljónum dala í 406,5 milljónum dala – og hækkunar á olíuverði, sem gerði það að verkum að kostnaður Icelandair vegna kaupa á flugvélaeldsneyti jókst um 19 prósent á milli ára.
Starfsmannakostnaður Icelandair hefur líka vaxið hratt milli ára. Þannig hafa laun og annar starfsmannakostnaður vaxið um ellefu prósent milli ára. Stærstur hluti þess kostnaðar er hins vegar komin til vegna þess að starfsfólki hefur verið fjölgað. Launahækkanir voru til að mynda 3,6 prósent milli ára.
Erfitt ár eftir afleitar breytingar
Árið hefur verið erfitt hjá Icelandair. Félagið reyndi að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði með breytingum á leiðarkerfi sínu og algjöra stefnubreytingu á sölu- og markaðsstarfi félagsins.
Innleiðing þessara breytinga reyndist mikil mistök og fyrir birtingu uppgjöra Icelandair vegna fyrstu tveggja fjórðunga ársins voru sendar afkomuviðvaranir vegna þess að niðurstaða þeirra var langt undir væntingum. Þessi staða gerði það að verkum að Björgólfur Jóhannsson, sem hafði verið forstjóri Icelandair í tíu ár, sagði af sér í lok ágúst. Með því vildi hann axla ábyrgð á ofangreindum breytingum, sem teknar höfðu verið á hans vakt.
Vegna þessa hríðféll markaðsvirði Icelandair. Það var um 189 milljarðar króna fimmtudaginn 28. apríl 2016, þegar það var sem mest. Í gær var það 32 milljarðar króna.
Það sem er jákvætt er að Icelandair hefur byggt upp umtalsvert eigið fé á síðustu árum og er því ágætlega í stakk búið til að takast á við sveiflur. Eigið fé er nú um 70 milljarðar króna, en hefur lækkað um 2,6 milljarða króna það sem af er ári.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 nemur hagnaður Icelandair tæplega 1,8 milljónum dala, eða 218,5 milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra var hagnaður félagsins 77,2 milljónir dala, eða 9,3 milljarðar króna. Samdrátturinn í arðsemi hefur því verið ansi brattur.
Icelandair flaggaði þessari stöðu með tilkynningu snemma í október þar sem greint var frá því að möguleg brot á þeim skilmálum væru líkleg að raungerast og að viðræður myndu eiga sér stað við skuldabréfaeigendur vegna þessa.
Viðræður við skuldabréfaeigendur í gangi
Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í morgun sagði að viðræður við skuldabréfaeigendur gangi vel. „Samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs félagsins sem birt var í dag hefur verið staðfest að ofangreind fjárhagsleg skilyrði eru ekki uppfyllt. Félagið hefur átt í góðum viðræðum við skuldabréfaeigendur undanfarið í tengslum við langtímalausn vegna málsins og hefur óskað eftir undanþágu frá ofangreindum fjárhagslegum skilyrðum skuldabréfanna til 30. nóvember nk. í því skyni að meiri tími verði til stefnu til að finna langtímalausn vegna málsins. Hin tímabundna undanþága nýtur nú þegar stuðnings meirihluta eigenda NO skuldabréfanna.
Félagið hefur einnig hafið viðræður við eigendur IS skuldabréfanna og gerir ráð fyrir að komist verða að sams konar langtímalausn vegna þeirra bréfa. Tímabundin undanþága frá ofangreindum fjárhagslegum skilyrðum bréfanna til 30. nóvember nk. nýtur nú þegar stuðnings yfir 85% skuldabréfaeigenda og mun félagið halda áfram viðræðum um langtímalausn vegna málsins.“
Bréf í Icelandair hafa tekið kipp upp á við eftir að níu mánaða uppgjör félagsins var birt í dag. Alls hafa bréfin hækkað um 7,2 prósent það sem af er degi.
Stærstu hluthafar félagsins eru íslenskir lífeyrissjóðir, en stærsti hluthafinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,99 prósent hlut.