Mynd: WOW air

Dauðastríðið hjá WOW air á lokametrunum

Það ætti að skýrast í dag eða í síðasta lagi á allra næstu dögum hvort að flugfélagið WOW air verði áfram til. Forsvarsmenn þess eru nú í kappi við tímann að ná fram nýrri lausn eftir að bæði Indigo Partners og Icelandair ákváðu að fjárfesta ekki í félaginu, og áður en að vélar þess verða kyrrsettar út um allan heim af kröfuhöfum WOW air.

Fram­tíð WOW air er að ráð­ast. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans hefur Sam­göngu­stofa, sem veitir félag­inu flug­rekstr­ar­leyfi, gefið WOW air mjög skamman tíma til að leysa úr stöðu sinni, ann­ars mun hún aft­ur­kalla flug­rekstr­ar­leyf­ið.

Ljóst er að for­svars­menn WOW air eiga í miklu tíma­kapp­hlaupi og þeir þurfa að kom­ast yfir margar hindr­anir á örfáum klukku­tím­um. Þótt það líti út fyrir að þeir sem komu að skulda­bréfa­út­boði félags­ins í sept­em­ber séu til­búnir að breyta að minnsta kosti stórum hluta af kröfum sínum í hlutafé gegn því að við­bót­ar­fjár­fest­ing komi inn í WOW air þá á enn eftir að nást sam­komu­lag við aðra kröfu­hafa líka, eins og Isa­via, og finna þá við­bót­ar­fjár­fest­ingu upp á fimm millj­arða króna. Í milli­tíð­inni þarf að halda öllum vélum WOW air, sem eru leigu­vélar og leigu­greiðslur vegna að minnsta kosti hluta þeirra eru í van­skil­um, gang­andi. Það virð­ist strax ætla að ganga erf­ið­lega því mbl.is greindi frá því í morgun að þegar sé búið að kyrr­setja eina vél félags­ins í dag á flug­vell­inum í Montr­eal í Kanada að beiðni leigu­sala henn­ar.

Dauða­stríð WOW air er í fullum gangi og lík­lega komið að ögur­stundu þess. Hvort sjúk­ling­ur­inn lifi af eða ekki ætti að liggja fyrir í lok dags, eða í allra síð­asta lagi á næstu tveimur til þremur dög­um.

Orðróm­ur­inn um Indigo

Í byrjun síð­ustu viku voru flestir við­mæl­endur Kjarn­ans sem starfa á fjár­mála­mark­aði sam­mála um að við­ræðum Indigo Partners um að kaupa WOW air væri í raun lok­ið, þótt ekki væri búið að til­kynna um það opin­ber­lega. Sú kenn­ing fékk sífellt fleiri fylg­is­menn að Bill Franke, hinn aldni eig­andi Indigo Partners, hefði aldrei ætlað sér að kaupa WOW air heldur hafi hann nýtt tím­ann und­an­farna mán­uði til að tryggja sér lend­ing­ar­leyfi félags­ins á Gatwick flug­velli í London og að læra inn á starf­sem­ina með það fyrir augum að fara í sam­keppni við hana með önnur flug­fé­lög sem hann átti þeg­ar.  

Wizz Air, félag að stórum hluta í eigu Indigo, var annað þeirra sem keypti áður­nefnd lend­ing­ar­leyfi á Gatwick í des­em­ber. Snemma á fimmtu­dag í síð­ustu viku til­kynnti Wizz Air að félagið myndi bæta við flug­leið til Kefla­vík­ur­flug­vallar í sum­ar. Með því verður Wizz Air fyrst erlenda flug­fé­lagið sem er með áætl­un­ar­flug frá tíu eða fleiri áfanga­stöðum til og frá Íslandi.

Þetta vakti athygli, enda áhuga­vert að fjölga ferðum Wizz Air til Íslands á sama tíma og aðal­eig­andi þess félags var í við­ræðum um að kaupa það flug­fé­lag sem var með næst mesta hlut­deild í flugi til og frá land­inu.

Icelandair aftur kemur inn

Um kvöldið þennan sama dag, fimmtu­dag­inn 21. mars, var síðan loks til­kynnt um að slitnað hefði upp úr við­ræðum milli Indigo Partners og WOW air eftir tæp­lega fjög­urra mán­aða dans. Nán­ast sam­tímis og til­kynn­ing þess efnis birt­ist á fjár­festa­síðu WOW air birt­ist til­kynn­ing í Kaup­höll Íslands um að Icelandair Group hefði sam­þykkt að hefja við­ræður við WOW air um aðkomu að rekstri félags­ins. Í til­kynn­ing­unni sagði: „„Ef af verður mun aðkoman byggja á sjón­­­ar­miði sam­keppn­is­réttar um fyr­ir­tæki á fallandi fæti. Við­ræð­­urnar fara fram í sam­ráði við stjórn­­völd.“

Þriðja til­kynn­ingin birt­ist einnig á þessum tíma, í þetta sinn frá rík­is­stjórn Íslands. Þar sagði að hún myndi áfram fylgj­ast grannt með fram­vind­unni og að vonir væru bundnar við að við­ræður Icelandair og WOW air myndu skila far­sælli nið­ur­stöðu.

Þær gerðu það ekki.

Icelandair glímir við eigin vanda

Við­mæl­endur Kjarn­ans sem þekkja vel til í flug­heim­inum voru nær allir sam­mála um að erfitt yrði fyrir Icelandair að rétt­læta aðkomu að WOW air. Félagið væri sjálft búið að eiga í umtals­verðum rekstr­ar­vanda í lengri tíma og ætti fullt í fangi með að rétta úr kútnum í eigin rekstri. Sterk lausa­fjár­staða gerði Icelandair kleift að gera slíkt.

Léleg rekstr­ar­nið­ur­staða Icelandair í fyrra gerði það að verkum að skil­málar skulda­bréfa félags­ins voru brotn­ir. Mán­uðum saman stóðu yfir við­ræður við skulda­bréfa­eig­end­urna um að end­ur­semja um flokk­anna vegna þessa. Þær við­ræður skil­uðu ekki árangri og 11. mars síð­ast­lið­inn var greint frá því að Icelandair hefði fengið lánað 80 millj­ónir dala, um tíu millj­arða króna, hjá inn­lendri lána­stofnun gegn veði í tíu Boeing 757 flug­vélum félags­ins. Láns­fjár­hæðin var nýtt sem hluta­greiðsla inn á útgefin skulda­bréf félags­ins.

Ríkisstjórnin hefur fylgst vel með þróun mála hjá WOW air um langt skeið.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Lán­veit­and­inn reynd­ist vera rík­is­bank­inn Lands­bank­inn. Verið var að flytja hluta af fjár­mögnun Icelandair frá skulda­bréfa­eig­endum og yfir á banka í eigu íslenska rík­is­ins vegna þess að ekki tókst að semja við þá. Hinn rík­is­bank­inn, Íslands­banki, hefur líka lánað Icelandair fé, en bein rík­is­á­byrgð er á starf­semi beggja bank­anna í gegnum eign á hluta­fé.

Staðan verri en reiknað var með

Kjarn­inn greindi frá því klukkan 17:19 í gær, sunnu­dag, að búið væri að slíta við­ræðum Icelandair við WOW air og að til stæði að for­svars­menn félag­anna myndu í kjöl­farið funda með stjórn­völd­um. Til­kynn­ing þess efnis birt­ist síðan í Kaup­höll Íslands um 20 mín­útum síð­ar. Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir, sagði við fjöl­miðla í gær að rekstur og fjár­hags­staða WOW air væri með þeim hætti að Icelandair hefði ekki treyst sér til að halda áfram með við­ræður um yfir­töku.

Bogi sagði líka að aðrar og ódýr­ari leiðir væru til staðar fyrir Icelandair til að verða sér úti um nýjar vélar til leigu ef kyrr­setn­ing á Boeing 737 MAX vélum félags­ins dregst áfram, en slíkar vélar hafa verið kyrr­settar alls staðar í heim­inum eftir að tvær vélar af gerð­inni 737 MAX 8 hröp­uðu með nokk­urra mán­aða milli­bili.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans fóru for­svars­menn Icelandair á fund stjórn­valda í gær þar sem þeir sýndu fram á að það væri vel hægt að lina það högg sem yrði af gjald­þroti WOW air með ýmsu móti og að Icelandair gæti vel fyllt það skarð að miklu leyti. Með þeim aðgerðum væri hægt að tryggja að fjöldi ferða­manna sem myndi heim­sækja Ísland yrði í kringum 2,2 millj­ónir í ár, sem er svipað og hann var árið 2017. Sam­dráttur milli ára yrði því ein­ungis um fjögur pró­sent. Þetta væri meðal ann­ars hægt að gera með því að auka áherslu á ferðir með ferða­menn til Íslands, á kostnað tengifluga með milli­lend­ingu hér.

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að fjár­hags­staða WOW air, sem hafi verið slæm þegar Icelandair fór í við­ræður um kaup á félag­inu í fyrra­haust, sé nú orðin skelfi­leg. Í Morg­un­blað­inu í morgun er sagt að tap WOW air í fyrra hafi verið 22 millj­arðar króna, að lausa­fjár­staðan sé nei­kvæð um 1,4 millj­arða króna og að eigið féð sé nei­kvætt um 13 millj­arða króna. Auk þess greindi blaðið frá því að bók­un­ar­staða WOW air væri um helm­ingur af því sem hún var á sama tíma í fyrra. Þetta leiði til þess að um tíu millj­arða króna þurfi inn í WOW air til að hægt sé að halda rekstr­inum við út árið.

