Bára Huld Beck Kristín Loftsdóttir
Bára Huld Beck

Hvað er svona merkilegt við það að vera Íslendingur?

Íslensk sjálfsmynd er sannarlega brotthætt, sem sýndi sig og sannaði í kringum efnahagshrunið 2008. Prófessor í mannfræði við HÍ spjallaði við Kjarnann um nýútkomna bók um mótun þjóðernishugmynda á Íslandi frá upphafi 20. aldar og fram á okkar tíma og stöðu Íslands sem þjóðar meðal þjóða.

Kristín Lofts­dótt­ir, pró­fessor í mann­fræði við Háskóla Íslands, gaf nýlega út bók­ina Crisis and Colon­i­a­lity at Europe’s Marg­ins: Creat­ing Exotic Iceland en hún bygg­ist á rann­sókn­ar­verk­efn­inu „Ís­lensk sjálfs­mynd í kreppu“ sem hún réðst í í kjöl­far efna­hags­hruns­ins á Íslandi.

Hún segir að megin ástæðan fyrir því að hún hafi ráð­ist í bók­ar­smíð­ina sé sú að hana hafi langað að draga saman rann­sóknir sínar síð­ustu ára og þá ekki bara fyrir útvaldan hóp heldur vildi hún einnig að verkið væri aðgengi­legt stærri hóp fræði­fólks og ann­arra sem hefðu áhuga á efn­inu. „Ég hef í tölu­verðan tíma verið að skrifa fræði­greinar og bókakafla um mál­efnin sem tekið er fyrir í bók­inni en það að skrifa bók er allt öðru­vísi. Það er meira frelsi og hægt að segja stærri sögu á annan hátt,“ segir hún.

Þó hafi þetta tekið langan tíma, sér­stak­lega vegna þess að bókin hafi alltaf lent svo­lítið útundan því það hafi verið mörg önnur verk í vinn­unni sem legið hafi á að klára. „Mér fannst ákaf­lega gaman að skrifa hana og útdeildi sjálfri mér oft tíma til þess eins og hálf­gerð verð­laun þegar ég hafði lokið öðrum verk­efnum sem voru minna spenn­and­i.“

Hvað þýðir það að vera Íslend­ing­ur?

Kristín segir að rann­sóknin hafi í raun langa sögu sem dreif­ist í allar átt­ir. Einn þráður hennar sé dvöl hennar í Níger í Vest­ur­-Afr­íku fyrir löngu síðan þar sem hún skoð­aði líf hirð­ingja­fólks sem kallar sig WoDaaBe og hvernig það hefur glímt við erf­ið­leika og hálf­gert kreppu­á­stand sem virð­ist ekki taka neinn enda. „Ní­ger er fyrr­ver­andi frönsk nýlenda en sú saga skiptir máli í sam­tím­an­um, meðal ann­ars hvað varðar ákveðna sýn og stöðu „hvíts“ fólks í sam­fé­lag­inu. Þegar ég dvald­ist með hirð­ingj­unum ein­hver­staðar út í busk­anum hafði ég mik­inn tíma til að velta fyrir mér marg­vís­legum spurn­ingum sem tengd­ust minni eigin for­tíð sem Íslend­ingur og sem kona sem var flokkuð sem „hvít“,“ útskýrir hún.

Þá spurði hún sig til að mynda hvernig nýlendu­verk­efnið í byrjun 20. aldar hefði tengst Íslend­ing­um. Hver merk­ing þess væri að vera „hvít­ur“ og vera Íslend­ing­ur. „Það skipti til dæmis marga við­mæl­endur mína þar máli að ég var ekki frá Frakk­landi, sem hvatti mig til að velta fyrir mér á gagn­rýnin hátt stöðu Íslands í sam­fé­lagi þjóða og merk­ingu þess í víð­ara sam­heng­i.“

Umræðan um íslensku útrás­ar­vík­ing­anna stolin upp úr gömlum þjóð­ern­is­legum hug­myndum

