Alls námu fjármagnstekjur landsmanna 137,8 milljörðum króna á síðasta ári. Það er umtalsvert lægri heildarfjárhæð en landsmenn höfðu í slíkar tekjur árið á undan, þegar þær námu 166 milljörðum króna. Alls nam samdrátturinn í fjármagnstekjum 17 prósentum á milli áranna 2017 og 2018.
Tekjurnar í fyrra voru einnig lægri í krónum talið en á árinu 2016, þegar þær námu samtals 141,9 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir landsmanna sem birtar voru í síðustu viku.
Landsmenn eiga enn langt í land með að ná þeim methæðum í uppgefnum fjármagnstekjum samkvæmt skattframtölum sem voru við lýði fyrir bankahrun. Árið 2006 var heildarumfang slíkra tekna 172 milljarðar króna og árið 2007, sem enn er metár yfir uppgefnar fjármagnstekjur í Íslandssögunni, voru þær 262,7 milljarðar króna. Það ár rataði um 82 prósent fjármagnstekna til þeirra tíu prósent landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar. Í fyrra var hlutfallsskiptingin ekki jafn afgerandi, en þá fóru 70 prósent allra fjármagnstekna til þeirra rúmlega 22 þúsund fjölskyldna sem höfðu hæstu tekjurnar á Íslandi. Árið áður hafði hlutfall þess hóps í tekjunum verið tæplega 75 prósent.
Eigið fé hækkaði mikið
Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að eigið fé Íslendinga hefði hækkað um 641 milljarð króna á síðasta ári samkvæmt sömu tölum. Það er næst mesta hækkun sem átt hefur stað í vexti á eigin fé milli ára frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur.
Uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé landsmanna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010 í að vera 4.744 milljarðar krókna um síðustu áramót. Hann hefur aldrei verið meiri.
Til hafa orðið 3.179 milljarðar króna í nýju eigin fé í íslensku samfélagi á þessum örfáu árum. Það hefur rúmlega þrefaldast. Af þessum milljörðum króna sem orðið hafa til frá árinu 2010 hafa 1.379 milljarðar króna farið til efstu tíu prósent landsmanna, sem telur 22.213 fjölskyldur. Það þýðir að 43 prósent alls nýs auðs hefur endað hjá þessum hópi.
Í fyrra jókst auður þessa hóps um 304 milljarða króna á á síðustu tveimur árum hefur hann vaxið um 667 milljarða króna. Tæplega önnur hver króna sem verður til í auði í íslensku efnahagslífi ratar því til ríkustu tíu prósent landsmanna.
Efsta tíundin greiddi 25 prósent allra skatta
Í tölunum kemur einni fram að einstaklingar hafi alls greitt 433,1 milljarð króna í skatta á árinu 2018. Um er að ræða tekjuskatt, útsvar, eignarskatta, fjármagnstekjuskatt og aðra skattaliði sem koma fram á skattframtali, að frádregnum vaxta- og barnabótum. Fasteignagjöld, bifreiðagjöld og þess háttar gjaldheimta er ekki talin með í heildarupphæðinni.
Þar af greiddi efsta tíundin mest eða 109,2 milljarða króna í skatta eða 25 prósent heildarupphæðarinnar. Sá helmingur landsmanna sem er með lægstar tekjur greiddi 101,2 milljarða króna í skatta á árinu 2018.
Vert er að taka fram að sama fólkið sem hafði hæstu fjármagnstekjurnar eða átti mest eigið fé þarf ekki að vera hluti af þeim tíu prósentum sem greiddu hæstu skattanna þar sem miðað er við efstu tíund í hverjum flokki fyrir sig.