Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör, seldu hlutabréf í Bakkavör Group sem voru í eigu íslensks félags þeirra, Korks Invest, til aflandsfélagsins Alloa Finance Ltd., skráð til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum og einnig í þeirra eigu, árið 2015. Kaupin voru fjármögnuð með seljendaláni upp á 11 milljarða króna.
Bræðurnir lánuðu því sjálfur sér til að kaupa eign sem þeir þegar áttu, og gátu í kjölfarið bæði bókfært margra milljarða króna söluhagnað og fært hlutabréfin frá íslensku félagi og inn í aflandsfélag. Frá þessu er greint í nýjustu útgáfu Stundarinnar sem kom út síðastliðinn föstudag.
Umrætt félag Alloa Finance hafði áður lánað Korki Invest fimm milljarða króna til að kaupa hlutabréfin á árinu 2012. Korkur Invest hefur ekkert greitt af því láni og gjaldfallnar afborganir eru nú um 1,2 milljarðar króna.
Misstu yfirráð
Um er að ræða fléttu sem á sér rætur í því að bræðurnir vildu, og náðu, aftur yfirráðum yfir Bakkavör, fyrirtækis sem þeir stofnuðu á níunda áratug síðustu aldar. Þeir misstu yfirráð yfir því eftir bankahrunið yfir til helstu kröfuhafa.
Í upphafi árs 2012 var orðið augljóst að forsendur nauðasamninganna myndu ekki halda og á aðalfundi Bakkavarar Group í maí sama ár var samþykkt að breyta kröfum kröfuhafa Bakkavarar Group í hlutafé í breska rekstrarfélagi samstæðunnar, íslenska Bakkavör Group yrði slitið og bræðurnir myndu fá að kaupa fjórðungshlut í breska félaginu og hluthafasamkomulag sem tryggði þeim meirihluta stjórnarmanna í Bakkavör, sem gert hafði verið í aðdraganda nauðasamninga árið 2010, yrði fellt úr gildi.
Fjórðungshlutinn fengu bræðurnir að kaupa á fjóra milljarða króna.
Náðu þeim aftur
Í kjölfar aðalfundarins fóru bræðurnir á fullt í að kaupa hlutafé annarra hluthafa. Þeir virtust vera með mikið fé á milli handanna og fyrir lá að ekki var um að ræða lánsfé frá fjármálastofnunum. Flestir töldu að þarna væru um að ræða það fé sem hollenskt félag þeirra, Bakkabraedur Holdings B.V., sem hélt á eignarhlutum þeirra í Existu og Bakkavör fyrir hrun, hafði greitt þeim í arðgreiðslur á uppgangsárunum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arðgreiðslur allra félaga í eigu Íslendinga á þessum tíma. Alls fékk félagið tæpa níu milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2005 til 2007.
Ágúst og Lýður nýttu sér leið sem Seðlabanki Íslands hafði sett upp til að koma þessu fé aftur til Íslands. Leiðin kallaðist fjárfestingarleið Seðlabankans og virkaði þannig að þeir sem áttu fjármuni utan íslenskrar efnahagslögsögu var boðið að koma með þá peninga hingað til lands og skipta þeim í íslenskar krónur með allt að 20 prósent virðisaukningu. Þeir sem áttu krónurnar, óþolinmóðir aflandskrónueigendur, þurftu að bera tapið af þessum viðskiptum en Seðlabanki Íslands var í hlutverki milligönguaðila. Með þessu gátu t.d. Íslendingar sem höfðu komið fjármunum undan fyrir hrun leyst út allt að 50 prósent gengishagnað, fengið áðurnefnda virðisaukningu í boði Seðlabanka Íslands og nýtt fjármunina í að kaupa eignir á Íslandi á brunaútsölu.
Á meðal ríkustu manna Bretlands
Bakkavararbræður notuðu tvö félög í þessum tilgangi, annars vegar aflandsfélagið Alloa Finance og hins vegar íslenska félagið Kork Invest. Fyrirkomulagið var þannig að Alloa Finance átti Kork Invest og lánaði því síðarnefnd fimm milljarða króna. Korkur hefur aldrei greitt af því láni en notaði það til að kaupa hluti í Bakkavör Group af íslenskum aðilum.
Á árinu 2015 lánaði Korkur Invest síðan móðurfélagi sínu, Alloa Finance, alls 11 milljarða króna til þess að kaupa hlutabréfin af sér. Í Stundinni er vitnað í ársreikning Korks Invest fyrir árið 2015 þar sem segir að „Þann 30. nóvember 2015 seldi félagið alla hluti sína í Bakkavör Group Ltd fyrir 11 milljarða kr. Tekjufærður söluhagnaður af viðskiptunum er færður í rekstrarreikning félagsins að fjárhæð 7,3 milljarða kr., kaupandi var Alloa Finance Ltd., móðurfélag Korks Invest ehf. Söluverð nam GBP 55.424.594 og var söluandvirði greitt með láni frá seljanda. Lánið ber 5% vexti sem eru reiknaðir skv. 30/360 daga reiknireglu, gjalddagi lánsins er 1. desember 2020 en lántaka er heimilt að greiða lánið fyrir gjalddaga.“
Ágúst og Lýður náðu á endanum fullum yfirráðum yfir Bakkavör Group að nýju. Síðan þá hefur virði fyrirtækisins margfaldast og eignir þeirra voru metnar á 700 milljónir punda, um 111 milljarða króna, um síðustu áramót. Það skilaði þeim í 197. sæti yfir ríkustu íbúa Bretlands, samkvæmt árlegum lista Sunday Times.
Í nýrri bók, Kaupthinking - Bankinn sem átti sig sjálfur, kemur fram að íslensk yfirvöld telja bræðurna hafa verið endanlega eigendur félagsins Dekhill Advisors Limited, aflandsfélags skráð til heimilis á Tortóla-eyju, sem hagnaðist um 5,8 milljarða króna á núvirði á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á Búnaðarbankanum í janúar 2003.