„Við hina ungu forystusveit Sjálfstæðisflokksins í dag langar mig að segja: Gætið að ykkur. Sá þráður í sálarlífi þessa flokks sem snýr að fullveldi og sjálfstæði er mjög sterkur. Flokkurinn virðist hafa misst varanlega um þriðjung af sínu fylgi. Hann má ekki við meiru. Sýnið þeirri sögu sem hér hefur verið rakin virðingu.“
Þannig lauk Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum í áratugi, erindi sem hann flutti í Valhöll 1. september síðastliðinn. Á fundinum var hinn svonefndi þriðji orkupakki Evrópusambandsins til umfjöllunar, og fullveldi Íslands var heldur ekki langt undan, í bæði erindum og umræðum á fundinum. Það voru hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík sem stóðu fyrir fundinum.
Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, borgarstjóri, seðlabankastjóri og nú ritstjóri Morgunblaðsins - svo eitthvað sé nefnt - sat á fremsta bekk og hlustaði. Greina mátti mikinn samhljóm með orðum Styrmis og skrifum um orkupakkann í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins. Það sem helst einkennir þau eru efasemdir um EES-samninginn og hvernig hagsmunir Íslands eru best varðir.
Á þessum fundi í Valhöll - sem setti af stað mikinn pólitískan skjálfta í íslenskum stjórnmálum - var rætt um málin út frá þeim sjónarhóli að orkupakkinn væri í raun framsal á fullveldi til Brussel. Kom Styrmir ekki síst inn á þessi mál í sinni ræðu, og sagði að EES samningurinn væri búinn að þróast þannig - með Evrópusambandinu - að nú þyrfti að spyrna við fótum.
„Við stöndum á ákveðnum tímamótum í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Frá því að EES-samningurinn var gerður fyrir aldarfjórðungi hefur Evrópusambandið þróast á þann veg að það koma upp stöðug fleiri álitamál um hversu langt við getum gengið í þessu samstarfi án þess að við afsölum okkur sjálfstæði okkar í smápörtum hér og þar til Brussel,“ sagði Styrmir og bætti um betur: „Verði orkupakkinn samþykktur hefur Evrópusambandinu verið opnuð leið til þess að ná síðar yfirráðum yfir einni af þremur helstu auðlindum okkar Íslendinga.“
Í salnum - sem var fyrst og fremst skipaður eldri körlum í Sjálfstæðisflokknum - var samhljómur meðal áheyrenda og flestir á einu máli um að Styrmir væri að lýsa málunum með réttum hætti. Þetta var eins og góð kóræfing og allir sungu í takt, sagði einn fundargesta í samtali við Kjarnann.
Kynslóðaskipti
Óháð tæknilegum- og efnislegum rökræðum um innihald orkupakkans, þá var fundurinn til marks um deildar meiningar ólíkra kynslóða í Sjálfstæðisflokknum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar, hefur svarað þessum sjónarmiðum sem komu fram á fundinum, um að orkupakkinn feli í sér freklegt framsal á fullveldi þjóðarinnar, sem rangindum. Hún hefur meðal annars vitnað til lögfræðiálita sem unnin voru af hennar beiðni. Í vikunni notaði hún Twitter-aðganginn til að bera fyrrnefnd sjónarmið til baka, og sagði skýrt og skilmerkilega að Ísland myndi stjórna sínum orkuauðlindum alveg óháð þriðja orkupakkanum.
Hvað felst í 3. Orkupakkanum?
Hinn svonefndi þriðji orkupakki Evrópusambandsins var samþykktur á vettvangi þess árið 2009. Með honum er einkum vísað til nokkurra grundvallaratriða fyrir orkumarkaðinn innan Evrópusambandsins og á EES-svæðinu. Í fyrsta lagi er það tilskipun sameiginlegar reglur fyrir innri markað fyrir raforku. Í öðru lagi er það tilskipun um sameiginlegar reglur fyrir jarðgas. Í þriðja lagi er það reglugerð um að koma á fót stofnun um samstarf eftirlitsaðila á orkumarkaði. Sú stofnun (ACER) mun hafa það verkefni öðrum fremur að skera úr deilumálum sem vakna, og styðja við eftirlit með orkumörkuðum í aðildarlöndunum.
Alberto Pototschnig, forstjóri ACER, sagði á fundi í Háskólanum í Reykjavík að stofnunin yrði ekki með neitt yfirþjóðlegt vald eftir að þriðja orkupakkinn hefði verið innleiddur í lög þeirra ríkja sem eru á EES svæðinu. Þvert á móti myndi stofnunin hjálpa til við að samræma markaðina, enda væru orkumarkaðir með það flækjustig að teygja sig yfir landamæri í mörgum tilvikum.Þetta á hins vegar ekki við um Ísland, eins og mál standa nú.
Í fjórða lagi er það reglugerð um aðgang að raforkuneti yfir landamæri. Og í fimmta lagi er það reglugerð um aðgang að jarðgasneti yfir landamæri. Eins og sést af þessum grundvallaratriðum þá varðar þriðji orkupakkinn fyrst og síðast aðstæður eins og þær eru víða í Evrópu, þar sem raforkukerfi þjóða er tengd, og er raunar lagt upp með það inn í framtíðina að tengja þau enn frekar. Meðal annars til að tryggja betri nýtingu á orku og ýta undir vistvænni orkugjafa. Ekki síst af þessum sökum er verið að leggja sæstrengi og byggja upp jarðgasleiðslur. Ísland er með einangrað raforkukerfi, sem ekki er tengt við Evrópu með sæstreng. Í hinum þriðja orkupakka felst ekki neitt framsal á umráðarétti yfir orkuauðlindum landsins eða eignarrétti yfir þeim.
Ísland hefur mikla sérstöðu hvaða orkuauðlindir varðar, en stærstu kaupendur raforkunnar á Íslandi eru álverin í landinu. Þau nota um 80 prósent af raforkunni meðan heimili og önnur fyrirtæki nota afganginn.
Þar á meðal er ítarlegt lögfræðiálit Birgis Tjörva Péturssonar hrl. Þar sem fjallað er um ýmsar hliðar þriðja orkupakkans og hvað það þýði að taka hann upp í íslenskan rétt. Niðurstaða hans er þveröfug við það sem Styrmir hélt fram á fyrrnefndum fundi.
„Athugun á innihaldi þriðja orkupakkans styður ekki sjónarmið um að innleiðing hans fæli í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi að það kalli sérstaklega á endurskoðun EES-samningsins. Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu,“ segir meðal annars í niðurstöðukafla álitis Birgis Tjörva.
Segja má að þessi meiningarmunur innan Sjálfstæðisflokksins kristallist í þeim kynslóðarskiptum sem eru að verða í flokknum og hafa orðið á síðustu árum. Á fundinum í Valhöll áttu eldri karlar í flokknum sviðið, sem á árum áður réðu miklu innan flokksins. Eins og staða mála er nú er ný kynslóð forystufólks - með Þórdísi Kolbrúnu þar á meðal - með aðra sýn á hlutina. Frjálslyndari viðhorf, gagnvart EES samningnum og alþjóðasamvinnu yfir höfuð, eru þar áberandi.
Miðflokkurinn og Framsókn að ná saman?
Í umræðunni um orkupakkann - sem hefur verið áberandi allt frá fyrrnefndum fundi í Valhöll - þá má segja að Miðflokkurinn hafi náð að gera sig verulega gildandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur varað við þriðja orkupakkanum og sagði í viðtali við RÚV óttast að með innleiðingu hans, þá myndi ákvörðun um sæstreng og sölu raforku um hann fara úr höndum Íslendinga. Svipuð sjónarmið hafa heyrst innan úr gamla flokki Sigmundar Davíðs, Framsóknarflokki. Þar hefur miðstjórn flokksins raunar ályktað á þann veg að það eigi að hafna orkupakkanum, og það má segja um einstök félög innan flokksins, eins og til dæmis Framsóknarmenn í Reykjavík hafa gert.
Þrátt fyrir afdráttarlausa afstöðu Þórdísar Kolbrúnar í málinu, þá er málið nú þegar orðið að vandræðamáli fyrir ríkisstjórnina. Hún hefur nú þegar frestað afgreiðslu málsins fram á vor, meðal annars til að taka tillit til gagnrýni sem komið hefur fram.
Eftir heiftug átök virðist vera kominn fram möguleiki fyrir Miðflokkinn og Framsóknarflokkinn til að ná saman, í það minnsta um þetta einstaka mál.
Þessi fræ efasemda um EES-samninginn sem slíkan birtast nokkuð bersýnilega í umræðum um 3. orkupakkann. Þær eru alveg skýrar í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Miðflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn virðist klofinn í málinu, jafnvel þó ráðherra málaflokksins, sem jafnframt er varaformaður flokksins, tali með skýrum hætti gegn þeim efasemdaröddum sem komið hafa fram. Ekki virðist það duga til að eyða efasemdunum.
Skarpar línur
Allt annað er uppi á teningnum hjá frjálslyndari flokkunum á þingi, Samfylkingunni og Viðreisn. Viðhorf þeirra flokka til Evrópusambandsins er þekkt; báðir flokkar hafa verið hlynntir því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru sem mynt, en þeir eru líka báðir hlynntir frekara alþjóðasamstarfi og áframhaldandi viðskiptasambands við Evrópu á grundvelli EES-samningsins.
Vinstri græn eru með meiri efasemdir, en skýr afstaða flokksins til 3. orkupakkans liggur ekki fyrir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður flokksins, lét þó hafa eftir sér að mikið af rangfærslum hafi fengið að stýra umræðunni um orkupakkann, og að það kunni aldrei góðri lukku að stýra.
Innan Vinstri grænna er sú afstaða nokkuð almenn - eins og stefna flokksins hefur lengi verið - að best sé fyrir Ísland að standa fyrir utan Evrópusambandið. Innan flokksins hafa einnig lengi verið uppi efasemdir um EES-samninginn og nauðsynlegt sé að endurskoða hann. Má segja að afstaða flokksins til þessa mál sé að mörgu leyti óskýr, sökum þessa.
Þó sumir noti stór orð um þriðja orkupakkann - ýmist til að gera lítið úr málinu eða að það sé háalvarlegt og varði fullveldi þjóðarinnar - þá sýnir það öðru fremur að nokkuð skýrar línur hafa verið dregnar í sandinn í málinu. Annars eru það þeir sem hafa efasemdir um EES-samninginn, og það sem tekið er upp í íslensk lög á grundvelli hans, og síðan þeir sem telja samninginn vera afar mikilvægan efnahag landsins. Og sé þannig í raun frekar til þess fallinn að styrkja fullveldi og sjálfstæði landsins frekar en hitt.
Líklegt verður að teljast að umræðan um orkupakkann eigi eftir að vinda enn meira upp á sig eftir því sem líður á þennan þingvetur. Undirliggjandi er síðan stefnumörkun í orkumálum almennt og þá hvort Íslandi eigi að tengjast umheiminum með sæstreng eða ekki. Deildar meiningar eru um það á vettvangi stjórnmálanna, og má segja að línurnar skerist með svipuðum hætti og í málunum sem tengjast þriðja orkupakkanum. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur látið hafa eftir sér að sala raforku um sæstreng til Bretlands gæti verið stærsta viðskiptatækifæri sem komið hafi upp á Íslandi nokkru sinni, en það sé stjórnmálamanna að ákveða hvað sé skynsamlegast að gera.
Íhlutun frá Noregi?
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og nú formaður EES-nefndar stjórnvalda, hefur tjáð sig mikið um 3. orkupakkann og segir gagnrýni á málið vera á misskilningi byggða. Hann hefur sagt að það sé verið að þyrla upp ryki um málið að óþörfu, og að það sé í eðlilegum farvegi eins og það sé nú. Í færslu á vefsíðu sinni fyrr í mánuðinum sagði hann meðal annars að íhlutun að utan ætti sinn þátt í því að umræðan um orkupakkann hefur orðið jafnheiftúðug og raun ber vitni.
