Gildi lífeyrissjóður hefur selt nánast allan hlut sinn í HB Granda/Brim, alls 151,5 milljón hluti, á rétt tæplega fimm milljarða króna. Samkvæmt heimildum Kjarnans er kaupandinn Kaupfélag Skagfirðinga, eitt stærsta útgerðarveldi landsins.
Gildi átti 8,51 prósent hlut í félaginu fyrir söluna og var fjórði stærsti eigandi þess. Nafni HB Granda var breytt í Brim í lok síðustu viku.
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill forstjóra Gildis lífeyrissjóðs, segir að ástæða sölunnar séu viðskipti HB Granda/Brim við stærsta hluthafa félagsins, samþykkt voru á hluthafafundi í síðustu viku. Viðskiptin snúast um kaup HB Granda/Brim á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna. Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi HB Granda/Brim og forstjóri félagsins, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti hluthafi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Óheppileg vegferð og viðskipti
Davíð segir að viðskiptin hafi verið óheppileg og að niðurstaða hluthafafundar síðastliðinn fimmtudag, þar sem hluthafar samþykktu viðskiptin, hafi verið vonbrigði. „Vegferðin sem félagið virðist vera á með endurteknum og umfangsmiklum viðskiptum við stærsta hluthafa og forstjóra félagsins er óásættanleg. Afleiðingin er sú að eignarhaldið á HB Granda er orðið með þeim hætti að við teljum rétt að hverfa á braut.“
Hann segir að þegar búið sé að taka tillit til arðgreiðslna sem Gildi hefur fengið út úr HB Granda/Brim þá sé kaupverðið sambærilegt yfirtökutilboði sem hluthöfum Granda var gert vorið 2018, í kjölfar þess að Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti 34,1 prósent í HB Granda /Brim í apríl í fyrra.
Á vef Fréttablaðsins, sem greindi frá viðskiptunum fyrstur allra, kom fram að meðal annars hefði verið greitt fyrir hlutinn í HB Granda/Brim með hlut FISK-Seafood, dótturfélagi Kaupfélags Skagfirðinga, í Högum, en FISK-Seafood átti 4,6 prósent hlut í smásölurisanum. Það er ekki rétt samkvæmt upplýsingum Kjarnans, heldur bætti Gildi við sig rúmum tveimur prósentum í Högum.
Ekki einu viðskiptin
Hluthafafundur í HB Granda/Brim samþykkti að kaupa sölufélögin af Útgerðarfélagi Reykjavíkur síðastliðinn fimmtudag. Í aðdraganda fundarins hafði Gildi komið því á framfæri að lífeyrissjóðurinn væri mótfallinn og myndi greiða atkvæði gegn þeim.
Í tilkynningu vegna þess kom meðal annars fram að viðskipti við tengda aðila yrðu að vera hafin yfir allan vafa. Þær fyrirætlanir sem fyrir liggi séu ekki trúverðugar og sjóðurinn telji að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði.
Eftir viðskiptin mun hlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur í HB Granda/Brim hækka úr 35,01 prósent í 42,31 prósent.
Kaupin á sölufélögunum verða ekki einu viðskiptin sem átt hafa sér stað milli Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda/Brim, frá því að fyrrnefnda félagið varð stærsti hluthafi HB Granda/Brim í fyrra. Seint á síðasta ári samþykkti framhaldsaðalfundur kaup á Ögurvík, sem gerir út skipið Vigra RE, á 12,3 milljarða króna, af Útgerðarfélagi Reykjavíkur. Gildi var einnig mótfallið þeim kaupum.