Skattrannsóknarstjóri hefur um nokkurt skeið haft eitt mál tengt einstaklingi sem nýtti sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands til formlegrar rannsóknar. Meðferð þess máls er langt komin og ákvörðun um refsimeðferð verður tekin á næstu dögum eða örfáu vikum. Í því máli er grunur um undanskot fjármagnstekna er nemur á þriðja hundrað milljóna króna.
Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri i svari við fyrirspurn Kjarnans.
Hún segir enn fremur að embættið hafi alls aflað gagna í um tíu málum einstaklinga eftir að það fékk afhent gögn um þá sem nýttu sér fjárfestingarleiðina sem leiddi til hinnar formlegu rannsóknar á málinu sem nú er beðið ákvörðunar um refsimeðferð í.
Að sögn Bryndísar er embætti ríkisskattstjóri líka með umrædd gögn um þá sem nýttu sér fjárfestingarleiðina. „Til að koma í veg fyrir tvíverknað sammæltust embættin um að þau yrðu skoðuð frekar undir formerkjum eftirlits. Ef við þá skoðun vaknar grunur um skattsvik ber að tilkynna skattrannsóknarstjóra þar um sem tekur ákvörðun um framhald málsins. Það hefur að minnsta kosti ekki enn verið gert.“
Tugir milljarða ferjaðir inn í landið
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi.
Í skýrslu sem Seðlabanki Íslands birti um fjárfestingarleiðina í sumar kom fram aflandsfélög frá lágskattasvæðum hefðu flutt inn 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum leiðina. Eðlilegt væri, í ljósi sögunnar, að gagnrýna að það hefði verið gerlegt að ferja fjármuni frá slíkum svæðum í gegnum hana.
Engar tilkynningar sendar vegna peningaþvættis
Kjarninn greindi frá því í janúar 2017 að Seðlabankinn hefði litið svo á að það væri fjármálafyrirtækjanna sem sinntu hlutverki milliliða að ganga úr skugga um að þeir fjármunir sem notaðir voru til að kaupa krónur í gegnum fjárfestingarleiðina væru fengnir með löglegum hætti, að af þeim hefðu verið greiddir skattar og að þeir væru ekki með réttu eign annarra, t.d. kröfuhafa viðkomandi. Engar tilkynningar vegna peningaþvættis bárust til peningaþvættisskrifstofu vegna fjárfestingarleiðarinnar.
Allt eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fékk raunar falleinkunn hjá alþjóðlegu samtökunum Financial Action Task Force (FATF) í fyrra og þrátt fyrir miklar úrbætur frá því að sú úttekt lá fyrir endaði Ísland á gráum lista samtakanna, sem þykir mikill alþjóðlegur orðsporshnekkir og getur valdið íslenskum fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi umtalsverðum vandræðum vegna viðbótar áreiðanleikakannanna sem viðskiptavinir þeirra kunna að vilja framkvæma á þeim vegna þessa.
Fjármálaeftirlitið hefur frá þeim tíma framkvæmd athuganir á því hvernig fjármálafyrirtæki hafi staðið sig í vörnum gegn peningaþvætti. Fjármálaeftirlitið hefur birt niðurstöðu úr einni athugun, á stöðu mála hjá Arion banka. Sú niðurstaða, sem lá fyrir í janúar síðastliðnum, var á þá leið að fjölmargar brotalamir væru á þeim vörnum hjá bankanum. Meðal annars hefði bankinn ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi.
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, skrifaði nýverið grein í Kjarnann þar sem hann sagði meðal annars að það væri ekki útilokað„að eitthvað illa fengið fé hafi sloppið í gegnum nálarauga fjárfestingarleiðarinnar þótt ekkert hafi hingað til bent til þess að það hafi verið algengt.“ Tilefnið var að verjast þeim grunsemdum að mögulega hafi fjárfestingarleiðin nýst til að þvætta illa fengið fé, til dæmis afrakstur skattsvika. Ef embætti skattrannsóknarstjóra ákærir í því máli sem nú bíður ákvörðunar um refsimeðferð liggur ljóst fyrir að leiðin nýttist til slíks.