Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins , telur að ekki sé þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Hann greindi formönnum þingflokkanna frá því á nefndarfundi um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í október síðastliðnum. Sú skoðun hans er á skjön við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og áætlun formannanefndar um stjórnarskrármál.
Í febrúar á þessu ári skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nefnd um stjórnarskrármál sem skipuð er öllum formönnum þingflokkanna. Markmið nefndarinnar er að leggjast í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Á sjöunda fundi nefndarinnar, þann 8. október síðastliðinn, tilkynnti Bjarni nefndinni að hann vildi láta færa til bókar að hann telji þess ekki þörf að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni heldur vinna áfram með helstu ákvæði, auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði.
Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem birt var þann 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og að nefnd um málið muni hefja störf í upphafi nýs þings. „Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“
Áætlunin metnaðarfull og felur í sér skuldbindingu um heildarskoðun
Í minnisblaði frá 22. janúar 2018, sem stílað er á formenn allra flokka sem eiga sæti á Alþingi, segir Katrín Jakobsdóttir frá fyrirhugaðri endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í minnisblaðinu segir að í ljósi þess að ríkisstjórnin setti í stjórnarsáttmála sinn að hún vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar þá leggi forsætisráðherra til ferli sem byggist á því að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili.
Lagt er til í minnisblaðinu að allir formenn flokkanna vinni sameiginlega að því að fara skipulega og heildstætt yfir stjórnarskrá lýðveldisins. Að endurskoðunin skuli hafa hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem lögð hafi verið í endurskoðun á undanförnum árum, samanber þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda 2005 til 2007 og 2013 til 2016. Með það fyrir augum gæti nefndin unnið að breytingartillögum sem lagðar yrðu fyrir Alþingi hverju sinni í breiðri sátt að undangengnu víðtæku samráði.
„Markmiðið er að þegar þessari heildstæðu yfirferð er lokið endurspegli íslenska stjórnarskráin sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð, “ segir Katrín í minnisblaðinu.
Jafnframt segir í minnisblaðinu að sú áætlun sem þar sé lögð fram sé metnaðarfull og felur í sér skuldbindingu um heildarendurskoðun á afmörkuðu tímabili. Forsætisráðherra leggur til að endurskoðunin verði áfangaskipt og að á tímabilinu 2018 til 2021 verða tekin fyrir ákveðin viðfangsefni, þar á meðal þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings og fleira.
Fyrsti fundur um stjórnarskrármál
Þann 23. febrúar hittust allir formenn þingflokkana á fyrsta formlega fundinum um stjórnarskrármál. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir hönd Vinstri Grænna, Inga Sæland fyrir Flokk fólksins, Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir Framsóknarflokkinn, Bergþór Ólason fyrir hönd Miðflokkinn vegna forfalla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Helgi Hrafn Gunnarsson fyrir Pírata en hann tók setu á þessum fundum fyrir hönd Pírata en engin formaður hjá þeim. Logi Einarsson fyrir Samfylkinguna, Bjarni Benediktsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir Viðreisn.
Katrín Jakobsdóttir setti fundinn og lagði fram ofangreint minnisblað um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár með nokkrum breytingum og óskaði eftir viðbrögðum við því hvort fundarmenn séu sáttir við það upplegg sem fram komi í minnisblaðinu. Nefndarmenn gerðu nokkrar athugasemdir um röð málefna, hlutverk sérfræðinganefndar og lengd endurskoðunarinnar. Engin athugasemd var gerð um stefnu nefndarinnar.
Sérstaklega tekið fram að um er að ræða heildarendurskoðun
Þann 21. september síðastliðinn hittist nefndin í sjötta sinn og forsætisráðherra segist vonast eftir því að eftir að sérfræðingar fari yfir tillögur nefndarinnar um breytingar á ákvæðum umhvefismál og auðlindamál þá verði þær sendar út til samráðs í nóvember eða desember. Síðar megi svo sameina þær í eitt frumvarp. Enn fremur kemur fram í fundargerð sjötta fundar að forsætisráðherra vilji að leitast verði eftir að ná sem breiðustu samstöðu um tillögur sem koma frá formönnunum áður en gengið verður frá þeim til framlagningar á Alþingi.
Á þeim fundi tekur Helgi Hrafn, fulltrúi Pírata á fundinum, fram í annað sinn á sex fundum að forsenda hans fyrir þátttöku í nefndinni sé að um sé að ræða heildarendurskoðun á stjórnarskránni þótt vinnan fari þannig fram að afmörkuð efni séu skoðuð hvert á fætur öðru.
Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við upplegg forsætisráðherra nema formaður Viðreisnar bendir á mikilvægi þess að fjallað sé um framsal ríkisvalds á þessu kjörtímabili.
Fjármálaráðherra telur ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar
Á næsta fundi þann áttunda október, sem jafnframt er sjöundi fundur formanna þingflokkana, mæta allir formennirnir og síðasta fundargerð er samþykkt án athugasemda. Í fundargerðinni frá 8. október kemur fram að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, vilji láta færa til bókar að ekki sé þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Hann geri það í tilefni af öðrum bókunum sem fram hafi komið á undanförnum fundum.
Í fundargerðinni segir að Bjarni telji að ekki sé þörf fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar heldur sé ráð að vinna áfram með þessi helstu ákvæði, auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. „Hann beri samt virðingu fyrir að menn sjái þetta með mismunandi hætti en hann telji að hópurinn sé kominn á kaf í umræðu um atriði sem séu fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða,“ segir Bjarni.
Það sem af er ári hafa verið birtar fundargerðir frá sjö stjórnarskráarfundum, síðasta birta fundargerðin er sú sjöunda en hún var birt þann 8. október 2018. Fjármálaráðherra mætti á alla sjö fundi nefndarinnar en í fundargerðunum má sjá að þetta er í fyrsta skipti á sjö fundum sem Bjarni lætur færa til bókar að hann telji ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.
Á sama fundi tekur Helgi Hrafn það fram í þriðja sinn að forsenda hans fyrir þátttöku sé að um sé að ræða heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem grundvölluð sé á fyrri vinnu, þ.á.m. frumvarpi stjórnlagaráðs.
Meirihluti Íslendinga telur það mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá
Meirihluti landsmanna telur það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili, samkvæmt könnun MMR í október síðastliðnum. Alls sögðu 34 prósent aðspurðra það vera mjög mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá og 18 prósent kváðu það frekar mikilvægt. Í heildina telja því 52 prósent það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá. Nítján prósent sögðu það hvorki mikilvægt né lítilvægt, 11 prósent frekar lítilvægt og 18 prósent mjög lítilvægt.
Stuðningsfólk Pírata reyndist líklegast til að segja það mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili eð um 90 prósent. Stuðningsmenn Flokks fólksins og Samfylkingarinnar töldu það einnig mjög mikilvægt eða 85 prósent og 83 prósent. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks reyndist hins vegar líklegast til að segja það lítilvægt eða 66 prósent. Meirihluti stuðningsmanna Miðflokksins töldu það einnig lítilvægt eða um 60 prósent og 41 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins.