Síðastliðinn þriðjudag, 19. mars, kvað Hæstiréttur Danmerkur upp dóm í máli manns sem heitir Jimmi Levakovic. Ákæruvaldið hafði krafist þess að honum yrði vísað úr landi en Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu en staðfesti tveggja ára fangelsisdóm.
Málið varðaði innbrot á heimili 66 ára gamallar konu sem Jimmi misþyrmdi og rændi af henni 900 krónum (16 þúsund íslenskum).
Brottvísun úr landi hljómar sem ströng refsing fyrir innbrot, líkamsárás og rán en hér kemur fleira til. Jimmi Levakovic, sem er þrítugur að aldri er vel kunnugur dönskum réttarsölum, hann hefur samtals í tuttugu og tvö skipti hlotið dóm fyrir ýmis konar afbrot. Einkum þjófnaði og líkamsárásir.
Þessi afbrotaferill var ástæða þess að ákæruvaldið fór fram á að manninum yrði vísað úr landi, en Hæstiréttur hafnaði sem áður sagði þeirri kröfu. Niðurstöðuna byggði Hæstiréttur á reglum Mannréttindasáttmála Evrópu sem Danmörk er aðili að og hefur leitt í lög.
Stjórnmálamenn segja lögin gölluð
Margir danskir stjórnmálamenn hafa í fjölmiðlum tjáð sig um dóm Hæstaréttar. Trine Bramsen, talsmaður Sósíaldemókrata í dómsmálum, sagði í viðtali við dagblaðið BT: „það hlýtur eitthvað að vera að þegar erlendur ríkisborgari getur hlotið tuttugu og tvo dóma og samt fengið að vera áfram í Danmörku.“ Naser Khader talsmaður Íhaldsflokksins sagði að Hæstiréttur gæfi landsmönnum langt nef þegar ekki mætti vísa úr landi síbrotamanni sem ekki hefði lagt neitt til samfélagsins. Christian Langballe þingmaður Danska þjóðarflokksins gefur ekki mikið fyrir þessar yfirlýsingar og sagði að
Þingflokkar þessara tveggja þingmanna hefðu, snemma á síðasta ári, greitt atkvæði gegn tillögu Danska þjóðarflokksins um að Danir fjarlægðu ákvæði um rétt til fjölskyldulífs úr dönskum lögum. Tillagan var felld á danska þinginu, Folketinget.
Fjölskylduákvæði bjargaði Jimmi
Í úrskurði Hæstaréttar Danmerkur kom fram að það væri lagaákvæðið um rétt til fjölskyldulífs sem hefðu ráðið því að Jimmi skuli ekki sendur úr landi. Jimmi Levakovic er króatískur ríkisborgari, giftur sænskri konu og á með henni þrjú börn sem líka eru sænskir ríkisborgarar. Þrátt fyrir að Jimmi hafi króatískt ríkisfang hefur hann einungis einu sinni komið til Króatíu og talar ekki tungumálið. Það var saksóknari sem áfrýjaði til Hæstaréttar eftir að bæði Héraðsdómur og Landsréttur höfðu hafnað kröfu um að Jimmi Levakovic yrði vísað úr landi.
Ekki hafa allir úr Levakovic genginu (eins og danskir fjölmiðlar komast að orði) verið jafn heppnir því fjórum körlum úr fjölskyldunni hefur verið vísað úr landi eftir að hafa hlotið marga refsidóma. Fjórmenningarnir, sem allir eru einhleypir, hafa þó ekki farið langt. Þeim hefur einungis verið vísað úr landi í Danmörku, en ekki úr öðrum ríkjum Evrópusambandsins, þeir hafa sest að í Svíþjóð og geta ferðast til Danmerkur þegar þeim sýnist.
Endurtekið efni
Rök Hæstaréttar í máli Jimmi eru þau sömu og réðu úrslitum í máli frænda hans, Gimi Levakovic þegar mál hans var fyrir rétti í maí 2016. Gimi, sem er tæplega fimmtugur, hefur búið í Danmörku frá barnsaldri, en foreldrar hans settust þar að árið 1972. Gimi hefur tuttugu og sjö sinnum hlotið dóm fyrir ýmis konar afbrot og samtals setið í grjótinu í rúm átta ár.
Fyrir þremur árum féll dómur í Hæstarétti Danmerkur í máli gegn Gimi Levakovic. Dóminn hafði Gimi hlotið fyrir vopnaburð og líflátshótanir.
Áður en málið kom til kasta Hæstaréttar hafði Héraðsdómur (Bæjarréttur) í Næstved á Sjálandi dæmt Gimi í tólf mánaða fangelsi og að honum skyldi vísað úr landi að afplánun lokinni. Eystri-Landsréttur sneri brottvísunardóminum við en lengdi fangelsisvistina í fimmtán mánuði. Þessi viðsnúningur vakti hörð viðbrögð og saksóknari fór fram á að Hæstiréttur tæki málið fyrir. Úrskurðarnefnd, sem fjallar um slíkar beiðnir, samþykkti að málið færi fyrir Hæstarétt sem staðfesti að Gimi Levakovic fengi áfram að búa í Danmörku. Röksemdir Hæstaréttar voru þær að Gimi hefði nær alla ævi búið í Danmörku, þótt hann væri ekki danskur ríkisborgari og að hann ætt tvö ung börn sem hann hefði forræði yfir. Sömu rökin og í máli frændans Jimmi. Þekktur lagaprófessor sagði í viðtali við Berlingske, árið 2016, að sú staðreynd að Gimi ætti ung börn hefði bersýnilega vegið þungt. Hæstiréttur hefði valið að fylgja þeirri stefnu sem Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefði markað. Ef stjórnmálamenn væru ósáttir við dóma Hæstaréttar þurfi danska þingið að setja lög um túlkun Mannréttindasáttmálans. Það hafi þingið ekki gert.
Forsætisráðherra boðaði lagabreytingar
Dómurinn yfir Gimi Levakovic í maí árið 2016 vakti mikla athygli. Fjölmiðlar birtu viðtöl við ráðherra og þingmenn sem allir lýstu vonbrigðum með niðurstöðuna. Sumir sögðu Hæstarétt túlka lagarammann of þröngt, aðrir sögðu það fyrir neðan allar hellur að ekki sé nokkur leið að vísa úr landi erlendum ríkisborgara, sem hefur kostað samfélagið milljónatugi. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra sagði þegar dómurinn lá fyrir að stjórnin myndi á haustdögum leggja fram frumvarp sem tæki til mála af þessu tagi. Þeir haustdagar eru enn ekki runnir upp eins og dómurinn í máli Jimmi Levakovic fyrir nokkrum dögum ber með sér.
Í áratugi á framfæri samfélagsins
Þegar hjónin Drusi og Rubinka Levakovic komu til Danmerkur í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar áttu þau sex börn, þar á meðal soninn Gimi. Síðar bættust þrjú börn við. Þegar Levakovic hjónin komu til Danmerkur, ásamt fleira fólki fengu þau, lögum samkvæmt, aðeins tímabundið leyfi til dvalar í landinu. Þetta var í stjórnartíð Jens Otto Krag. Skömmu eftir að fólkið kom til landsins tók Anker Jørgensen við embætti forsætisráðherra og það var hann sem veitti Levakovic fjölskyldunni ótímabundið landvistarleyfi, þótt slíkt stangaðist á við lög.
Fjölskyldan telur nú tæplega fimmtíu manns. Enginn úr þessum hópi hefur lokið grunnskóla né unnið launaða vinnu. Fjölskyldan hefur alla tíð verið á framfæri hins opinbera í Danmörku og hefur samtals þegið sem samsvarar tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna til framfærslu. Til að drýgja tekjurnar hefur fjölskyldan stundað rán og gripdeildir. Sú iðja hefur leitt af sér marga fangelsisdóma og sumir úr fjölskyldunni setið inni árum saman, með hléum.
Saga Levakovic fjölskyldunnar, sem ætíð kallar sig Sígauna, verður ekki rakin hér en áður hefur verið um hana fjallað í Kjarnanum. Í pistli sem hægt er að nálgast með að opna hlekkinn hér til hliðar má lesa ítarlega umfjöllun um þessa óvenjulegu fjölskyldu í Danmörku.