Þessa dagana stendur yfir fjölmenn viðskiptaráðstefna í Ahmedabad í Gujarat héraði á Indlandi. Þátttakendur eru fleiri en þrjátíu þúsund frá fimmtán ,,mikilvægum“ viðskiptalöndum Indverja og löndum sem Indverjar vilja efla viðskipti við. Danir höfðu um tíu ára skeið verið útilokaðir frá slíkum ráðstefnum á Indlandi og í raun nær öllum viðskiptum við þessa næst fjölmennustu þjóð heims. Að baki þeirri ákvörðun lágu sérstakar ástæður.
Fimm tonn af vopnum
Skömmu fyrir jól árið 1995 flaug rússnesk/úkraínsk flugvél yfir Vestur- Bengal á Indlandi. Um borð voru sjö manns, breskur vopnasali, fimm Lettar og einn maður til viðbótar ásamt fimm tonnum af vopnum. Vopnin, sem mennirnir köstuðu úr vélinni yfir Vestur- Bengal, voru ætluð uppreisnarmönnum. Indverskar herþotur neyddu vélina til að lenda, sex menn voru handteknir, og hlutu þunga dóma, en sá sjöundi komst undan. Einu upplýsingarnar sem Indverjar höfðu um þann mann voru þær að hann gengi undir nafninu Kim Davy, og indversku lögreglunni tókst ekki að hafa uppi á honum þrátt fyrir mikla vinnu.
Kim Davy var Niels Holck og líka Niels Christian Nielsen.
Árið 2002 sendi danska sjónvarpsstöðin TV2 út sjónvarpsþáttinn ,,Vopnasmyglarinn“ sem vakti mikla athygli. Í þættinum var rakin saga Kim Davy, eða réttara sagt Niels Holck en það er hið rétta nafn mannsins sem verið hafði um borð í flugvélinni sem flutti vopnin til Vestur- Bengal en sloppið hafði undan indversku lögreglunni. Hann hafði komist til Danmerkur skömmu síðar og búið þar síðan, alla tíð undir fölsku nafni, Niels Christian Nielsen. Danir könnuðust reyndar vel við þennan mann, í Danmörku gekk hann nefnilega, af sérstökum ástæðum undir nafninu ,,berfætti ræninginn“.
Indversk stjórnvöld biðu ekki boðanna, höfðu strax samband við dönsk dómsmálayfirvöld með það fyrir augum að fá Niels Holck framseldan til að geta réttað yfir honum vegna vopnamálsins. Enginn samningur um framsal var hinsvegar í gildi milli Indlands og Danmerkur og þess vegna varð ekkert úr slíku framsali. Indverjar undu þessu illa, fóru í viðskiptafýlu (eins og einn danskur fjölmiðill orðaði það) og drógu mjög úr viðskiptum sínum við Dani.
Breytt löggjöf og framsalsbeiðnir
Eftir hryðjuverkin 11. september 2001 var lögum um framsal danskra ríkisborgara til landa utan Evrópusambandsins breytt og framsal heimilt væru viðkomandi grunaðir um hryðjuverk eða alvarleg afbrot. Sex árum síðar, árið 2007 lögðu Indverjar fram beiðni um framsal, Niels Holck fór í felur en var handtekinn árið 2010. Bæjarréttur í Hillerød, þar sem Niels Holck bjó úrskurðaði að hann skyldi ekki framseldur og Eystri-Landsréttur staðfesti þann dóm. Árið 2012 tilkynnti Niels Holck að hann væri tilbúinn að mæta til yfirheyrslu indverskra stjórnvalda, með því skilyrði að þær yfirheyrslur færu fram utan Indlands. Þeirri kröfu höfnuðu Indverjar og viðskipti Danmerkur og Indlands minnkuðu enn frekar.
Árið 2016 kröfðust indversk stjórnvöld enn á ný framsals Niels Holck. Danski dómsmálaráðherrann fyrirskipaði ríkislögmanni að kanna möguleikana á framsali. Ganga þannig gegn niðurstöðu dómstóla en fjölmiðlar og andstæðingar á þingi sökuðu ráðherrann um undirlægjuhátt. Athugun ríkislögmanns stendur, formlega séð, enn.
