Árið 1798 stóð Napóleon Bónaparte, sem þá var foringi í franska hernum, í ströngu í Egyptalandi þar sem hann átti í stríði við Breta. Egyptaland var bresk nýlenda og Bretar voru á þessum tíma ein helsta ógn Frakka. Egyptalandsför Napóleons reyndist engin frægðarför en þegar Napóleon kom til Frakklands var honum fagnað sem þjóðhetju.
Á meðan Napóleon var að kljást við Breta sendi hann hóp sérfræðinga til að kanna möguleika þess að grafa skurð sem myndi tengja Rauðahafið við Miðjarðarhafið. Sérfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að yfirborð Rauðahafsins væri að minnsta kosti níu metrum hærra en yfirborð Miðjarðarhafsins. Skurður sem tengdi saman höfin tvö myndi valda því að sjór úr Rauða hafinu myndi flæða yfir hið víðfeðma óseyrasvæði Nílarfljóts við Miðjarðarhafið (strandlína svæðisins er um 240 km) og valda þar gríðarlegum skemmdum. Óseyrarnar eru mikilvægt ræktunarland og niðurstaða sérfræðinganna varð til þess að Napóleon féll frá öllum hugmyndum um skipaskurðinn.
Nýjar mælingar 1847
Ekki var langt liðið á nítjándu öldina þegar umræður um hugsanlegan skipaskurð hófust enda höfðu ýmsir efast um mælingar sérfræðinga Napóleons. Á árunum eftir 1840 fóru fram ítarlegar mælingar sem leiddu í ljós að hæðarmunur á yfirborði Rauðahafsins og Miðjarðarhafsins var nánast enginn. Skriður komst þó ekki fyrir alvöru á málið fyrr en árið 1854. Þá sömdu Frakkar undir stjórn Ferdinand de Lesseps, fyrrverandi diplómats í frönsku utanríkisþjónustunni, við landstjóra Egypta um stofnun félags sem fengi nafnið Suez Canal Company. Félaginu yrði falið að standa fyrir lagningu skipaskurðar milli Rauðahafsins og Miðjarðarhafsins.
Breskir ráðamenn voru mjög andsnúnir lagningu skurðarins, töldu þessar fyrirætlanir lið í því að veikja yfirráð Breta á heimshöfunum. Þegar Suez Canal Company, sem var formlega stofnað 1858, auglýsti hlutafé í félaginu til sölu kölluðu bresk dagblöð það „svívirðilega tilraun til að svíkja fé út úr heiðarlegu fólki.“ Bretar áttu síðar eftir að átta sig á mikilvægi skipaskurðarins og keyptu árið árið 1875 rúmlega 40 prósenta hlut Egypta. Frakkar áttu eftir sem áður meirihluta í félaginu.
Framkvæmdir tóku næstum áratug
Árið 1861, að loknum margskonar undirbúningi, hófst vinna við lagningu skurðarins. Þótt stórvirkar vinnuvélar nútímans væru ekki komnar til sögunnar voru þó til ýmiskonar tæki, gröfur og kranar. Slík tæki voru þó ekki notuð í upphafi, hakar, skóflur og hjólbörur voru þau tæki sem tugþúsundir Egypta, sem haldið var í nauðungarvinnu, þurftu að notast við. Verkinu miðaði lítið og árið 1863 bönnuðu egypsk stjórnvöld nauðungarvinnu. Suez Canal Company sá fram á, ef halda ætti verkinu áfram, að grípa yrði til stórtækari aðferða, þar sem stórvirkar vélar kæmu í stað handafls. Verkinu lauk árið 1869 og skurðurinn var formlega tekinn í notkun 17. nóvember það ár.
Ein og hálf milljón manna og 75 milljónir rúmmetra af sandi Margir hafa skrifað um Súes-skurðinn á liðnum árum, meðal þeirra er Daninn Hans F. Burchart, fyrrverandi prófessor. Bók hans „Historien om Suez-kanalen“ rekur sögu skipaskurðarins, frá upphafi til dagsins í dag. Til marks um stærð verkefnisins má nefna að fjarlægja þurfti um 75 milljónir rúmmetra sands, það jafngildir 3.5 milljónum vörubílshlassa nútímans, ekki kemur fram í bókinni hvað það jafngildi mörgum hjólböruhlössum!
Samtals vann um það bil ein og hálf milljón manna við lagningu skurðarins. Ekki sneru þeir allir lifandi heim því í áðurnefndri bók kemur fram að samtals hafi um 120 þúsund manns látist meðan á framkvæmdum stóð. Það er gríðarlega há tala og Hans F. Burcharth segir í bók sinni að ástæðurnar hafi verið slys, sjúkdómar (til dæmis kólera) og ömurlegar aðstæður, ekki síst næringarskortur.
Einstefnuskurður
Súes-skurðurinn var upphaflega ekki breiðari en svo að skip gátu ekki mæst, nema á sérstökum útskotum. Siglingin gegnum skurðinn tók í upphafi um það bil 40 klukkustundir, örfá skip fóru í gegn á degi hverjum og siglingahraðinn mjög takmarkaður til að hindra að öldukast frá skipum framkallaði hrun úr sandbökkum skurðarins. Dýptin var einungis um 8 metrar og breiddin hvergi meiri en um það bil 60 metrar. Smám saman var unnið að breikkun og dýpkun og um 1960 gátu að jafnaði 46 til 48 skip farið um skurðinn á degi hverjum.
