Valitor Holding, félag í eigu Arion banka sem á greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, tapaði 1,9 milljarði króna í fyrra. Félagið hafði skilað um 940 milljón króna hagnaði ári áður. Í ársreikningi Arion banka, sem birtur var í gær, kemur fram að tapið sé vegna fjárfestingar í alþjóðlegri starfsemi Valitors og að það hafi haft töluverð áhrif á lakari afkomu samstæðu Arion banka. „Valitor er í mikilli uppbyggingu erlendis og hefur í þeim fasa verið rekið með rekstrartapi,“ segir í ársreikningnum. Í þeirri uppbyggingu hefur meðal annars falist að ná í stóra viðskiptavini á Írlandi og í Bretlandi.
Það er þó fleira sem telur. Einn stærsti viðskiptavinur Valitor, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars í fyrra að stæði til. Þessi ákvörðun Stripe leiddi til þess, samkvæmt afkomutilkynningu frá Valitor sem send var út í morgun, að velta fyrirtækisins fluttist frá Valitor sem „hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu.“
Stefnt að því að ljúka söluferli á árinu
Arion banki ætlar sér að selja Valitor á árinu 2019 og hefur ráðið alþjóðlega bankann Citi til að veita söluráðgjöf. Í fjárfestakynningu bankans vegna ársreiknings hans kemur fram að Valitor sé nú flokkað „sem starfsemi til sölu frá og með fjórða ársfjórðungi.“ Þar segir enn fremur að fyrirhugað söluferli Valitor sé komið á næsta stig og stefnt sé að því að markaðssetning hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2019. Það þýðir að það mun hefjast fyrir marslok.
Í ársreikningi Arion banka segir að samkvæmt áætlun sem unnið sé eftir sé „stefnt að því að söluferlinu verði lokið innan tólf mánaða tímaramma sem IFRS gerir kröfur um til að flokka megi eign til sölu. Söluferlið verður lokað.“
Áform um að selja Valitor eru ekki ný af nálinni. Í fyrra stóð til að aðgreina fyrirtækið frá Arion banka-samstæðunni áður en að bankinn var skráður á markað í fyrravor. Mikill vilji var hjá sumum erlendu hluthöfum Arion banka að greiða hlutabréf í Valitor út í formi arðs til hluthafa áður en að skráningunni kæmi.
Eigið fé Valitor Holding var þá bókfært á um 16,3 milljarða króna í bókum Arion banka, samkvæmt upplýsingum sem veittar voru á kynningarfundunum. Ráðgjafar Arion banka á þeim tíma héldu kynningu fyrir lífeyrissjóði landsins þar sem því var haldið fram að virði Valitor Holding væri verulega vanmetið og að miðað við veltu væri virðið vel yfir 50 milljarða króna.
Í nýjasta ársreikningi Arion banka er virði Valitor Holding skráð 15,8 milljarðar króna, og hefur því lækkað um hálfan milljarð króna milli ára.
Stærsti samstarfsaðilinn hætti
Fyrirtækið sem Valitor missti úr viðskiptum í fyrra, Stripe, er ekkert smá fyrirtæki. Um mitt ár 2015 var tilkynnt að alþjóðlega stórfyrirtækið Apple hefði ákveðið að Bretland yrði fyrsta landið utan Bandaríkjanna þar sem boðið verður upp á ApplePay sem greiðsluleið.
Valitor hf. var valið sem eitt af sex fyrirtækjum á Evrópumarkaði til að þjónusta ApplePay. Í fréttatilkynningu sem Valitor sendi frá sér vegna þessa þann 11. júní 2015 sagði m.a.: „Þessa þjónustu mun Valitor veita í nánu samstarfi við bandaríska fyrirtækið Stripe sem vinnur m.a. með Twitter og Facebook auk Apple. Frá 1. júlí munu breskir kaupmenn í viðskiptum við Stripe geta þróað stuðning við ApplePay sem greiðslumáta inn í eigið iOS app. Stripe, með Valitor sem færsluhirði, er einn af örfáum aðilum sem fá að bjóða breskum kaupmönnum upp á þessa þjónustu í fyrstu lotu. Í kjölfarið mun öðrum samstarfsaðilum Valitor á breskum markaði einnig standa til boða að taka við greiðslum með ApplePay.“
Kjarninn greindi frá því í mars í fyrra að búið væri að tilkynna Valitor um væntanlegar breytingar á þessu viðskiptasambandi og Viðar Þorkelsson, forstjóri fyrirtækisins, staðfesti það. „Stripe hafa tilkynnt okkur að viðskiptasambandið við okkur muni breytast og þróast. Þegar lengra líður frá þá munu viðskiptin minnka.“
Í afkomutilkynningunni sem send var út í morgun segir að Stripe, stærsti samstarfsaðili Valitor, hafi farið að sinna sinni færsluhirðingarþjónustu sjálfur í júlí og þar með flutt veltu sína frá Valitor. „Þessi niðurstaða hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu. Valitor stendur vel að vígi á mjög áhugaverðum mörkuðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Bretlandi og á Írlandi sem og varðandi viðskipti við stærri verslanakeðjur í Evrópu.“
Viðar segir í tilkynningunni að þrátt fyrir taprekstur hafi niðurstaða ársins verið umfram áætlanir og að fjárhagsstaða Valitor sé sterk. Heildarvelta fyrirtækisins var 21,4 milljarðar króna í fyrra.