Sögulega hafa fjórir flokkar verið undirstaðan í íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa stundum skipt um nafn en á hinu pólitíska litrófi hafa þeir raða sér nokkuð skýrt frá vinstri til hægri í áratugi.
Samanlagt hafa þessir fjórir flokkar, sem í dag heita Vinstrihreyfingin grænt framboð, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og áðurnefndur Sjálfstæðisflokkur, oftast nær verið með um 90 prósent allra atkvæða.
Sá tími er liðinn.
Sögulega með yfir 90 prósent fylgi
Kerfið sem var við lýði hérlendis frá lýðveldisstofnun og fram á eftirhrunsárin er oft kallað 4+1 kerfið. Það samanstóð af ofangreindum fjórflokki og oft einum tímabundnum til viðbótar, sem endurspeglaði með einhverjum hætti stemmningu hvers tíma. Dæmi um það var til dæmis Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn.
Eðlisbreyting árið 2013
Gjörbreyting hefur orðið á hinu pólitíska kerfi frá kosningunum 2013, en í þeim fór samanlagt fylgi hefðbundnu flokkanna fjögurra datt niður í 74,9 prósent. Þá náðu sex flokkar kjöri á þing. Í kosningunum 2016 féll það svo niður í 62 prósent, og flokkarnir á þingi urðu sjö. Ári síðar var fylgið 65 prósent og flokkarnir orðnir átta.
Nú berjast níu stjórnmálaflokkar um athygli kjósenda, þar sem Sósíalistaflokkurinn hefur sýnt að hann getur náð athygli þeirra í kosningum með því að koma inn manni í borgarstjór Reykjavíkur í fyrra.
Stefnir niður á við
Samkvæmt nýjustu könnun MMR nýtur fjórflokkurinn stuðnings 51,3 prósent kjósenda. Hann hefur einungis einu sinni mælst með minna sameiginlegt fylgi, í júlí 2019, þegar fylgið mældist 51,2 prósent og munurinn því mjög innan skekkjumarka. Haldi sú þróun áfram sem verið hefur undanfarna mánuði verður ekki langt í að fylgið fari undir 50 prósent í könnunum eins af stóru könnunarfyrirtækjanna.
Í könnunum Gallup mældist fylgi flokkanna fjögurra samtals 58,9 prósent í nóvember 2019, og því ívið hærra en það hefur verið að mælast hjá MMR. Lægst fór það í 55,8 prósent í júlí síðastliðnum.
Það eru svipaðar slóðir og fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknar fór í á árunum 2015 og 2016, þegar Píratar fóru með himinskautum í könnunum. Frá apríl 2015 og fram til mars 2016 mældist fylgi þess flokks á bilinu 30 til 36 prósent. Síðan hefur það hríðfallið og mælist nú oftast í kringum tíu prósent markið.
Allir stjórnarflokkarnir tapa
Þrír af þremur flokkum sem tilheyra gamla kjarnanum í íslenskum stjórnmálum hafa tapað fylgi á þessu kjörtímabili samkvæmt könnunum bæði Gallup og MMR. Hjá fyrrnefnda fyrirtækinu hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað 3,5 prósentustigum frá síðustu kosningum og mælist nú með 21,7 prósent. Fylgistap þessa stærsta flokks íslenskra stjórnmála er enn meira hjá MMR, en þar mælist hann með 18,1 prósent fylgi sem er 7,1 prósentustigi minna en hann fékk upp úr kjörkössunum haustið 2017.
Framsóknarflokkurinn er eini stjórnarflokkurinn sem mælist minni hjá Gallup (7,8 prósent) en hjá MMR (9,4 prósent). Báðar tölurnar eru þó undir því fylgi sem hann fékk síðast þegar það var kosið og 10,7 prósent kjósenda veittu Framsókn atkvæði sitt.
Samfylkingin mælist með meira fylgi
Eini hluti fjórflokksins sem hefur bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu er Samfylkingin. Kjörfylgi hennar var 12,1 prósent, sem er næst versta niðurstaða flokksins frá stofnun hans. Sú versta var 2016 þegar Samfylkingin þurrkaðist næstum út af þingi með 5,9 prósent atkvæða. Það var ansi langt frá þeim hæðum þegar flokkurinn fékk í kringum 30 prósent atkvæða og skilgreindi sig sem annan turninn í íslenskum stjórnmálum, á móti Sjálfstæðisflokknum.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur haldið áfram að braggast á þessu kjörtímabili. Í síðustu könnun Gallup mældist það 15,8 prósent, sem er 3,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í október 2017. Hjá MMR mælist fylgið minna, eða 13,2 prósent, sem er samt 1,1 prósentustigi meira en flokkurinn fékk síðast þegar kosið var.