Frá síðustu aldamótum, einkum þó á síðasta áratug, hefur sjúkrahúsum í Danmörku fækkað mikið. Árið 2007 voru samtals 76 sjúkrahús í landinu öllu en í dag eru þau 56. Jafnframt eru þau sjúkrahús sem hafa sólarhrings neyðarvakt nú 21 talsins, en árið 2007 voru þau 40.
Eins og ofangreindar tölur bera með sér hefur sjúkrahúsþjónusta í Danmörku breyst mikið. Sjúkrahúsunum hefur fækkað en þau sem eftir standa eru mun öflugri en áður og betur í stakk búin til að takast á við sífellt flóknari, sérhæfðari og erfiðari verkefni.
Ákvarðanir um fækkun sjúkrahúsa hafa verið mjög umdeildar. Enginn vill missa sjúkrahúsið úr sínu nágrenni en hin öra tækniþróun, með auknum kostnaði (meðal annars vegna hærri meðalaldurs þegnanna) hefur leitt til þessarar breytingar. Breytingin hefur í för með sér að nú er, fyrir marga, mun lengri leið á sjúkrahúsið. Þetta á einkum við um dreifbýlið.
Lengri bið eftir sjúkrabílnum
Í Danmörku er rekstur sjúkrabíla í höndum einkafyrirtækja, reksturinn jafnan boðinn út til nokkurra ára í senn. Sama gildir um sjúkraþyrlur. Fyrirtækin sem annast reksturinn reyna að gæta ítrustu hagkvæmni og á síðustu árum hefur „útgerðarstöðvunum“ ef svo má að orði komast fækkað nokkuð. Það getur þýtt lengri bið eftir sjúkrabíl, eða þyrlu og sú bið getur skipt sköpum. Ekki síst þegar um er að ræða hjartaáfall.
Sjúkraflutningafyrirtækin fullyrða að fækkun stöðvanna hafi lítil sem engin áhrif, samgöngur verði sífellt betri og bílarnir því fljótari í förum. Skýrslur sýna að á undanförnum árum hefur tíminn sem sjúkrabíllinn er á leið á áfangastað víða lengst, en hvergi styst. Aðalástæður þess að ferðatími sjúkrabílanna hefur lengst eru tvær: síaukin umferð á vegunum og lengri leið á næsta sjúkrahús. Síðarnefnda ástæðan gildir líka um þyrlurnar.
Hjartastuðtækin
Flestir kannast við hjartastuðtækin svonefndu. Þau voru fundin upp fyrir nokkrum áratugum, áður var hjartahnoð og blástursaðferð helstu aðferðir til endurlífgunar. Fyrst í stað var notkun hjartastuðtækjanna bundin við sjúkrahús og læknastofur. Um síðustu aldamót komu á markaðinn hjartastuðtæki sem voru mun ódýrari og handhægari en þau sem áður höfðu þekkst. Og það sem meira var, þessi tæki voru svo einföld í notkun að þau kröfðust engrar kunnáttu notandans. Í dag er þessi tæki mjög víða að finna, á heimilum og vinnustöðum. Í Danmörku eru nú um það bil 22 þúsund hjartastuðtæki og fer ört fjölgandi. En þótt tækin séu til staðar er þörfin fyrir þá sem kunna „hjálp í viðlögum“ áfram mikil. Um fjögur þúsund Danir fá árlega hjartastopp, utan sjúkrahúsa.
Hjartahlaupararnir og hjartastuðtækin
Tryg er nafnið á einu stærsta tryggingafélagi Danmerkur. Í tengslum við félagið er sjóður, TrygFonden. Þessi sjóður sinnir alls kyns verkefnum sem lúta, á einn eða annan hátt, að öryggi og velferð borgaranna. Sjóðurinn hefur gefið hundruð hjartastuðtækja til stofnana í Danmörku, þar á meðal skóla og hjúkrunarheimila.
Þann 1. september árið 2017 voru stofnuð, undir stjórn TrygFonden samtök sem nefnast Hjerteløbere, Hjartahlauparar. Fyrst í stað var starfsemin bundin við suður- og vesturhluta Sjálands en hefur síðan breiðst út til annarra landshluta. Þeir sem vilja ganga til liðs við samtökin þurfa að vera fúsir til að hlaupa af stað þegar kall kemur og fá ennfremur þjálfun í ,,hjálp í viðlögum“. Ætlunin var að koma upp þéttu neti hjartahlaupara um land allt. Danir sýndu þessu mikinn áhuga og nú eru Hjartahlaupararnir um það bil 56 þúsund, og fer fjölgandi. TrygFonden hefur ennfremur unnið að skráningu hjartastuðtækja í því skyni að vita nákvæmlega hvar slík tæki er að finna.
Hvernig virkar þetta?
Til að útskýra hvernig hjartahlauparakerfið virkar er kannski nærtækast að taka dæmi, yfirfært á Ísland.
Maður, staddur í afmælisveislu í húsi í efri byggðum Kópavogs fær hjartaáfall. Strax er hringt í neyðarnúmerið eftir sjúkrabíl og um leið er staðsetningin, í efri byggðum Kópavogs, sjálfkrafa tilkynnt til Hjartahlauparanetsins. Samtímis er sent út sms boð, gegnum næsta endurvarpsmastur, til fimmtán til tuttugu hjartahlaupara, sem staddir eru á svæðinu, innan 1500 metra. Ef enginn þeirra svarar er svæðið stækkað í 3 kílómetra. Pípið í símanum er öðruvísi en venjulegt sms merki og hjartahlaupararnir rjúka upp til handa og fóta til aðstoðar manninum með hjartaáfallið en heimilisfangið fá þeir líka sent með sms skilaboðunum. Jafnframt fá hjartahlaupararnir boð um hvar næsta hjartastuðtæki sé að finna. Hjartahlaupari sem staddur er í nágrenni tækisins grípur það með sér og kemur svo til aðstoðar. Reynslan sýnir að venjulega eru fimm til tíu hjartahlauparar sem bregðast við.
Í stuttu máli sagt hefur þetta virkað mjög vel. Í nær helmingi tilvika hafa hjartahlaupararnir verið komnir talsvert á undan sjúkrabílnum og það hefur skipt sköpum.
Enn í mótun
Í viðtali við dagblaðið Berlingske sagði talsmaður TrygFonden að hjartahlauparakerfið væri enn í mótun. Hann kvaðst þess fullviss að hjartahlaupurum ætti eftir að fjölga til muna á næstu árum. Aðsókn að námskeiðum fyrir hjartahlaupara væri mikil sem væri jákvætt.