Í síðustu viku skoðuðum við þá Caracalla og Commodus. Nú beinum við sjónum okkar að næstu þremur.
Neró (37 - 68 e.kr.)
Það einkennir ýmsa af þeim sem hér eru nefndir að þeir virðast hafa viljað verða eitthvað annað en keisarar. Eins fram kom í fyrri hluta var Commodus heillaður af lífi skylmingaþræla (e: gladiator) og Caracalla var fyrst og fremst stríðsherra. Neró sá sjálfan sig sem listamann og sagt er að hans síðustu orð hafi verið: „Ó, hvílíkan listamann sem veröldin nú kveður!“. Oft er sagt að hann hafi leikið á fiðlu meðan Róm brann fyrir augum hans og skemmt sér konunglega en það mun vera rangt enda var Neró ekki í Róm er eldurinn braust út. Hann varð keisari aðeins 16 ára gamall og það var ljóst frá fyrstu stundu að hann réð illa við þetta viðamikla verkefni. Agrippína móðir hans hafði talið að hún gæti stjórnað á bak við tjöldin en þar misreiknaði hún sig illa. Neró lét ekki að stjórn svo hún reyndi að koma honum frá til að láta uppeldisbróður hans Britannicus taka við stjórnartaumunum.
Neró sá við því og Britannicus dó all skyndilega og grunaði marga að Neró hefði látið eitra fyrir honum. Agrippína hélt áfram að vera til vandræða enda hafði hún nú líklega gert sér grein fyrir hvílík reginskyssa það var að gera Neró að keisara. Það endaði með því að Neró lét taka hana af lífi. Í fyrstu virtist Neró þó ekki vera alslæmur. Hann lét afnema dauðarefsingu, lækkaði skatta og setti lög sem heimiluðu þrælum að kvarta undan illri meðferð. Hann var vissulega óagaður og ofdekraður unglingur sem þótti gaman að skemmta sér en virtist ekki vera illa innrættur. Það átti eftir að breytast til hins verra.
Hann sólundaði samviskulaust fjármunum ríkisins og ofsótti eða lét myrða alla sem kvörtuðu undan stjórn hans. Hann hefur sérstaklega fengið á sig slæmt orð vegna þess að hann kenndi kristnum um brunann mikla og ofsótti fylgjendur þeirrar trúar miskunnarlaust. Tónlistarmenn og ljóðskáld voru ekki hátt skrifaðir í Róm til forna og því þótti ekki við hæfi að keisarinn væri að hanga með þannig fólki eða hvað þá koma fram opinberlega en listamannstaugin var sterk í Neró. Eftir morðið á móður hans héldu honum svo engin bönd. Hann girntist aðra konu og lét því myrða eiginkonu sína. Allir sem hallmæltu keisaranum, eða voru grunaðir um það, voru strax líflátnir. Eins og áður sagði þá var Neró ekki í Róm er eldurinn braust út en nær öll borgin varð eldinum að bráð. Þó grunaði marga að hann hefði átt einhvern hlut að máli og þær raddir urðu háværari er keisarinn tilkynnti hvernig ætti að bregðast við brunanum en Neró datt það snjallræði í hug að byggja afar stórt glæsihýsi á brunarústunum.
Hver átti að búa þar? Nú, keisarinn auðvitað! Vandamálið var bara hvernig átti að safna fjármunum til að byggja þessa glæsivillu keisarans og Neró hækkaði þá skatta umtalsvert og seldi góðar stöður þeim sem buðu hæst. Rómverjar voru svo sem vanir spillingu en nú tók steininn úr. Foringjar í hernum ásamt þingmönnum gerðu uppreisn og Neró varð að flýja borgina. Þá barst honum til eyrna að þingið hefði dæmt hann til dauða. Öll sund voru lokuð, Neró framdi sjálfsmorð og veröldin var einum listamanni fátækari.
