Einn af fimm dómurum ekki óhlutdrægur í Al Thani-málinu en málsmeðferð annars eðlileg
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð íslenskra dómstóla í Al Thani-málinu hafi í meginatriðum verið eðlileg. Einn af fimm dómurum Hæstaréttar sem dæmdi í málinu hafi hins vegar ekki verið óhlutdrægur vegna starfa sonar hans fyrir Kaupþing.
Efast má um hvort Árni Kolbeinsson, einn þeirra fimm dómara sem kváðu upp sakfellingardóm í Hæstarétti í Al Thani-málinu svokallaða, hafi verið nægilega óhlutdrægur til að dæma í málinu. Ástæðan fyrir því er sú að Kolbeinn Árnason, sonur hans, starfaði sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings á árunum 2008 til 2013. Hann starfaði einnig hjá Kaupþingi áður en skilanefnd var skipuð yfir bankann. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstól Evrópu í Al Thani-málinu svokallaða sem birt var í morgun.
Endurupptökunefnd hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið vafi á hlutdrægni Árna í málinu.
Mannréttindadómstóllinn hafnaði hins vegar öðrum atriðum sem fjórmenningarnir sem hlutu dóm í Al Thani-málinu kærðu til hans með afgerandi hætti. Þau atriði snéru að því að þeir töldu að brotið hefðu verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar með tilliti til aðgangs þeirra að gögnum, hvort þeir hefðu fengið nægan tíma til að undirbúa málsvörn sína og að þeir hafi verið hindraðir í að leiða fram vitni í málinu. Þar var sérstaklega átt við Al Thani sjálfan og aðstoðarmann hans, Sheik Sultan Al Thani. Þá töldu fjórmenningarnir að brotið hefði verið á þeim þegar símtöl þeirra við lögmenn hefðu verið hlustuð. Í því tilfelli taldi Mannréttindadómstóllinn að mennirnir hefðu átt að fara í skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum.
Því var niðurstaða dómstólsins að öðru leyti sú að málsmeðferð íslenskra dómstóla í Al Thani-málinu hafi að öðru leyti verið eðlileg.
Mennirnir fjórir: Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, fóru fram á að fá 100 þúsund evrur, tæplega 13,9 milljónir króna, í bætur hver vegna málsins. Auk þess fóru þeir fram á að fá endurgreiddan málskostnað fyrir íslenskum dómstólum og fyrir Mannréttindadómstólnum. Hreiðar Már vildi fá 61 milljón króna, Sigurður 33,2 milljónir króna, Ólafur 38,8 milljónir króna og Magnús 43,9 milljónir króna. Samtals voru endurgreiðslukröfur þeirra upp á um 177 milljónir króna og bótakröfur voru upp á 55,4 milljónir króna.
Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið ætti að greiða hverjum og einum fjórmenninganna tvö þúsund evrur, 277 þúsund krónur, auk vaxta. Öðrum fjárkröfum var hafnað.
Hreiðar Már sagði við mbl.is í morgun að niðurstaðan gefi von um endurupptöku þess fyrir íslenskum, dómstólum. Ólafur Ólafsson sagði í tilkynningu sem send var út fyrir hans hönd að hann teldi að niðurstaðan sýndi fram á að hann hefði ekki notið „réttlátrar málsmeðferðar og úrlausnar fyrir óvilhöllum dómstólum, sem er einn af hornsteinum réttarríkisins.“ Hann kallaði niðurstöðuna enn fremur fullnaðarsigur.
Keypti hlut í Kaupþingi á ögurstundu
Al Thani-málið snýst um kaup Mohamed bin Khalifa Al Thani, sem tilheyrir konungsfjölskyldunni í Katar, á 5,01 prósent hlut í Kaupþingi fyrir 25,6 milljarða króna þann 22. september 2008, skömmu fyrir bankahrun, án þess að hann þyrfti að leggja út eina einustu krónu. Við það yrði Al Thani þriðji stærsti hluthafi bankans.
Kaupþing, sem var seljandi hlutarins myndi líka lána fyrir kaupunum að öllu leyti, en Al Thani gekkst í sjálfsábyrgð fyrir hluta lánsins sem honum var veitt.
Framkvæmd viðskiptanana var eftirfarandi: Kaupþing lánaði tveimur félögum skráðum til heimils á Tortóla-eyju í Bresku Jómfrúareyjunum um 12,8 milljarða króna hvoru fyrir sig. Annað félagið hét Serval Trading og var í eigu Mohammed Al Thani. Hitt hét Gerland Assets og var í eigu Ólafs Ólafssonar. Þessi tvö félög lánuðu svo þriðja aflandsfélaginu, Choice Stay frá Kýpur, sem var líka í eigu Ólafs, alla fjármunina sem Kaupþing hafði lánað þeim.
Þaðan voru þeir lánaðir til íslensks félags í eigu Al Thani, Q Iceland Holding. Dótturfélag þess félag, Q Iceland Finance, keypti svo 5,01 prósent hlutinn í Kaupþingi.
Staða bankans sögð sterk
Greint var frá kaupunum mánudagsmorguninn 22. september 2008, fyrir opnun markaða. Þar sem að Sheikh Mohammed hafði keypt rétt yfir fimm prósent voru kaupin flöggunarskyld. Það þurfti að senda tilkynningu til Kauphallar. Hún var birt 8:55 að íslenskum tíma.
Í henni var meðal annars haft eftir Sheikh Mohammed Al Thani: „Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþing er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans."
Al Thani sagði síðar við starfsmenn sérstaks saksóknara að hann ræki ekki minni til þess að hafa séð umrædda fréttatilkynningu né að hafa lagt henni til ummæli.
Hreiðar Már fór líka í viðtöl við fjölmiðla og lýsti yfir ánægju sinni með viðskiptin og sagði þau lýsandi fyrir það alþjóðlega traust sem Kaupþing nyti. Í viðtali við RÚV sagði hann að kaupin væru til marks um traust til bankans. „Ég held þetta styrki bankann. Það er ljóst að það er óraunhæft fyrir okkur að sækja mikið meira fjármagn til íslenskra fjárfesta, bankinn er orðinn það stór og ef við ætlum að halda áfram að vaxa á alþjóðlegum markaði þá verðum við að ná í alþjóðlega fjárfesta.“
Endurgreiddi Kaupþingi en taldi sig blekktan
Kaupþing féll svo nokkrum dögum síðar, nánar tiltekið 9. október 2008. Við það varð eignarhlutur Al Thani verðlaus.
Sheikh Al Thani hafði ekki einungis fengið lánaða peninga til að kaupa hluti í Kaupþingi, hann fékk líka 50 milljóna dala inn í aflandsfélag sitt Brooks Trading. Það voru peningar sem hann gat ráðstafað að vild og grunur lék á, samkvæmt mati rannsakenda, að væri fyrirframgreiðsla til hans fyrir að taka þátt í svokölluðum CLN-viðskiptum fyrir Kaupþings, en sakamál vegna þeirra er nú til meðferðar í héraðsdómi Reykjavíkur. CLN-viðskipti Al Thani komust aldrei á koppinn.
Þann 8. október 2008, eftir þrýsting frá fólkinu í kringum Sheikh Al Thani, ákvað Kaupþing í Lúxemborg að selja þessar 50 milljónir dali til Kaupþings á Íslandi á genginu 250 krónur á dal. Það gengi var langt yfir skráðu gengi íslenskrar krónu á þessum tíma, sem var 126,8 krónur á dal. Gengið sem Kaupþing keypti dali Sheiksins á skilaði honum nánast sömu upphæð og hann skuldaði vegna kaupa sinna í hlutabréfum í bankanum sem myndu verða verðlaus degi síðar, eða rúmlega 12,5 milljörðum króna.
Þessar krónur voru notaðar til að greiða inn á skuld Serval Trading Group, aflandsfélags Sheikhsins, sem hann var að hluta til í persónulegri ábyrgð fyrir. Við það varð tapið af kaupunum á 5,01 prósent hlutnum á Kaupþing fært að nær öllu leyti yfir á bankanum sjálfan.
Frá því að tilkynnt var um kaup Al Thani 22. september 2008 og þangað til að viðskiptum með bréf Kaupþings var hætt 8. október sama ár urðu alls um 2.700 viðskipti með bréf í Kaupþingi. Velta þeirra var tæplega 34 milljarðar króna.
Slitabú Kaupþings reyndi mjög að endurheimta 50 milljón dala lánið sem Brooks fékk og var notað til að gera Sheikh Al Thani „heilan“ gagnvart öðrum lánum sem hann var með hjá Kaupþingi. Búið vildi meina að þetta lán, sem var án ábyrgðar, hefði verið notað til að losa Sheikh Al Thani undan persónulegri ábyrgð hans á öðru og stærra láni sem veitt hafði verið til að kaupa hlut í Kaupþingi. Í mars 2012 var greint frá því að slitabúið ætlaði sér að stefna Al Thani vegna málsins og að málið yrði rekið fyrir íslenskum dómstólum. Tæpu ári síðar náðist hins vegar samkomulag um uppgjör sem varð til þess að fallið var frá öllum málarekstri. Það samkomulag fól í sér að Al Thani greiddi til baka 26 milljónir dala.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem sat í slitastjórn Kaupþings á þessum tíma, bar vitni um þetta uppgjör við aðalmeðferð Al Thani-málsins. Hann sagði að Sheikh Al Thani hefði talið að bú Kaupþings ætti enga kröfu á hann og „miðað við viðbrögð lögmanna hans taldi hann sig vera fórnarlamb í þessum viðskiptum.“ Jóhannes Rúnar bætti við að það mætti „túlka viðbrögð hans þannig að hann hafi talið sig blekktan i þessum viðskiptum.“
Mál lögmanna líka fyrir Mannréttindadómstólnum
Al Thani-málið var tekið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara og mennirnir fjórir ákærðir snemma árs 2012.
Upphaflega átti málsmeðferð í Al Thani-málinu að fara fram í apríl 2013 en hún frestaðist þegar að Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, sögðu sig frá málinu þremur dögum áður en að aðalmeðferð átti að fara fram. Þeir sögðust gera þetta vegna þess að réttur skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis hefði verið þverbrotinn. Þetta varð til þess að fresta þurfti aðalmeðferð málsins um ótilgreindan tíma.
Gestur og Ragnar voru dæmdir í réttarfarssekt fyrir athæfið og þurftu að greiða milljón krónur hvor. Þeir kærðu þá niðurstöðu til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu í lok október í fyrra að íslenska ríkið hefði ekki gerst brotlegt þegar það sektaði lögmennina. Í byrjun maí 2019 var tilkynnt að yfirdeild dómstólsins myndi taka fyrir mál lögmannanna tveggja.
Fyrsta málið af mörgum
Dómur féll í Al Thani-málinu í héraðsdómi Reykjavíkur í málinu 12. desember 2013 og voru sakborningarnir fjórir allir dæmdir til fangelsisvistar. Þann 12. febrúar 2015 var sakfelling þeirra staðfest af Hæstarétti. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár. Það var fyrsta málið yfir fyrrverandi stjórnendum Kaupþings sem niðurstaða fékkst í í Hæstarétti.
Samkvæmt dómnum beindust brot mannanna fjögurra að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild. Tjónið sem brotin leiddu af sér, bæði beint og óbeint, yrði samkvæmt Hæstarétti ekki metið til fjár. Hann sagði að um væri að ræða alvarlegustu glæpi sem „nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot[...]Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur“.
Um var að ræða þyngstu dóma sem fallið höfðu í efnahagsbrotamálum í Íslandssögunni.
Alls hafa fimm sakamál verið höfðuð á hendur Hreiðari Má. Tveimur þessarra mála er lokið með sakfellingu fyrir Hæstarétti, einu er lokið með sakfellingu í Landsrétti , einu er lokið með sakfellingu í héraðsdómi, eitt var ómerkt í Hæstarétti og vísað aftur til héraðsdóms þar sem það er til umfjöllunar nú. Hreiðar Már hefur þegar hlotið refsingu sem fyllir sex ára refsiramma sem kveðið er á um í lögum.
Magnús hefur hlotið þrjá refsidóma sem hafa skilað honum fjögurra og hálfs fangelsisdómum. Þá er Magnús einn ákærðu í CLN-málinu sem enn er til meðferðar fyrir dómstólum.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur hlotið tvo refsidóma, í Al Thani-málinu og stóra markaðsmisnotkunarmálinu. Í því fyrra hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm og fyrir hið síðara hlaut hann eins árs hegningarauka. Hann er auk þess á meðal sakborninga í áðurnefndu CLN-málinu.
Ólafur Ólafsson hefur hlotið einn dóm, í Al Thani-málinu. Þar var hann dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði