Bára Huld Beck Alexander Guschanski og Rafael Wildauer

Jöfnuður engin ógn við efnahaginn – Þvert á móti stuðlar hann að hagsæld

Alexander Guschanski og Rafael Wildauer, lektorar í hagfræði við Greenwhich háskóla, voru staddir á Íslandi á dögunum og spjölluðu við Kjarnann um óhefðbundnar hagfræðikenningar.

Íslendingar kannast vel við hagsveiflur og má segja að þær séu grafnar í þjóðarsálina. Hugtök eins og óðaverðbólga, efnahagsóróleiki og gengisfall eru því fólki hér á landi kunnug og sumum ofarlega í huga þegar talað er um launahækkanir. Þá er orðræðan um efnahagskerfið oft tengd við orð eins og stöðugleika og andstæðan við það er launaskrið eða „höfrungahlaup“.

Þó eru ekki allir hagfræðingar á þeirri skoðun að launahækkanir leiði til óðaverðbólgu eða ólgu í efnahagskerfinu, heldur þvert á móti geti jöfnuður haft jákvæð og mismunandi efnahagsleg áhrif á samfélög.

Alexander Guschanski og Rafael Wildauer, lektorar í hagfræði við Greenwhich háskólann í London, voru hér á landi fyrir ekki svo löngu síðan en þeir héldu fyrirlestur á vegum Eflingar og ASÍ í byrjun september síðastliðins. Þeir eru meðal þeirra sem telja að jöfnuður geti haft góð áhrif á hagkerfið.

Lokuð vinnustofa fór fram á meðan dvöl þeirra stóð á Íslandi þar sem markmiðið var að skapa tækifæri fyrir sérfræðinga til að eiga í frjóu og gagnrýnu samtali um hagþróun og jöfnuð. Fjallað var um efni eins og fjárfestingadrifinn vöxt, tengsl tekjudreifingar og hagvaxtar og opinbera fjárfestingarstefnu út frá samfélags- og umhverfissjónarmiðum. Guschanski og Wildauer leiddu dagskrána með fyrirlestrum auk þess sem þátttakendur fengu tækifæri til að skiptast á skoðunum og miðla af fagþekkingu sinni um þau mál sem voru til umræðu.

Þeir félagar hafa víða komið við á ferlinum en Guschanski er frá Þýskalandi og tók við stöðu lektors hjá Greenwich háskóla í ágúst á síðasta ári. Hann nam BSc í hagfræði við Freie háskólann í Berlín, MA í stjórnmálahagfræði við Kingston háskóla í London og doktor í hagfræði við Greenwich háskóla. Rannsóknir hans í vinnumarkaðshagfræði rekja orsakir tekjudreifingar og atvinnuleysis. Rannsóknir hans í alþjóðahagfræði miðast að orsökum efnahagslegs ójafnvægis á heimsvísu. Stór hluti gagnavinnslu hans byggir á rekstrarhagfræðilegum greiningum á gögnum á vettvangi iðngeira og fyrirtækja.

Rafael Wildauer er, eins og áður segir, lektor í deild alþjóðlegra viðskipta og hagfræði við Greenwich háskóla en hann á rætur að rekja til Austurríkis. Áður starfaði hann sem lektor í rekstrarhagfræði við viðskiptafræðideild Kingston háskóla. Hann útskrifaðist sem doktor í hagfræði frá Kingston háskóla undir leiðsögn Engelbert Stockhammer og lauk grunnnámi og meistaranámi í hagfræði við Vínarháskóla.

Rannsóknir Rafael Wildauer eru á fjórum sviðum. Fyrst má nefna rannsóknir á áhrifum sem breytingar í tekjudreifingu hafa á hagvöxt og skuldsetningu heimila. Í öðru lagi tölfræðileg greining á dreifingu auðlegðar heimilanna, byggt á könnunum. Í þriðja lagi þróun þjóðhagfræðilegra líkana til að útbúa spár og greina uppbyggingarstefnu. Loks greining þjóðhagsreikninga, þar sem litið er til takmarkana í mælingu á velferð heimila frekar en á tekjum og útgjöldum, sem og á bjaganir í landsframleiðslu og viðskiptagögnum vegna skattaundanskota fyrirtækja.

Ef launajöfnuður minnkar kemur það niður á stórum hópi

Guschanski og Wildauer segja í samtali við Kjarnann að kenningar þeirra og sýn á hagfræðina sé ekki byltingarkennd en stríði þó á vissan hátt á móti „hinu hefðbundna“ sem kennt er í hagfræðinni.

Guschanski telur í fyrsta lagi að rétt sé að taka fram að Ísland hafi komið frekar vel út í könnunum miðað við önnur OECD lönd er varðar jöfnuð og bendir hann á að jöfnuður hafi aukist gífurlega allt fram að hruninu 2018. Jöfnuðurinn hafi þó ekki náð sömu hæðum og á tíunda áratugnum og í lok þess níunda.

Í öðru lagi sé jöfnuður oft tengdur ýmsum stofnunum í samfélaginu en þar séu verkalýðsfélögin í burðarhlutverki. Í þriðja lagi vill hann benda á að ef laun hækka ekki í samræmi við framleiðni landa eða ef launajöfnuður minnkar í efnahagskerfinu þá komi það niður á stórum hópi fólks. Þar af leiðandi muni hækkun launa verða þess valdandi að dreifing launa muni hafa jákvæð áhrif á hagkerfið, sem og hagvöxt. Þetta eigi sérstaklega við þegar mörg lönd vinna að þessu markmiði í sameiningu. Þá á Guschanski sérstaklega við lönd sem eiga í nánum viðskiptatengslum og í tilfelli Íslands mætti nefna Norðurlöndin og Mið-Evrópa.

Alexander Guschanski og Rafael Wildauer voru staddir hér á landi í byrjun september síðastliðins.
Bára Huld Beck

Aukin neysla hefur viss vandamál í för með sér

Wildauer segir að þeir vilji leggja áherslu á það sem liggi til grundvallar skiptingu þáttatekna – milli launa og hagnaðar – „sem sagt að ef við viljum búa til jafnari skiptingu og auka hlutdeild launa í efnahagnum þá þurfa laun á tilteknu tímabili að hækka hraðar en framleiðni eykst.“ Hann segir að gullna reglan sé sú að launaupphæðir ættu að hækka á sama hraða og verðbólga og framleiðni. Það leiði af sér stöðugleika í dreifingu, „þannig að ef maður vill hækka laun þá þurfa þau að hækka hraðar en hinir tveir þættirnir.“ Það sé gagnleg þumalputtaregla til að hafa í huga.

„Þessi efnahagsbati sem við erum að tala um myndi grundvallast á neyslusprengingu af því að ef laun hækka hratt þá mun það aðallega leiða af sér meiri neyslu, sem mun augljóslega hafa viss vandamál í för með sér,“ segir Wildauer. Þá á hann sérstaklega við vandamál er varða aukinn útblástur og aukningu í framleiðslu á rusli. Það sé ekki sjálfbær hagvaxtarleið.

„Þannig að tvær aðgerðir þurfa að fylgja með; annars vegar fyrir fólk með há laun, þá ætti að koma á móti jafngild fækkun vinnutíma svo að, í stað þess að nota framleiðniaukningu til að fá fólk til að auka neysluna, sé framleiðniaukningin notuð til að bæta við frítímann,“ segir hann. Það ætti, að þeirra mati, að vera hluti af pakkanum, ásamt grænni fjárfestingu, af því að það ætti að snúast um það annars vegar að halda neysluaukningu í skefjum og hins vegar um að endurskipuleggja orkuframleiðslu frá grunni – ef baráttan gegn loftslagsbreytingum sé tekin alvarlega. Hann telur þó að þetta sé minni hindrun á Íslandi en í öðrum löndum. Til þess að fá þetta í gegn þurfi sameinað átak í rannsóknum og aukna menntun en líka með því að setja upp orkuver með óhefðbundnum aflgjöfum.

Minni fyrirstaða en áður

Wildauer segir að venjulega myndi slíkt hafa í för með sér gríðarmikla efnahagslega útþenslu, það er aukningu á ríkisútlátum til að reisa ný orkuver þar sem til að mynda sólar- eða vindorka yrði nýtt.

Hann bendir á að í mörgum löndum sé þetta illframkvæmanlegt vegna þess að þá myndu skuldir ríkisins aukast. Það megi ekki gerast; að ríkissjóðir drukkni í skuldum og vaxtagreiðslum.

„Við erum þeirrar skoðunar að þetta sé þó mun minni fyrirstaða en áður var talið, annars vegar vegna þess að stýrivextir hafa aldrei verið lægri og mörg ríki geta fengið lán með neikvæðum vöxtum og hins vegar vegna þess að nýlegar rannsóknir leiða í ljós langtíma áhrif útþenslu ríkisútgjalda,“ segir hann.

Þær leiði í ljós að langtíma áhrif samdráttar í ríkisútlátum séu verulega neikvæð. „Nú er hér ólíku saman að jafna; útþenslu og samdrætti í ríkisútgjöldum en skilaboðin eru þau að áhrif aukinna ríkisútgjalda á hlutfallið milli skulda og landsframleiðslu eru mikið minna áhyggjuefni en talið var. Að ef átak leiðir af sér útþenslu þá muni hlutfallið milli skulda og landsframleiðslu haldast óbreytt eða þá að bilið muni jafnvel minnka. Nýlegar rannsóknir renna stoðum undir þá tilgátu,“ segir hann.

Svigrúm til að hækka ákveðna skatta

Wildauer telur að þetta skipti aðallega máli í Evrópulöndum sem eru hvort eð er með mikið atvinnuleysi. „Við ættum ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af skuldaáhrifunum til langframa. Ef við, á hinn bóginn, ákveðum að við viljum ekki leggja í þessar fjárfestingar einvörðungu með skuldum þá teljum við að það sé einnig svigrúm til að hækka jaðar- og auðlegðarskatta,“ segir hann.

Nú hafi aukning ójöfnuðar í launum og eignum mikið verið í umræðunni undanfarið og útkoman gefi til kynna að það séu í raun valdahlutföll samningsaðila en líka munur á skattaprósentum milli landa og frá einu tímabili til annars, sem leiða þetta af sér.

„Nú er mjög ólíklegt að tækniþróunin hafi verið gjörsamlega ólík í þessum löndum, þó svo að oft sé sagt að þetta stafi af tækninýjungum og af vélvæðingu í störfum og að aðeins fólkið með hæsta menntunarstigið hafi fengið að njóta góðs af því, en ef það væri satt þá ættum við að hafa séð svipað mynstur í öllum heiminum,“ segir hann og bætir því við að svo hafi ekki orðið. „Svo varð ekki, líklega vegna ólíkra stofnana sem leika mjög ólík hlutverk. Ef svo er þá munu breytingar í valdahlutföllum samningsaðila og breytt skattastefna vera mikilvægir þættir í baráttunni fyrir því að draga úr ójöfnuði. Einnig er hægt að nota þessi verkfæri til að fjármagna fjárfestingar ef áhyggjur eru fyrir hendi varðandi skuldir ríkisins.“

Efsta prósentið á Íslandi þénar næstum helmingi meira en neðri fimmtíu prósentin.

Þeir Guschanski og Wildauer telja að 1 prósent af landsframleiðslu væri raunhæft tekjutakmark fyrir auðlegðarskatt í Bretlandi sem myndi miðast við hálfrar eða einnar milljónar punda markið. „Við teljum að þetta ætti líka að vera hluti af stefnupakkanum sem hefur það tvennt að markmiði að draga úr ójöfnuði og hefja þá markvissu umbreytingu varðandi loftslagsmálin sem er nú orðin nauðsynleg,“ segir Wildauer.

Íslendingar mega enn bæta sig

En hvað hafa þeir félagar að segja um Ísland í þessu samhengi? Guschanski segir að í umræðum þeirra hér á landi hafi tvö atriði vakið athygli. „Annars vegar er á Íslandi einn lægsti tekjumunur milli einstaklinga í heiminum öllum. Á Íslandi er jafnari skipting gæða en í ýmsum öðrum löndum. En til að við skiljum hvaða þýðingu það hefur að á Íslandi er gæðum enn hlutfallslega mjög jafnt skipt þá er mikilvægt að hafa í huga að þetta er afstætt. Efsta prósentið á Íslandi þénar næstum helmingi meira en neðri fimmtíu prósentin,“ segir hann.

Þannig að þó svo að Ísland standi sig mjög vel – og meginástæða þess að árangurinn hér er svona góður séu stofnanirnar sem standa vörð um verkalýðsréttindi og samningsstyrk verkalýðsins, stærstu verkalýðshreyfingu miðað við höfðatölu og yfirgripsmestu kjarasamninga í heimi – þá mega Íslendingar enn bæta sig á ýmsum sviðum.

Hitt atriðið sem kom upp ansi oft hafi verið óttinn við verðbólgu. „Hvað gerist ef laun hækka? Mun verðbólgan þá rjúka upp? Við hverju er að búast í slíku tilfelli?“ voru spurningar sem brunnu á fólki.

Guschanski segir að slíkar áhyggjur séu mjög skiljanlegar, hann sé sjálfur mjög vanur slíkri umræðu þar sem hann ólst upp í Þýskalandi. Hann bendir í því samhengi á að rannsóknir hafi sýnt að hærri laun hafa ekki mikil áhrif á verðbólgu. Þrátt fyrir að hún geti aukist eitthvað, þá séu ekki vísbendingar um að launahækkanir leiði til óðaverðbólgu.

Jöfn dreifing auðs lausnin til þess að viðhalda stöðugleika

Varðandi það sem Íslendingar þurfa sérstaklega að huga að, að þeirra mati – þar sem hagkerfið er mjög lítið  og taka með í reikninginn er ákveðið varnarleysi vegna gengi gjaldmiðislins. „Þá er mikilvægt að forðast það að verða fyrir stórum áföllum en það er auðvitað auðveldara sagt en gert,“ segir Guschanski.

„Ég tel að markmiðið fyrir Ísland sé að viðhalda sjálfbæru hagfræðimódeli sem hrynur ekki skyndilega þótt eitthvað bjáti á. Ég tel enn fremur að jöfn dreifing auðs gæti verið lausnin til þess að viðhalda stöðugleika. Þá verður hagkerfið fjölbreyttara í staðinn fyrir að einblínt sé á einhvern sérstakan geira,“ segir hann að lokum.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal