Nýjar víglínur að teiknast upp á átta flokka Alþingi
Þrír flokkar virðast vera að mynda óformlega samstarfsblokk yfir miðju stjórnmálanna sem myndi gera henni kleift að vinna með annað hvort Vinstri grænum eða Framsókn í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Vendingar vegna Klausturmálsins og ris Sósíalistaflokksins hefur breytt viglínunum á þingi og mögulegum ríkisstjórnarmynstrum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó sýnt af sér ótrúlega seiglu við að halda völdum og sigra kosningar þrátt fyrir minnkandi fylgi.
Að óbreyttu verður næst kosið til Alþingis vorið 2021. Haldist sú tímalína mun það verða í fyrsta sinn sem ríkisstjórn hefur setið út það tímabil sem hún ætlaði sér í krafti þess umboðs sem kjósendur veittu henni frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur haltraði yfir línuna 2013.
Síðustu kosningar hafa allar verið haldnar í kjölfar mikilla pólitískra tíðinda og niðurstöðurnar sem hafa komið upp úr kjörkössunum hafa skilað þingi sem er ólíkt því sem áður hefur þekkst. Árið 2016 voru sjö flokkar kjörnir á þing. Árið síðar urðu þeir átta. Sama var uppi á teningnum í borgarstjórnarkosningunum 2018.
Stjórnmálamenn eru að átta sig á því betur og betur að þetta er sá veruleiki sem mun að öllum líkindum verða normið í íslenskum stjórnmálum næstu misserin hið minnsta. Tími sterkra tveggja flokka ríkisstjórna er liðinn, að minnsta kosti um sinn, og aukin fjölbreytni í samsetningu þjóðarinnar, minni tryggð við stjórnmálaflokka og hraðar samfélagsbreytingar mun áfram hafa þær afleiðingar að sífellt fleiri muni keppa um athygli kjósenda.
Þeir flokkar sem sitja á þingi hafa vissulega gert sitt til að auka forskot sitt á aðra sem eru ekki þegar komnir inn fyrir þröskuldinn. Það birtist helst í gríðarlegri aukningu á greiðslum úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka. Þær greiðslur voru hækkaðar um 127 prósent á milli áranna 2017 og 2018 og í ár skipta flokkarnir átta sem eiga fulltrúa á Alþingi með sér 744 milljónum króna. Auk þess hefur starfsemi þeirra verið styrkt verulega með auknum framlögum til ráðningu aðstoðarmanna.
Litið á kjörtímabilið sem uppbyggingarfasa fyrir það næsta
Af samtölum við áhrifafólk í stjórnmálum dagsins í dag er ljóst að margir eru að spila leikinn til lengri tíma ekki síður en að takast á við málefni dagsins í dag. Margir eru að horfa til næstu kosninga. Og blokkir flokka sem eiga fleiri sameiginlega fleti en aðrir eru klárlega að myndast.
Viðmælendur innan Samfylkingar og Viðreisnar fela ekki þá skoðun sína að þeir líti á yfirstandandi kjörtímabil sem tækifæri til að byggja flokkana upp og gera alvöru atlögu að valdastólum vorið 2021, þá í samfloti með Pírötum.
Það vakti töluverða athygli nýverið þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, opinberaði hvar vilji hans lægi við stjórnarmyndun í viðtali við Mannlíf. Þar sagði hann: „Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“
Logi ræddi þetta einnig í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í nóvember á síðasta ári. Þar sagði hann að sér hefði lengi þótt ákjósanleg sú tilhugsun að flokkar færu meðvitaðri og upplýstari inn í kosningar og gæfu kjósendum sínum skýrari skilaboð um hvað þeir ætli að gera. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók undir með honum og sagði tvo ása vera til staðar í íslenskum stjórnmálum. „Það er frjálslyndi-ásinn. Svo er íhaldsami-ásinn, en það má líka kalla hann Trump-ásinn. Hann er birtingarmynd þess sem ákveðnir flokkar, eða hópar innan ákveðinna flokka, vilja standa frammi fyrir. Ég vona að íslenskir kjósendur fari að átta sig á nákvæmlega þessu. Það hefur oft verið gaman í pólitík en þetta eru mjög áhugaverðir og skemmtilegir tímar.“
Þessar yfirlýsingar endurspegla það sýnilega samstarf stjórnarandstöðuflokkanna þriggja sem þegar á sér stað, og þá lítið földu staðreynd að uppistaða þingflokks Vinstri grænna ætti að geta átt ágætt samstarf með þeim, með sama hætti og á sér stað í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, þar sem hið nýja R-lista módel situr við völd.
Miðflokkurinn einangraði sjálfan sig
Það nýtilkomna sjálfstraust endurspeglar stöðuna sem birst hefur í könnunum það sem af er kjörtímabili þar sem sameiginlegur stuðningur við Samfylkingu, Viðreisn og Pírata hefur vaxið úr 28 prósent í 40,9 prósent. Sameiginlegt fylgi þeirra hefur ekki verið hærra á kjörtímabilinu og allir flokkarnir þrír eru töluvert yfir kjörfylgi.
Viltu styrkja frjálsan og óháðan fjölmiðil? Gerðu það hér:
Samanlagt myndu þessir þrír þingflokkar líklega bæta við sig um tíu þingmönnum miðað við þær tölur og vera með 27. Það þyrfti því einungis fimm til viðbótar til að vera með meirihluta á þingi.
Önnur ástæða þess að hin óformlega samstarfsblokk er að verða formlegri er að finna í Klausturmálinu. Með tilurð þess, og ekki síður því hvernig Miðflokkurinn hefur ákveðið að takast á við það, hefur flokkurinn verið jaðarsettur í íslenskum stjórnmálum. Fylgi hans mældist 6,5 prósent í síðustu könnun Gallup og hefur því nánast helmingast frá síðustu kosningum.
Enginn núverandi stjórnarandstæðuflokkur mun starfa með þeim í ríkisstjórn og afar ólíklegt verður að teljast að Sigurður Ingi Jóhannsson, sem fór gegn Sigmundi Davíð í formannsslag haustið 2016, og Lilja D. Alfreðsdóttir, sem hefur kallað þá sem sátu á Klaustur bar ofbeldismenn sem eigi ekki að hafa dagskrárvald í samfélaginu, muni ljá því máls að mynda með þeim stjórn ef slíkur möguleiki myndi opnast. Ólíklegt er auðvitað ekki það sama og ómögulegt, og muna verður að frasinn „vika er langur í pólitík“ er mikið notaður vegna þess að hann er sannur.
Ef Framsókn er ekki möguleiki þá stendur eftir stærsti flokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist með 23,4 prósent fylgi og myndi aldrei geta borið Miðflokkinn til valda einn.
Sjálfstæðisflokkurinn seigur en sífellt í þrengri stöðu
Leið Sjálfstæðisflokksins inn í enn eina ríkisstjórnina virðist því fyrst og fremst liggja í gegnum það að viðhalda núverandi stjórnarmynstri. Flokkurinn hefur sýnt af sér ótrúlega seiglu við að halda áhrifum samhliða því sem fylgi hans hefur fallið mjög frá því sem það var á árum áður. Hann hefur verið hryggjarstykki í öllum ríkisstjórnum sem myndaðar hafa verið hérlendis utan einnar frá árinu 1991, eða í tæplega þrjá áratugi.
Styrkleikar Sjálfstæðisflokksins hafa legið í því að hann er, þrátt fyrir 23,7-29 prósent fylgi í síðustu fjórum kosningum, enn stærsti flokkur landsins og ómögulegt hefur verið að mynda tveggja til þriggja flokka ríkisstjórnir án hans frá 2013. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði í viðtali við Þjóðmál í fyrrahaust að tækifæri flokksins hefði legið í því að vera kjölfesta á umbrotatímum. Hann taldi ekki ómögulegt að Sjálfstæðisflokkurinn gæti náð fyrri styrk.
Bjarni slær á vangaveltur um að hann sé að hætta
Mikið hefur verið rætt um það á meðal stjórnmálamanna allra flokka hvort að Bjarni muni leiða Sjálfstæðisflokkinn í gegnum aðrar kosningar. Hann hefur verið formaður flokksins í tíu ár í mars og þótt hann hafi sýnt mikla pólitíska seiglu með því að halda flokknum við völd, skilað oftar en ekki betri niðurstöðu úr kosningum en kannanir gáfu til kynna og sé nú óskoraður leiðtogi eftir afar erfið fyrstu ár á formannsstóli, þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir gerði sérstaklega harða atlögu að honum, þá hefur Bjarni farið í gegnum fleiri pólitíska brimskafla en flestir.
Margir viðmælendur telja augljóst að Bjarni vilji að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins, verði eftirmaður hans á formannsstóli. Það sjáist til að mynda á því að hann hafi gert hana að ráðherra í tveimur ríkisstjórnum fram yfir oddvita kjördæmis hennar. Ekki er þó víst að Þórdís sé val allra í flokknum og óljóst er um hversu sterkt bakland hennar er til að verða fyrsti kvenformaður Sjálfstæðisflokksins, ákveði Bjarni að stíga til hliðar í nánustu framtíð.
Bjarni sjálfur gaf lítið fyrir slíkar bollaleggingar í áðurnefndu viðtali og sagðist ekki vera farinn að hugsa um að hætta. Svarið var þó ekki meira afgerandi en svo að hann sagðist ætla að „geyma mér allar vangaveltur um það hversu lengi ég held áfram.“
Staðan er samt sem áður svo að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur farið hríðlækkandi í formennskutíð hans. Flokknum hefur gengið sérstaklega illa að höfða til yngra fólks og það er þróun sem honum hefur ekki tekist að snúa við í formannstíð Bjarna.
Ríkisstjórnin fallin ef kosið yrði í dag
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur verið að þokast lítillega upp síðust vikur, sérstaklega eftir Klausturmálið. Nú segjast 49 prósent, eða minnihluti þjóðarinnar, styðja hana. Skömmu eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð mældist stuðningur við hana 74,1 prósent.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er þó töluvert minna. Allir mælast þeir undir kjörfylgi. Mest myndu Vinstri græn (11,3 prósent fylgi) missa ef kosið yrði í dag, eða fjóra þingmenn, en Framsókn (8,8 prósent fylgi) myndi líka missa tvo.
Sjálfstæðisflokkurinn myndi tapa fylgi en halda sama fjölda þingmanna. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist einungis 43,5 prósent sem myndi skila þeim 29 þingmönnum. Það nægir ekki til að mynda meirihlutastjórn. Þannig hefur staðan verið meira og minna síðustu misseri.
Sósíalistar breyta dýnamíkinni
Það er ekki bara miðjuflokkarnir sem eru að taka óánægjufylgi frá Vinstri grænum vegna veru flokksins í íhaldssamri ríkisstjórn þessi dægrin. Spútníkaflið í íslenskum stjórnmálum, Sósíalistaflokkur Íslands, í dag er til vinstri við flokkinn. Flokkurinn bauð fram í fyrsta sinn í borgarstjórnarkosningunum í fyrravor og náði þar inn manni, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, með því að fá 6,4 prósent atkvæða. Í nýjustu könnun Gallup, sem birt var um helgina, mældist Sósíalistaflokkurinn með sitt mesta fylgi í slíkum 5,3 prósent, sem myndi duga til að ná inn þremur þingmönnum.
Sá flokkur virðist því, að óbreyttu, ætla að taka stað Flokks fólksins í átta flokka kerfinu og honum virðist vera að takast það ætlunarverk að fylla upp í tómarúmið sem myndast hefur vegna rofinna tengsla vinstri- og jafnaðarmannaflokka landsins við verkalýðshreyfingu landsins. Ef harka færist í yfirstandandi kjaraviðræður, líkt og sumir verkalýðsforingjar boða að sé fyrirliggjandi, þá gæti það aukið enn fylgi Sósíalistaflokksins.
Telja verður líklegt að Sósíalistaflokkurinn myndi einskorða mögulega ríkisstjórnarþátttöku sína við samstarf við flokka sem starfa til vinstri, og því nær útilokað að þeir myndu verða valkostur fyrir hægri- eða íhaldsflokka í ríkisstjórnarsamstarfi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars