Eina leiðin til að bjarga WOW air
WOW air hefur sagt upp hundruð starfsmanna, hættir að fljúga til Indlands og Los Angeles og mun hafa fækkað vélum sínum úr 24 í 11 á mjög skömmum tíma. Forstjórinn viðurkennir að rangar ákvarðanir í rekstri séu ástæða stöðunnar. Áður hafði félagið sagt að skaðleg umfjöllun og erfiðar ytri aðstæður væru meginástæða stöðunnar.
„Í stuttu máli misstum við einbeitinguna og byrjuðum að hegða okkur eins og hefðbundið flugfélag. Þessi mistök hafa næstum því kostað okkur fyrirtækið þar sem tapið árið 2018 hefur stigmagnast undanfarna mánuði vegna slæmrar fjárhagslegrar afkomu. Það er afar mikilvægt að taka fram að ég kenni engum nema sjálfum mér um þessi mistök.“
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tölvupósti sem Skúli Mogensen, forstjóri, stofnandi og eigandi WOW air, sendi á starfsfólk sitt fyrr í dag. Þetta er annar tónn en hefur verið í yfirlýsingum Skúla og WOW air undanfarið. Í fréttatilkynningu vegna níu mánaða uppgjörs félagsins kom fram að rekstrinum kom fram að skaðleg umfjöllun í kringum, og í tengslum við, skuldabréfaútboð WOW air í september hefði haft mikið að segja um stöðuna ásamt erfiðum ytri aðstæðum. Nú segir Skúli að rangar ákvarðanir stjórnenda ráði þar mestu um.
Ástæður þess að Skúli sendi póstinn er ákvörðun um að draga starfsemi félagsins verulega saman. Vélum hefur nú fækkað úr 24 í ellefu á mjög skömmum tíma, áfangastöðum fækkað og hundruð manns munu missa vinnuna. Þar ef eru 111 fastráðnir starfsmenn auk hlutastarfsmanna og verktaka. Talið er að heildarfjöldi þeirra sem missi vinnuna séu um 350 talsins. Starfsmenn WOW air eftir endurskipulagninguna verða um eitt þúsund talsins.
Í póstinum rekur Skúli þær ákvarðanir sem WOW air tók sem orsakað hafa þá stöðu sem er uppi. Þær helstu eru, að mati Skúla, að flækja reksturinn með því að bæta við breiðþotum og bæta við Premium- og Comfy- vörum sem hafi verið fjarri upprunalegri hugsjón hans um ofurlágfargjaldarfélag.
Legið í loftinu mánuðum saman
Það hefur legið í loftinu að gripið yrði til drastískra aðgerða hjá WOW air um nokkurra mánaða skeið. Eftir margra ára sigurför, þar sem WOW air óx á ógnarhraða ár frá ári, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir íslenskt efnahagslíf, varð þeim sem til þekkja, eða þurfa að hafa eftirlit með starfseminni, ljóst fyrir um ári síðan að fjárhagsstaðan var í besta falli viðkvæm. WOW air átti einfaldlega ekki laust fé til að takast á við sveiflur í rekstri sínum og hækkanir á heimsmarkaðsverð á olíu, hærri launakostnaðar vegna gengis krónunnar, og hörð samkeppni sem hélt verði niðri unnu saman að því að gera stöðuna enn verri.
Félagið réðst í skuldabréfaútboð sem áttu að klárast í ágúst. Þegar skilmálar þess útboðs voru birtir af íslenskum fjölmiðlum, meðal annars Kjarnanum, var fjárhagsstaða WOW air í fyrsta sinn opinberuð að hluta. Fram að þeim tíma hafði félagið, sem er ekki skráð á markað og lýtur því ekki sömu skyldum varðandi upplýsingagjöf og t.d. Icelandair, getað valið þær upplýsingar sem birtar voru hverju sinni. Líkt og oft vill verða í þannig tilfellum voru jákvæðu upplýsingarnar, sem snérust t.d. um vöxt í fjölda farþega, ofan á þegar sendar voru út fréttatilkynningar. Þann 17. september birtist svo viðtal við Skúla í Financial Times þar sem hann sagðist ætla að skrá félagið á markað og selja helming innan við helming þess í gegnum slíkt hlutafjárútboð fyrir allt að 33 milljarða króna. Daginn eftir var tilkynnt um að
skuldabréfaútboðinu væri lokið. Niðurstaðan var þess eðlis að fáir höfðu trú á að það myndi duga til að bjarga WOW air.
Skúli keypti sjálfur í útboðinu
Alls kyns fyrirvarar voru settir inn í endanlega skilmála sem fólu meðal annars í sér að WOW air þyrfti að standast regluleg álagspróf sem þurftu að sýna að eigið fé félagsins ekki lægra en 25 milljónir dala fyrstu tólf mánuðina eftir útgáfuna og 30-35 milljónir dala eftir það. Auk þess kom fram að vaxtagreiðslum sem féllu til vegna skuldabréfaútboðsins yrðu færðar á fjárvörslureikning. Og vextirnir sem WOW air samþykkti að greiða voru hærri en vextir í útboðum annarra evrópska flugfélaga sem farið hafa fram á undanförnum árum, eða um níu prósent ofan á þriggja mánaða Euribor vexti.
Það kom enda síðar á daginn að eftirspurnin eftir þátttöku í útboðinu, sem átti að skila um 60 milljónum evra í hús, var ekki eins og látið hafði verið með hana. Skúli Mogensen keypti meðal annars sjálfur í útgáfunni fyrir um 770 milljónir króna.
Icelandair ætlaði að kaupa en hætti svo við
Fyrstu helgina í nóvember var vandinn orðinn þannig að ekki var við unað. Skúli Mogensen leitaði til helsta keppinautarins, Icelandair, og bað þá um að kaupa WOW air. Kaupsamningur, með fjölmörgum fyrirvörum, var undirritaður 5. nóvember. Uppgefið kaupverð, sem átti að greiða með hlutum í Icelandair, var um tveir milljarðar króna miðað gengi Icelandair þegar tilkynnt var um kaupin. Það gat þó lækkað ef áreiðanleikakönnun sýndi aðra stöðu en gengið var út frá, sem varð niðurstaðan.
29. nóvember var birt tilkynning um að Icelandair væri hætt við kaupin. Greiningar og áreiðanleikakannanir sem Icelandair hafði látið framkvæma vegna fyrirhugaðra kaupa á WOW air höfðu einfaldlega leitt í ljós að viðskiptin stóðust ekki þær forsendur sem gerðar voru við undirritun kaupsamningsins.
Helstu forsendur kaupsamnings Icelandair WOW air voru þær að samkomulag myndi nást við leigusala WOW air, að staðfesting myndi fást á því að forgangsréttur flugmanna myndi ekki eiga við um flugmenn WOW air og að samkomulag myndi nást við skuldabréfaeigendur WOW air. Ekkert af þessu var leitt til lykta áður en að ákveðið var að hætta við kaupin. Þá var sérstakur fyrirvari um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, sem Deloitte og Logs framkvæmdu. Það grunnmat liggur fyrir en er trúnaðarmál en í kynningunni segir að „fyrstu niðurstöður gáfu til kynna meiri fjárþörf en gert var ráð fyrir auk annarra atriða.“
Mikið tap og hliðarviðræður við annan fjárfesti
Ljóst var að áhyggjur voru þegar farnar látnar á sér kræla á meðal þeirra sem áttu í viðskiptum við WOW air áður en tilkynnt var um að kaupin myndu ekki ganga eftir. Félagið þurfti til að mynda að skila fjórum Airbus vélum til leigusala sinna nokkrum dögum áður. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var það skýrt merki um að ótti var til staðar við það að WOW air myndi fara í greiðsluþrot sem gæti leitt til þess að flugvellir gætu kyrrsett vélar félagsins vegna vangoldinna lendingargjalda.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala nú, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Sama dag og Icelandair hætti við kaupin þá var tilkynnt um að bandaríska félagið Indigo Partners hefði náð samkomulagi um fjárfestingu í WOW air. Sú tilkynning kom verulega á óvart, sérstaklega vegna þess að eina leiðin sem var til staðar til að fá samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir samruna Icelandair og WOW air var sú að þau kaup þyrftu að vera eini möguleikinn í stöðunni. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans fóru viðræður við eftirlitið fram á þeim grundvelli að WOW air væri fyrirtæki á fallandi fæti.
Því vakti það furðu þegar Skúli Mogensen greindi frá því að hann hefði verið í viðræðum við annan fjársterkan aðila um fjárfestingu í WOW air samhliða viðræðum við Icelandair.
Flotinn nú tæplega helmingur af því sem hann var
Fyrr í vikunni greindi Samuel Engel, pistlahöfundur Forbes á sviði flugmála, frá því að líklegt yrði að Indigo Partners, sem myndi alltaf verða ráðandi aðili í eignarhaldi WOW air ef það fjárfesti í félaginu, myndi beita sér með þeim hætti að WOW air myndi leggja niður kostnaðarsöm flug og hagræða mikið í rekstri, meðal annars með því að vera með starfsfólk sem er með lág laun.
Í pistlinum nefndi hann að sýnin sem Bill Franke, hinn 81 árs gamli stofnandi og helsti eigandi Indigo Partners, sé með sé sú að skera niður kostnað eins og hægt er, vera með hagkvæman flugvélaflota, og vera síðan með góða samlegð í rekstrinum. Þetta hafi verið gert með Wizz Air og Frontier, með góðum árangri.
WOW air gæti þar með endað sem sýndarflugfélag, þ.e. flugfélag sem selji miða í gegnum gott vörumerki en síðan séu önur félög sem fljúgi flugvélunum á áfangastaði.
Segja má að hluti af þessari spá Engel hafi ræst í dag þegar WOW air tilkynnti um að vélum félagsins muni fækka enn frekar, og verði í nánustu framtíð ellefu eftir að hafa verið 24 fyrir nokkrum vikum síðan. Fjöldauppsagnir eru þegar hafnar og hætt hefur verið við kostnaðarsöm flug, meðal annars til Indlands, en jómfrúarferð WOW air þangað var farin um síðustu helgi. Samkvæmt tilkynningu verður síðasta flug frá Nýju Delí 20. janúar næstkomandi og frá Los Angeles í Bandaríkjunum 14. janúar 2019.
Í tölvupósti Skúla Mogensen til starfsmanna sem sendur var fyrr í dag segir að nú muni WOW air snúa aftur til róta sinna og einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni sem hafi reynst vel fram til ársins 2017. Flækjur á rekstrinum síðan séu orsök þeirrar stöðu sem nú er uppi. „Þetta er ákaflega sársaukafullur lærdómur vegna þess að á sama tíma höfum við byggt upp eitthvað einstakt með Wow air og þó að þetta krefjist þess að við tökum eitt erfitt skref aftur á bak til skamms tíma litið er ég sannfærður um að það geri okkur kleift að taka tvö skref áfram til lengri tíma litið og tryggi að Wow air dafni til framtíðar.
Að þeim líkindum að við fáum Indigo Partners sem fjárfesti vil ég hverfa aftur til upphaflegrar hugsjónar okkar og sýna fram á að við getum sannarlega byggt upp frábært lágfargjaldafélag á lengri leiðum.“