Annar inn­blástur kom síðan þegar hún var að vinna að verk­efni um ímyndir Afr­íku á Íslandi en þá fannst henni áber­andi hversu mikið af umræðu um Afr­íku virt­ist snú­ast um að und­ir­strika Íslend­inga sem hluti af ein­hvers­konar „við“ – nánar til­tekið sem evr­ópskt, hvítt og sið­menntað fólk. „Þegar ég var að grúska í gegnum eldri skóla­bækur var ég slegin af því hversu umræðan sem var þá í gangi um íslensku útrás­ar­vík­ing­anna virt­ist næstum því vera stolin upp úr gömlum þjóð­ern­is­legu hug­myndum sem lögðu einnig áherslu á sér­stöðu Íslend­inga.“

Þegar efna­hags­hrunið átti sér stað í októ­ber árið 2008 var hún að sumu leyti byrjuð á rann­sókn­inni því þá þegar var hún farin að hugsa mikið um þessar teng­ingar og skrifa um þær. „Þegar hrunið átti sér svo stað fannst mér ég verða að búa til úr þessum pæl­ingum mínum stærra verk­efni sem skoð­aði út frá mörgum ólíkum áttum hvað það þýddi að vera þjóð í útrás, hruni og upp­bygg­ingu og hvernig það kall­að­ist á við þessa flóknu for­tíð,“ segir hún.

Kristín Loftsdóttir
Bára Huld Beck

Hug­myndir um að það að vera Íslend­ingur mót­aðar af veru í harð­býlu landi

En hvað felst í hug­tak­inu „ís­lensk þjóð“? Kristín segir að hug­takið þjóð sé marg­slungið og í kjöl­far auk­innar sam­teng­ingar heims­ins undir lok 20. aldar þá hafi margt fræði­fólk velt því fyrir sér hvað yrði um hug­mynd­ina um að vera þjóð í þessu nýja umhverfi. Sumir hafi jafn­vel velt upp hvort það væru enda­lok þjóð­ar­hug­mynd­ar­innar en það hafi nú ekki gengið eft­ir.

„Þjóðir almennt rétt­læta og útskýra til­vist sína með því að vísa í sög­una og þess vegna er svo áhuga­vert og mik­il­vægt að skoða hvernig sagan er notuð á ólíkum tím­um. Við sjáum ótrú­lega sterka þræði sem fara frá for­tíð til sam­tíma en við getum ekki sett sam­an­sem­merki milli tíma­bila sem eiga sér stað á sitt­hvorum enda 20. ald­ar­inn­ar. Sam­hengið sem verið er að tala út frá er allt ann­að,“ segir hún.

Henni fannst til að mynda merki­legt að sjá hvernig hug­myndir um að það að vera Íslend­ingur væru mót­aðar af veru í harð­býlu landi hefðu orðið mik­il­vægar sem ákveð­inn grund­völlur hug­mynd­ar­innar um útrás­ar­vík­inga – „við“ Íslend­ingar værum nátt­úru­lega svona og hinsegin – en ekki sé hægt að segja að þetta séu sömu hug­mynd­irn­ar. Hún segir enn fremur að í sam­hengi útrás­ar­innar og á tímum þegar fólk á Íslandi er upp­runnið úr ólíkum áttum í rík­ari mæli en áður, séu slíkar hug­myndir hroka­fullar og úti­lok­andi.

Kristín telur að hrunið 2008 hafi breytt mjög miklu og að í raun séu Íslend­ingar ekki alveg búnir að sjá hversu miklu það breytti. Samt sem áður megi sjá marg­vís­leg þrástef – það er fram­hald á sömu hug­myndum – sem hafi haldið áfram, þó svo að verið hafi mun meira rými fyrir gagn­rýna hugs­un. „Eitt mik­il­vægt þrástef sem var bæði gagn­rýnt eftir hrun­ið, en hefur líka haldið áfram, er hug­myndin um íslensku sér­stöðu­hyggj­una sem ég hef komið inn á ólíkan hátt í mínum rann­sókn­um.“

Skipt­ing í kyn­flokka lærð hug­mynd

Í rann­sókn Krist­ínar er fjallað um hug­takið kyn­þáttun en hvað þýðir það? „„Kyn­þátt­un“ er mín þýð­ing á enska hug­tak­inu „raci­alization“ sem mér hefur fund­ist gagn­legt í ákveðnu sam­hengi. Í stuttu máli er verið að vísa til hvernig við lærum að hugsa um okkur og aðra út frá hug­mynda­fræði kyn­þátta­hugs­un­ar. Mann­kynið skipt­ist ekki af nátt­úr­unnar hendi í kyn­flokka heldur eru þetta lærðar hug­myndir sem urðu mik­il­vægar fyrir nokkuð hund­ruð árum síð­an.

