Fyrir tveimur vikum sýndi danska sjónvarpið, DR, þáttinn ,,Svømmestjerner – Under overfladen. Þessi þáttur fjallaði um þær aðferðir sem þjálfarar danska kvennalandsliðsins í sundi beittu um margra ára skeið, en ekki þó síður um afleiðingarnar sem aðferðir þjálfaranna höfðu í för með sér.
Árið 2002 ákvað stjórn Danska Sundsambandsins að efla til muna þjálfun danska kvennalandsliðsins i sundi. Með nánari samvinnu við Team Danmark (stofnun sem hefur yfirumsjón með og styrkir framúrskarandi íþróttafólk) fékk Sundsambandið mun meira fé til starfseminnar.
Í byrjun mars árið 2003 tók nýr þjálfari, Ástralinn Mark Regan, við þjálfun dönsku landsliðanna í sundi. Mark Regan var þekktur sundþjálfari og stjórn Danska sundsambandsins batt miklar vonir við ráðningu hans. Á þessum tíma var æfingaaðstaða landsliðanna í Farum á Norðaustur-Sjálandi. Fljótlega eftir að Mark Regan hóf störf kom í ljós að hann beitti öðrum aðferðum við þjálfunina en Danir áttu að venjast. Það hafði vissulega spurst út að þjálfarinn væri skapmikill en fæstir áttu von á að hann grýtti stólum og öðrum lausamunum á sundlaugarbakkanum til og frá með tilheyrandi hrópum. Það voru þó aðrir þættir í fari þjálfarans sem vöktu athygli annarra þjálfara sem unnu í sundmiðstöðini í Farum.
Niðrandi ummæli og vigtað í allra viðurvist
Jens Frederiksen var einn þeirra þjálfara sem daglega vann í sundmiðstöðinni þegar Mark Regan hóf störf. Eins og aðrir varð hann vitni að framkomu og háttalagi nýja þjálfarans gagnvart stúlkum í kvennalandsliðinu. Síðla árs 2004 ákvað Jens Frederiksen, eftir að hafa um nokkurra mánaða skeið fylgst með kollega sínum, að senda formanni Danska sundsambandsins tölvupóst. Þar lýsti hann áhyggjum sínum vegna framkomu landsliðsþjálfarans sem niðurlægði stúlkurnar með ýmsum hætti. Þær voru allar skyldaðar til að stíga á vigtina daglega, í allra augsýn, og svo dundu athugasemdir þjálfarans á þeim. Hvort þær hefðu verið í rjómakökukappáti í gær og annað í þeim dúr. Innan sundsambandsins giltu annars þær reglur að hver og einn skyldi vigtaður í einrúmi (vigtunin átti ekki að vera skylda) og þyngdin væri einkamál. Jens Frederiksen fékk aldrei svar við tölvupóstinum og ekkert breyttist. Jens Frederiksen sagði síðar í viðtali að ekki hefði farið framhjá sér, og mörgum öðrum, að stúlkunum í landsliðshópnum liði ekki vel undir stjórn Mark Regan. Um sama leyti og Jens Frederiksen sendi áðurnefndan tölvupóst hætti Mette Jacobsen, ein besta sundkona Danmerkur fyrr og síðar, að æfa undir stjórn Mark Regan og fór að æfa undir stjórn annars þjálfara í annarri sundmiðstöð. Mette Jacobsen dró ekki dul á að hún hefði hætt að æfa með landsliðinu vegna framkomu Mark Regan, við sig og aðrar stúlkur. Hún hætti keppnissundi árið 2006, hafði þá unnið til 36 verðlauna á Evrópumótum og heimsmeistaramótum, þar af 10 gullverðlauna.
Crown Princess Mary with some of the Danish Olympic Swimming team members during their training. #Olympics pic.twitter.com/nLGwpCBZzh
— Scandinavian Royals. (@crownprincely) August 4, 2016
Grunsemdir næringarráðgjafans
Í apríl árið 2005 voru Mark Regan þjálfari og Lars Sørensen íþróttastjóri kallaðir á fund Önnu Ottesen, næringarráðgjafa Team Danmark. Á fundinum lagði hún til að þegar í stað yrði hætt að vigta sundkonurnar. Hún sagðist óttast, og teldi sig vita, að sumar stúlknanna beinlínis sveltu sig, af ótta við þjálfarann, og það gæti haft alvarlegar afleiðingar, ekki síst á sálarástandið. Þjálfarinn og íþróttastjórinn samþykktu tillögur næringarráðgjafans og Team Danmark sendi nýjar reglur varðandi vigtun og fleira til allra þjálfara. Þessar reglur breyttu hinsvegar engu, Mark Regan fór sínu fram og enginn hjá sundsambandinu lyfti svomikið sem litlafingri til að stöðva háttalag hans.
