Frásögn þýska orrustuflugmannsins Ernst Udet af loftbardaga úr fyrri heimsstyrjöld 1917. Þýtt af greinarritara úr bókinni Ace of the Iron Cross sem er ensk útgáfa af bók Udets, Mein Fliegerleben.
Ernst Udet var einn sigursælasti orrustuflugmaður Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöld. Aðeins Manfred von Richthofen, rauði baróninn, grandaði fleiri flugvélum. Alls vann Udet 62 loftsigra. Hann lifið stríðið af og vann fyrir sér sem flugmaður og m.a. í kvikmyndum, bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Hann fékk stöðu hjá Luftwaffe er nasistar komust til valda en álagið varð honum að ofurliði og hann framdi sjálfsmorð árið 1941. Hér fylgir lýsing hans á því er hann mætti Georges Guynemer, einum frægasta flugmanni franska flughersins, á vesurvígstöðvunum 1917.
Ýmislegt á sér nú stað við víglínuna. Sagt er að óvinurinn sé að undirbúa stórsókn. Loftbelgi má sjá í löngum röðum víða. Þeir minna helst á einkennileg þykk ský. Þeir gefa upp staðsetningu fótgöngu – og stórskotaliðs okkar. Gott væri þó ekki nema einn þeirra springi í tætlur. Það yrði ágætis viðvörun til óvinarins.
Ég legg af stað í bítið svo ég hafi sólina í bakið er ég ræðst gegn loftbelgnum. Ég flýg hærra en ég hefi gert áður. Hæðarmælirinn sýnir 5000 metra. Loftið er þunnt og ískalt. Veröldin fyrir neðan mig minnir helst á risastórt fiskabúr. Fyrir ofan Lierval, þar sem Reinhold, félagi minn, féll í bardaga fyrir skömmu síðan er óvinavél á sveimi. Hún líkist helst lítilli vatnafló þar sem hún skutlast í gegnum hráslagalegt loftið.
Úr vestri birtist nú lítill depill á töluverðum hraða. Í fyrstu er hann smágerður og dökkur en stækkar óðum er hann nálgast. Þetta er frönsk óvinavél af SPAD-gerð. Eins og ég er hann einn á ferð, ráfandi um himininn í leit að bráð. Ég kem mér vel fyrir í sætinu. Bardagi er yfirvofandi. Við mætum hvor öðrum í sömu flughæð, aðeins hársbreidd milli véla okkar. Við sveigjum báðir vélum okkar snöggt til vinstri. Hin flugvélin er skínandi ljósbrún í sólinni. Nú hefst hringflugið. Af jörðu niðri lítum við líklega út sem tveir stórir ránfuglar í einhverskonar pörunarflugi. Hér uppi er þetta hins vegar dauðans alvara. Sá sem fyrstur fær óvininn í bakið hefur tapað þar eð orrustuvélarnar geta aðeins skotið beint fram fyrir sig. Ólíkt könnunarvélunum er afturhlutinn er alveg varnarlaus.
Stundum förum við svo nálægt hvor öðrum að ég get auðveldlega greint andlit Frakkans, fölt og mjóslegið undir leðurhjálminum. Í fimmta skiptið er við mætumst sé ég að á vélarhliðinni rétt fyrir aftan vængina stendur eitt orð svartletrað: “Vieux” eða “Gamli”. Nú veit ég hver þetta er, enginn annar en einn fræknasti flugmaður Frakka, Georges Guynemer. Hann hefur þegar sent þrjátíu þýska flugmenn yfir móðuna miklu. Guynemer flýgur ætíð aleinn. Eins og allir hættulegir ránfuglar kemur hann æðandi með sólina í bakið, skýtur keppinauta sína í tætlur á sekúndubroti og hverfur á braut. Þannig tók hann Puz frá okkur. Guynemer er einn af þeim allra bestu. Ég geri mér grein fyrir að þetta verður upp á líf og dauða.
