Hvað er svona merkilegt við það að vera Íslendingur?
Íslensk sjálfsmynd er sannarlega brotthætt, sem sýndi sig og sannaði í kringum efnahagshrunið 2008. Prófessor í mannfræði við HÍ spjallaði við Kjarnann um nýútkomna bók um mótun þjóðernishugmynda á Íslandi frá upphafi 20. aldar og fram á okkar tíma og stöðu Íslands sem þjóðar meðal þjóða.
Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, gaf nýlega út bókina Crisis and Coloniality at Europe’s Margins: Creating Exotic Iceland en hún byggist á rannsóknarverkefninu „Íslensk sjálfsmynd í kreppu“ sem hún réðst í í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi.
Hún segir að megin ástæðan fyrir því að hún hafi ráðist í bókarsmíðina sé sú að hana hafi langað að draga saman rannsóknir sínar síðustu ára og þá ekki bara fyrir útvaldan hóp heldur vildi hún einnig að verkið væri aðgengilegt stærri hóp fræðifólks og annarra sem hefðu áhuga á efninu. „Ég hef í töluverðan tíma verið að skrifa fræðigreinar og bókakafla um málefnin sem tekið er fyrir í bókinni en það að skrifa bók er allt öðruvísi. Það er meira frelsi og hægt að segja stærri sögu á annan hátt,“ segir hún.
Þó hafi þetta tekið langan tíma, sérstaklega vegna þess að bókin hafi alltaf lent svolítið útundan því það hafi verið mörg önnur verk í vinnunni sem legið hafi á að klára. „Mér fannst ákaflega gaman að skrifa hana og útdeildi sjálfri mér oft tíma til þess eins og hálfgerð verðlaun þegar ég hafði lokið öðrum verkefnum sem voru minna spennandi.“
Hvað þýðir það að vera Íslendingur?
Kristín segir að rannsóknin hafi í raun langa sögu sem dreifist í allar áttir. Einn þráður hennar sé dvöl hennar í Níger í Vestur-Afríku fyrir löngu síðan þar sem hún skoðaði líf hirðingjafólks sem kallar sig WoDaaBe og hvernig það hefur glímt við erfiðleika og hálfgert kreppuástand sem virðist ekki taka neinn enda. „Níger er fyrrverandi frönsk nýlenda en sú saga skiptir máli í samtímanum, meðal annars hvað varðar ákveðna sýn og stöðu „hvíts“ fólks í samfélaginu. Þegar ég dvaldist með hirðingjunum einhverstaðar út í buskanum hafði ég mikinn tíma til að velta fyrir mér margvíslegum spurningum sem tengdust minni eigin fortíð sem Íslendingur og sem kona sem var flokkuð sem „hvít“,“ útskýrir hún.
Þá spurði hún sig til að mynda hvernig nýlenduverkefnið í byrjun 20. aldar hefði tengst Íslendingum. Hver merking þess væri að vera „hvítur“ og vera Íslendingur. „Það skipti til dæmis marga viðmælendur mína þar máli að ég var ekki frá Frakklandi, sem hvatti mig til að velta fyrir mér á gagnrýnin hátt stöðu Íslands í samfélagi þjóða og merkingu þess í víðara samhengi.“
Umræðan um íslensku útrásarvíkinganna stolin upp úr gömlum þjóðernislegum hugmyndum
Annar innblástur kom síðan þegar hún var að vinna að verkefni um ímyndir Afríku á Íslandi en þá fannst henni áberandi hversu mikið af umræðu um Afríku virtist snúast um að undirstrika Íslendinga sem hluti af einhverskonar „við“ – nánar tiltekið sem evrópskt, hvítt og siðmenntað fólk. „Þegar ég var að grúska í gegnum eldri skólabækur var ég slegin af því hversu umræðan sem var þá í gangi um íslensku útrásarvíkinganna virtist næstum því vera stolin upp úr gömlum þjóðernislegu hugmyndum sem lögðu einnig áherslu á sérstöðu Íslendinga.“
Þegar efnahagshrunið átti sér stað í október árið 2008 var hún að sumu leyti byrjuð á rannsókninni því þá þegar var hún farin að hugsa mikið um þessar tengingar og skrifa um þær. „Þegar hrunið átti sér svo stað fannst mér ég verða að búa til úr þessum pælingum mínum stærra verkefni sem skoðaði út frá mörgum ólíkum áttum hvað það þýddi að vera þjóð í útrás, hruni og uppbyggingu og hvernig það kallaðist á við þessa flóknu fortíð,“ segir hún.
Hugmyndir um að það að vera Íslendingur mótaðar af veru í harðbýlu landi
En hvað felst í hugtakinu „íslensk þjóð“? Kristín segir að hugtakið þjóð sé margslungið og í kjölfar aukinnar samtengingar heimsins undir lok 20. aldar þá hafi margt fræðifólk velt því fyrir sér hvað yrði um hugmyndina um að vera þjóð í þessu nýja umhverfi. Sumir hafi jafnvel velt upp hvort það væru endalok þjóðarhugmyndarinnar en það hafi nú ekki gengið eftir.
„Þjóðir almennt réttlæta og útskýra tilvist sína með því að vísa í söguna og þess vegna er svo áhugavert og mikilvægt að skoða hvernig sagan er notuð á ólíkum tímum. Við sjáum ótrúlega sterka þræði sem fara frá fortíð til samtíma en við getum ekki sett samansemmerki milli tímabila sem eiga sér stað á sitthvorum enda 20. aldarinnar. Samhengið sem verið er að tala út frá er allt annað,“ segir hún.
Henni fannst til að mynda merkilegt að sjá hvernig hugmyndir um að það að vera Íslendingur væru mótaðar af veru í harðbýlu landi hefðu orðið mikilvægar sem ákveðinn grundvöllur hugmyndarinnar um útrásarvíkinga – „við“ Íslendingar værum náttúrulega svona og hinsegin – en ekki sé hægt að segja að þetta séu sömu hugmyndirnar. Hún segir enn fremur að í samhengi útrásarinnar og á tímum þegar fólk á Íslandi er upprunnið úr ólíkum áttum í ríkari mæli en áður, séu slíkar hugmyndir hrokafullar og útilokandi.
Kristín telur að hrunið 2008 hafi breytt mjög miklu og að í raun séu Íslendingar ekki alveg búnir að sjá hversu miklu það breytti. Samt sem áður megi sjá margvísleg þrástef – það er framhald á sömu hugmyndum – sem hafi haldið áfram, þó svo að verið hafi mun meira rými fyrir gagnrýna hugsun. „Eitt mikilvægt þrástef sem var bæði gagnrýnt eftir hrunið, en hefur líka haldið áfram, er hugmyndin um íslensku sérstöðuhyggjuna sem ég hef komið inn á ólíkan hátt í mínum rannsóknum.“
Skipting í kynflokka lærð hugmynd
Í rannsókn Kristínar er fjallað um hugtakið kynþáttun en hvað þýðir það? „„Kynþáttun“ er mín þýðing á enska hugtakinu „racialization“ sem mér hefur fundist gagnlegt í ákveðnu samhengi. Í stuttu máli er verið að vísa til hvernig við lærum að hugsa um okkur og aðra út frá hugmyndafræði kynþáttahugsunar. Mannkynið skiptist ekki af náttúrunnar hendi í kynflokka heldur eru þetta lærðar hugmyndir sem urðu mikilvægar fyrir nokkuð hundruð árum síðan.
Í mínum rannsóknum hef ég bæði skoðað kynþáttafordóma út frá hatursfullri hegðun sem fólk verður fyrir en mér hefur einnig þótt mikilvægt að benda á að kynþáttahyggja snýst ekki bara um það – því eins og fyrr sagði eru kynþáttahugmyndir samofnar svo mörgu og skjóta upp kollinum í ólíku samhengi,“ segir hún. „Við lærum að hugsa um veruleikann út frá ákveðnu stigveldi, sem er samofið gamalli og nýrri kynþáttahugsun.“ Í bókinni skoðar Kristín hvernig kynþáttahugmyndir hafi verið samofnar og undirliggjandi ákveðnum hugmyndum sem tengist því að vera þjóð.
Vilja ekki vera útmálaðir sem nýlenduþý
Í gegnum bókinni fjallar Kristín um það hvernig mikilvægur grunnur útrásarinnar hafi verið ótti Íslendinga við að vera flokkaðir á rangan hátt í stigveldi þjóða, sem skjóti svo aftur upp kollinum í hruninu. „Þrátt fyrir að Íslendingar væru ekki nýlenda Dana í sama skilning eins og nýlenduþjóðir, til dæmis í Afríku, þar sem margþætt ofbeldi einkenndir samskiptin, þá verði samt mikilvægt á Íslandi á ákveðnum tíma að undirstrika aftur og aftur að Íslendingar séu ekki nýlenduþý, að við erum ekki eins og „hinir“ villimennirnir þarna út í heimi,“ segir hún.
Þá bendir hún á að McDonald‘s á Íslandi kallist á við þessa hugmynd og notar hún í bókinni opnun og lokun McDonald‘s til að halda utan um ákveðið tímabil. „Þegar Davíð Oddson opnar fyrsta McDonald‘s á Íslandi árið 1993 er hann að feta í fótspor Margrétar Thatcher sem opnaði stækkaðan McDonalds í Bretlandi einhverjum árum fyrr, og það var svo mikið stolt og gleði á Íslandi að við værum loksins að fá McDonald‘s,“ segir hún.
