Vinna að pólitískri sátt
Dregist hefur á langinn hjá Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að leggja fram fjölmiðlafrumvarpið svokallað. Frumvarpið er töluvert umdeilt en ráðherra stefnir á að leggja það fram á haustþingi. Segir hún að verið sé að fínpússa ýmis atriði og vinna að pólitískri sátt.
Frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla er enn í undirbúningi en stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.“ Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans þegar innt var eftir svörum varðandi stöðu frumvarpsins. Ekki var unnt að fá nánari upplýsingar um tímasetningu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagðist í febrúar síðastliðnum vera sannfærð um að ná frumvarpi sínu um endurgreiðslur til fjölmiðla í gegnum ríkisstjórn en það var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi í byrjun maí. Breytingar voru gerðar á því frumvarpi sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í janúar síðastliðnum.
Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 20. maí en það komst þó ekki til umræðu á Alþingi áður en þingið fór í sumarleyfi.
Markmiðið með frumvarpinu er að efla hlutverk ríkisins, þegar kemur að fjölmiðlaumhverfinu, og styrkja rekstrarumhverfið, en í frumvarpinu felst meðal annars að stíga fyrstu skrefin í átt að því sem þekkst hefur á Norðurlöndunum um árabil.
Þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði umdeild
Í frumvarpinu er lagt til að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði tvíþættur. Annars vegar verður stuðningur í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta kostnaðar af ritstjórnarstörfum, en að hámarki er hann 50 milljónir króna á fjölmiðil. Hins vegar er talað um stuðning sem myndi nemi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna.
Árlegur kostnaður er metinn 520 milljónir, en fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir 350 milljónum. Breytingar á hlutverki eða tekjustofnum RÚV voru ekki hluti af frumvarpinu en í greinargerðinni segir að stefnt sé að því að skoða tekjuuppbyggingu RÚV fyrir árslok 2019. Eins og kunnugt er hefur þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði, samhliða tekjum af útvarpsgjaldi, verið umdeild.
Verið að fínpússa ýmis atriði
Í sérstöku svari frá ráðherra til Kjarnans kemur fram að umfang stærstu frumvarpa ráðuneytisins á þessu haustþingi – nýtt lánasjóðsfrumvarp, sviðslistafrumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið – hafi vaxið og frumvarpsvinnan tekið lengri tíma en ráð hafi verið fyrir gert. „Sviðslistafrumvarpið og frumvarp um nýjan Menntasjóð námsmanna eru tilbúin en vinnu við fjölmiðlafrumvarpið er ekki lokið,“ segir í svari Lilju.
Þar sé verið að fínpússa ýmis atriði og vinna að pólitískri sátt um það lýðræðislega mikilvæga mál, að fjölmiðlar starfi í rekstrarumhverfi sem geri þeim kleift að blómstra og sinna sínu mikilvæga samfélagshlutverki. „Eins og fram hefur komið horfum við til fordæma hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum, þar sem stuðningur við fjölmiðla hefur skilað góðum árangri.“
Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar töluvert á eftir áætlun
Fram kom í frétt Kjarnans í gær að einungis helmingur þeirra frumvarpa ríkisstjórnarinnar sem voru á þingmálaskrá í september, sem voru alls 26, hefðu verið lögð fram í lok þarsíðustu viku, eða 13 talsins. Þá hafði ein af þremur þingsályktunartillögum sem voru á þingmálaskrá í september verið lagðar fyrir Alþingi á sama tíma.
Í október átti, samkvæmt þingmálaskrá, að leggja fram 36 frumvörp. Þann 18. október höfðu tvö þeirra verið lög fyrir Alþingi. Þá höfðu fimm af 14 þingsályktunartillögum sem eru á þingmálaskrá í október verið lagðar fyrir Alþingi. Síðan 18. október hafa þrjú frumvörp ríkisstjórnar verið lögð fram. Ríkisstjórnin hefur auk þess lagt tvö frumvörp fram á Alþingi sem ekki eru á þingmálaskrá á yfirstandandi þingi.
Andstaða við frumvarpið
Töluverða andstöðu mátti greina við fjölmiðlafrumvarpið þegar það kom fyrst fram en hún birtist hjá sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokks, meðal annars hjá Óla Birni Kárasyni og Ásmundi Friðrikssyni. Óli Björn skrifaði grein í Morgunblaðið í upphafi febrúarmánaðar þar sem hann sagði meðal annars: „Skilvirkasta leiðin til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er lækkun skatta. Styrktar- og millifærslukerfi er versta leiðin.“
Ásmundur skrifaði grein á vefinn Eyjar.net þar sem hann líkti væntanlegum endurgreiðslum til fjölmiðla við búvörusamningum, sem kosta að meðaltali 13,2 milljarða króna á tíu ára gildistíma sínum. Ásmundur sagði í greininni að frumvarpið gerði meðal annars „ráð fyrir að skoðunarbræður sem skapa sér vettvang í fjölmiðlun og oft eru nefndir mykjudreifarar verði vel tryggðir og gætu fengið hlutfallslega hæstu framlögin.“
23 umsagnir bárust
Frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda og lauk samráðinu þann 16. febrúar síðastliðinn. Alls bárust 23 umsagnir, flestar frá einkareknum fjölmiðlum, með margháttuðum og ólíkum athugasemdum. Stærstu einkareknu miðlar landsins gerðu miklar athugasemdir við veru RÚV á auglýsingamarkaði í sínum umsögnum.
