Framsóknarflokkurinn mælist nú með 13,5 prósent fylgi í könnun MMR sem er mesta fylgi flokksins þar síðan í apríl 2014, eða í tæp fimm ár. Þegar fylgi Framsóknar var síðast svona hátt samkvæmt könnunum var tæpt ár liðið frá því að hann vann stórsigur í kosningunum 2013, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sigur sem skilaði þáverandi formanni forsætisráðherrastólnum.
Framsókn bætir við sig tæpu prósentustigi í fylgi milli mánaða samkvæmt MMR og fylgið hefur nánast tvöfaldast – aukist um 80 prósent – frá því í nóvember, þegar það mældist 7,5 prósent. Í millitíðinni skeði Klausturmálið svokallaða sem virðist hafa fært umtalsvert fylgi frá Miðflokknum yfir til Framsóknarflokksins auk þess sem framganga Lilju D. Alfreðsdóttur, varaformanns flokksins og eins þeirra sem urðu mest fyrir barðinu á þeim sem sátu á Klausturbar í nóvember, í kjölfar málsins hefur mælst vel fyrir. Framsókn mælist nú með umtalsvert meira fylgi en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, þegar 10,7 prósent kjósenda kusu hann.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir einnig við sig tæpu prósentustigi milli kannana og mælist nú 22,7 prósent. Fylgi hans hefur ekki mælst hærra frá því í maí í fyrra og má leiða líkum að einhverjir kjósendur hafi skilað sér aftur til flokksins í kjölfar Klausturmálsins, en fylgi hans mældist undir 20 prósent í nóvember í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn er þó enn töluvert frá kjörfylgi sínu, sem var 25,2 prósent.
Vinstri græn tapa áfram á ríkisstjórnarsamstarfinu
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, mælast með 11,1 prósent fylgi og lækkar það um rúmlega eitt prósentustig milli mánaða. Flokkurinn hefur samkvæmt þessu tapað um 34 prósent af fylgi sínu frá síðustu kosningum þegar 16,9 prósent greiddra atkvæða féllu honum í skaut. Hann er sá stjórnarflokkanna sem líður langmest fyrir hið óvenjulega ríkisstjórnarsamstarf sem er nú til staðar.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist því 47,3 prósent en var, til samanburðar, 52,8 prósent eftir síðustu kosningar. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 42,8 prósent og hefur farið vaxandi frá því að hann náði botni það sem af er kjörtímabili í nóvember síðastliðnum. Þá mældist stuðningurinn einungis 37,8 prósent. Í fyrstu mælingu sem MMR gerði eftir kosningar, í desember 2017, mældist stuðningur við ríkisstjórnina 66,7 prósent.
Miðflokkurinn lækkar aftur
Fylgi Miðflokksins mælist nú 6,1 prósent og lækkar um 2,2 prósentustig milli kannana MMR. Það fylgi er mjög nálægt lægsta mælda fylgi flokksins á kjörtímabilinu, sem var í desember 2018 þegar fylgið mældist 5,9 prósent.
Fylgi Miðflokksins mælist nú í fyrst sinn frá síðustu kosningum lægra en fylgi Flokks fólksins, sem nýtur stuðnings 6,9 prósent kjósenda og mælist því með kjörfylgi á meðan að Miðflokkurinn mælist með rétt rúmlega helming þess fylgis sem flokkurinn fékk haustið 2017. Það virðist því vera að Flokkur fólksins, sem rak þá tvo þingmenn flokksins sem voru viðstaddir á Klausturbar úr flokknum, ætli að koma betur út úr því máli en hinn flokkurinn sem átti þar fulltrúa. Að minnsta kosti til skamms tíma.
Miðju- vinstri stjórnin ekki möguleg að óbreyttu
Bæði Píratar og Viðreisn lækka smávægilega í fylgi milli kannana. Píratar mælast nú með 10,4 prósent fylgi, sem er enn yfir 9,2 prósent kjörfylgi þeirra, og Viðreisn mælist með 8,1 prósent, eftir að hafa fengið 6,7 prósent í síðustu kosningum.
Samfylkingin bætir lítillega við sig milli mánaða og alls segjast 15,9 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það gerir hann að næsta stærsta stjórnmálaflokki landsins.
Samanlagt fylgi þessarra þriggja flokka, sem vinna nokkuð mikið saman í stjórnarandstöðu og formaður Samfylkingarinnar hefur kallað eftir að myndi ríkisstjórn ásamt Vinstri grænum eftir næstu kosningar, mælist nú 34,4 prósent. Þótt það samanlagða fylgi sé umtalsvert hærra en það sem kom upp úr kjörkössunum haustið 2017, þegar flokkarnir þrír fengu 28 prósent atkvæða, þá er ljóst að það myndi ekki duga til að mynda áðurnefnda ríkisstjórn með Vinstri grænum að óbreyttu. Til þess eru flokkarnir ekki með meirihluta.
Athygli vekur að þeim sem ætla að kjósa aðra stjórnmálaflokka en þá sem eiga fulltrúa á þingi fjölgar umtalsvert milli kannana MMR. Nú segjast 5,2 prósent ætla að gera slíkt, en það hlutfall var 3,1 prósent í janúar og 1,5 prósent í síðustu kosningum. Þótt frá því sé ekki greint í frétt MMR um könnunina má leiða að því líkum að þar spili aukið fylgi við Sósíalistaflokk Íslands rullu, en í nýlegri könnun Gallup mældist hann með yfir fimm prósent fylgi.