Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um þungunarrof. Í frumvarpi Svandísar er lagt til að þungunarrof verði leyft fram að 22. viku meðgöngu og að einstaklingar þurfi ekki að gefa upp neinar ástæður fyrir þungunarrofinu. Í greinargerð frumvarpsins segir að ef frumvarpið verði að lögum sé um mikla breytingu að ræða sem ætluð er að tryggja konum sjálfsforræði yfir eigin líkama og eigin framtíð hvað barneignir varðar þannig að þær hafi öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu óski þær eftir þungunarrofi.
Þungunarrof og heimildir til þess hafa ætíð valdið deilum, bæði hér á landi og erlendis og frumvarp Svandísar er þar engin undanantekning. Sendar hafa verð inn yfir 100 umsagnir um frumvarpið, yfir 50 umsagnir voru sendar inn í samráðsgáttina á síðasta ári og nú hafa verið sendar inn aðrar 50 eftir að frumvarpið fór í umsagnarferli velferðarnefndar. Í umsögnunum skiptist fólk í tvo hópa þar sem annað hvort er fólk mjög fylgjandi að tímamörkin verði hækkuð eða mjög mótfallið því.
Tímamörkin hækkuð úr 18 vikum í 22 vikur
Síðasta haust lagði velferðarráðuneytið fram drög að frumvarpi um þungunarrof þar sem lagt var til að þungunarrof yrði heimilt fram að lokum 18. viku meðgöngu. Í núgildandi lögum er þungunarrof einungis heimilt til loka sextándu viku nema miklar líkur séu á „vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs“. Frumvarpsdrögin voru birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins og alls bárust 51 umsögn um frumvarpsdrögin.
Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna var eitt þeirra samtaka sem gagnrýndi að í frumvarpsdrögunum væri þungunarrof aðeins heimilt fram að lokum 18. viku þungunar. Var það afstaða félagsins að slíkt væri ekki til þess að auka rétt kvenna heldur þvert á móti væri lagt til að réttur kvenna til þungunarrofs vegna mjög alvarlegra fósturvandamála þar sem fóstur væri lífvænlegt væri takmarkaður miðað við núgildandi lög. Í því samhengi nefndi félagið fósturvandamál eins og vatnshöfuð, klofinn hrygg, litningafrávik og hjartagalla þar sem börn geti lifað af en væru með mjög alvarlega líkamlega eða andlega fötlun. Þá taldi félagið litlu breyta að færa tímamarkið frá 16. viku til loka 18. viku þar sem fátítt væri að sjúkdómar kæmu fram á þessum tveimur vikum.
Landlæknir fagnaði frumvarpinu í umsögn sinni og sagði það vera skref í átt til aukins sjálfsforræðis kvenna. Í umsögn sinni vakti landlæknir athygli á að við samanburð á norrænni tölfræði um þungunarrof væri ekki að sjá að víðari tímarammi hefði haft í för með sér að aðgerðir væru frekar framkvæmdar síðar á meðgöngunni og í því samhengi benti embættið á að árið 2015 hafi hlutfall þungunarrofa sem framkvæmd voru innan 9 vikna verið hærra í Svíþjóð en þar í landi gildir rýmri réttur en annars staðar á Norðurlöndum. Í umsögn landlæknis segir jafnframt að 90 prósent þungunarrofa hefðu verið framkvæmd fyrir lok 12. viku þungunar á öllum Norðurlöndunum..
Mikilvægt fyrir konur í erfiðum aðstæðum
Önnur umsögn, sem barst einnig frá heilbrigðisstarfsmanni, benti á að þær örfáu konur sem sækja um þungunarrof eftir 18. viku án þess að ástæðan sé vegna sjúkdóms fósturs eða móður séu þær konur sem eru í allra verstu félagslegu aðstæðunum. Þar á meðal konur í fíkniefnaneyslu, konur sem búa við hótanir um ofbeldi, fórnarlömb mögulegra heiðursglæpa, fórnarlömb mansals, fórnarlömb nauðgana eða fatlaðar konur, auk stúlkna undir 16 ára aldri.
Í umsögninni var fjallað um að þetta væru konur sem ekki hefðu sömu getu og félagslega sterkari einstaklingar til að átta sig á að um þungun væri að ræða og hefðu takmarkaða möguleika á að leita hjálpar til að rjúfa þungun vegna sinna félagslegu aðstæðna. Í umsögninni kom fram að það væri fagleg skoðun viðkomandi að þessi hópur væri í mestri þörf á að fá hjálp við öruggt þungunarrof allt að viku 22, óski þær þess, án takmarkana eða leyfis nefndar.
Í kjölfar fjölda umsagna frá samtökum, stofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum, þar sem kallað var eftir því að þungunarrof yrði gert heimilt að beiðni konu fram að lokum 22. viku þungunar, var tekin ákvörðun um að gera þá breytingu á frumvarpinu að í stað þess að heimila þungunarrof fram að lokum 18.viku þungunar yrði þungunarrofið heimilt að beiðni konu fram að lokum 22. viku þungunar án takmarkana. Í frumvarpinu var því einnig breyt að nú stendur stúlkum sem ekki eru orðnar ólögráða að binda enda á meðgöngu án þess að fá samþykki foreldra eða forsjáraðila.
Færa ákvörðunarvaldið til kvenna
Fyrstu lög Íslands um þungurrof voru sett árið 1935 og voru eftir því sem næst verður komist þau fyrstu í heiminum sem heimiluðu þungunarrof á grundvelli félagslegra aðstæðna. Nú eru hinsvegar tæplega 44 ár síðan núgildandi lög um þungunarof voru samþykkt. Áður en þau lög voru samþykkt árið 1976 hafði verið samið frumvarp með sjálfsákvörðunarrétt kvenna að leiðarljósi en það frumvarp mætti mikilli andstöðu. Í staðinn var skipuð nefnd til að vinna nýtt frumvarp en sú nefnd var skipuð þremur karlmönnum. Í því frumvarpi var dregið talsvert úr heimildum kvenna til að taka sjálfar ákvörðun um þungunarrof og takmarkanir settar fyrir heimildunum, auk þess var vald til ákvarðanatöku var fært að hluta til í hendur tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa.
Í dag þurfa konur rökstudda greinargerð tveggja lækna og félagsráðgjaf áður en þeim er heimilt að fara í þungunarrof. Sú krafa hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár en þetta er talið hindrun fyrir konur og endurspegla vantraust í garð kvenna til að taka umræddar ákvarðanir. Því hefur þessu nú verið breytt í frumvarpi Svandísar og segir i greinargerðinni að meginmarkmið frumvarpsins sé að tryggja konum aukið sjálfsforræði í ákvörðunum um barneignir og færa ákvörðunarvaldið til kvenna innan þeirra heimilda sem lagðar eru til í frumvarpinu.
Í greinargerð frumvarpsins segir að við gerð frumvarpsins hafi einnig verið skoðað hvort að bæta ætti í lögin almennt bann við mismunun á grundvelli kyns og fötlunar vegna sameiginlegrar umsagnar Félags áhugafólks um Downs-heilkenni og Landssamtaka Þroskaþjálfar um tilefni væri til að skoða hvort ekki ætti að setja í lögin almennt bann við mismunun, til dæmis á grundvelli kyns og fötlunar. Niðurstaðan var hins vegar sú að slíkt bann yrði illframkvæmanlegt þar sem lögunum er ætlað að færa sjálfsákvörðunarrétt að fullu til konunnar án þess að í því felist nein krafa um að konan gefi upp þær ástæður sem hún hefur fyrir þeirri ákvörðun sinni að fá þungun sína rofna.
Frumvarpið gagnrýnt fyrir að skipta ekki orðinu kona út fyrir einstaklingur
Gagnrýnt hefur verið að í núverandi frumvarpi sé enn talað um þungaða konu í stað þess að tala um þungaðan einstakling. Í umsögn Landspítala og Félagsráðgjafafélags Íslands var meðal annars vakin athygli á að í samfélaginu væru einstaklingar með æxlunarfæri kvenna sem upplifðu sig ekki sem konur og því væri vert að huga að orðanotkun í lögunum. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að þetta sjónarmið hafi verið tekið til mjög ítarlegrar skoðunar við gerð frumvarps og ákvörðun tekin um að halda orðanotkun óbreyttri frá núgildandi lögum frá 1975 og því er enn fjallað um þungaða konu í frumvarpinu í stað þess að fjalla um þungaðan einstakling.Einnig var vakin athygli á stöðu hælisleitanda í einni umsögninni. Í frumvarpinu segir að heilbrigðisþjónusta skuli vera gjaldfrjáls fyrir allar sjúkratryggðar konur. Hælisleitendur eru aftur á móti ekki allir sjúkratryggðir hér á landi og myndu því ekki allir njóta þeirra réttinda sem lögin fjalla um hvað gjald varðar. Í greinargerð frumvarpsins segir að ákvörðun um breytingar á réttindum hælisleitenda í tengslum við sjúkratryggingar þyki ekki eiga heima innan þessarar löggjafar og því hafi umrædd athugasemd ekki verið tekin til greina við vinnu frumvarpsins.
Tugir umsagnarbeiðna voru sendar á trúfélög
Frumvarpið er nú í umsagnarferli hjá velferðarnefnd eftir að frumvarpið var samþykkt í fyrstu umræðu á Alþingi. Nefndin óskaði eftir umsögnum í desember en frestur til að senda inn umsögn áður en nefndin fjallaði um frumvarpið var til 24. janúar síðastliðins. Yfir 50 umsagnir hafa borist um þetta frumvarp, margar hverjar frá trúarsöfnuðum. Nefndin sendi út 61 umsagnarbeiðnir, þar af voru 37 til lífsskoðunar- og trúfélaga. Umsagnarbeiðnir voru einnig sendar til 12 ríkisstofnana, 7 voru sendar til samtaka launafólks og atvinnulífs og aðeins 5 til almannaheillasamtaka, þar af aðeins ein til samtaka innan kvennahreyfingarinnar, Kvenréttindafélags Íslands.
Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, er ein þeirra sem gagnrýnt hefur að óskað hafi verið eftir umsögnum þrjátíu og fimm trúfélaga um frumvarp um þungunarrof. „Og Kvenréttindafélagið var eina feminíska félagið sem fékk þetta. Hvers vegna lítur Alþingi þannig á að trúfélög séu hagsmunaaðilar í þessu máli? Það eru fyrst og fremst þær manneskjur sem ætla ekki að klára þessa þungun,“ sagði Fríða Rós í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í síðustu viku.
Öll þau trúfélög sem hafa skilað inn umsögn um frumvarp um þungunarrof leggjast gegn því. Ásamt því höfðu áður Kaþólska kirkjan á Íslandi og Samfélag trúaðra lagst gegn frumvarpinu. Vert er að nefna að þegar frumvarpsdrögin voru í samráðsgáttinni var í 16 umsögnum lögð áhersla á að sett yrði bann við þungunarrofi, fyrst og fremst byggt á sjónarmiðum um réttindi fósturs til lífs.
Frumvarpið stórt skref til að tryggja kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama
Kvenréttindafélagið hóf undirskriftasöfnun til að styðja við frumvarpið og skrifuðu 728 manneskjur undir. Umsögnin var svohljóðandi: „Kvenréttindafélag Íslands styður nýtt frumvarp til laga um þungunarrof. Þetta frumvarp er stórt skref í að tryggja kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk. Þessi löggjöf er heillaspor í átt til kvenfrelsis og jafnréttis kynjanna. Við hvetjum Alþingi að samþykkja þetta frumvarp til laga um þungunarrof.“
Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir, kynjafræðingur, voru á sömu skoðun í sinni umsögn en þær skrifuðu bókina Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum. Þær segja það mikils virði að Ísland taki þetta löngu tímabæra skref í átt að kvenfrelsi „á tímum þar sem bakslag gegn kvenfrelsi og takmarkanir á frjósemisréttindum kvenna hafa gert vart við sig víða um heim.“ Þær fagna því sérstaklega að til standi að afnema kröfu um að konur þarfnist leyfi til að binda endi á þungun. „Þar er um mikið framfaraskref að ræða enda eru það grundvallarmannréttindi að ráða yfir líkama sínum og ákveða hvort og hvenær fólk ráðist í barneignir.“Ólína Þorvarðsdóttir, fyrrverandi þingmaður, er hins vegar ekki á sama máli og segir að ef frumvarpið fari óbreytt í gegn sé hætt á því að sú sátt sem hafi verið um fóstureyðingar verði rofin. „Það yrði óbætanlegur skaði fyrir íslensk kvenréttindi og mannréttindi í víðara samhengi,“ segir Ólína. Hún segir að ekki sé með neinu móti hægt að halda því fram að þungunarrof sé réttnefni yfir það sem gerist ef meðganga sé rofin í 22. viku. Ekki sé siðferðislega verjandi að rjúfa meðgöngu svo seint. „Ekki er heldur forsvaranlegt af siðferðilegum ástæðum og með tilliti til tilfinninga og hugsanlegrar lífsafstöðu heilbrigðisstarfsfólks að skylda það til þess að framkvæma slíka aðgerð.“
Telur það mikilvægt að nefndin ákvarði þetta ekki bara út frá tilfinningum fólks
Nú mun velferðarnefnd fara yfir þær 52 umsagnir sem bárust og gera athugasemdir við frumvarpið ef nefndin telur þess þörf. Halldóra Mogensen er framsögumaður málsins og málið er á hennar forræði í nefndinni. Hún sagði að mikilvægt sé að taka ákvarðnir út frá góðum gögnum en ekki út frá tilfinningum fólks í samtali við Fréttablaðið í gær.
„Mér finnst mikilvægt að við tökum ákvarðanir út frá góðum gögnum, að við fáum fagaðila til okkar til að leiðbeina okkur og að við horfum til landa sem hafa verið með rýmri lög um þungunarrof, hvernig gengið hefur þar og tökum það inn í okkar ákvörðun en ákvörðum þetta ekki bara út frá tilfinningum fólks,“ sagði Halldóra.