Þá vildi Torg ehf., útgefandi Fréttablaðsins, að ívilnunum yrði breytt þannig að skilyrði til endurgreiðslu kostnaðar verði breytt þannig að ritstjórnarefni verði að lágmarki vera 30 prósent í stað 40 prósent hjá miðlinum. „Ástæða þess er sú að við lauslega talningu á þessu hlutfalli í Fréttablaðinu er ljóst að blaðið er á mörkum þess að uppfylla skilyrðið. Ef slík lög væru sett og stærsti prentmiðill landsins gæti ekki fengið styrk vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrðin er ljóst að lögin væru að engu leyti að ná tilgangi sínum.“ Torg lagði einnig til að endurgreiðslu myndu ná helst til ritstjórna sem væru með fleiri en 20 starfsmenn sem myndi þýða að þrír einkareknir aðilar, Torg, Árvakur og Sýn, myndu fá þorra endurgreiðslna.
Þetta er í fyrsta sinn sem lagt er fram frumvarp sem viðurkenndir vanda einkarekinna fjölmiðla og er staða þeirra því í fyrsta sinn komin á dagskrá stjórnmálanna.
Lilja sagði í Silfrinu daginn eftir að samráði lauk að þetta væri fyrsta skrefið af nokkrum til að rétta við stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi og að það væri í anda þeirra endurgreiðslukerfa sem þegar hefur verið komið á fót varðandi kvikmyndagerð, bókaútgáfu og nýsköpun hérlendis. Þetta væri í fyrsta sinn sem lagt væri fram frumvarp sem viðurkenndi vanda einkarekinna fjölmiðla og staða þeirra væri því í fyrsta sinn komin á dagskrá stjórnmálanna.
Segir frjálsu fjölmiðlana eiga við ofurefli að etja gagnvart Ríkisútvarpinu
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, er ein þeirra sem gagnrýnir frumvarpið en hún fjallaði um málið á bloggi sínu í september síðastliðnum. „Árið 2006 rættist loks sá draumur Egils Skalla-Grímssonar að silfri yrði sáldrað yfir þingheim til að valda uppnámi og áflogum. Þá voru samþykkt lög sem gerðu stjórnmálaflokkana nær algerlega háða reiptogi um það skotsilfur skattgreiðenda sem er til skiptanna á Alþingi. Nokkru síðar tók við áður óþekkt langvarandi upplausn í íslenskum stjórnmálum og stefnir nú hraðbyri í að hver maður verði með sinn flokk því þannig hámarka menn sinn hlut í silfrinu. Jafnvel flokkar sem ná ekki kjöri eiga von um hlut að uppfylltum vægum skilyrðum,“ skrifar hún.
Hún heldur áfram: „Nú eru uppi hugmyndir um að íslenskir fjölmiðlar fari sömu leið og flokkarnir og verði upp á framlög úr ríkissjóði komnir. Hugmyndin kemur svo sem ekki upp úr þurru. Frjálsu fjölmiðlarnir eiga við ofurefli að etja gagnvart Ríkisútvarpinu. RÚV fær nokkur þúsund milljónir á ári frá almenningi óháð því hvort menn nýta sér þjónustu þess. Ríkisfyrirtækið nýtir þessa forgjöf einnig til að draga til sín auglýsingatekjur.“
Sigríður segir að í stað þess að laga þetta „óréttlæti gagnvart almenningi og einkareknu miðlunum með því að draga úr þvinguðum framlögum almennings til Ríkisútvarpsins“ vilji sumir stjórnmálamenn nú bæta í óréttlætið gagnvart skattgreiðendum. Það eigi að gera með því að skattgreiðendur verði einnig þvingaðir til að gerast styrktarmenn hjá alls kyns einkareknum miðlum, dagblöðum, útvarpsstöðvum og bloggsíðum.
„Því fylgja sérstök ónot að hið svokallaða fjórða vald verði háð ríkinu á þennan hátt. Fjölmiðlar munu árlega þurfa að blanda sér í baráttuna um úthlutunarreglurnar og sækja að því búnu sameiginlega að fjárveitingavaldinu um að auka framlögin frá skattgreiðendum. Eru fjölmiðlar líklegir til að veita stjórnvöldum aðhald á sama tíma og þeir eru á slíkum fóðrum?“ spyr hún að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði