Í janúar á þessu ári beindi Jan-Erik Messmann þingmaður Danska þjóðarflokksins fyrirspurn til Ole Birk Olesen samgönguráðherra í dönsku ríkisstjórninni. Fyrirspurnin varðaði yfirmann þeirrar deildar dönsku Umferðarstofunnar (Trafikstyrelsen) sem hefur umsjón með heilbrigðisskoðun flugmanna, flugliða og flugumferðarstjóra (flugfólks).
Þingmanninum hafði borist til eyrna að „ekki væri allt með felldu“ í áðurnefndri deild, einkum hvað varðaði yfirmanninn. Þessi fyrirspurn vakti athygli blaðamanna dagblaðsins Berlingske sem hófu að grafast fyrir um hvað þetta „ekki væri allt með felldu“ þýddi. Sú vinna hefur nú staðið vikum saman og umfjöllun Berlingske, sem hefur birt margar greinar um málið, vakið mikla athygli í Danmörku.
Fjölmargar kvartanir
Á undanförnum árum hafa Umferðarstofunni borist margar kvartanir vegna ýmissa mála tengdum deildinni sem hefur umsjón með heilbrigðisskoðun flugfólks. Umferðarstofan hefur fjórum sinnum beðið Kammeradvokaten (lögfræðistofa sem gegnir svipuðu hlutverki og umboðsmaður Alþingis á Íslandi,en sá munur er þó á embættunum að umboðsmaður er sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum þjóðþings en ekki ráðgefandi fyrir stjórnsýsluna) að rannsaka og meta störf forstöðumanns deildarinnar. Fyrstu viðbrögð ráðherrans við fyrirspurn þingmannsins í janúar sl. voru þau að biðja Kammeradvokaten enn einu sinni að rannsaka störf forstöðumannsins (sem er kona og Berlingske nefnir SJ). Þingmaðurinn taldi ekki þörf á einni rannsókninni enn, eins og hann komst að orði. Hann hafði nefnilega komist á snoðir um þær mörgu kvartanir sem borist hefðu vegna forstöðumannsins.
Eftirlit með eigin fyrirtæki
Árið 2007 barst samgöngunefnd danska þingsins, Folketinget, ábending þess efnis að SJ ræki eigið fyrirtæki sem sinnti heilbrigðisskoðun flugfólks, samhliða yfirmannsstarfi hjá Umferðarstofunni. Helsta hlutverk yfirmannsins er að hafa eftirlit með þeim læknum sem sinna heilbrigðisskoðuninni. SJ væri því ætlað að hafa eftirlit með starfsemi eigin fyrirtækis. Samgöngunefndin spurði ráðherra samgöngumála hvort þetta væri ekki óviðunandi fyrirkomulag. Svar ráðuneytisins var að fyrirtæki SJ annaðist árlega heilbrigðisskoðun um það bil 4 hundruð einstaklinga, sem starfa við flugið, en á hverju ári fara um það bil 4 þúsund manns í slíka skoðun. SJ annaðist sjálf aðeins um það bil 100 slíkar heilbrigðisskoðanir á hverju ári. Ráðuneytið taldi ekkert óeðlilegt við þetta fyrirkomulag og byggði það álit á umsögn Kammeradvokaten. Árið 2016 óskaði Umferðarstofan eftir áliti Kammeradvokaten varðandi sama efni, þá höfðu borist kvartanir vegna SJ. Niðurstaðan var sú sama og áður: ekkert athugavert.
Eftir að flugmaður þýska flugfélagsins Germanwings flaug af ásetningi farþegavél í fjallshlíð í frönsku ölpunum, með þeim afleiðingum að allir um borð, 150 manns, létust hefur heilbrigðisskoðun danskra flugmanna ( og margra annarra) verið breytt. Fyrir utan líkamlegt ástand tekur skoðunin nú einnig til andlegrar heilsu viðkomandi.
Agnete Schrøder málið
Í september í fyrra (2018) fór Agnete Schrøder, flugmaður hjá SAS, í hina árlegu skoðun. Hún hefur starfað sem flugmaður í rúmlega tvo áratugi. Það vakti athygli hennar hvað skoðunin tók skamman tíma að þessu sinni og henni þótti læknirinn sem annaðist skoðunina mjög óöruggur. Þegar Agnete Schrøder kom heim og skoðaði vottorðið sá hún að læknirinn hafði gert athugasemdir við heyrn hennar. Það þótti henni í meira lagi undarlegt, vegna þess að læknirinn hafði ekki mælt heyrnina. Eftir að hún hafði gert athugasemd við þetta og kvartað formlega fékk hún það svar að læknirinn væri handviss um að hann hefði mælt heyrnina. Auk þess hafði verið handskrifað inn á vottorðið (en slíkt er óleyfilegt) athugasemd um heyrnina og ennfremur búið að bæta því við, líka handskrifað, að framkoma hennar gagnvart lækninum hefði verið sérkennileg. Ennfremur voru nú komnir á vottorðið tveir læknastimplar, en Agnete Schrøder fullyrðir að læknirinn hafi einungis verið einn. Þar að auki er nafn læknisins sem skoðaði hana ekki að finna á lista Umferðarstofunnar yfir þá lækna sem leyfi hafa til heilbrigðisskoðunar. En í framhaldi af þessu var flugskírteini Agnete dregið til baka, hún var skyndilega orðin atvinnulaus.
Læknirinn var réttindalaus
Enn aðhafðist Ole Birk Olesen samgönguráðherra ekkert, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur nokkurra þingmanna en nú voru málefni Umferðarstofunnar og SJ komin í kastljós fjölmiðlanna. Einkum dagblaðsins Berlingske sem birti dag eftir dag frásagnir og viðtöl við fólk sem sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við SJ og deild hennar. Í byrjun apríl, eftir að málið hafði verið í fréttum vikum saman, birti Berlingske frétt sem segja má að hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Blaðamennirnir höfðu komist að því að læknirinn, SJ, er í raun réttindalaus. Hefur ekki þá menntun sem þarf til að gegna yfirmannsstöðu af þessu tagi en þar er krafist læknismenntunar og viðbótar sérmenntunar. Blaðamenn Berlingske höfðu sér til mikillar undrunar uppgötvað þetta þegar þeir slógu nafni SJ upp í gagnabanka heilbrigðisyfirvalda. Þegar Berlingske greindi frá réttindaleysinu var samgönguráðherranum nauðugur einn kostur: að reka SJ á staðnum, og jafnframt var starfsemi fyrirtækis hennar, doctors.dk stöðvuð. Þetta gerðist fyrir rúmri viku, 19. apríl.
SJ kærð
Umferðarstofa lagði síðastliðinn miðvikudag, 24. apríl fram kæru á hendur SJ. Þar er hún sökuð um alvarleg brot í starfi og hafa vísvitandi beitt blekkingum í því skyni að hagnast persónulega. Í kæru Umferðarstofu kemur einnig fram að þess séu mörg dæmi að þeir sem hafi annast heilbrigðisskoðun flugmanna, flugliða og flugumsjónarmanna undir stjórn SJ hafi ekki haft réttindi til slíkrar skoðunar (fluglæknar).
Tvö þúsund manns innkallaðir til skoðunar
Danskir fjölmiðlar greindu frá því nú fyrir helgi að allt að tvö þúsund manns, flugmenn og flugumsjónarmenn verði kallaðir inn til heilbrigðisskoðunar. Það er sá hópur sem farið hefur í slíka skoðun á síðastliðnum tólf mánuðum.
Samgöngunefnd þingsins hefur boðað rannsókn á vinnubrögðum Umferðarstofunnar. Einn nefndarmanna sagði í blaðaviðtali að nauðsynlegt væri að komast til botns í hvernig á því gæti staðið að réttindalaus einstaklingur gæti árum saman gegnt hárri stöðu. Ennfremur hvernig á því stæði að ekkert mark væri tekið á margendurteknum kvörtunum og þeim vísað frá.
Í lokin er rétt að geta þess að Agnete Schrøder flugmaður fékk flugskírteini sitt til baka, eftir tvo mánuði, ásamt afsökunarbeiðni frá Umferðarstofunni. Hún hefur ekki ákveðið hvort hún krefjist bóta vegna tekjumissis.