Pólitísk störukeppni er hafin milli Ítalíu og yfirstjórnar Evrópusambandsins vegna trega ítalskra stjórnvalda til að standa við opinberar skuldbindingar sínar. Ósættið er talið þjóna skammtímahagsmunum stjórnmálamanna víðs vegar um evrusvæðið, en hætta er á að samstarf milli Evrópuþjóða til langs tíma sé í hættu ef ekkert verður að gert. Þetta kemur fram í skoðanapistli hagfræðiprófessorsins Luigi Zingales í New York Times á dögunum.
Í síðustu viku ákvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að hafna fjárlögum Ítalíu fyrir næsta ár, en Valdis Dombrovskis, aðstoðarforseti framkvæmdarstjórnarinnar, sagði sambandið ekki eiga annarra kosta völ. Ástæða höfnunarinnar er sú að frumvarpið gerir ráð fyrir miklum fjárlagahalla vegna aukinna ríkisútgjalda og skattalækkunina. Hallinn myndi leiða til aukinnar skuldasöfnunar ítalska ríkissjóðsins sem nú þegar er orðin of mikil samkvæmt Stöðugleika-og vaxtarsamomulagi aðildarríkja á evrusvæðinu.
Kjarninn hefur áður fjallað um umrædd fjárlög, en ríkisstjórn Ítalíu tilkynnti frumvarpið til þeirra í síðasta mánuði. Frumvarpið vakti óhug meðal ítalskra fjármálamarkaða og óflokksbundinna ráðherra, en óvíst var hvort það stæðist stjórnarskrá landsins.
Ríkisstjórnarflokkarnir tveir, popúlistaflokkarnir M5S og Lega, fara þó jákvæðum orðum um áætlanirnar í frumvarpinu og sagði formaður M5S að með þeim yrði „fátæktinni útrýmt“ í landinu.
Störukeppni
Samkvæmt pistli Zingales þjóna ákvarðanir valdamestu ríkja Evrópusambandsins og Ítalíu hagsmunum beggja aðila til skamms tíma, þar sem heppilegt er fyrir ríkisstjórn Ítalíu annars vegar og Þýskalands og Frakklands hins vegar að kenna öðrum aðildarríkjum um óstöðugleika á evrusvæðinu. Hins vegar sé þessi „störukeppni“ olía á eld þeirrar efnahagslegrar og pólitískrar spennu sem ríkir innan sambandsins. Aukist hún er veruleg hætta á að Ítalía segi sig úr evrusamstarfinu.
Efnahagslegur harmleikur Ítalíu
Vandamál Ítalíu gagnvart Evrópusambandinu hafa langan aðdraganda. Þjóðartekjur á mann þar í landi eru nær óbreyttar frá því sem þær voru fyrir aldarfjórðungi síðan og hátt atvinnuleysi hefur leitt til þess að nær 200 þúsundir ungmenna flytja burt á ári hverju. Samhliða miklum spekileka sem fylgir útflutningi ungra Ítala og dregur úr hagvaxtarhorfum til framtíðar hefur ört hækkandi meðalaldur þjóðarinnar leitt sívaxandi skuldabyrði hins opinbera sem gerir ríkisstjórnunum erfitt að fjármagna grunnþjónustu sína.
Gylfi Zoëga gerði vandamál Ítalíu að umfjöllunarefni sínu í nýjasta tölublaði Vísbendingar og sýndi þar fram á hversu mikið staða landsins gagnvart Þýskalandi versnaði á árunum 1999-2014. Fyrir fjórum árum síðan voru meðaltekjur Þjóðverja fjórðungi hærri en meðaltekjur Ítala, sem er stór breyting frá árinu 1999 þegar þjóðirnar tvær voru í nær sömu sporum.
Síðustu ár hafa heldur ekki verið gjöful fyrir Ítalíu, en hagvöxtur frá árinu 2014 hefur verið í kringum eitt prósent. Nýjustu ársfjórðungstölur voru einnig nokkuð undir væntingum, en hagvöxtur landsins á síðasta ársfjórðungi þessa árs var nákvæmlega 0 prósent.
ESB meðsekt
Bæði Gylfi og Zingales telja hluta af sökinni vegna slæmra horfa á Ítalíu liggja hjá Evrópusambandinu þar sem ekki ríkja sameiginlegar reglur í álfunni um uppgjör þrotabúa og rétt kröfuhafa og sparifjáreigenda, auk þess sem seðlabanki Ítalíu geti ekki lánað ríkissjóð sínum pening ef hann verður gjaldþrota.
Án nauðsynlegrar sameiningar í fjármálakerfi Evrópusambandsins aukast líkur á greiðslufalli ítalskra banka í kjölfar verðfalls á ríkisskuldabréfum þar í landi, en slíkt kæmi einnig niður á önnur ríki ESB. Til að hruni verði afstýrt sé nauðsynlegt fyrir Evrópusambandið að endurskoða skuldir Ítalíu og ekki þvinga þjóðina til þess að bera byrði af allri endurgreiðslu þeirra.
Eldar þjóðernishyggju varhugaverðir
Mikið er í húfi fyrir báða aðila að fjármálakerfi Ítalíu verði stöðugra, en sjóðir Evrópusambandsins eru ekki nógu stórir til þess að bjarga ríkissjóð landsins, fari svo að hann lendi í greiðsluþroti. Sú niðurstaða gæti leitt til endaloka evrusamstarfsins eins og við þekkjum það og afturhvarfs til þjóðhyggju og minni samstarfs milli ríkja. Zingales varar við hættum þess að setja skuldugri þjóð þröngar skorður og nefnir í því samhengi Þýskaland við lok fyrri heimsstyrjaldar. Sama tón má finna í pistli Gylfa, en hann vonast til þess nýjar kynslóðir „kveiki ekki sömu elda“ þjóðernishyggju og brunnu á síðustu öldinni.