Ef meginvextir Seðlabanka Íslands, oft kallaðir stýrivextir, lækka ekki um 0,75 prósentustig fyrir september 2020 eru forsendur kjarasamninga sem undirritaðir voru í nótt brostnar.
Þegar kjarasamningarnir voru kynntir kom fram að ein af forsendunum sem þeir hvíldu á væri sú að vextir myndu lækka „verulega“ fram í september 2020 og haldast lágir út samningstímann.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var umtalsvert tekist á um þetta ákvæði við gerð kjarasamninganna og bárust meðal annars mótbárur frá Seðlabanka Íslands til samningsaðila í gær á meðan að verið var að ganga frá lokaútgáfu samninganna. Það var hins vegar ófrjávíkjanlegt að mati hluta þess hóps sem fór fyrir stærstu stéttarfélögum landsins að þetta ákvæði væri inni, sérstaklega ef semja ætti um hóflegar launahækkanir næsta árið vegna aðstæðna í efnahagslífinu.
Á endanum náðist sátt um að hafa orðalagið með þeim hætti sem greint er frá hér að ofan og ekki tilgreina neina sérstaka lækkun sem skilyrði fyrir því að kjarasamningar haldi. Kjarninn hefur hins vegar fengið það staðfest að til sé hliðarsamkomulag, svokallað „skúffusamkomulag“ sem er ekki hluti af opinberum kjarasamningi, sem feli í sér að vextir verði að lækka um 0,75 prósentustig fyrir september 2020, þegar fyrsta endurskoðun sérstakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjarasamningar haldi.
Meginvextir Seðlabanka Íslands í dag eru 4,5 prósent og þeir þyrftu því að hafa lækkað í 3,75 prósent fyrir haustið 2020 til að kjarasamningar haldi.
Afar umdeilt ákvæði
Það er ekki að ástæðulausu að þetta ákvæði var umdeilt. Seðlabanki Íslands er ekki aðili að gerð kjarasamninga og nýtur fulls sjálfstæðis í störfum sínum samkvæmt lögum. Meginmarkmið hans er stöðugt verðlag og til að ná því markmiði skilgreinir Seðlabanki Íslands hlutverk sitt þannig að hann eigi að reyna að halda verðbólgu að jafnaði sem næst 2,5 prósent verðbólgumarkmiði. Ekkert er að finna um hlutverk hans við að liðka fyrir gerð kjarasamninga með vaxtalækkunum í lögum um starfsemi Seðlabankans.
Skörp gagnrýni hefur þegar komið fram á ákvæðið víða að. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem ákveður hverjir meginvextir bankans eru, sagði við Bloomberg fyrr í dag að þessi forsenda væri ekki í lagi. Það að setja Seðlabanka Íslands í stöðu þar sem hann getur ekki tekist á við hækkandi verðbólgu sé „sturluð hugmynd.“
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði við RÚV í morgun að sú forsenda að skilyrða kjarasamninganna við lækkun vaxta vegi að sjálfstæði Seðlabanka Íslands. „Þarna finnst mér samningsaðilar vera að vega að sjálfstæði bankans og mér þykir það ekki góður bragur af hálfu samningsaðila og stjórnvalda að það sé verið að gera kjarasamning sem setur spjótin á seðlabankann.“