Hlutfall innflytjenda hefur aldrei verið hærra hér á landi en á fyrsta ársfjórðungi 2019 voru innflytjendur 12,7 prósent af heildarmannfjölda. Ísland er jafnframt eina land Norðurlandanna þar sem atvinnuþátttaka innflytjenda er hlutfallslega meiri en innfæddra. Tæplega tuttugu prósent af fjölda starfandi hér á landi eru innflytjendur en talið er aðlögun innflytjenda að íslenskum vinnumarkaði gangi almennt nokkuð vel. Aftur á móti gengur verr að aðlaga innflytjendur að íslenska skólakerfi en til að mynda útskrifast mun færri innflytjendur úr framhaldsskóla en innlendir.
Atvinnuþátttaka innflytjenda hærri á Íslandi
Í nýrri norrænni skýrslu um atvinnuþátttöku og menntun innflytjenda og flóttamanna á Norðurlöndunum, sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina, kemur fram að hröð fjölgun íbúa í Norðurlöndunum á síðustu áratugum megi að miklu leyti rekja til innflytjenda. Árið 1990 bjuggu 23 milljónir í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi en árið 2018 bjuggu alls 27 milljónir samanlagt í þessum fimm löndum. Samkvæmt skýrslunni má rekja 60 prósent af þessari fjölgun til innflytjenda.
Hæsta hlutfall innflytjenda er í Svíþjóð en árið 1990 var hlutfall innflytjenda þar í landi 9 prósent en árið 2018 var hlutfallið 19 prósent. Í Noregi er hlutfallið nú um 16 prósent, í Danmörku 12 prósent og Finnlandi 7 prósent. Árið 2008 voru innflytjendur á Íslandi 27.240 talsins, eða 8 prósent mannfjöldans, en 10 árum seinna voru þeir orðnir 43.736, eða 12,6 prósent mannfjöldans í fyrra.
Í skýrslunni er fjallað um hversu vel Norðurlöndunum vegnar í aðlögun innflytjenda að vinnumarkaði en há atvinnuþátttaka er Norðurlöndunum gríðarlega mikilvæg til að standa undir víðtækum og kostnaðarsömum velferðarkerfum ríkjanna. Auk þess sem stórt bil í atvinnuþátttöku íbúa er talið geta haft slæm áhrif á jöfnuð í samfélögum.
Ísland tekið við mun færri hælisleitendum
Í Finnlandi er atvinnuþátttaka innflytjenda hins vegar aðeins um 54 prósent og rétt um 60 prósent í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Mestur munur á atvinnuþátttöku innflytjenda og innfæddra er í Svíþjóð, þar sem 14 prósentum munar á atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara miðað við innlenda. Í Danmörku og Finnlandi er munurinn um 10 prósent, og í Noregi rúm fimm prósent.
Á Íslandi er atvinnuþátttaka innflytjenda hæst af öllum Norðurlöndunum en samkvæmt tölum Hagstofunnar eru starfandi innflytjendur nú orðnir fimmtungur af fjölda starfandi hér á landi. Í skýrslunni segir að þennan mun megi rekja til þess að á síðustu árum varð mikil eftirspurn eftir vinnuafli hér á landi í kjölfar uppsveiflunnar í efnahagslífinu hér á landi frá árinu 2013.
Jafnframt hefur Ísland tekið við mun færri hælisleitendum en hin Norðurlöndin á síðustu árum. Samanlagt tóku Norðurlöndin á móti nærri 200 þúsund ungum hælisleitendum á tímabilinu 2011 til 2016. Svíþjóð tók á móti 74 prósent þeirra, Noregur tók á móti 11 prósent, Danmörk 8,5 prósent, Finnland 6 prósent og Ísland 0,2 prósent.
Lestrargeta innflytjenda lægri
Í skýrslunni er einnig fjallað um menntun og aðlögun innflytjenda í skólakerfi á Norðurlöndunum en samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA gengur enn erfiðlega að hjálpa börnum innflytjenda að aðlagast skólakerfinu á Norðurlöndunum. Þann mun má meðal annars sjá í lestrargetu barna en samkvæmt skýrslunni gengur aðlögun barna mun betur því yngri sem börnin eru þegar þau koma til landsins.
Í skýrslunni er lagt til að meiri stuðningur sé veittur þeim börnum sem koma eldri inn í skólakerfið. Auk þess er lagt til að ef mögulegt er að kenna innflytjendum í auknum mæli á sínu eigin móðurmáli í ákveðnum fögum þá sé það æskilegt. Jafnframt er lagt til að innflytjendum sé veittur meiri tími til lærdóms, hvort sem það sé með sumarskólum eða námskeiðum í fríum.
Mun færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla
Skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendri hér á landi. Mestur er munurinn í framhaldsskóla en hlutfallslega færri innflytjendur en innlendir byrja í framhaldsskóla við 16 ára aldur og skólasókn þeirra lækkar meira fyrir hvert aldursár.
Í tölum Hagstofunnar má sjá að á árinu 2017 sóttu nærri öll 16 ára ungmenni fædd hér á landi framhaldsskóla en aðeins átta af hverjum 10 innflytjendum. Á nítjánda aldursári sóttu um sjö af hverjum 10 innlendum íbúum framhaldsskóla, en aðeins um tveir af hverjum 10 innflytjendum.
Móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fjallaði um stöðu innflytjenda í menntakerfinu í aðsendri grein í Fréttablaðinu fyrr í vikunni. Þar segir hún að áskoranir nemenda með annað móðurmál en íslensku séu margþættar en að hennar mati er tungumálið er óneitanlega sú stærsta. Hún segir að stjórnvöld leggi nú sérstaka áherslu á að efla íslenskuna á sem flestum sviðum.
Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis og inniheldur hún heildstæða aðgerðaáætlun í 22 liðum. Í henni er meðal annars lagt til að þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Að auki hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum ungra barna, fer fyrir. Sá hópur mun móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Einnig höfum hefur verið gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.
„Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt,“ segir Lilja að lokum.