Ég fer í hálfa lúppu til að freista þess að komast að honum að ofan. Á augabragði hefur hann áttað sig á fyrirætlan minni og fer sjálfur í lúppu. Ég reyni að sveigja og Guynemer eltir mig. Er hann kemur úr beygjunni nær hann mér í vélbyssumiðið eitt augnablik. Kúlurnar rífa sig í gegnum hægri vænginn og ég heyri klingjandi hljóð er þeir skella á stálvírunum. Ég reyni allt sem ég hef lært og kann. Þröngar beygjur og sveigjur, hendist til hliðanna en hann er eldsnöggur að átta sig á öllu sem mér kemur til hugar og bregst við á sekúndubroti. Ískaldur raunveruleikinn rennur upp fyrir mér. Guynemer er einfaldlega betri og flugvél hans er öflugri en mín. Ég neita að gefast upp og held áfram þessari dauðans baráttu. Nú kemur að annarri beygju. Eitt augnablik hef ég hann í miðinu og í flýti ýti ég á hnappinn á stýristönginni sem hleypir af vélbyssunum en.....ekkert gerist.....vélbyssurnar þegja þunnu hljóði...skotfærahleðslan er stífluð!
Ég held dauðahaldi um stöngina með vinstri hendi og reyni að eiga við skotfærahleðsluna með þeirri hægri. Það er til einskis, ég get ekki losað um stífluna!
Ég hugleiði að taka dýfu og reyna að sleppa en geri mér um leið grein fyrir að það er vonlaust. Færni keppinautar míns er slík að hann myndi auðveldlega ná mér og senda mig inn í eilífðina á augabragði. SPAD-flugvélin er eflaust kraftmeiri en mín. Hann myndi ná mér. Áfram heldur dauðaleikurinn. Við förum hring eftir hring og tökum krappar beygjur. Þetta er stórkostlegt flug hjá okkur en mikið er í húfi. Aldrei hef ég átt í höggi við slíkan flugmann! Í nokkrar sekúndur ímynda ég mér að þetta sé ekki hinn alræmdi Guynemer og finnst sem ég sé að keppa við gamlan kunningja yfir okkar eigin flugvelli. Þessi tálsýn gufar þó fljótt upp og ískaldur raunveruleikinn grípur mig heltökum á nýjan leik.
Í heilar átta mínútur hringsólum við í kringum hvorn annan. Þetta eru lengstu átta mínútur sem ég hef lifað. Ég sé hann nú á hvolfi fyrir ofan mig. Ég sleppi stjórnstönginni eitt augnablik og lem í bræði í skotfærahleðsluna með báðum hnúum. Vissulega er það frumstæð aðferð en hefur stundum dugað.
Þetta sér Guynemer þar sem hann hangir í loftinu fyrir ofan mig, það hlýtur að vera. Nú gerir hann sér grein fyrir hvað hrjáir þýska flugmanninn, að ég er í raun máttvana. Aftur birtist hann fyrir ofan mig og vél hans er næstum alveg á hvolfi. Þá gerist það: Hann réttir út hendina og veifar til mín og í nær sömu andrá tekur hann dýfu til vesturs í átt að eigin víglínu. Hann er farinn áður en ég veit af.
Ég bíð ekki boðanna og flýg þegar heim. Dofinn. Alveg stjarfur.
Sumir hafa haldið því fram að Guynemer hafi sjálfur verið með stíflaða hleðslu. Aðrir hafa sagt að hann hafi hræðst það að ég myndi reyna að fljúga á vél hans í einskærri örvæntingu. Þessar útskýringar fellst ég ekki á. Enn þann dag í dag trúi ég því að, þarna up í ísköldum háloftunum, hafi ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast sannkallaðri riddaramennsku. Guynemer hvarf seinna í bardaga og hefur síðan aldrei til hans spurst. Enginn veit því hvar hann hvílir en í huga mínum hef ég þegar lagt blómvönd á leiði þessa stórkostlega flugmanns.