Ísland hefur uppfyllt 28 af 40 tilmælum sem Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegur vinnuhópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, gerir kröfu um að löggjöf ríkja þurfi að uppfylla. Ísland uppfyllir ellefu tilmæli að hluta en ein tilmæli, sem lúta að starfsemi almannaheillafélaga, teljast enn óuppfyllt.
Þetta kemur fram í eftirfylgnisskýrslu FATF sem birt var á fimmtudag. Niðurstaða hennar er að Ísland verður áfram í eftirfylgni en verður ekki sett á lista yfir ósamvinnuþýð ríki, að minnsta kosti sem stendur.
FATF skilaði skýrslu um varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í apríl í fyrra. Niðurstaða hennar var að Ísland fékk falleinkunn. Lagaumhverfi, virkni eftirlits og framfylgd var í lamasessi að mati FATF.
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Einn maður árum saman
Peningaþvættisskrifstofa var lengi starfrækt innan Efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þar starfaði einn einstaklingur og árangur af starfseminni lítill sem enginn.
Skrifstofan var færð yfir til embættis héraðssaksóknara um mitt ár 2015. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, var spurður af því í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október 2018 hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur, „nei það er það ekki.“
Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.
Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.
Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gild 1. janúar 2019.
Í greinargerð með frumvarpinu sagði að nauðsynlegt yrði að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þarf verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi.
Skylt að tilkynna um grunsamleg viðskipti
Á meðal þeirra breytinga sem nýju lögin hafa í för með sér er að ákvæði um einstaklinga „í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla“ eru ítarlegri en í gömlu lögunum. Til þessa hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra. Samkvæmt nýju lögunum þurfa tilkynningaskyldir aðilar, t.d. bankar eða aðrar fjármálastofnanir, að hafa viðeigandi „kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.“
Peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknar fékk nýtt nafn, skrifstofa fjármálagreininga lögreglu. Starfsmönnum hennar hefur verið fjölgað mjög, fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan banka hefur verið eflt. Öllum opinberum aðilum er nú skylt að tilkynna henni um grunsamleg viðskipti og sú tilkynningarskylda víkur allri þagnarskyldu stjórnvalda til hliðar.
Þvingunarúrræði og viðurlög
Með nýju lögunum var skipun og hlutverk stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka lögfest. Helstu verkefni stýrihópsins samkvæmt frumvarpinu, verða að tryggja yfirsýn, samhæfingu og stefnumótun í málaflokknum.
Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar þeirra stjórnvalda sem eiga aðkomu að málaflokknum, sem eru m.a. dómsmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Fjármálaeftirlitið og aðrir eftirlitsaðilar með lögunum, Seðlabanki Íslands, Tollstjóri, skattyfirvöld, Héraðssaksóknari og Lögregla höfuðborgarsvæðisins.
Þá verða verulegar breytingar hvað varðar þvingunarúrræði og viðurlög. Hingað til hafa eftirlitsaðilar með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Íslandi nefnilega ekki haft viðeigandi úrræði til þess að bregðast við lögbrotum. Sektir voru einu viðurlögin samkvæmt gömlu lögunum sem eftirlitsaðilar gátu gripið til. Í alvarlegri brotum var hins vegar hægt að ákæra.
Hvöss brynning og óviðunandi ástand
Kjarninn greindi frá því að Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi skrifað pistil í nýjustu útgáfu Fjármála, rits stofnunarinnar, sem kom út seint ágúst, þar sem fram kom að þegar FATF hafi fellt áfellisdóm sinn yfir löggjöf og eftirliti Íslendinga með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í fyrravor hafi „Fjármálaeftirlitið og ýmsir aðrir [fengið] hvassa brýningu um að taka til hendinni og verða við úrbótakröfum alþjóðasamfélagsins.“
Kjarninn greindi frá því 31. maí síðastliðinn að FME hefði framkvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík athugun á Arion banka hófst í október 2018 og leiddi til þess að eftirlitið gerði margháttaðar athugasemdir við brotalamir hjá bankanum í janúar 2019.
Kjarninn greindi frá því 31. maí síðastliðinn að FME hefði framkvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík athugun á Arion banka hófst í október 2018 og leiddi til þess að eftirlitið gerði margháttaðar athugasemdir við brotalamir hjá bankanum í janúar 2019.
Fjármálaeftirlitið hefur ekki viljað svara því hvort yfir standi athugun á aðgerðum Landsbankans, Íslandsbanka og Kviku banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það segist þó hafa framkvæmt tæplega 20 athuganir hjá tilkynningarskyldum aðilum sem lúta eftirliti stofnunarinnar frá árinu 2017 og nú standi yfir þrjár slíkar athuganir. Það kunni að vera að gagnsæistilkynningar verði birtar vegna þeirra athugana innan tíðar.