Hvað?
Síðustu mánuði stóðu yfir einhverjar viðkvæmustu kjaraviðræður sem átt hafa sér stað í áratugi á Íslandi. Í kröfugerðum, sem félagsmenn stærstu verkalýðsfélaga landsins samþykktu, var til að mynda farið fram á að lágmarkslaun yrði hækkuð úr 300 þúsund krónum í 425 þúsund krónur á nokkrum árum.
Ef verkalýðshreyfingin átti að víkja frá þessum kröfum þá þyrftu stjórnvöld að koma að borðinu með tillögur sem myndu skila skjólstæðingum hennar nægilegum kjarabótum.
Með öðrum orðum yrði ríkið að borga fyrir uppistöðu kjarabóta launafólks, ekki atvinnulífið. Það þyrfti ríkið að gera með skattkerfisbreytingum sem áttu að færa skattbyrði af lág- og millitekjuhópum og auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins, meðal annars með auknum millifærslum í gegnum bótakerfi. Að endingu var farið fram á sértækar aðgerðir til að rétta hlut þeirra sem hafa farið halloka á húsnæðismarkaði á síðustu árum.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, ræddi þessa stöðu meðal annars í þættinum 21 á Hringbraut í byrjun febrúar, þegar viðræðurnar voru á mjög viðkvæmum tímapunkti.
Ný forysta verkalýðshreyfingarinnar var mun herskárri í yfirlýsingum en margir fyrirrennarar hennar. Það átti sérstaklega við formenn tveggja stærstu stéttarfélaga landsins, Ragnar Þór Ingólfsson hjá VR og Sólveigu Önnu Jónsdóttur hjá Eflingu. Verkföll lágu í loftinu, sérstaklega eftir að stjórnvöld kynntu aðgerðarpakka í skattamálum sem mæltist ekki vel fyrir fyrr á þessu ári. Þá lá fyrir að ótrúlegar launahækkanir æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa, ásamt hækkunum hjá forstjórum ríkisfyrirtækja, voru sem handsprengjur inn í þegar flóknar viðræður.
Það var stuðningur við verkföll í samfélaginu. Í könnun sem gerð var í nóvember 2018 kom fram að nærri þrír af hverjum fjórum Íslendingum, 74 prósent, sögðu það réttlætanlegt að ákveðnar starfsstéttir myndu beita verkfalli næstu misserin til að ýta eftir bættum starfskjörum.
Verkföll, sem aðallega var beint gegn völdum greinum innan ferðaþjónustu, hófust svo í mars. Frekari aðgerðum var frestað undir lok þess mánaðar, aðallega vegna þess að WOW air varð gjaldþrota. Það breytti taktinum í kjaraviðræðum.
Af hverju?
Þrátt fyrir efnahagslegt góðæri á Íslandi á undanförnum árum eru stórir hópar í samfélaginu sem telja sig hafa verið skilda eftir, og þeir gátu vísað í hagtölur því til stuðnings.
Til viðbótar hefur þróun húsnæðismarkaðar gert þessu sama fólki lífið mun erfiðara fyrir, meðal annars vegna pólitískra ákvarðana, t.d. um framkvæmd Leiðréttingarinnar, sem ákváðu að færa fjármuni í hendur eigenda fasteigna í stað þess að hjálpa þeim sem voru viðkvæmastir á húsnæðismarkaði.
Samhliða því að ríkissjóður var að gefa þessum hópi peninga bötnuðu vaxtakjör gríðarlega, verðbólga var sögulega lág í mörg ár og ruðningsáhrif af ferðaþjónustu tvöfaldaði fasteignaverð. Eignafólkið, bæði stóreignafólkið í fjármagnseignastéttinni sem á milljarða, og stór hluti millistéttarinnar, hagnaðist mjög á þessu ástandi. Kaupmáttur þessa fólks jókst og lífskjör þess bötnuðu.
að sama var ekki uppi á teningnum hjá stórum lágtekjuhópum eða þeim sem höfðu ekki aðgengi að fé fyrir útborgun til að komast inn á eignamarkað. Birtingarmyndir þess ástands voru nokkrar. Til dæmis hafði leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldast á rúmlega átta árum. Á síðustu tveimur árum hafði það hækkað um meira en 30 prósent. Í könnun sem gerð var fyrir Íbúðalánasjóð í fyrra kom fram að þriðji hver leigjandi borgi meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir þeirra geta safnað sér sparifé vegna hás leigukostnaðar. Einungis 14 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar.