Kristín man sjálf eftir þessu andrúmslofti. Loksins hafi Íslendingar verið eitthvað, það er hluti af alþjóðarsamfélaginu. „Ég tengi opnunina í bókinni jafnframt við upphaf nýfrjálshyggju og tímabil þeirra breytinga sem þá voru að ganga í garð. Þessi táknræna staða sem McDonald‘s endurspeglar kemur svo aftur í ljós í hruninu þegar staðurinn lokar árið 2009, en margir túlkuðu það sem algjört skipbrot íslensks samfélags. Sumir viðmælendur í rannsókninn töluðu þannig um að það snerist ekki um hamborgana heldur táknræna stöðu Íslands sem þjóð meðal þjóða.“
Fyrir nokkrum árum síðan hafi komið í dagsljósið McDonald‘s hamborgari sem einhver hafði keypt þegar staðurinn var að loka en hann er núna undir glerkúpu fyrir ferðamenn sem heimsækja Ísland, sem aftur endurspegli breytta stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu sem land fjöldaferðamennsku og land sem hafi verið markaðsett á ákveðin hátt.
Þrástefið um Íslendinga sem einstaka þjóð í einstöku landi
Í bókinni skoðar Kristín jafnframt hvernig ákveðin þrástef hafi verið tekin upp við nýja markaðsherferð árið 2010 í ferðaþjónustunni á Íslandi. „Þegar íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar fara af stað með herferðina Inspired by Iceland árið 2010 þá var það til að bregðast við alþjóðlegu umræðunni um íslenska efnahagshrunið og auðvitað til að reyna fá meiri gjaldeyri inn í landið. Þessi herferð byggir á markaðsetningu lands og þjóðar, eða „nation branding“ eins og það hefur verið kallað á ensku. Nation branding hafði byrjað áður, meðal annars í gegnum hina frægu ímyndaskýrslu sem var gefin út árið 2008,“ segir hún.
Hún rifjar enn fremur upp að þar hafi verið að bregðast við gagnrýni og áhyggjum erlendra aðila á hið svokallaða íslenska efnahagsundur. Lausnin hafi sem sagt verið að bæta ímyndina en ekki að skoða með gangrýnum hætti hvað hafi verið í gangi. Í markaðsetningu Inspired by Iceland herferðinni hafi í raun þráðurinn verið tekinn upp aftur. „Þegar efni herferðarinnar er skoðað má sjá að í markaðsetningu lands og þjóðar eru eldri þrástef tekin upp, meðal annars þrástefið um Íslendinga sem einstaka þjóð í einstöku landi sem og að það má skoða herferðina í tengslum við langa sögu erlendis af Íslendingum sem ekki mjög nútímalegum og dálítið frumstæðum,“ segir hún.
Í bókinni veltir Kristin fyrir sér þessari markaðsherferð og hvernig hún byggir á að skapa ákveðna klisju um land og þjóð og spyr meðal annars hverjir séu hluti af því Íslandi sem þar er sýnt.
„Ég undirstrika í bókinni að þessi þrástef í markaðsherferðinni kölluðust jafnframt á við aðrar ímyndir Íslands á sama tíma þar sem fjallað var um hversu frábærlega Íslendingar hefðu brugðist við hruninu, að allir bankamenn hefði verið fangelsaðir og annað slíkt. Þessar fréttir voru einmitt oft kryddaðar með tilvísunum til þess að Íslendinga væru ólíkir öllum öðrum,“ segir hún.
Mikilvægt að líta á samhengi
Þá liggur í augum uppi að spyrja hvaða merkingu það hafi fyrir Íslendinga að skoða þessa hluti, skilja eigin sögu og hugmyndir um þá sjálfa. „Í mannfræðinni þá skoðum við gjarnan bæði stóru myndina og litlu myndina, það er stærra alþjóðlega samhengið og hvernig aburðir á Íslandi tengjast því sem er að gerast annars staðar í heiminum en líka hvernig þeir eru túlkaðir og upplifaðir af venjulegu fólki,“ segir hún.
Stundum sé fjallað um viðburði eða sögulega þætti á íslandi eins og þeir séu alveg einstakir og telur Kristín að hugsun vanti um hvernig þeir tengist því sem er að gerast í umheiminum. Á Íslandi, eins og annarstaðar, skipti miklu máli að velta fyrir sér á gagnrýnin hátt því sem er að gerast í heiminum í dag og hvernig það tengist fortíðinni því alltaf sé verið að vísa til hennar með beinum eða óbeinum hætti í samtímanum, en líka hvað það þýði fyrir framtíðina.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði