Fyrir örfáum árum var nafnið Huawei nánast óþekkt á Vesturlöndum. Nú þekkja flestir símana með þessu nafni en Huawei er líka risafyrirtæki í fjarskiptaheiminum. Nokkur lönd hafa lagt bann við að Huawei fái að byggja þar upp fjarskiptanet, af ótta við hugsanlegar njósnir. Danskt fyrirtæki rifti fyrir nokkrum dögum stórum samningi við kínverska fjarskiptarisann.
Á níunda áratug síðustu aldar áttuðu kínversk stjórnvöld sig á því að grípa þyrfti til sérstakra aðgerða ættu Kínverjar að taka þátt í þeirri öru þróun sem þá var að eiga sér stað á fjarskiptamarkaðnum. Stjórnvöld í Beijing horfðu í þessum efnum einkum til samvinnu við erlend fyrirtæki, sem mörg hver voru treg til að deila þekkingu sinni með Kínverjum. Árið 1987 stofnaði maður að nafni Ren Zhengfei fyrirtækið Huawei. Nafnið hefur tvöfalda merkingu, getur þýtt „sterkur leikur“ og „Kína getur“. Ætlun stofnandans var að til yrði kínverskt samskiptafyrirtæki sem stæði erlendum fyrirtækjum fyllilega á sporði. Hann hefur þó líklega ekki grunað að í dag, 32 árum síðar yrði Huawei eitt stærsta fyrirtæki í heiminum á sínu sviði. Starfsmenn eru nú um 170 þúsund og starfsemin í að minnst kosti 175 löndum. Burðarás fyrirtækisins er fjarskiptanet, þjónusta við fyrirtæki og símaframleiðsla. Á tímum örra breytinga í net-og samskiptaheimum hefur Huawei tekist að halda velli, og reyndar gott betur, og er nú meðal þeirra fremstu í þróun nýjunga á því sem nefnt hefur verið næsta kynslóð í þessari tækni, 5G.
Ótti við njósnir
Eins og áður var nefnt teygir starfsemi Huawei sig víða um heim. Breskur hugbúnaðarsérfræðingur sagði í viðtali við BBC, að það væri eiginlega sama hvert litið væri, Huawei væri alls staðar.
Samkvæmt kínverskum lögum ber öllum fyrirtækjum þar í landi skylda til að starfa með yfirvöldum ef þörf krefur, varðandi öryggi landsins eins og það er orðað. Þetta lagaákvæði hefur víða vakið ákveðnar grunsemdir og spurningar vaknað. ,,Er hægt að treysta því að kínversk stjórnvöld seilist ekki í upplýsingar og krefjist þess jafnvel að Huawei fyrirtækið veiti þeim upplýsingar? Stundi beinlínis njósnir.“ Rétt er að nefna að ekkert gefur tilefni til slíkra vangaveltna, annað en þetta lagaákvæði. Liang Hua, stjórnarformaður Huawei, hefur margoft í viðtölum fullyrt að fyrirtækið sé algjörlega sjálfstætt og öllum áhyggjufullum viðskiptavinum sé velkomið að heimsækja þar allar deildir Huawei og skoða rannsóknarstofur og þróunardeildir. „Við höfum engu að leyna, okkar einasta kappsmál er að gera vel, helst betur en allir aðrir.“
Banna Huawei
Fullyrðingar stjórnarformanns Huawei og sú staðreynd að ekkert hefur komið fram sem bendir til að fyrirtækið gangi erinda kínverskra stjórnvalda hafa ekki dugað til að kveða niður óttann við „njósnadrauginn“. Ástralía, Nýja-Sjáland, Kanada, Bandaríkin og Japan hafa lagt bann við að Huawei komi nálægt uppbyggingu og notkun hins nýja háhraðanets 5G. Fleiri lönd íhuga nú slíkt bann, að minnsta kosti að hluta, þar á meðal Þýskaland, Pólland og Frakkland. Breska dreifingarfyrirtækið British Telecom hefur útilokað Huawei frá hluta af sínu dreifikerfi. Ástæðan er alls staðar sú sama, óttinn við að kínversk stjórnvöld fái aðgang að mikilvægum gögnum og upplýsingum.
Fjármálastjórinn handtekinn í Kanada
Í byrjun desember í fyrra (2018) var Wanzhou Meng, fjármálastjóri Huawei handtekin á flugvelli í Kanada. Handtaka var gerð að kröfu bandarískra stjórnvalda sem grunuðu Wanzhou Meng (sem er dóttir stofnanda Huawei) um að hafa tekið þátt í að brjóta viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Íran. Hún var síðar látin laus gegn hárri tryggingu og gert að dvelja í Kanada, og bera ökklaband, en bandarísk stjórnvöld hafa frest til 30. Janúar nk. til að leggja fram framsalsbeiðni. Handtakan hefur valdið mikilli reiði stjórnvalda í Kína, en samskipti þeirra og Bandaríkjastjórnar eru mjög stirð um þessar mundir. Bandaríska blaðið Wall Street Journal greindi frá því fyrir nokkrum dögum að bandaríska dómsmálaráðuneytið sé nú með til rannsóknar ásakanir um að Huawei hafi stolið hugverkum og tæknibúnaði frá fyrirtækjum sem unnið hafi með Kínverjunum. Fyrr í þessum mánuði handtók pólska lögreglan tvo menn, Kínverja og Pólverja, þeir eru grunaðir um njósnir.
Huawei í Danmörku
Árið 2014 gerði danska fjarskiptafyrirtækið TDC, sem er hið stærsta sinnar tegundar í Danmörku sex ára samning við Huawei um rekstur og þróun 4G, svonefndrar fjórðu kynslóðar farsíma. Tveimur árum síðar skrifaði TDC undir samning við Huawei um kapalbúnað. Nú eru TDC og Huawei í sameiningu að prófa 5G, fimmtu kynslóð farsímakerfisins. Margir danskir sérfræðingar undrast að TDC skuli, án þess að depla auga (eins og einn sérfræðinganna komst að orði) semja við kínverska fyrirtækið. Fjölmörg önnur dönsk fyrirtæki, og stofnanir, nota búnað frá Huawei. Dagblaðið Politiken greindi á sínum tíma frá því að árið 2011 hefði Leyniþjónusta hersins varað við samstarfi við Huawei, vegna hættu á njósnum. Leyniþjónustan skipti síðar um skoðun og sagði ekkert athugavert við samninga TDC og Huawei, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Banedanmark rifti milljarðasamningi
Í nóvember á síðasta ári skrifaði Banedanmark (sem sér um tæknilegan rekstur danska járnbrautakerfisins) undir sex ára samning við Huawei og NetNordic, samstarfsfyrirtæki Huawei í Danmörku. Þeim samningi var skyndilega rift fyrir nokkrum dögum. Skýringin sögð sú að í samningum hefði ekki verið kveðið nægilega skýrt á um netöryggi. Danskir fjölmiðlar fullyrða að þrýstingur frá stjórnmálamönnum væri hin raunverulega ástæða. Þeir væru loksins vaknaðir af værum blundi (orðalag Berlingske) og gerðu sér nú grein fyrir að ekki væri æskilegt að jafn mikilvæg starfsemi og tæknilegur rekstur danska lestakerfisins væri í höndum fyrirtækis, sem ríkisstjórn Kína gæti sagt fyrir verkum.
Í síðustu viku sagði Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra Danmerkur á fundi varnarmálanefndar danska þingsins, Folketinget, að dönsk stjórnvöld tækju umræðuna um Huawei og umsvif fyrirtækisins í Danmörku mjög alvarlega. Hann sagði jafnframt að núverandi löggjöf heimili ekki að banna starfsemi tiltekinna samstarfsaðila danskra fyrirtækja. „Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar stórfyrirtæki, eins og Huawei, eru nátengd stjórnvöldum, slík tengsl eru ekki æskileg og hljóta að vekja tortryggni.“ Ráðherrann tók fram að með orðum þessum orðum væri hann ekki að gefa neitt sérstakt í skyn.