Beindi hann þar spjótunum að Noregi og umræðunni þar í landi um orkumál.Orðrétt sagði Björn: „Áhugamenn um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi ættu að grandskoða umræðurnar um aðild Íslands að þeim þætti EES-samstarfsins sem snýr að orkumálum. Af þeim sést að samhengi hlutanna getur rofnað vegna íhlutunar að utan. Áhugamenn um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi ættu að grandskoða umræðurnar um aðild Íslands að þeim þætti EES-samstarfsins sem snýr að orkumálum. Af þeim sést að samhengi hlutanna getur rofnað vegna íhlutunar að utan. Stefnumótun og lagasetning ESB um innri markað raforku var ekki langt komin við lögfestingu EES samningsins 1993. Svonefndur fjórði viðauki hefur á hinn bóginn verið hluti EES-samningsins frá upphafi en hann snýr að orku. Fyrsta raforkutilskipun ESB er frá 19. desember 1996. Frá þeim tíma hefur raforka verið skilgreind eins og hver önnur vara á innri markaði ESB. Þar með kom til sögunnar krafan um að samkeppni væri á þeim markaði eins og öðrum innan EES.
Ítarlega var rætt um þessi mál á alþingi og annars staðar eftir að tilskipunin kom til sögunnar og var hún innleidd hér með raforkulögum nr. 65/2003. Annar orkupakkinn var tekinn inn í EES samninginn 2005. Íslensk stjórnvöld gerðu fyrirvara sem hlutu samþykki á EES-vettvangi. Var annar orkupakkinn innleiddur hér með breytingum á raforkulögum nr. 58/2008. Sérstakt rannsóknarefni er hvort og hvernig þessir fyrirvarar hafa verið nýttir..
ESB innleiddi þriðja orkupakkann árið 2009. Alþingi var kynnt málið árið 2010 og fóru fram viðræður milli embættismanna og þingmanna sem leiddu meðal annars til þess að á EES-vettvangi var árið 2017 fallist á svonefnda tveggja stoða lausn gagnvart EFTA/EES-ríkjunum: Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er slíkrar lausnar krafist vegna skilyrða sem sett voru strax árið 1993 í nafni fullveldis. Sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun árið 2017 um að innleiða ætti þriðja orkupakkann í EES-samninginn. Það verður gert eftir samþykki alþingis. Heitar umræður urðu um málið í Noregi og beittu andstæðingar EES-samstarfsins sér hart í þeim en urðu undir og stórþingið samþykkti aðild Norðmanna. Eftir það sneru minnihlutamenn, andstæðingar EES-samstarfsins, sér að Íslendingum og snemma árs 2018 urðu allt í einu umræður hér um stórkostlega hættu af þessum þriðja orkupakka. Var landsfundur sjálfstæðismanna í mars 2018 „tekinn í bólinu“ eins og sést af ályktun fundarins sem sögð er snúast um 3. orkupakkann en gerir það ekki þegar efni hans er skoðað. Hér gætir þess sama og í Noregi að taka skuli EES-samninginn í gíslingu vegna þessa máls.“
Lestu meira:
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
3. janúar 2023Orku- og veitumál í brennidepli
-
30. desember 2022Austurland 2022: Miklar fórnir fyrir stóra vinninga?
-
19. desember 2022Nær öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins lokað vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun
-
17. desember 2022Samgöngur á landi – í hinu stóra samhengi orku- og auðlindadrifins skattkerfis
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind
-
13. desember 2022Spá stökkbreyttu orkulandslagi á allra næstu árum
-
8. desember 2022Hver ekinn kílómetri á rafbíl kosti sex krónur í stað annarra gjalda
-
8. desember 2022Fallið vindmastur Orkuveitu Reykjavíkur