Þegar lágfjargjaldaflugfélagið Play hefur sig til lofts mun það vera með tvær flugvélar í rekstri. Þær munu fljúga til Alicante, Berlínar, Kaupmannahafnar, London, Parísar og Tenerife.
Í maí á næsta ári stendur svo til að fjölga vélum félagsins í sex, ári síðar eiga þær að vera orðnar átta og frá maímánuði 2022 tíu talsins. Samhliða mun áfangastöðum fjölga og flug hefjast til Bandaríkjanna auk fleiri borga í Evrópu.
Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem Íslensk verðbréfa unnu og kynntu fyrir væntanlegum fjárfestum í Play í síðustu viku. Kynningin, sem Kjarninn hefur undir höndum, er kirfilega merkt trúnaðarmál.
Samið um eldsneytisvarnir og slot
Þar kemur fram að Play sé þegar búið að tryggja sér svokölluð slot, eða aðstöðu- og afgreiðslutíma, á þeim flugvöllum sem það mun byrja sitt áætlunarflug til. Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag mun sala á flugferðum hefjast um leið og flugrekstrarleyfi Play verður komið í hús, en það mun gerast þegar félagið hefur lokið hlutafjármögnun sinni, sem felst í að sækja 1,7 milljarð króna til íslenskra einkafjárfesta.
Í kynningunni segir að Play sé þegar búið að semja um eldsneytiskaup og varnir við eldsneytisrisann BP og að eldsneytisverð verði fest sex mánuði fram í tímann. Með því mun komast meiri fyrirsjáanleiki í rekstur Play sem vantaði til að mynda hjá WOW air á síðari stigum tilveru þess félags, þegar það festi ekki eldsneytisverð sitt og miklar hækkanir á heimsmarkaði höfðu alvarlegar afleiðingar á rekstrarhæfni.
Þá segist Play vera búið að semja um viðhald á flugvélum félagsins með hagstæðari samningum en WOW var með og að búið sé að semja við nýjan aðila sem muni sjá um alla flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli „á áður óþekktum kjörum.“
Áætla að Play geti verið 78 milljarða virði
Kjarninn greindi frá því í gærkvöldi að áform Play gerðu ráð fyrir því að innan þriggja ára verði félagið komið með tíu flugvélar í rekstri og að verðmiðinn á félaginu, miðað við rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDT.) upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,5 milljarða króna, geti numið um 630 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 78 milljörðum króna, í lok árs 2022.
Til samanburðar er Icelandair, með verðmiða upp á 40,7 milljarða króna, miðað við verðið eins og það var við lokun markaða í gær.
Íslensk verðbréf koma að því að fjármagna það sem útaf stendur, eins og fram kom á kynningarfundinum á þriðjudag, en í máli Arnars Más Magnússonar forstjóra, kom fram að horft sé til þess að erlendir fjárfestar komi með 80 prósent fjármagns og 20 prósent komi frá innlendum aðilum.
Arnar Már Magnússon er forstjóri Play. Auk hans verða þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri, Bogi Guðmundsson, sem mun halda utan um sölu-, markaðs- og lögfræðisviðið, og Þóróddur Ari Þóroddsson, sem verður titlaður meiðeigandi, í stjórnendateymi félagsins. Þeir munu auk þess eiga stóran hlut í félaginu.