Caligula (12 - 41 e.kr)
Hann hét reyndar Gaius Caesar en viðurnefnið Caligula festist við hann en það mætti þýða sem „litla stígvél“. Að sögn fékk hann það heiti er hann var barn og hermenn sem þjónuðu í sveit föður hans skemmtu sér við að sjá hann fara í stígvél þeirra og spígspora um.
Caligula var vinsæll til að byrja með. Hann naut þess að forveri hans, Tíberíus, hafði verið hataður mjög en Germanicus faðir hans var vinsæll. Eins og Neró, virtist Caligula ágætur í fyrstu og hann virtist taka embættið alvarlega. Það var öllum keisurum mikilvægt að herinn væri sáttur við sitt, svo hann jók laun þeirra umtalsvert. Hann náðaði ýmsa sem höfðu verið reknir í útlegð og greiddi miskabætur til fólks sem hafði orðið illa fyrir barðinu á skattkerfi ríkisins. Fólk var ánægt, keisarinn nýi var ungur og myndarlegur og virtist vera með hjartað á réttum stað.
Eftir um sex mánaða valdatíma varð keisarinn alvarlega veikur og var vart hugað líf. Hann hjarnaði þó við en það var öllu ógnvænlegri Caligula sem sté upp af sóttarsæng, því nú tók við sannkallað hryllingstímabil í Róm sem einkenndist af morðum, pyntingum og brjáluðum kynlífs-svallveislum. Stundum rann þetta saman í eitt og fólki var misþyrmt og myrt fyrir framan skríkjandi svallveislugestina.
Navius Macro, yfirmaður lífvarðarsveitar keisarans var einn þeirra sem höfðu stutt mest við bakið á Caligula en hann var umsvifalaust tekinn höndum, pyntaður og myrtur. Caligula fór nú ekki dult með það að hann taldi sig vera nokkurskonar guðlega veru og að honum væru allir vegir færir sem venjulegu fólki væri annars ekki. Hann fór að sýna systur sinni óeðlilega mikinn áhuga og virtist mikið í mun að koma á kerfi sem líktist því sem var eitt sinn í Egyptalandi, þar sem systkini giftust og eignuðust börn. Svo virtist sem að veikindin hefðu gert keisarann algerlega vitskertan. Fræg er saga af því að hann hafi gefið „besta vini“ sínum, Incitatus, heilt hús ásamt rándýrum innanstokksmunum úr marmara, rándýrum teppum og heilmikið af eðalsteinum. Einnig gerði hann Incitatus að heiðurskonsúl. Þetta þótti afar sérstakt því Incitatus var hestur, ekki maður. Sumir hafa reyndar efast um sannleiksgildi þessarar sögu.
Hann fór með her sinn til Gallíu og lét þá rupla þar og ræna. Er herinn kom að ströndum Ermarsunds skipaði hann hermönnum sínum að tína upp fjöldann af skeljum til að sýna fram á að þeir hefðu sigrað sjálf hafið! Tryllt partístand og eyðslusemi varð til þess að fjárhirslur Rómar fóru að minnka all verulega og þá brá Caligula á það ráð að leggja ofurskatta á helstu ráðamenn eða hreinlega gera eigur þeirra upptækar. Þeir sem kvörtuðu voru umsvifalaust teknir af lífi. Hann var nú fyllilega sannfærður um að hann væri guðleg vera og lét skipa svo fyrir að stór stytta af honum yrði reist í miðri Jerúsalem.
Landsstjórinn þar, Heródes að nafni, vissi að það myndi gera íbúa þar frávita af reiði og blessunarlega tókst honum að fá Caligula ofan af þessari hugmynd.
Langlundargeð Rómverja var nú á þrotum og lífvarðarsveit keisarans sjálfs tók hann af lífi.
Elagabalus (204 - 222 e.kr.)
Elagabalus varð keisari aðeins 14 ára að aldri. Hann réð ríkjum í fjögur ár. Hann var fæddur í borginni Homs, þar sem nú er Sýrland. Hann var prestur í söfnuði sem dýrkaði sólguðinn Elah-Gabal. Eins og Caligula, þá var Elagabalus mikið partýljón og virtist hafa mun meiri áhuga á ljúfa lífinu en því að standa í einhverjum leiðinda ríkisrekstri.
Elagabalus var þó ekki mikið fyrir kvenfólk gefinn, þó hann hafi oft notið þeirra en því hrifnari var hann af karlmönnum. Rómverjar höfðu alveg kynnst samkynhneigð áður, t.d. hafði Trajan, sem var vel metinn keisari, aldrei farið dult með kynhneigð sína. Róm var þó sannkallað feðraveldi og karlmaður átti að hegða sér í fullu samræmi við það. Ástmaður Trajans var hinn kvenlegi og fagri Antoninus. Það fór því ekki fram hjá Rómverjum hver var „karlinn“, þ.e. hinn ráðandi, í því sambandi. Elagabalus þverbraut allar þær reglur.
Ég hef minnst á það að ýmsir þessara slæmu Rómarkeisara virtust vilja vera eitthvað annað en keisarar. Elagabalus vildi ekki vera keisari, hann vildi vera drottning. Hann klæddist kvenmannsfötum, málaði sig sem kona og daðraði óspart við hina ýmsu ráðamenn og herforingja, oft fyrir framan eiginkonur þeirra. Hann hélt trylltar svallveislur þar sem hefðbundin kynhlutverk voru ekki í hávegum höfð. Hann fór ekki dult með ást sína á skylmingakappanum Hierocles og kallaði hann „eiginmann“ sinn og að hann, Elagabalus, væri drottningin. Einnig bárust þær sögur af keisaranum að hann hefði stundum óvænt birst í vændishúsum borgarinnar og selt sig þar hæstbjóðanda.
Hann átti einnig að hafa lofað miklum fjármunum, þeim til handa, sem gætu breytt honum úr manni í konu. Svall og eyðsla keisarans varð sífellt trylltari og hann lét t.d. opna einkaböð keisarahallarinnar fyrir almenning svo hann gæti virt fyrir sér allt þetta nakta fólk og valið næstu leikfélaga sína. Þetta fór vægast sagt illa í marga heldri Rómverja en var þó ekki það sem varð Elagabalus að falli. Hann gekk of langt er hann tók sér eiginkonu, því hann valdi mey eina sem þjónaði í musteri gyðjunnar Vestu. Þær meyjar áttu að vera hreinar og óspjallaðar. Með þessu hafði Elagabalus sýnt guðum Rómverja fullkomna óvirðingu. Hann reyndi einnig sífellt að ýta guðinum Elah-Gabaal inn í trúarlíf borgarbúa en Rómverjar höfðu úr nægum guðum að velja og voru ekki spenntir fyrir þessum framandi sólguð. Reiði þeirra var mikil er Elagabalus byggði musteri tileinkað þessum guði í hjarta borgarinnar, á Palatinhæðum. Hann lét fórna ótölulegum fjölda dýra, Elah-Gabal til heiðurs og stundum var mönnum fórnað.
Nú var Rómverjum nóg boðið. Kynvilla keisarans var nógu slæm að þeirra áliti en einnig var hann trúvillingur? Nei, það gat ekki gengið. Elagabalus var loks steypt af stóli. Er honum var tilkynnt að hann væri ekki lengur keisari og gæti hypjað sig á brott, varð hann fokreiður og æddi út á meðal þungvopnaðra hermanna sinna og skipaði þeim að hlýða sér, enda væri hann ekki bara keisari, heldur einnig æðstiprestur Elah-Gabal. Hermennirnir hlógu, brytjuðu hann niður á staðnum og hentu líkinu í ánna Tíber þar sem það flaut með straumnum og hvarf loks sjónum. Elagabalus var þá 18 ára og hafði verið keisari Rómar í fjögur ár.