Þeir sem leggja leið sína í matvöruverslanir kannast flestir við hinar svokölluðu kynningar þar sem fyrirtæki kynna ýmsar vörur. Til dæmis nýtt þvottaefni eða „töfralausnir“ við heimilishreingerningarnar. Algengast er þó að verið sé að kynna matvörur af ýmsu tagi, stundum nýjungar en líka þekktar vörur. Oft er þetta kallað kynningarátak, ætlað til að auka viðskiptin.
Fyrir nokkru stóðu tveir starfsmenn bandarísku hugveitunnar RethinkX fyrir kynningu í stórverslun í San Francisco. Þar var kynntur mozzarella ostur frá fyrirtækinu New Culture. Mozzarella er mest selda ostategund vestanhafs og neytendur geta valið á milli óteljandi vörumerkja. Mozzarella osturinn sem þau Tony Seba og Catherine Tubb kynntu fyrir viðskiptavinum verslunarinnar var nákvæmlega eins á bragðið og í útliti og hefðbundinn mozzarella ostur sem framleiddur er úr kúamjólk. En, það var hinsvegar einn afgerandi munur.
Ekki gerður úr mjólk
Osturinn sem þarna var verið að kynna var ekki gerður úr kúamjólk. Hann varð til í sérstökum gerjunartönkum New Culture. Gerjunaraðferðin sem notuð er hefur lengi verið þekkt, meðal annars notuð við framleiðslu á insúlíni, sætuefnum og vítamínum.
Líftæknin veldur byltingu
Sérfræðingar RethinkX telja að á næstu árum muni líftæknin gera kleift að framleiða bæði mjólkurprótein og kjötprótein í miklu magni og á ódýrari hátt en fram til þessa. Í skýrslu sérfræðinganna er fullyrt að árið 2030 kosti „fölsk“ mjólkurprótein einungis einn fimmta af verði mjólkurpróteins úr kúm og árið 2035 hafi verðið á því „falska“ lækkað niður í einn tíunda af verði mjólkurpróteins úr kúm.
Sérfræðingarnir spá því ennfremur að árið 2030 hafi eftirspurn eftir nautgripahakki minnkað um 70 prósent og eftirspurn eftir mjókurafurðum um 90 prósent. Það gildi líka um leður og kollagen efnið.
Árið 2035, segja sérfræðingar RethinkX, verður hægt að taka til annarra nota 60 prósent þess lands sem í dag er notað til nautgripa- og fóðurframleiðslu. Í Bandaríkjunum svarar þetta til tveggja milljóna ferkílómetra eða 19 sinnum stærð Íslands. Verð á hefðbundnu ræktunarlandi mun lækka verulega sem hefur í för með sér möguleika á stórauknu landrými til trjáræktar. Innyflagerjun nautgripa veldur umtalsverðri losun gróðurhúsalofttegunda og sama gildir um mykjuna. Fækkun nautgripa og jafnframt aukin trjárækt hefði verulega jákvæð áhrif og myndi draga úr hlýnun andrúmsloftsins.
Helmingur allra starfa við kjötframleiðslu og í mjólkuriðnaði verða horfin á næstu 10 til 12 árum, en í staðinn mun störfum í „nýjum og breyttum“ matvælaiðnaði fjölga álíka mikið.
Af hverju ætti fólk að kaupa „ekkikjöt og ekkimjólk“?
„Fyrir því eru einkum þrjár ástæður,“ segir Tony Seba. Í fyrsta lagi, og því sem mestu ræður, verða dýraafurðirnar miklu dýrari. Í öðru lagi tíðarandinn, æ fleiri snúa baki við dýraafurðum og velja annan kost. Í þriðja lagi hlýnun andrúmsloftsins sem áður var nefnd.
Er eitthvað að marka svona spár?
Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Ýmsir hafa gagnrýnt skýrslu RethinkX og því sem þar er spáð, sumir segja hana beinlínis öfgakennda. Skýrsluhöfundar eru hins vegar engir nýgræðingar og aðalhöfundurinn Tony Seba er mjög þekktur á sínu sviði og hefur á undanförnum árum spáð ýmsu sem margir voru vantrúaðir á, en hefur ræst.
Fyrir nokkrum árum spáði hann að ódýr sólarraforka myndi að verulegu leyti koma í stað jarðgass, hann spáði líka árið 2014 að brátt kæmu á markaðinn rafknúnir bílar sem ekið gætu mörg hundruð kílómetra á hverri hleðslu. Ennfremur að sala bíla með bensín og dísilvélum færi minnkandi frá og með árinu 2020 og að sjálfkeyrandi bílar, án bílstjóra væru það sem koma skal.
Hvort spá hans, Catherine Tubb og samstarfsmanna þeirra, varðandi nautgripina rætist er útilokað að segja til um. Hitt er augljóst, þeim sem ekki neyta dýraafurða fjölgar ört og matvælaframleiðendur og veitingastaðir reyna eftir bestu getu að mæta sívaxandi eftirspurn. Sem dæmi um slíkt má nefna að 8. ágúst síðastliðinn birtist á matseðli um 8 þúsund sölustaða skyndibitakeðjunnar Burger King (af tæplega 17 þúsund) ný gerð hamborgara. Sá heitir Impossible burger, óhugsandi borgari og hefur fengið góðar viðtökur. Uppistaðan í þeim óhugsandi er Sojaþykkni, kókoshentuolía, sólblómaolía og vatn. Fyrir tiltölulega fáum árum hefði Impossible burger verið óhugsandi á matseðli skyndibitastaðar, en þannig er það ekki lengur.
Verða þá engar kýr og engin naut?
Í blaðaviðtali vegna útkomu skýrslunnar sagði Tony Seba að nautgripir yrðu áfram til. Til dæmis yrðu alltaf einhverjir sem myndu vilja kaupa „ekta“ nautakjöt en verðið myndi valda því að sá kaupendahópur yrði tiltölulega lítill.