Afleiðingin varð eitt skýrasta stéttastríð sem geysað hefur á Íslandi lengi.
Hver var niðurstaðan?
WOW air fór á hausinn, um 1.500 manns misstu vinnuna og ákveðið var að sýna ábyrgð og semja fyrir rúmlega helming íslensks vinnumarkaðar, um 110 þúsund manns, á forsendum hinna svokölluðu lífskjarasamninga. Til þess að hægt yrði að semja um hóflegar launahækkanir þurfti þó til stóraukna aðkomu stjórnvalda. Aðgerðir þeirra voru lykilatriði í því að hægt var að ganga frá samningum til þriggja ára og átta mánaða sem í felast þau tíðindi krónutölulaunahækkanir sem þar sem flestar krónur fara til lægst launaðasta fólksins. Með því að hafa launahækkanir í krónutölum en ekki hlutfallstölum er tryggt að þeir sem hafi hæstu launin hækki ekki um fleiri krónur en þeir sem eru með þau lægstu.
Þrjár meginforsendur eru fyrir því að kjarasamningarnir haldi. Í fyrsta lagi að það verði hagvöxtur, í öðru lagi að Seðlabanki Íslands lækki vexti (hann þarf m.a. að lækka stýrivexti um 0,75 prósentustig fyrir haustið 2020 til að halda samningunum við) og í þriðja lagi verða stjórnvöld að standa við að framkvæma þann pakka sem þau komu með að borðinu til að liðka fyrir gerð kjarasamninga.
Stjórnvöld lofuðu því að ráðast í alls 42 aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum. Ríkið metur heildarumfang aðgerðanna á 80 milljarða króna.
Sumar aðgerðirnar voru þegar fram komnar, eins og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði, aðrar höfðu verið lagðar fram áður, eins og uppbygging í Keldnalandi, heimildir til að ráðstafa 3,5 prósent lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa og áframhaldandi nýting séreignarsparnaðar til að greiða skattfrjálst niður íbúðalán, en það úrræði verður framlengt fram á mitt ár 2021.
Það var einnig margt nýtt í pakka stjórnvalda. Það á að gera breytingar á tekjuskattskerfinu með því að bæta við þriðja skattþrepinu sem tryggja m.a. lægstu launahópunum tíu þúsund króna skattalækkun á mánuði. Þá verða barnabætur hækkaðar og skerðingarmörk þeirra fara úr 242 þúsund krónum í 325 þúsund krónur á mánuði. Ráðast á í fjölmargar aðgerðir í húsnæðismálum, halda aftur af öllum gjaldskrárhækkunum og ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr félagslegum undirboðum.
Á meðal þess sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að gera er að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán frá byrjun næsta árs. Þá á að grundvalla verðtryggingu við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar frá og með árinu 2020. Í staðinn er verið að skoða nýjar tegundir lána fyrir þá sem eiga erfiðast með að finna sér fjármögnun fyrir húsnæðiskaupum. Helstu möguleikarnir þar eru svokölluð „startlán“ eða „eiginfjárlán“, en þau síðarnefndu fela í sér að ríkið fjárfesti í íbúðum með fólki sem uppfyllir skilyrði fyrir töku þeirra.
Sem stendur er verið að kjósa um kjarasamninganna og niðurstöður þeirra kosninga munu liggja fyrir á næstu dögum. Nýleg ákvörðun nokkurra framleiðslu- og innflutningsfyrirtækja að tilkynna um hækkanir á vöruverði hafa þó vakið upp úlfúð á meðal verkalýðsforystunnar, sem telur að þar sé verið að velta kjarabótunum sem hún sótti út í verðlagið. Þar með sé verkalýðurinn að greiða fyrir eigin kjarabætur með hærra vöruverði.