Í mínum rann­sóknum hef ég bæði skoðað kyn­þátta­for­dóma út frá hat­urs­fullri hegðun sem fólk verður fyrir en mér hefur einnig þótt mik­il­vægt að benda á að kyn­þátta­hyggja snýst ekki bara um það – því eins og fyrr sagði eru kyn­þátta­hug­myndir sam­ofnar svo mörgu og skjóta upp koll­inum í ólíku sam­heng­i,“ segir hún. „Við lærum að hugsa um veru­leik­ann út frá ákveðnu stig­veldi, sem er sam­ofið gam­alli og nýrri kyn­þátta­hugs­un.“ Í bók­inni skoðar Kristín hvernig kyn­þátta­hug­myndir hafi verið sam­ofnar og und­ir­liggj­andi ákveðnum hug­myndum sem teng­ist því að vera þjóð.

Crisis and Coloniality at Europe's Margins

Vilja ekki vera útmál­aðir sem nýlenduþý

Í gegnum bók­inni fjallar Kristín um það hvernig mik­il­vægur grunnur útrás­ar­innar hafi verið ótti Íslend­inga við að vera flokk­aðir á rangan hátt í stig­veldi þjóða, sem skjóti svo aftur upp koll­inum í hrun­inu. „Þrátt fyrir að Íslend­ingar væru ekki nýlenda Dana í sama skiln­ing eins og nýlendu­þjóð­ir, til dæmis í Afr­íku, þar sem marg­þætt ofbeldi ein­kenndir sam­skipt­in, þá verði samt mik­il­vægt á Íslandi á ákveðnum tíma að und­ir­strika aftur og aftur að Íslend­ingar séu ekki nýlendu­þý, að við erum ekki eins og „hin­ir“ villi­menn­irnir þarna út í heim­i,“ segir hún.

Þá bendir hún á að McDon­ald‘s á Íslandi kall­ist á við þessa hug­mynd og notar hún í bók­inni opnun og lokun McDon­ald‘s til að halda utan um ákveðið tíma­bil. „Þegar Davíð Odd­son opnar fyrsta McDon­ald‘s á Íslandi árið 1993 er hann að feta í fót­spor Mar­grétar Thatcher sem opn­aði stækk­aðan McDon­alds í Bret­landi ein­hverjum árum fyrr, og það var svo mikið stolt og gleði á Íslandi að við værum loks­ins að fá McDon­ald‘s,“ segir hún.

McDonald's á Íslandi var lokað seinni part árs 2009.
Wiki Commons/Hinrik

Kristín man sjálf eftir þessu and­rúms­lofti. Loks­ins hafi Íslend­ingar verið eitt­hvað, það er hluti af alþjóð­ar­sam­fé­lag­inu. „Ég tengi opn­un­ina í bók­inni jafn­framt við upp­haf nýfrjáls­hyggju og tíma­bil þeirra breyt­inga sem þá voru að ganga í garð. Þessi tákn­ræna staða sem McDon­ald‘s end­ur­speglar kemur svo aftur í ljós í hrun­inu þegar stað­ur­inn lokar árið 2009, en margir túlk­uðu það sem algjört skip­brot íslensks sam­fé­lags. Sumir við­mæl­endur í rann­sókn­inn töl­uðu þannig um að það sner­ist ekki um ham­borg­ana heldur tákn­ræna stöðu Íslands sem þjóð meðal þjóða.“

Fyrir nokkrum árum síðan hafi komið í dags­ljósið McDon­ald‘s ham­borg­ari sem ein­hver hafði keypt þegar stað­ur­inn var að loka en hann er núna undir gler­kúpu fyrir ferða­menn sem heim­sækja Ísland, sem aftur end­ur­spegli breytta stöðu Íslands í alþjóða­sam­fé­lag­inu sem land fjölda­ferða­mennsku og land sem hafi verið mark­að­sett á ákveðin hátt.

Þrástefið um Íslend­inga sem ein­staka þjóð í ein­stöku landi

Í bók­inni skoðar Kristín jafn­framt hvernig ákveðin þrástef hafi verið tekin upp við nýja mark­aðs­her­ferð árið 2010 í ferða­þjón­ust­unni á Íslandi. „Þegar íslensk stjórn­völd og hags­muna­að­ilar fara af stað með her­ferð­ina Inspired by Iceland árið 2010 þá var það til að bregð­ast við alþjóð­legu umræð­unni um íslenska efna­hags­hrunið og auð­vitað til að reyna fá meiri gjald­eyri inn í land­ið. Þessi her­ferð byggir á mark­að­setn­ingu lands og þjóð­ar, eða „nation brand­ing“ eins og það hefur verið kallað á ensku. Nation brand­ing hafði byrjað áður, meðal ann­ars í gegnum hina frægu ímynda­skýrslu sem var gefin út árið 2008,“ segir hún.

Hún rifjar enn fremur upp að þar hafi verið að bregð­ast við gagn­rýni og áhyggjum erlendra aðila á hið svo­kall­aða íslenska efna­hagsund­ur. Lausnin hafi sem sagt verið að bæta ímynd­ina en ekki að skoða með gangrýnum hætti hvað hafi verið í gangi. Í mark­að­setn­ingu Inspired by Iceland her­ferð­inni hafi í raun þráð­ur­inn verið tek­inn upp aft­ur. „Þegar efni her­ferð­ar­innar er skoðað má sjá að í mark­að­setn­ingu lands og þjóðar eru eldri þrástef tekin upp, meðal ann­ars þrástefið um Íslend­inga sem ein­staka þjóð í ein­stöku landi sem og að það má skoða her­ferð­ina í tengslum við langa sögu erlendis af Íslend­ingum sem ekki mjög nútíma­legum og dálítið frum­stæð­u­m,“ segir hún.

Í bók­inni veltir Kristin fyrir sér þess­ari mark­aðs­her­ferð og hvernig hún byggir á að skapa ákveðna klisju um land og þjóð og spyr meðal ann­ars hverjir séu hluti af því Íslandi sem þar er sýnt.

„Ég und­ir­strika í bók­inni að þessi þrástef í mark­aðs­her­ferð­inni köll­uð­ust jafn­framt á við aðrar ímyndir Íslands á sama tíma þar sem fjallað var um hversu frá­bær­lega Íslend­ingar hefðu brugð­ist við hrun­inu, að allir banka­menn hefði verið fang­els­aðir og annað slíkt. Þessar fréttir voru einmitt oft krydd­aðar með til­vís­unum til þess að Íslend­inga væru ólíkir öllum öðrum,“ segir hún.

Mik­il­vægt að líta á sam­hengi

Þá liggur í augum uppi að spyrja hvaða merk­ingu það hafi fyrir Íslend­inga að skoða þessa hluti, skilja eigin sögu og hug­myndir um þá sjálfa. „Í mann­fræð­inni þá skoðum við gjarnan bæði stóru mynd­ina og litlu mynd­ina, það er stærra alþjóð­lega sam­hengið og hvernig aburðir á Íslandi tengj­ast því sem er að ger­ast ann­ars staðar í heim­inum en líka hvernig þeir eru túlk­aðir og upp­lif­aðir af venju­legu fólki,“ segir hún.

Stundum sé fjallað um við­burði eða sögu­lega þætti á íslandi eins og þeir séu alveg ein­stakir og telur Kristín að hugsun vanti um hvernig þeir teng­ist því sem er að ger­ast í umheim­in­um. Á Íslandi, eins og ann­ar­stað­ar, skipti miklu máli að velta fyrir sér á gagn­rýnin hátt því sem er að ger­ast í heim­inum í dag og hvernig það teng­ist for­tíð­inni því alltaf sé verið að vísa til hennar með beinum eða óbeinum hætti í sam­tím­an­um, en líka hvað það þýði fyrir fram­tíð­ina.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal