Ákvæði í frumvarpi um breytingar á lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru, sem átti að heimila mönnum sem hefðu framið alvarleg lögbrot að verða sjálfkrafa hæfir til að sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins fimm til tíu árum eftir að þeir voru dæmdir, var fjarlægt fellt út áður en frumvarpið var afgreitt sem lög fyrir helgi.
Þess í stað fékk gildandi ákvæði, sem gerir ráð fyrir að sá sem er dæmdur fyrir ýmis tilgreind brot geti aldrei sest í stjórn stofnunarinnar, látið halda sér. Eina breytingin sem gerð er á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eru þau að í stað þess að gerð sé krafa um „óflekkað mannorð“ er nú gerð krafa um „gott orðspor“.
Kjarninn greindi frá því 13. nóvember að í frumvarpi Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um breytingu á lögum vegna afnáms á uppreist æru, sem var þá til umfjöllunar á þingi, væri ákvæði sem liti að breytingu á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Í þeim lögum var fyrir skýrt ákvæði um að stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins skyldu „hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila.“
Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans, kom fram að þessi breyting er varðar fyrrnefnd ákvæði hafi komið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar.
Gæti falið í sér orðsporsáhættu fyrir eftirlitið
Bæði Alþýðusamband Íslands og Fjármálaeftirlitið athugasemdir við þessa breytingu í umsögn sinni um frumvarpið. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins sagði meðal annars að þessi breyting geti falið í sér orðsporsáhættu fyrir eftirlitið. „Fjármálaeftirlitið vill því velta því upp hvort það gæti rýrt traust á slíkum ákvörðunum stjórnar ef þar sætu menn sem hafa hlotið refsidóm,“ segir í umsögninni.
Alþýðusambandið sagði þessa lagabreytingu ekki vera í neinu samræmi við aðrar lagabreytingar sem lagðar eru fram í frumvarpinu. Tillögur dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um almennar íbúðir og lögum um kauphallir gera ráð fyrir því að krafan um óflekkað mannorð sé fjarlægð „en tiltekin brot útiloka áfram frá hæfi. Skýring á því hvers vegna dregið er úr hæfi manna til þess að stýra Fjármálaeftirlitinu er ekki rökstudd í greinargerð.“
Ákvæðið fellt út
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar, sem samanstóð reyndar af fulltrúum allra flokka á þingi, felldi þessar breytingar út með breytingartillögu sem lögð var fram milli annarrar og þriðju umræðu um frumvarpið.