Átröskun, kvíði og þunglyndi
Áhyggjur Önnu Ottesen næringarráðgjafa reyndust á rökum reistar. Ein þeirra stúlkna sem aðferðir Mark Regan höfðu mikil áhrif á er Jeanette Ottesen. Eftir að hún hafði í þrjú ár æft undir stjórn Mark Regan hætti hún að mæta á æfingar undir hans stjórn. Þetta var árið 2006. Hún þjáðist þá af átröskun og þunglyndi. Henni tókst þó að yfirvinna erfiðleikana og byrjaði aftur að æfa, fyrst á eigin spýtur en síðan með landsliðinu árið 2008, en þá hætti Mark Regan sem landsliðsþjálfari. Jeanette Ottesen hefur unnið til 50 alþjóðlegra verðlauna, fleiri en nokkur önnur dönsk sundkona. Í viðtali við danska útvarpið fyrir skömmu sagði hún að aðeins hefði munað hársbreidd að aðferðir Mark Regan hefðu eyðilagt feril sinn.
Ekki allar jafn heppnar
Ekki voru allar stúlkur jafn heppnar og Jeanette Ottesen. Í áðurnefndum sjónvarpsþætti um sundstjörnurnar var rætt við nokkrar stúlkur sem voru í fremstu röð en brotnuðu undan álaginu og aðferðum Mark Regan. Ein þeirra er Kathrine Jørgensen, hún var talin ein efnilegasta sundkona Danmerkur. Frásögn hennar um baráttu við þunglyndi og átröskun er áhrifamikil. Eftir að hafa verið dvalið á geðdeild um skeið byrjaði hún aftur að æfa, í Esbjerg. Þegar hún var kölluð til landsliðsæfinga komst hún fljótt að því að allt var við það sama, Mark Regan skipaði öllum að stíga á vigtina og gerði athugasemdir svo allir viðstaddir heyrðu. Þetta var til þess að Katrhine Jørgensen hætti algjörlega allri sundþjálfun og dvaldi aftur um skeið á geðdeild. Hún glímir enn við þunglyndi.
Paulus Wildeboer og Michael Hinge
Mark Regan hætti, eins og áður sagði, sem landsliðsþjálfari árið 2008. Hafi sundfólkið ímyndað sér að þá tæki annað og betra við varðandi þjálfunina skjátlaðist því. Hollendingurinn Paulus Wildeboer tók við sem landsliðsþjálfari og hann notaði nákvæmlega sömu aðferðir og Mark Regan hafði gert. Niðurlægði stúlkurnar og vigtunin fór fram í allra augsýn með tilheyrandi athugasemdum. Og aðferðirnar frá Mark Regan náðu ekki einungis til landsliðsins í flokki fullorðinna. Daninn Michael Hinge sem tók við sem þjálfari unglingalandsliðsins í sundi árið 2005 notaði nákvæmlega sömu aðferðir. Meðal þeirra sem voru undir hans stjórn sem þjálfara var Sidse Kehlet. Árið 2011, þegar hún var á fimmtánda ári, var Sidse Kehlet besta sundkona Evrópu í sínum aldursflokki. En hún fékk að kenna á aðferðum Michael Hinge. Í viðtali við DR sagði hún frá því að Michael Hinge hefði notað hvert tækifæri til að gera grín að sér, kallað hana feitu Sidse. Hún tók aðfinnslur þjálfarans mjög nærri sér, gerði allt sem hún gat til að léttast en eftir að hún hafði misst 10 kíló á tveimur mánuðum sagði líkaminn stopp. Hún þjáðist af átröskun og þunglyndi og árið 2014, hætti hún allri sundiðkun, að læknisráði. Sidse Kehlet glímir enn við þunglyndi og er háð lyfjum.
Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi en þau eru miklu fleiri.
Rétt er að nefna að frá árinu 2012 hefur reglum um vigtun sundfólks, verið fylgt. Mark Regan býr í Ástralíu og er kominn á eftirlaun. Hann vildi ekki veita danska sjónvarpinu viðtal en sagði þó við fréttamann að hann teldi sig ekki hafa gert neitt rangt í starfi sínu.
Paulus Wildeboer lést árið 2014 og Michael Hinge starfar sem sundþjálfari hjá Sundfélaginu í Holbæk á Sjálandi. Hann vildi ekkert segja þegar fréttamenn danska sjónvarpsins höfðu samband við hann.
Sundsambandið getur engu svarað en ráðherra vill skýringar
Forsvarsmenn Danska sundsambandsins hafa litlu getað svarað þegar leitað hefur verið svara við því hvernig þetta, sem allir viðurkenna að átti sér stað, gat gerst. Sundkonurnar segja að þær hafi einfaldlega ekki þorað að segja neitt af ótta við að falla úr náðinni. Mette Bock ráðherra menningar- og íþróttamála óskaði eftir skýringum sundsambandsins en þótti þær ófullnægjandi og kallaði fulltrúa sundfólks og sundsambandsins á sinn fund. Ráðherrann segist vilja tryggja að þetta sem átti sér stað hjá sundsambandinu á árunum 2003 til 2012 geti ekki endurtekið sig og vill fá afdráttarlausar skýringar á aðgerðaleysi forsvarsmanna sundsambandsins. ,,Það þarf að tala um hlutina en ekki þegja. Við viljum ná árangri en það má ekki kosta hvað sem er“ sagði ráðherrann.
Þátturinn um sundkonurnar var sá fyrsti í þáttaröð danska sjónvarpsins um íþróttafólk og átraskanir. Í þáttunum sem fylgdu í kjölfarið kom fram að átraskanir og þunglyndi eru ekki bundin við sundfólk.