Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur keypt félagið FISK-Seafood eignarhaldsfélag ehf., sem átti 196,5 milljónir hluti í Brimi, áður hét HB Grandi, af Kaupfélagi Skagfirðinga. Um er að ræða alla hluti þess í Brimi. Gengið sem viðskiptin fara fram á er 40,4 krónur á hlut, sem er yfir síðasta skráða gengi á markaði, en virði hvers hlutar í Brimi var 38,35 krónur við lok viðskipta á föstudag. Gera þarf upp kaupin fyrir 1. desember næstkomandi.
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er langstærsti eigandi Brims, mun því greiða rúmlega 7,9 milljarða króna fyrir hlutina. Forstjóri Brims, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti hluthafi Útgerðarfélags Reykjavíkur. Eignarhlutur þess í Brimi, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og það eina slíka sem er skráð á hlutabréfamarkað, er nú 48,44 prósent samkvæmt flöggunartilkynningu sem send var í til Kauphallar í nótt.
Í þeirri eignarhlutartölu er þó ekki tekið tillit til hlutafjáraukningar sem samþykkt var á hluthafafundi í Brimi 15. ágúst síðastliðinn þar sem ákveðið var að auka hlutafé um 133 milljónir hluta, 7,3 prósent, og nota það til að kaupa allt hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna.
Kaupfélagið ný búið að kaupa í Brimi
Kaupfélag Skagfirðinga er einungis búið að halda á þorra þeirra hluta sem það seldi nú einum helst samkeppnisaðila sínum í sjávarútvegi á Íslandi í nokkra daga. Það keypti alls 151,5 milljón hluti, á rétt tæplega fimm milljarða króna, seinni hluta ágústmánaðar af Gildi lífeyrissjóði.
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill forstjóra Gildis lífeyrissjóðs, sagði við Kjarninn að ástæða sölunnar væru viðskipti Brims við stærsta hluthafa félagsins, samþykkt höfðu verið á hluthafafundi vikuna áður. Viðskiptin snérust um áðurnefnd kaup Brims á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna.
Milljarða viðskipti við stærsta eigandann
Umrædd sölufélög keypti Útgerðarfélag Reykjavíkur af Icelandic Group í lok árs 2015. Engar upplýsingar eru um hver verðmiðinn á þeim var í ársreikningum Icelandic Group frá þeim tíma né í ársreikningi þáverandi eiganda félagsins, Framtakssjóðs Íslands.
Kaupin á sölufélögunum verða ekki einu viðskiptin sem átt hafa sér stað milli Útgerðarfélags Reykjavíkur og Brim, frá því að fyrrnefnda félagið varð stærsti hluthafi Brim í fyrra. Seint á síðasta ári samþykkti framhaldsaðalfundur kaup á Ögurvík, sem gerir út skipið Vigra RE, á 12,3 milljarða króna, af Útgerðarfélagi Reykjavíkur. Gildi var einnig mótfallið þeim kaupum.
Þess má geta að Útgerðarfélag Reykjavíkur hét Brim árum saman, en breytti nafni sínu þegar það keypti stóran hluta í HB Granda. Nafni HB Granda var svo breytt í Brim í síðasta mánuði.