Nasser og þjóðnýtingin
Þann 26. júlí árið 1956 tilkynnti Nasser forseti Egyptalands að frá og með þeim degi væri Súes-skurðurinn þjóðareign Egypta. Bretar og Frakkar, eigendur skurðarins (Suez Canal Company) brugðust ókvæða við og herir beggja landa, ásamt her Ísraels réðust til atlögu gegn Egyptalandi síðar það ár. Bandaríkjamenn og Rússar voru mjög ósáttir við framferði Breta, Frakka og Ísraela sem drógu heri sína til baka og Súes-skurðurinn hefur síðan verið undir stjórn Egypta sem greiddu umtalsverðar bætur vegna yfirtökunnar. Nasser styrkti mjög stöðu sína og varð nú hinn ókrýndi foringi Arabaríkjanna. Í kjölfar þessara atburða var Súes-skurðurinn lokaður frá í október 1956 fram í mars 1957.
Sex daga stríðið, Súes-skurðurinn og guli flotinn
Í maí 1967 skipaði Nasser, sem var forseti Egyptalands frá 1956 til dauðadags 1970, friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna á Sínaí-skaga að hafa sig á brott. Honum höfðu borist fregnir af því að Ísraelar hygðust ráðast á Egyptaland. Enn er deilt um atburðarásina sem varð til þess að 5. júní réðust Ísraelar á egypska flugherinn.Sex daga stríðið, Súes skurðurinn og guli flotinn
Átökin stóðu í sex daga og lauk með sigri Ísraela. Saga þessara stríðsátaka verður ekki rakin hér, um stríðið hafa verið skrifaðar margar bækur, en átökin ollu því að Súes skurðurinn var lokaður fyrir umferð í heil átta ár, frá 5. júní 1967 til 10. júní 1975. Egyptar höfðu lokað innsiglingunum beggja vegna skurðarins með því að sökkva þar skipum og koma fyrir tundurduflum.
Fimmtán flutningaskip voru á stóru stöðuvatni (Great Bitter Lake) nokkurn veginn á miðjum skurðinum. Þessi skip komust hvorki lönd né strönd, í bókstaflegri merkingu í heil átta ár. Allan tímann var hluti áhafna skipanna um borð, þrjá mánuði í senn. Skipin voru kölluð „Guli flotinn“ sökum sandsins sem safnaðist á þau. Þegar skurðurinn var opnaður á ný gátu einungis tvö skipanna, bæði þýsk, siglt af stað fyrir eigin vélarafli.
Súes-skurðurinn í dag
Þessi 193 kílómetra langi skurður var nánast bylting í siglingum milli Asíu og Evrópu þegar hann var opnaður árið 1869. Siglingaleiðin styttist um rúmlega 8 þúsund kílómetra. Á þeim 150 árum sem liðin eru frá opnun hans hafa orðið miklar breytingar á flestum sviðum, ekki síst samgöngum á sjó. Nú fara daglega 100 skip um skurðinn, en þótt hann hafi verið breikkaður og dýpkaður að hluta er hann of mjór og grunnur fyrir risatankskip samtímans, sem verða sífellt stærri. Árið 2014 kynnti stjórn skurðarins (Egypt‘s Suez Canal Authority) áætlun um breikkun skurðarins sem jafnframt yrði dýpkaður. Þeim framkvæmdum á að ljúka árið 2023 en framkvæmdastjóri rekstrarfélags Súes-skurðarins sagði nýlega í blaðaviðtali að þar yrði ekki látið staðar numið „Súes verður í framtíðinni jafn mikilvæg samgönguæð og hann hefur verið frá upphafi,“ sagði framkvæmdastjórinn.
Auguste Bartholdi og styttan
Árið 1865, þegar sýnt þótti að Súes-skurðurinn yrði að veruleika, kynnti franski myndhöggvarinn Frédéric–Auguste Bartholdi egypskum stjórnvöldum, og Ferdinand de Lesseps yfirmanni framkvæmdanna, hugmynd sína um myndastyttu sem reist skyldi við Miðjarðarhafsenda skurðarins. Hugmynd listamannsins var að styttan skyldi vera um það bil 30 metra hátt kvenlíkneski (móðir listamannsins var fyrirmynd andlitsins) klætt að egypskum hætti, með kyndil í hendi. Kyndillinn skyldi jafnframt vera siglingaviti.
Ekki fékk þessi hugmynd náð fyrir augum ráðamanna en listamaðurinn gafst ekki upp og svo fór að árið 1886 var styttan, lítið eitt hærri og á háum stöpli, reist við innsiglinguna til New York. Styttan var gjöf Frakka til Bandaríkjamanna. Á ensku heitir hún formlega „Liberty Enlightening the World“ en ætíð kölluð „The Statue of Liberty“ frelsisstyttan.