Innan fjármálaheimsins hefur ný tegund fjárfestingarsjóða sótt í sig veðrið. Sjóðirnir, sem miða að því að fjárfesta í verkefnum sem hafa jákvæð samfélagsáhrif, stýra nú billjónum Bandaríkjadala og hafa vakið athygli stjórnmálamanna sem einföld lausn við félagslegum vandamálum. Hins vegar eru ekki allir sannfærðir um ágæti sjóðanna og vísbendingar eru um að sumir þeirra hafi verið misnotaðir til að bæta ímynd fyrirtækja og stjórnvalda.
Félagsleg kauphöll
„Það er kominn tími til að færa fjármálamarkaðina nær almenningi og láta þá ná félagslegum markmiðum tengdum hagvexti fyrir alla,“ sagði Nirmala Sitharaman, fjármálaráðherra Indlands, í ræðu sinni um nýtt fjármálafrumvarp landsins fyrr í mánuðinum. Að mati ráðherrans yrði slíkt skref tekið með uppsetningu svokallaðrar „félagslegrar kauphallar“.
The Guardian fjallaði um tillögur Sitharaman, en samkvæmt miðlinum myndi félagsleg kauphöll auðvelda fjárfestum að kaupa hluti í samfélagslega mikilvægum verkefnum og sjóðum. Slíkir sjóðir, sem kallaðir eru áhrifasjóðir (e. impact funds), hafa orðið vinsælir um allan heim og talið er talið að þeir stýri um 22 billjónum Bandaríkjadölum árlega. Þar af eiga 12 billjónir að vera stýrðar í Bandaríkjunum einum, en slík upphæð jafngildir fjórðungi af öllu stýrðu fjármagni þar í landi.
„Göfugri tilgang fyrir fjármagn“
Megintilgangur áhrifasjóða er tvíþættur: annars vegar er það ávöxtun peninga, eins og hjá öðrum hefðbundnum fjárfestingarsjóðum, hins vegar er það hámörkun jákvæðra félagslegra áhrifa. Með þessum tveimur markmiðum er bæði fjárfestum og samfélaginu í heild sinni ætlað að græða á þessu fyrirkomulagi. Miklar vonir eru bundnar við sjóðina, til að mynda taldi pistlahöfundur Forbes þá meðal annars geta unnið gegn hlýnun jarðar, útrýmt fátækt og komið á fæðuöuryggi á heimsvísu.
Amit Bhatia, talsmaður hagsmunasamtaka slíkra áhrifasjóða, er álíka bjartsýnn um mikilvægi þeirra í viðtali við Guardian nú á dögunum. „Við höfum fundið göfugri tilgang fyrir fjármagn,“ sagði hann og benti á hversu fljótt umsvif þeirra hafa aukist á undanförnum árum. Indverska ríkisstjórnin bindur einnig miklar vonir við auknar fjárfestingar sjóðanna með stofnun félagslegrar kauphallar, en hún er talin geta styrkt stöðu landsins með því að fjármagna innlend þróunarverkefni sem þyrftu annars að reiða sig á fjárhagsaðstoð erlendis frá.
Lélegir í báðu
Þrátt fyrir göfug markmið og áhuga stjórnmálamanna eru þó ekki allir sammála um ágæti áhrifasjóðanna. Samkvæmt vefmiðlinum Vox eru aðalmarkmið þeirra –hámörkun arðs og félagsleg áhrif– oft á skjön við hvort annað og leiða til þess að sjóðirnir sinni báðum hlutverkum sínum illa. Sérfræðingar hafa bent á að ávöxtun áhrifasjóða sé alla jafna lægri en hjá hefðbundnum fjárfestingarsjóðum, þótt óvíst er hversu stórt misræmið milli þeirra er.
Til viðbótar við lægri ávöxtun eru samfélagslegu áhrif sjóðanna óljós. Þar sem mög verkefni sem teljast félagslega mikilvæg eru lauslega skilgreind og áhrif þeirra lítið rannsökuð er erfitt að mæla hversu vel áhrifasjóðunum gengur að vinna úr þeim. Samkvæmt Vox er óvissan raunar það mikil að betra er að fjárfesta í hefðbundnum fjárfestingarsjóðum og láta hagnaðinn af fjárfestingunum renna til vel rannsakaðra þróunarverkefna.
Grænþvottur fyrirtækja og hvítþvottur stjórnvalda
Lausleg skilgreining og ónákvæmar mælingar á félagslegum áhrifum sjóðanna hafa einnig leitt til annarra og alvarlegri vandamála. Financial Times greindi frá því fyrr í mánuðinum að sjóðsstýringarfyrirtækið Vanguard hafi viðurkennt að einn áhrifasjóður þeirra sem átti að sérhæfa sig í umhverfisvænum fjárfestingum hafi í raun eytt töluverðum fjármunum í olíufyrirtækið Schlumberger.
Þessi háttsemi hefur verið kölluð grænþvottur, þar sem sjóðirnir segjast vera umhverfisvænir þrátt fyrir að styrkja mengandi starfsemi. Samkvæmt frétt Forbes um málið eru margir fjárfestar áhyggjufullir yfir því að óljósar skilgreiningar geri fyrirtækjunum auðveldara fyrir að stunda grænþvott í gegnum áhrifasjóði.
Einnig er óttast að ríkisstjórnir notfæri sér óvissuna í kringum félagsleg áhrif til að styrkja umdeild málefni. Mihir Sharma, hagfræðingur hjá rannsóknarsamtökunum Observer, sagði lítinn skilning ríkja innan fjármálaráðuneyti Indlands um áðurnefnd áform um að koma á fót félagslegri kauphöll. Samkvæmt The Guardian er einnig möguleiki á að áformin séu liður í því að auka fjárveitingar til hægrisinnaðra sjálfboðasamtaka Hindúa (RSS) sem styðja stjórnmálastefnu Narendra Modi, forsætisráðherra landsins.
Skrattinn í smáatriðunum
Á blaði virðast félagslega ábyrgir fjárfestingarsjóðir slá tvær flugur í einu höggi: annars vegar að tryggja nægt fjármagn fyrir mikilvæg verkefni og hins vegar að láta fjárfesta græða á því. Ónákvæm skilgreining á því hvaða verkefni eru félagslega mikilvæg hefur hins vegar leitt til þess að sjóðirnir skila ekki hárri peningalegri ávöxtun og hafa í nokkrum tilvikum verið notaðir í annarlegum tilgangi.
Hins vegar eru fræðimenn bjartsýnir á að sjóðirnir geti þjónað mikilvægum tilgangi í framtíðinni, nái þeir að stíga yfir nokkur tæknileg vandamál. Þótt ýmsir áhrifasjóðir hafi litið á verðlagningu á félagslegum framförum sem smáatriði telja höfundar nýlegrar vísindagreinar að hún gæti skipt sköpum til þess að mæla gildi þeirra. Samkvæmt þeim er samræmdur mælikvarði á ágæti verkefnanna nauðsynlegt til þess að „þróa listina við að ráðstafa fjármagni samfélaginu til bóta.“