Fjarskiptasjóður og Farice ehf. undirrituðu 21. desember síðastliðinn þjónustusamning vegna ársins 2019 en félagið á og rekur fjarskiptasæstrengina FARICE-1 og DANICE sem tengja Ísland við Evrópu.
Þetta kemur fram í frétt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Með samningnum tekur Farice að sér meðal annars undirbúning og framkvæmd botnrannsókna sem eru nauðsynlegur þáttur í undirbúningi lagningar á nýjum fjarskiptasæstreng milli Íslands og Evrópu.
Vinna við undirbúning verkefnisins er þegar hafin. Gert er ráð fyrir að rannsóknarskip ljúki kortlagningu sjávarbotns síðla sumars með það fyrir augum að heildstæð niðurstaða rannsóknarinnar liggi fyrir fljótlega í kjölfarið.
Vinna sérfræðinga Farice felst meðal annars í því að leita eftir, meta og nýta eftir atvikum fyrirliggjandi upplýsingar og gögn sem flýtt geta framkvæmd verkefnisins og stuðlað að hagkvæmni.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um næstu skref að botnrannsóknum loknum, segir í fréttinni. Þá kemur fram hjá ráðuneytinu að einkaaðilar hafi um langt árabil kynnt áform um lagningu á sæstrengjum hingað til lands án þess að slíkum áformum hafi verið hrint í framkvæmd.
FARICE-1 lagður sumarið 2003
Á vefsíðu Farice ehf. kemur fram að fyrirtækið hafi verið stofnað formlega í nóvember 2002 af nokkrum fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi og í Færeyjum en íslenska ríkið tók einnig þátt í stofnun fyrirtæksins. Hlutur íslenskra aðila var 80 prósent en Færeyinga 20 prósent. Tilgangur fyrirtæksins var að leggja sæstreng sem síðar fékk nafnið FARICE-1 sem lagður var sumarið 2003 og fór formlega í rekstur í janúar árið 2004.
Fimm árum síðar lagði fyrirtækið DANICE sæstrenginn til Danmerkur. Fyrirtækið sem fær nafn sitt af Færeyjum og Íslandi er nú langstærsti aðilinn í sölu á samböndum milli Íslands og útlanda, segir á vefsíðu þeirra. „Viðskiptavinir eru fjarskiptafyrirtæki hverskonar og stærri viðskiptavinir gagnavera. Farice ehf. starfar þannig á heildsölumarkaði þegar kemur að íslenska markaðnum.“
Ísland með einn sæstreng tengdan landinu 2002
Ísland var einungis með einn sæstreng CANTAT-3 tengdan landinu árið 2002 þegar fyrirtækið Farice hf. var stofnað. Til vara voru gervihnattasambönd sem lá fyrir að réðu ekki lengur við þann gagnahraða sem landsmenn þurftu né fullnægðu kröfum um flutningsseinkun. CANTAT-3 fór í rekstur 1994 og var fyrsti og jafnframt síðasti atlantshafsstrengurinn sem notaði SDH tækni og var með rafmögnurum á leiðinni í stað ljósmagnara sem eru nú allsráðandi og komu fram á sjónarsviðið 1998 til 1999. Sú aðferð er í grundvallatriðum enn notuð á sama hátt og var bylting sem gerði rafmagnara úrelta, samkvæmt Farice.
Síminn hafði hafið undirbúningsvinnu að nýjum sæstreng árið 2000 einir og sér. Í því skyni að fá fleiri hagsmunaaðila að verkefninu var PWC Consulting fengið til að verkefnastýra undirbúningi. Nýi strengurinn sem fékk nafnið FARICE-1 var lagður frá Seyðisfirði á Íslandi til Dunnet Bay í Skotlandi með aukagrein til Funningsfjarðar í Færeyjum.
Þetta var fyrsti sæstrengurinn sem var lagður frá Íslandi sem var meirihlutaeigu innlendra aðila þrátt fyrir að vera fjórði sæstrengurinn frá upphafi. FARICE-1 sæstrengurinn var formlega opnaður í janúar 2004. Upphafleg hönnun gerði ráð fyrir að þetta væri strengur með 2x360 Gb/s hámarksflutningsgetu. Upphafleg virkjuð bandvídd var 2x10Gb/sfrá Íslandi til Dunnet Bay.
Á vefsíðu Farice kemur enn fremur fram að miklar framfarir í ljósleiðaraendabúnaði síðan 2003 hafi hins vegar margfaldað getu FARICE-1 og lengt líftíma strengsins um mörg ár í viðbót. Strengur eins og FARICE-1 sé hannaður til að lifa í 25 ár.
Lengd FARICE-1 1205 km
Lengd FARICE-1 á beinni leið til Skotlands er 1205 kílómetrar. Frá strengnum liggur 200 kílómetra leið til Færeyja og er unnt að tengjast honum í Þórshöfn. Nafn strengsins FARICE-1 bendir til þess að áform hafi verið uppi um að byggja FARICE-2, þ.e. annan streng með viðkomu í Færeyjum. Það varð ekki úr og Færeyingar byggðu árið 2008 eigin streng, sem kallaðist SHEFA-2, með viðkomu í Hjaltlandsejum og Okneyjum til Banff í Skotlandi. Rekstur SHEFA-2 hefur ekki verið áfallalaus, samkvæmt Farice, og ítrekað slitnað, – einkum vegna fiskveiða. Hafa Færeyingar þurft að endurbæta útfærslu hans síðar.
Í janúar 2007 hófst formlegur undirbúningur að næsta sæstreng Íslendinga. Skipaður var stýrihópur og verkefnisstjóri ráðinn til verksins. Ítrekaðar bilanir í CANTAT-3 og fyrirséður skortur á flutningsgetu hans ásamt auknum kröfum íslenska samfélagsins til áreiðanlegra gagnatenginga kallaði á úrbætur.
Eftir að nokkrar tillögur að leiðarvali lágu fyrir í skýrslu í apríl 2007 hófst næsti fasi verkefnisins á þann hátt að fyrirtækið Farice ehf. tók formlega yfir verkefnið eða réttara sagt fyrirtækið E-Farice ehf. sem var eignarhaldsfélag íslensku eigendanna að Farice ehf. Skoðaðir voru lendingarstaðir á Írlandi, Bretlandi, Hollandi, þýskalandi og Danmörku.
Nýi strengurinn sem fékk nafnið DANICE tók við af CANTAT-3 á Íslandi þegar hann fór í rekstur haustið 2009 enda afkastageta CANTAT-3 sem var 2x2,5 Gb/s orðin alltof lítil.
DANICE næstum því tvöfalt lengri
DANICE liggur frá áðurnefndum stað í Danmörku til suðurstrandar Íslands, rétt austan við Vestmannaeyjar. Lendingarstaður var valinn með tilliti til lágmörkunar á áhættu í ljósi þess hvar fyrri strengur nam landi á Austfjörðum. Var staðsetning vandlega valin í samstarfi við jarðvísindamenn og útgerðafélög. Það þótti einnig nauðsynlegt að færa hann nokkuð austan megin við Markárfljót og einnig má sjá strenginn taka beygju til vesturs áður en hann tekur stefnuna í austur átt. Þetta var til að minnka hættu sem að til dæmis Kötlugos getur valdið vegna botnskriða.
Strengurinn er 2304 kílómatra langur og er því nálægt tvöfalt lengri en FARICE-1. Hann er útbúinn fjórum ljósleiðarapörum. Upphafleg hámarksflutningsgeta strengsins var 5120 Gb/s (5,1 Tb/s) og í upphafi voru 10x10Gb/s virkjuð. Endabúnaður sem var frá Subcom hefur verið skipt út fyrir nýrri kynslóð búnaðar frá CIENA. Strengurinn er stækkaður nú í skrefunum 1x100 Gb/s sem er svokölluð bylgjulengd sem tekur 50GHz í tíðnirófi ljóss.
Lagning DANICE hófst í ágúst 2008 en ekki náðist að klára lagningu vegna erfiðra haustveðra. Var því lagningu frestað fram á sumarið 2009. Um svipað leiti og DANICE var lagður var Greenland Connect strengurinn lagður til Grænlands og þaðan til Kanada. Hann er í eigu Tele Greenland. DANICE strengurinn er einskonar framlenging á Greenland Connect til Evrópu og samnýta strengirnir sömu kapallendingarstöð við Landeyjasand.
Heimildir: www.farice.is