Nýtt hljóð í strokkinn
Þótt ekkert yrði af framsali Niels Holck árið 2016 og framsalskrafan stæði ennþá formlega séð, sneru Indverjar við blaðinu. Hægt og rólega. Viðsnúningurinn byrjaði með heimsókn ungs og tiltölulega reynslulítils dansks ráðherra til indversks aðstoðarráðherra. Í desember í fyrra hittust þeir Anders Samuelsen utanríkisráðherra Danmerkur og Sushma Swaraj utanríkisráðherra Indlands, í Nýju- Delí. Að sögn danska utanríkisráðherrans ríkti vingjarnlegt andrúmsloft á fundum þeirra. Heimkominn lýsti Anders Samuelsen fundunum þannig að ,,ísinn væri brotinn í samskiptum landanna“.
Lars Løkke Rasmussen á Indlandi
Síðastliðinn föstudag (18.1. 2019) kom danski forsætisráðherrann til Ahmedabad í héraðinu Gujarat. Ahmedabad er fæðingarbær Narendra Modi forsætisráðherra Indlands, sem tók þar á móti Lars Løkke Rasmussen. Heimsókn danska forsætisráðherrans er ekki það sem kallast ,,opinber heimsókn“, slík heimsókn hefði hafist í höfuðborginni Nýju-Delí. Lars Løkke Rasmussen sagði við fréttamenn, að fundi loknum, að nú hefði stórt skref verið stigið í bættum samskiptum ríkjanna. Anders Samuelsen utanríkisráðherra sagði að Indverjar hefðu nú (þótt þeir segðu það ekki berum orðum) fallist á að krafan um framsal Niels Holck og viðskiptahagsmunir væru aðskilin málefni.
Gríðarlegir viðskiptahagsmunir
Í viðtali við DR, danska sjónvarpið, sagði Lars Løkke Rasmussen að fyrir Dani væri mikið í húfi. Á síðasta ári hefði útflutningur Dana til Indlands numið 3 milljörðum danskra króna (55 milljörðum íslenskum) en til Kína hinsvegar rúmum 60 milljörðum (1200 milljörðum íslenskum). ,,Ég las einhversstaðar að Holck málið hefði lítil áhrif haft á viðskipti Danmerkur og Indlands, en tölur sýna að það passar ekki“ sagði danski forsætisráðherrann. Lars Løkke Rasmussen nefndi einnig að hvergi í heiminum væri hagvöxtur meiri en á Indlandi, hefði verið 7% í fyrra og því væri spáð að árið 2030 yrði indverska hagkerfið hið stærsta í heiminum. Og Indverjum fjölgi ört. Svo ört að eftir þrjú til fimm ár verði þeir orðnir fjölmennasta þjóð heims. Þegar spurt var í hverju aukin viðskipti gætu einkum falist nefndi ráðherrann lausnir á sviði loftslagsmála, raforkuframleiðslu með vindorku, lyfjaútflutning og tækni á sviði landbúnaðar.
Meðan á heimsókn danska forsætisráðherrans stendur opnar hann formlega nýja sendiráðsbyggingu Danmerkur í Nýju- Delí og sömuleiðis nýja menningarstofnun Danmerkur í borginni.
Áður en Lars Løkke Rasmussen hélt af stað til Indlands hvöttu talsmenn mannréttindasamtaka og nokkrir þingmenn hann til að ræða mannréttindamál við forsætisráðherra Indlands. Þau mál voru lítillega rædd á fundi ráðherranna en fréttamaður DR, danska sjónvarpsins, sem staddur er á Indlandi sagði í sjónvarpsfréttum að ,,þeim sem maður vill vingast við strýkur maður ekki öfugt“.
Í lokin má geta þess að á vef Kjarnans má finna grein þar sem ítarlegar er fjallað um Niels Holck. Greinin heitir ,,Eins og að hafa ömmu sem lífvörð“.