Eignir Stakksberg, félagsins sem Arion banki stofnaði utan um starfsemi kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, eru metnar á 6,5 milljarða króna. Virði þeirra hækkaði um 1,3 milljarð króna í fyrra, en það var bókfært á 5,2 milljarða króna í árslok 2017. Skuldir þess eru engar. Arion banki hyggst selja Stakksberg eins fljótt og kostur er.
Þetta kemur fram í ársreikningi Arion banka fyrir árið 2018 sem birtur var fyrir helgi.
Sé bókfært virði kísilmálmverksmiðjunnar endanlegt virði hennar er ljóst að gríðarlegt tap hefur orðið á fjárfestingum í henni. Í bréfi sem lögmaður Stakksberg sendi til skipulagsstofnunar í lok árs í fyrra kom fram að þegar unnin fjárfesting í verksmiðju Stakksberg næmi „um 22 milljörðum króna.“
Óvissa og ágreiningur við aðra kröfuhafa
Eftir að United Silicon var lýst gjaldþrota þann 22. janúar í fyrra, vegna alvarlegra tæknilegra erfiðleika í rekstri sem lauk með því að tímabundið bann var lagt við starfsemi félagsins, tók Arion banki, sem stærsti kröfuhafi félagsins, yfir eignir þess og færði inn í nýtt félag, áðurnefnt Stakksberg. Í kjölfar þess vann bankinn að því að „draga úr óvissu varðandi endurgangsetningu verksmiðjunnar, m.a. með því að fá starfsleyfi rekstrarins yfirfærð til félagsins, afla félaginu nýs raforkusamnings og vinna að grunn verkfræðilegri hönnun þeirra úrbóta sem nauðsynlegt er að unnar séu í aðdraganda endurgangsetningar. Stakksberg vinnur í dag að gerð nýs umhverfismats fyrir verksmiðjuna, sem miðar vel áfram, sem og að undirbúningi að breytingu á deiliskipulagi sem unnið verður í samvinnu við Reykjanesbæ er nær dregur endurgangsetningu. Niðurstaða um hið síðarnefnda er óviss á þessu stigi.“
Í ársreikningi Arion banka kemur einnig fram fram að tveir óveðtryggðir kröfuhafar hafi mótmælt því að bankinn hafi leyst til sín allar eignir United Silicon við þrot félagsins, þrátt fyrir að skiptastjóri þrotabúsins hefði samþykkt veðkröfur Arion banka. „Skiptastjóri þrotabúsins hefur vísað ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjaness. Bankinn hefur farið yfir mótmælin og hafnar þeim öllum. Aðalmeðferð málsins er áætluð í haust. Vakin er athygli á því að í samningi milli bankans og þrotabúsins kemur fram að ef komi til þess að veð bankans verði dæmd ólögmæt muni bankinn endurgreiða þrotabúinu fjárhæð ógiltra veðskjala.“
Margir þegar tapað miklu
Arion banki hefur þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins.
En fleiri hafa tapað stórum fjárhæðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur fært niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í félaginu um 100 prósent. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þar nemur niðurfærslan einnig 100 prósentum. Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ) fjárfestir einnig í verkefninu. Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.
Mikil andstaða á meðal íbúa
Starfsemi kísilverksmiðju United Silicon stöðvuð 1. september í fyrra. eftir að Umhverfisstofnun tók ákvörðun þess efnis. Óheimilt var að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim. Það mat mun, líkt og áður sagði, taka allt að 20 mánuði.
Mikil andstaða hefur byggst upp á meðal íbúa Reykjanesbæjar við frekarið stóriðju í Helguvík. Sú andstaða snýr bæði að endurræsingu kísilmálmvers Stakksbergs og fyrirhugaðri verksmiðju félagsins Thorsil á svæðinu.
Vegna hennar hafa verið stofnuð félagasamtökin „Andstæðingar stóriðju í Helguvík“. Samtökin hafa staðið fyrir undirskriftasöfnun til að efna til bindandi íbúakosninga vegna starfsemi Stakksberg og Thorsil í Helguvík. Þau afhentu bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ undirskriftalista 2.700 íbúa Reykjanesbæjar í vikunni.
Samtökin vilja einnig að beiðni um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík verði hafnað og hafa falið lögmanni að óska eftir því við Umhverfisstofnun að starfsleyfi Stakksbergs verði afturkallað.
Kostnaðurinn nú þegar 22 milljarðar
Kjarninn greindi frá því um miðjan desember síðastliðinn að Stakksberg, og þar af leiðandi Arion banki, hafi ekki hug á því að beygja sig undir þessar óskir. Þá var sagt frá því að Stakksberg teldi að íbúakosning um breytingar á skipulagi á svæðinu sem félagið hefur óskað eftir að láta vinna sé ekki lögmæt.
Í bréfi sem félagið sendi Skipulagsstofnun, og Kjarninn hefur undir höndum, segir að „slíkar umsóknir verði að afgreiða á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða en ekki í vinsældarkosningu.“ Þar var verið að vísa í undirskriftasöfnunina sem þá stóð yfir.
Í bréfinu segir lögmaður Stakksberg að þegar hafi verið fallist á starfsemina sem hafi fengið öll leyfi og sé meðal annars með gilt starfsleyfi. „Verksmiðjan hefur þegar verið byggð á lóðinni fyrir um 22 milljarða króna. Um er að ræða réttindi sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og atvinnuréttindi sem njóti verndar 75. gr. stjórnarskrár. Um slík réttindi verði ekki kosið í almennum kosningum að mati Stakksberg ehf.“