Skúli ánægður með stöð­una

Skúli Mog­en­sen, for­stjóri og eig­andi WOW air, var þó ekk­ert á því að leggj­ast niður og gef­ast upp þótt staðan væri kolsvört. Um kvöld­mat­ar­leytið í gær birt­ist stutt til­kynn­ing á fjár­festa­síðu WOW air þar sem kom fram að félagið hefði hafið við­ræður við skulda­bréfa­eig­endur sína, þá hina sömu og höfðu keypt umrædd skulda­bréf í sept­em­ber í fyrra fyrir alls tæp­lega átta millj­arða króna, um að breyta kröfum í hluta­fé. Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að Skúli hafi aðrar hug­myndir um hver fjár­þörf WOW air sé en for­svars­menn Icelandair höfðu.

Í Frétta­blað­inu í morgun er greint frá því að Arct­ica Fin­ance vinni að því að safna um fimm millj­örðum króna og að að heild­ar­skuldir WOW air nemi um 24 millj­örðum króna. Þær eru meðal ann­ars við áður­nefnda skulda­bréfa­eig­end­ur, Arion banka sem hefur lánað félag­inu að minnsta kosti vel á annan millj­arð króna og við Isa­via vegna van­gold­inna lend­ing­ar­gjalda upp á um tvo millj­arða króna. Þá hefur verið greint frá því á und­an­förnum vikum að WOW air hafi ekki getað staðið skil á greiðslu allra líf­eyr­is­skuld­bind­inga starfs­manna.

Skúli Mog­en­sen var samt sem áður, og að venju, brattur þegar hann yfir­gaf höf­uð­stöðvar WOW air um mið­nætti í gær. Þar sagði hann við frétta­mann Vísis: „Ég er mjög ánægður með stöð­una.“

Hug­mynd­irnar sem verið er að ræða um nú eru meðal ann­ars þær að breyta hluta af skuldum í 49 pró­sent hluta­fjár og að selja svo 51 pró­sent í félag­inu til nýrra eig­enda.

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans hafa for­svars­menn WOW a­ir ekki gefið upp alla von á því að Bill Franke, hinn 81 árs gamli aðal­eig­and­i Indigo Partners, verði til­bú­inn að hlusta á boð um að fjár­festa í WOW a­ir, ef það næst sam­komu­lag um að afskrifa skuldir félags­ins og end­ur­skipu­leggja eign­ar­hald­ið. Þá gæti hann orðið eig­andi tæp­lega helm­ings­hlut­ar.

Stjórn­völd fylgj­ast vel með

Íslensk stjórn­völd hafa fylgst vel með þró­un­inni um langt skeið. Fjög­urra manna ráð­herra­hópur er þar í lyk­il­hlut­verki. Þeir sem til­heyra hópnum eru Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra, Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferða­mála-, iðn­að­ar-, nýsköp­un­ar- og dóms­mála­ráð­herra, og Sig­urður Ingi Jóhanns­son, ­sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra.

Þessi hópur hitt­ist í stjórn­ar­ráð­inu í gær. For­sæt­is­ráð­herra var ekki við­stödd fund­inn en lyk­il­menn úr ráðu­neytum ráð­herr­anna voru það ásamt hinum þremur ráð­herr­un­um. Á fund hóps­ins í gær var einnig mætt­ur, Michael Rid­ley, ráð­gjafi sem starf­aði áður hjá fjár­fest­inga­bank­an­um J.P. Morg­an. Rid­ley var einn þriggja sér­fræð­inga bank­ans sem var flogið til Íslands með einka­þotu frá­ London um kvöld­mat­­ar­­leytið 5. októ­ber 2008 til að veita ráð­gjöf um stöðu banka­kerf­is­ins sem hrundi dag­inn eft­ir. Eftir fund Rid­ley og félaga hans með þáver­andi rík­is­stjórn var tekin ákvörðun um að setj­a ­neyð­ar­lög í land­inu og leyfa bönk­unum að falla.

Það er ekki að ástæðu­lausu að íslensk stjórn­völd hafa áhyggj­ur. Rík­is­stjórnin kynnti fimm ára fjár­mála­á­ætlun sína á laug­ar­dag. Ljóst er að end­ur­skoða þarf hana strax ef allt fer á versta veg hjá WOW air. Versta sviðs­myndin er að sam­dráttur á þjóð­ar­tekjum í ár verði tvö til þrjú pró­sent. Um þús­und störf myndu tap­ast beint hjá WOW air, um 500 afleidd vegna ýmissar þjón­ustu sem WOW air kaupir og svo fullt í við­bót vegna óbeinna áhrifa.

Skamm­tíma­á­hrifin yrðu alltaf mjög mikil og erfið þótt að Icelandair og hin 24 flug­fé­lögin sem fljúga til Íslands telji sig geta fyllt upp í tómið sem WOW air myndi skilja eftir sig þegar fram líða stund­ir.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar