Þann 12. febrúar síðastliðinn sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið bréf til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu þar sem óskað var eftir því hvernig þau hefðu brugðist við tilmælum sem þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, sendi til þeirra 6. janúar 2017. Tilmælin í bréfi Benedikts voru einföld: stillið öllum launahækkunum forstjóra ríkisfyrirtækja í hóf eftir að ákvarðanir um laun þeirra færist undan kjararáði og til stjórn fyrirtækjanna, en það gerðist um mitt ár 2017.
Afrit af bréfinu var síðan sent til allra stjórnanna daginn áður en að ný lög um kjararáð, sem færðu launaákvörðunarvald frá ráðinu til stjórna opinberu fyrirtækjanna, tóku gildi í byrjun júlí 2017. Þá fundaði Benedikt með stjórnum stærri félaga þann 10. ágúst 2017 þar sem farið var yfir efni bréfsins.
Fyrir hefur legið að stjórnir flestra stærri fyrirtækja í opinberri eigu hunsuðu þessi tilmæli algjörlega. Í bréfunum sem núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, sendi út var stjórnunum gefinn frestur til 20. febrúar til að útskýra mál sitt. Svarbréfin voru hins vegar ekki birt á vef ráðuneytisins fyrr en 6. mars síðastliðinn, eða tveimur vikum eftir að sá frestur rann út.
Ríkisstarfsmenn leiðandi í launaþróun
Ríkisstarfsmenn hafa verið leiðandi í launaþróun á undanförnum árum. Sumir slíkir hópar hafa hækkað í launum um tugi prósenta í einu. Frægasta dæmið um slíkt var þegar kjararáð ákvað að opinbera, á kjördag 2016, að laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra yrðu hækkuð umtalsvert. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Skömmu áður, eða um sumarið 2016, höfðu laun skrifstofustjóra í ráðuneytum, og laun aðstoðarmanna ráðherra sem miða við skrifstofustjóralaunin, verið hækkuð um allt að 35 prósent. Þau urðu þá um 1,2 milljónir króna á mánuði.
Miðgildi heildarlauna á Íslandi árið 2017 var til samanburðar 618 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að helmingur launamanna var með lægri laun en það og helmingur með hærri. Að meðaltali voru heildarlaun fullvinnandi launamanna hérlendis á því ári 706 þúsund krónur.
Tölurnar hér að ofan sýna að hópur hátekjufólks, hífir meðaltalið upp frá miðgildinu.
Einn slíkur hópur sem er með laun langt yfir meðaltali eru forstjórar opinberra fyrirtækja.
Bankarnir borga vel
Kjarninn tók saman allar hækkanir launa helstu ríkisforstjóra sem ráðist var í þegar ákvörðun um laun þeirra var færð til pólitískt skipaðra stjórna þeirra þann 1. júlí 2017.
Það kemur kannski ekki á óvart en launahæstu ríkisforstjórarnir tveir stýra sitthvorum ríkisbankanum.
Íslandsbanki var að mestu í eigu kröfuhafa Glitnis fyrstu árin eftir hrun. Í stöðugleikasamningunum sem gerðir voru árið 2015 var hins vegar samið um að eignarhald hans myndi færast til íslenska ríkisins. Það gerðist svo formlega í upphafi árs 2016. Við það færðist ákvörðun um laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, frá stjórn bankans og til kjararáðs.
Birna hafði verið með 4,2 milljónir króna á mánuði árið 2015 í laun og frammistöðutengdar greiðslur og því ljóst að hún gat búist við kjararýrnun. Þegar ársreikningur bankans fyrir árið 2016 var birtur kom hins vegar í ljós að laun hennar jukust milli ára og voru 4,85 milljónir króna. Raunar úrskurðaði kjararáð ekki um laun Birnu fyrr en snemma árs 2017, þegar búið var að taka ákvörðun um að færa ákvörðun um laun hennar frá kjararáði, en áður en sú ákvörðun tók gildi. Samkvæmt þeim úrskurði áttu laun Birnu að vera tvær milljónir króna á mánuði. Stjórn bankans taldi sig ekki þurfa að framfylgja þeim úrskurði þar sem Birna væri með tólf mánaða uppsagnarfrest sem næði langt fram yfir þann tíma sem ákvörðunarvald yfir launum hennar færðist aftur til stjórnar Íslandsbanka. Þegar ársreikningur bankans fyrir árið 2017 var birtur kom í ljós að Birna var með 4,8 milljónir króna í laun að meðaltali það árið.
Til viðbótar fékk hún eina milljón króna á mánuði í mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð. Í fyrra voru laun hennar 5,3 milljónir króna en hún óskaði sjálf eftir því að lækka laun sín í fyrrahaust. Ef bifreiðarhlunnindi og áætlaður kaupauki á þessu ári eru reiknuð með verða meðaltalslaun Birnu á mánuði á árinu 2019 um 4,8 milljónir króna.
Stjórn Íslandsbanka svaraði bréfi fjármála- og efnahagsráðherra þannig að hún teldi launakjör Birnu vera í samræmi við starfskjarastefnu, að hún hafi staðið sig vel í starfi og að laun hennar séu ekki leiðandi.
Bankastjóri Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir, var með tæplega 2,1 milljón króna í laun á mánuði þegar hún var ráðin í starfið, en hún hóf störf 15. mars 2017.
Laun hennar voru skömmu síðar, eða um mitt ár 2017, hækkuð í 3,25 milljónir króna og á árinu 2018 upp í 3,8 milljónir króna. Laun Lilju hafa því hækkað um 82 prósent frá því að hún tók við starfinu fyrir tveimur árum síðan. Bankaráð Landsbankans sagði í bréfi sem það sendi ráðherra að launin hefðu verið hækkuð svona mikið vegna þess að þau hefðu dregist „langt aftur úr þeim launum sem greidd voru fyrir sambærileg störf“ á árunum 2009 til 2017. Þetta hefði gert það að verkum að laun bankastjórans hafi ekki verið samkeppnishæf og ekki í samræmi við starfskjarastefnu bankans. Þá taldi bankaráðið sig hafa sýnt bæði hófsemi og varkárni þegar samið var um að hækka laun bankastjórans.
Bjarni Benediktsson hefur þegar brugðist við bréfum frá stjórnum ríkisbankana með því að senda bréf til Bankasýslu ríkisins þar sem hann óskaði eftir því að hún komi því með afdráttarlausum hætti á framfæri við stjórnir ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans að „ráðuneytið telji að bregðast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með tafarlausri endurskoðun launaákvarðana og undirbúningi að breytingum á starfskjarastefnum, sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.“
Bankastjóralaunin lækkuð en samt enn hæst
Þann 13. mars síðastliðinn var svo birt bréf Lárusar Blöndal, formanns Bankasýslu ríkisins, og Jóns Gunnars Gunnarssonar, forstjóra stofnunarinnar, til Bjarna Benediktssonar. Í því kom fram að laun bankastjóra ríkisbankanna, Íslandsbanka og Landsbankans, yrðu lækkuð.
Í því er meðal annars vitnað til bréfa frá Friðriki Sophussyni, formanni stjórnar Íslandsbanka, og Helgu B. Eiríksdóttur, formanni bankaráðs Landsbankans.
Í bréfi Friðriks sagði að „frá og með 1. apríl n.k. verða laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka 3.650.000 kr. á mánuði án hlunninda. Í þessu sambandi er vert að benda á að laun bankastjóra án hlunninda, sem eru nú 4.200.000 kr. á mánuði námu 3.850.000 kr. á mánuði þegar ríkissjóður eignaðist allt hlutafé í bankanum árið 2016.“
Í bréfi Helgu til Bankasýslunnar segir að bankaráðið hafi ákveðið að launahækkun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans frá 1. apríl 2018 hafi verið tekin til baka, og þannig komið til móts við þau sjónarmið sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði komið á framfæri.
Á móti komi hins vegar vísitöluhækkun frá 1. júlí 2017 til 1. janúar 2019 sem nemi 7,81 prósentum. „Grunnlaun bankastjóra eftir lækkun verða 3.297 þúsund krónur og bifreiðahlunnindi 206 þúsund krónur. Heildarlaun bankastjóra verða því 3.503 þúsund krónur.“
Auk þess verða starfskjarastefnur bankanna endurskoðaðar, þar á meðal launakjör annarra háttsettra starfsmanna.
Ekki liggur fyrir hvort að viðbrögð stjórna ríkisbankanna nægi til þess að mæta óánægju fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Miklar hækkanir hjá stóru ríkisfyrirtækjunum
Sá forstjóri ríkisfyrirtækis sem er næstur bankastjórunum í launum er Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Mánaðarlaun Harðar án hlunninda eru 3.207.294 krónur á mánuði og hafa verið þannig frá miðju ári 2017, þegar þau voru hækkuð úr um tveimur milljónum króna á mánuði, eða um 58 prósent.
Við launin bætast bifreiðarhlunnindi, sem jukust um 132.285 krónur á mánuði í fyrra, eða um 151 prósent milli ára. Alls námu bifreiðahlunnindi Harðar 2.636.016 krónum á árinu 2018.
Laun og hlunnindi Harðar voru því 3.426.962 krónur á mánuði í fyrra og hækkuðu úr 3.294.677 krónum árið áður, eða um fjögur prósent.
Stjórn Landsvirkjunar hefur gefið þá skýringu að hún hafi verið að efna ráðningarsamning við Hörð sem gerður var við hann við ráðningu á árinu 2009 með launahækkuninni eftir að hann færðist undan kjaráði. Þess má geta að stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jónas Þór Guðmundsson, var einnig formaður kjararáðs.
Annar ríkisforstjóri sem hækkaði gríðarlega í launum við það að ákvörðun um laun hans var færð til pólitískt skipaðrar stjórnar var Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Laun hans hækkuðu um 43,3 prósent frá miðju ári 2017, úr 1,75 milljónum króna í 2,5 milljónir króna á mánuði.
Stjórn Isavia útskýrði launahækkunina með því að hún hefði fengið ráðgjafafyrirtækið Intellecta, sem sérhæfir sig í að kanna laun forstjóra fyrirtækja í því skyni að að fá fram viðmið til að vinna út frá við ákvörðun launa, til að meta hvað Björn Óli ætti að vera með í laun. Niðurstaðan þar hafi verið á bilinu 3,1 til 4,1 milljón króna. Stjórnin ákvað að stíga varlega til jarðar en Intellecta hafði mælt með og hækka launin einungis um rúm 43 prósent.
Pósturinn tapar en launin hækka mikið
Stjórnarformaður Isavia er Ingimundur Sigurpálsson, fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Hann er líka forstjóri Íslandspósts, annars ríkisfyrirtækis. Íslandspóstur hefur glímt við mikinn rekstrarvanda og í september í fyrra fékk fyrirtækið 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar. Erfitt er að sjá hvernig fyrirtækið ætlar sér að greiða þessa fjármuni skattgreiðenda til baka.
Þrátt fyrir þessa stöðu var ákveðið að hækka laun Ingimundar tvívegis á síðasta ári. Þau eru nú um 2.052 þúsund krónur á mánuði og hafa hækkað um tæp 43 prósent frá miðju ári 2017, þegar þau voru 1.436 þúsund krónur á mánuði. Íslandspóstur fékk líka Intellecta til að gera úttekt fyrir sig um hver laun Ingimundar ættu að vera. Samkvæmt niðurstöðu fyrirtækisins hefðu þau átt að vera á bilinu 2.717-3.601 þúsund krónur á mánuði. Því hækkaði stjórnin launin minna en ráðgjafinn hafði sagt að væri við hæfi fyrir stjórnanda í svona fyrirtæki.
Ingimundur taldi að ákvörðun stjórnarinnar um laun hans hefði ekki verið í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings hans og stjórnar frá því í nóvember 2004 og lét bóka þá afstöðu sína á stjórnarfundi þann 29. janúar 2018. Varaformaður stjórnar Íslandspósts er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, til margra ára.
Ingimundur sagði upp starfi sínu sem forstjóri eftir fjórtán ára starf síðastliðinn föstudag. Sama dag var greint frá því að Íslandspóstur hefði tapað 293 milljónum króna í fyrra, sem var um 500 milljónum lakari afkoma en árið á undan.
Miklar hækkanir á launum forstjóra Landsnets
Sá ríkisforstjóri sem hefur hækkað hlutfallslega einna mest í launum frá miðju ári 2017 er Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Laun hans áttu að vera tæplega 1,6 milljónir króna á mánuði um mitt ár 2017, samkvæmt síðastar úrskurði kjararáðs sem felldur var í maí 2017, en hafa síðan hækkað í tæplega 2,5 milljónir króna á mánuði. Það er aukning um 55,7 prósent. Þó verður að hafa þann fyrirvara á að einhver viðbótarhlunnindi geta hafa bæst við launin fyrir hækkun. Á árinu 2016 var Guðmundur Ingi með rúmlega 1,6 milljónir króna á mánuði að meðaltali í laun og leiða verður líkur að því að þannig hafi laun hans verið þegar ákvörðun um þau var færð til stjórnar Landsnets.
Heildarlaun Guðmundar Inga hækkuðu um 37,2 prósent milli áranna 2017 0g 2018.
Kollegi hans hjá Orkubúi Vestfjarða, Elías Jónatansson, hefur hækkað mun hóflegar, úr rúmlega 1,5 milljón króna á mánuði í 1,8 milljón krónur á mánuði, eða um 18 prósent.
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, hefur hækkað úr um 1,5 milljón króna á mánuði í 1,75 milljónir króna, eða um 16,4 prósent.
Á menningar- og fjölmiðlasviðinu hafa laun Magnúsar Geirs Þórðarsonar, útvarpsstjóra RÚV, farið úr 1,55 milljónum króna á mánuði í 1,8 milljónir króna eftir að ákvörðun um laun hans færðist undan kjararáði og því hækkað um 16,1 prósent. Fimm ára ráðningartími Magnúsar Geirs er nú liðinn og stjórn RÚV vinnur að því að semja við hann upp á nýtt. Þá á ríkið 54 prósent eignarhlut í Hörpu en forstjóri þar er Svanhildur Konráðsdóttir. Hún er með einna lægstu ríkisforstjóralaunin eða um 1,4 milljónir króna á mánuði. Þau laun voru tæplega 1,3 milljónir króna á mánuði áður en ákvörðun um launin var færð til stjórnar Hörpu og því hafa laun Svanhildar hækkað um tíu prósent.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
26. desember 2022Árið 2022: Húsnæðismarkaðurinn át kaupmáttinn
-
23. desember 2022Íslensk veðrátta dæmd í júlí
-
22. desember 2022Verðbólgan upp í 9,6 prósent – Einungis tvívegis mælst meiri frá 2009
-
21. desember 2022VR búið að samþykkja kjarasamninga – 82 prósent sögðu já
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
19. desember 2022Kjarasamningur SGS samþykktur hjá öllum 17 aðildarfélögunum
-
18. desember 2022Kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki dregist jafn mikið saman í næstum tólf ár