Meirihluti þingmanna fæðist inn í stjórnmálaelítuna
Nýlega kom út bók eftir Dr. Hauk Arnþórsson en þar veltir hann fyrir sér stjórnmálaelítunni á Íslandi. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að það halli verulega á ákveðna hópa, einkum þá sem eru minna menntaðir, verr ættaðir, hafa veika þjóðfélagsstöðu, á konur og þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Dr. Haukur Arnþórsson gaf nýverið út bókina Um Alþingi – Hver kennir kennaranum? en athygli vakti í fjölmiðlum við útgáfuna umræða um stöðu kvenna á Alþingi. Hér verður ekki farið í þann kafla, heldur verður athyglinni beint að svokallaðri stjórnmálaelítu á Íslandi en Haukur skoðar hvort alþingismenn séu fremur úr hærri lögum þjóðfélagsins en lægri. Hann bendir á að stjórnmálaelítan sé mikilvægasta elíta samfélagsins og reyni aðrar elítur að hafa áhrif á hana.
Yfirstétt er samkvæmt norrænum skilgreiningum annars vegar þeir sem eru með sterka ættarstöðu og hins vegar þeir sem eru úr hæstu lögum þjóðfélagsins. Meirihluti þingmanna á Íslandi er úr yfirstétt, en minnihluti hefur ættartengsl og annar minnihluti er úr hæstu lögum þjóðfélagsins. Saman mynda þessir tveir hópar yfirstéttina.
En áður en áfram er haldið er nauðsynlegt að skilja hugtakið elíta. Haukur tekur það fram að það sé notað yfir hóp eða hópa einstaklinga sem hafa hlutfallslega meiri völd en fjöldi þeirra segir til um. Þegar talað er um vald elítu sé fremur átt við aðstöðuna til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í samfélaginu en eiginlega beitingu þess. Um það hverjir hafi raunverulega möguleika á að stjórna. Í bókinni er ekki bent á einstaklinga sem tilheyra stjórnmálaelítunni, en sagt frá því hvað einkenni hana og hópa hennar.
Stjórnmálaelítan er grundvallarelítan
Haukur segir að menn geti orðið hluti af elítu á tvennan hátt, verið fæddir í hópinn eða áunnið sér þá stöðu.
„Jafnan er reiknað með því að margar elítur séu í hverju lýðræðisþjóðfélagi og er oft miðað við að þær séu í aðalatriðum í stjórnmálum, atvinnulífi og stórum félagasamtökum, auk sérstakra elítna í menntalífi, miðlun, listum o.s.frv. Stjórnmálaelítan er grundvallarelítan vegna stöðu sinnar gagnvart ríkisvaldinu og allar hinar reyna að hafa áhrif á hana og tengjast henni,“ kemur fram í bókinni.
Haukur telur jafnframt að elíta sé ekki neikvætt orð í sjálfu sér. Þótt hægt sé að hugsa sér algerlega stéttlaust samfélag, þá hafi slíkt samfélag aldrei verið til og nútíma lýðræðisþjóðfélag kalli á leiðsögn og þar með leiðtoga. Lykilatriði sé hins vegar hversu opnar elítur séu. Opinleiki stjórnmálaelítunnar sé mikilvægur til að lýðræðið fái að blómstra. Opinleiki elítu sé mældur með tvennu, það er hverjir komist í hana og hversu hratt hún endurnýist.
Þá kemur fram hjá Hauki að á seinustu árum hafi stjórnmálafræðingar lagt aukna áherslu á þátt stjórnmálaelítunnar við að ná félagslegum og efnahagslegum árangri.
Þetta sé lýðræðisleg nálgun og hafi þann boðskap að lítill árangur geti leitt til mikillar endurnýjunar í stjórnmálaelítunni, til dæmis í kosningum. Reynsla síðustu áratuga sýni að stjórnmálaelítur sem horfa fram hjá alvarlegum deilum og jafnvel átökum, kúgun og niðurlægingu kynþátta eða stétta, mikilli misskiptingu auðs eða mikilli fátækt séu ekki líklegar til langlífis. Árangur sé þá að einhverju leyti mældur í ánægju almennings, frelsi hans, lýðréttindum og velsæld. Þá sé nokkuð rætt um samkeppni milli elítna, aðskilnað þeirra og lýðræðisleg áhrif slíks aðskilnaðar.
„Stundum er því haldið fram að togstreita ríki milli ólíkra sjónarmiða við val á stjórnmálamönnum. Annars vegar eigi þeir að hafa menntun, reynslu og getu til þess að sinna störfum sínum, og styðja slík sjónarmið elítisma, og hins vegar skuli þeir endurspegla þjóðina,“ skrifar Haukur.
Í raunveruleikanum sé þessi togstreita varla mjög mikilvæg, enda bendi stjórnmálafræðingar á að almenn viðmið séu hugmyndafræðilegur grundvöllur vestrænna stjórnmála, ekki sjónarmið einhvers konar samfélagsúrvals. Það sé ekki sérfræðiþekking sem veitir ákvörðunum stjórnmálamanna lögmæti, heldur almenn yfirsýn og greining á aðalatriðum hvers máls. Breyti hér engu þótt mál séu tæknilega flókin – úr þeirri flækju vinni aðrir. Almenn viðmið séu því hin farsæla hugmyndafræðilega nálgun.
Samsetning stjórnmálaelítunnar önnur en annarra elítna
Haukur bendir enn fremur á að stjórnmálaelítan hafi margháttaða sérstöðu. Hún hafi mikið meira stofnanalegt vald en aðrar elítur. Hún hafi miðlæga stöðu í ríkiskerfinu og auk þess mikla möguleika á að hafa áhrif á almenning. Samsetning stjórnmálaelítunnar sé líka önnur en annarra elítna. Hæstaréttardómari þurfi til að mynda að vera leiðandi lögfræðingur með langa starfsreynslu og meðal annars dómarareynslu, en ekki maðurinn af götunni – en stjórnmálamenn eigi að vera fulltrúar almennings, og skipti kjósendur og kosningar hér lykilmáli.
„Talið hefur verið að ákveðið samhengi sé milli opinleika stjórnmálaelítunnar og samloðunar elítna almennt og mögulegrar hópvitundar. Þessar kenningar um samhengi hinna fræðilegu hugtaka eru kenndar við John Scott,“ skrifar Haukur en hann leggur fram töflu til að úrskýra hugtökin betur:
Hann segir að þegar talað sé um lágt stig opinleika sé átt við að stjórnmálaelítan endurnýi sig einkum frá hópi með ákveðna þjóðfélagsstöðu, en hátt þýði hið gagnstæða – að hlutföll þjóðfélagshópa í elítunni endurspegli þjóðina og einkum að yfirstéttir séu ekki í hærra hlutfalli en fjöldi í þeim segir til um. Þá miðist stig opinleika einnig við tíðni útskiptinga, sem í tilviki Íslendinga væri það hversu lengi þingmenn sitja á Alþingi.
Samloðun sýni hins vegar hversu þétt tengdar elítur séu og þá um leið hvort þær hafi hópvitund og hvort það ríki einsleitni í skoðunum, viðhorfum og gildum milli elítna. Þessi einkenni beri merki um samstarf milli elítna. Síðast en ekki síst fóstri samloðun og ekki síður hópvitund lárétt samskipti milli elítna, þannig að kröfur frá lægra settum stéttum nái ekki fram að ganga, þær ógni ekki gagnkvæmum skilningi samloðandi elítna og geti ekki eflt samkeppni milli og innan þeirra.
„Í sjálfu sér felst alltaf ákveðin ógn við lýðræðið í starfi elítnanna, eins og leiða má af framansögðu. Auk þeirra atriða sem hér hafa verið nefnd kemur síðan tilhneiging allra valdaaðila til að viðhalda stöðu sinni,“ segir í bókinni.
Haukir bendir á að kenningar um stjórnmálaelítuna séu á margan hátt mótsagnakenndar en eigi einnig margt sameiginlegt. „Það sem er mikilvægur kostur í lýðræðinu getur orðið því að falli ef illa fer. Margir fræðimenn benda á mikilvægi þess að jafnvægi sé milli ólíkra þátta sem einkenna lýðræðið. Lýðræðið sé í rauninni viðkvæmt gagnvart misvægi þeirra.“
Ekki skrá endilega allir þingmenn ættartengsl sín
Skyldleiki þingmanna og fjölskyldubönd við aðra alþingisþingismenn eru meðal þeirra atriða sem skráð eru í Alþingismannatal en Haukur kannaði þennan skyldleika í bókinni. Hann kallar þau ættartengsl og hugtakið ættarveldi notar hann um þau völd og aðstöðu sem slík tengsl veita. Hann segir þó að ekki sé hægt að fullyrða að allir þingmenn skrái ættartengsl sín því það sé þeim í sjálfsvald sett, þannig að skráningin sé ef til vill ekki tæmandi. Til dæmis vísi þingmenn sjaldan eða aldrei í ættartengsl við þingmenn sem langt er síðan sátu á Alþingi, allt að öld eða meira.
Samkvæmt athugun Hauks höfðu 37,8 prósent þingmanna á tímabilinu 1991 til 2018 ættartengsl við aðra sem setið hafa á Alþingi. Það segi hins vegar ekki alla söguna. Frá og með kosningunum 2013 hafi þeim fækkað sem höfðu ættartengsl við aðra þingmenn og enn kröftuglegar í kosningunum 2017, og hafi þeir þá orðið 27 prósent þingmanna.
Fram kemur að um helmingur karla hafði einhver ættartengsl við aðra þingmenn á fyrrihluta tímabilsins en konur í um 40 prósent tilfella. Þeim hafi síðan fækkað sem hafa ættartengsl. Á síðara tímabilinu hafi 32 prósent karla slík tengsl og 28 prósent kvenna.
„Alls eru þingmannafærslurnar 1.796 og taka til 258 þingmanna. Þar af höfðu 87 ættartengsl við aðra þingmenn eða 33,7 prósent einstakra þingmanna á tímabilinu öllu. Það er athyglisvert að þegar miðað er við upplýsingar í þingmannafærslum eru 37,8 prósent þingmanna tengdir ættarböndum, en aðeins 33,7 prósent ef miðað er við upplýsingar um einstaklingana hvern og einn. Skýringin er sú að þeir sem hafa ættartengsl við aðra þingmenn sitja töluvert fleiri þing en hinir og koma því fyrir fleiri þingmannafærslum. Þeim er síður skipt út en öðrum,“ skrifar Haukur.
Þá kemur fram að þingmenn með ættartengsl séu rúmlega þremur árum lengur á þingi en aðrir, eða tæplega heilt kjörtímabil. Einnig kemur fram að þingmenn með ættartengsl við aðra þingmenn séu ofar á framboðslistum flokka sinna en aðrir.
„Gögnin benda tvímælalaust til þess að hér á landi geti stjórnmálaelítan byggst að einhverju leyti á ættartengslum og því að ákveðnar fjölskyldur verji stöðu sína svipað og á 19. öld og fyrrihluta 20. aldar, og er það einkenni á lítt þróuðum ættar samfélögum.“
Þingmenn með ættartengsl fá ráðherraembætti í meira mæli
Jafnframt kemur fram í bókinni að þingmenn sem hafa ættartengsl fái ráðherraembætti í meira mæli en aðrir þingmenn og hafi þannig meiri áhrif en fjöldi þeirra segir til um, til dæmis með því að ráðherrar bera fram margfalt fleiri mál sem verða að lögum en aðrir þingmenn. Annað einkenni hópsins sé að mál hans dagar uppi við þriðju umræðu ef þau geri það á annað borð – það sé einkenni ráðherramála, en svo langt í málsferlinu nái þingmál annarra þingmanna allajafna ekki, þau dagi uppi á fyrri stigum og komi jafnvel ekki til umræðu.
„Þannig fylgja völd og áhrif ættartengslum. Þingmenn með ættartengsl verða fremur fjármálaráðherrar en aðrir þingmenn, en það er lykilstaða í stjórnkerfinu. Að sama skapi taka þeir þingmenn sem hafa ættartengsl síður þátt í meðflutningi máls en aðrir.“
Þeir sem hafa ættartengsl eru meira menntaðir en aðrir þingmenn, samkvæmt Hauki, og er menntun þeirra einkum í lögfræði, en síst í menntunarfræðum og félagsvísindum. „Þeir þingmenn sem hafa ættartengsl við aðra þingmenn eru fremur fulltrúar kjósenda á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og þegar málið er skoðað betur sést að karlar á höfuðborgarsvæðinu eru fremur með skyldleikatengsl en aðrir og konur af landsbyggðinni síst.“
Lögfræðingar og jafnaðarmenn sterkustu ættarveldin
Haukur segir að í stærra samhengi sé af þessum staðreyndum ljóst að sterkastir séu tveir hópar íslensks ættarveldis, hópar sem lengi hafa haft sterka stöðu við stjórn landsins. Annars vegar sé átt við lögfræðinga og hins vegar jafnaðarmenn og séu báðir hóparnir fulltrúar þéttbýlis. Fulltrúar jafnaðarmanna séu til vinstri og hafi upphaflega verið fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar en lögfræðingarnir einkum til hægri.
„Ættartengsl eru almennust meðal Sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna. Þetta eru ólíkir hópar að mörgu öðru leyti. Sennilega eru forsendur Sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna við að halda þingmannssætum innan ætta og fjölskyldna bæði líkar og ólíkar. Framsóknarmenn skera sig ekki úr fyrir ættartengsl, heldur fyrir það að þeir verða oftast ráðherrar. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verða raunar oftast ráðherrar en þingmenn utan fjórflokksins síst,“ skrifar hann.
Má spyrja um verðleika og leiðtogahæfni
Í samantekt kaflans segir Haukur að ekki beri á öðru en að meirihluti þingmanna, sá hluti þeirra sem hefur mest völd, fæðist í elítuna og megi þá spyrja um verðleika og leiðtogahæfni. Jafnframt halli verulega á aðra hópa, einkum þá sem eru minna menntaðir, verr ættaðir, hafa veika þjóðfélagsstöðu eða miðlungi sterka, á konur og á þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
„Enda þótt jöfn þátttaka allra þjóðfélagshópa í stjórnmálum og þar með í stjórnmálaelítunni sé draumsýn, og hlutverk hins stjórnmálalega fulltrúa sé miklu flóknara í nútímanum en að verja hagsmuni einstakra þjóðfélagshópa, stétta eða landshluta – og slembival á fulltrúum komi ekki til greina nema við mjög sérstakar aðstæður – þá er Alþingi illa statt hvað varðar fulltrúahlutverkið,“ skrifar hann.
Þá gildi einu hvort litið sé á málið í ljósi almennra viðmiðana eða með samanburði við hin norrænu ríkin. Félagsleg samsetning þingmanna vísi langt til fortíðar.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars